19.10.2003

Misheppnað upphlaup - aðför í Aðalstræti – sérkennileg blaðamennska – hræsni.

 

Fyrir hádegi fimmtudagsins 16. október flutti ég fjögur mál á alþingi og þar á meðal eitt, sem snerti mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sá varaþingamaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (ISG) ástæðu til að koma í ræðustól, ekki til þess að ræða málið, sem til umræðu var, heldur til að ala á þeim ósannindum, að forseti mannréttindadómstóls Evrópu hefði átt í einhverju orðaskaki við mig á málþingi lögfræðinga á dögunum, en um það mál hef ég áður fjallað hér.

ISG vildi einnig nota tækifærið þarna um morguninn til að búa í haginn fyrir síðari málflutning sinn með vísan til þess, að síðar þennan sama dag væri að vænta nýs öryrkjadóms hæstaréttar og hóf hún að rangtúlka orð Halldórs Ásgrímssonar um skyldur ráðherra með hliðsjón af niðurstöðum dómsins.

Vegna eftirleiksins er ástæða til að velta fyrir sér, hvort ISG hafi þegar á þessari morgunstund fengið einhvern pata af því, hvernig dómur hæstaréttar myndi falla, en eins og unnt var að fylgjast með í fjölmiðlum síðar um daginn, var strax eftir birtingu dómsins hafin mikil herferð af samfylkingarfólki til að koma því inn, að ríkisstjórnin hefði tapað vegna dómsins. ISG lét sér að vísu ekki nægja að halda því fram heldur einnig hinu, að niðurstaðan staðfesti þann „einbeitta brotavilja“ ríkisstjórnarinnar, að hafa stjórnarskrána að engu!

Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, segir í Fréttablaðinu, laugardaginn 18. október, að erfitt sé að benda á sigurvegara í þessu máli en það, sem standi upp úr, sé að ríkinu sé heimilt að skerða tekjutryggingu og bætur með vísan til tekna maka. Þetta var deilumálið mikla eftir hinn fyrri öryrkjadóm – það er hvað fólst í réttindaákvæðum stjórnarskrárinnar – en ekki hitt, hvernig túlka bæri eignarréttarákvæði hennar, sem hæstiréttur vísar til, þegar hann segir ekki heimilt að ákveða tekjutryggingu afturvirkt. Sú niðurstaða kemur Skúla á óvart. „Það hefði verið erfitt að ráða þá niðurstöðu af dómi réttarins þann 19. desember 2000,“ eins og hann orðar það.

Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, segir í Morgunblaðinu, laugaradaginn 18. október: „Þessi dómur er byggður á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar, en eignaréttindi eru talin til hinna klassísku borgaralegu réttinda. Þau hafa aldrei verið talin til hinna félagslegu réttinda, sem svo eru nefnd.“

Ef stjórnmálastefna þeirra vinstrisinna, sem hæst láta vegna þessa máls, hefði náð undirtökunum hér á landi og ráðið efni stjórnarskrárinnar væru þar ekki nein ákvæði til að vernda „klassísk borgaraleg réttindi“ eins og eignarréttinn. Sósíalistar og kommúnistar hafa nefnilega litið þennan rétt óhýru auga og ekki viljað veita honum sérstaka vernd í nafni hugsjóna.

Hafi ISG haldið, að hún kæmi höggi á ríkisstjórnina vegna þessa máls, hlýtur hún að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Virðist það hafa komið henni og öðrum stjórnarandstæðingum í opna skjöldu, hve sterk ríkisstjórnin og málstaður hennar kemur frá þessum dómi. ISG hefði áreiðanlega ekki tekið til við að ræða væntanlegan dóm hæstaréttar að tilefnislausu í ræðustól á alþingi að morgni fimmtudagsins 16. október, nema af því að hafði ranghugmyndir um efni hans, auk þess sem henni var mikið í mun að afflytja orð Halldórs Ásgrímssonar.

Aðför í Aðalstræti

Töluverðar umræður urðu í borgarstjórn Reykjavíkur fimmtudaginn 16. október um framkvæmdir við nýtt hótel á horni Aðalstrætis og Túngötu en við sjálfstæðismenn höfum harðlega  gagnrýnt vinnubrögð R-listans á þessum sögulega stað, þar sem fundist hafa minjar, sem rekja má til landnámsaldar. Er markmið R-listans að geyma þær í hótelkjallara, þótt slíkt útiloki til dæmis, að þær verði nokkru sinni gjaldgengar á heimsminjaskrá UNESCO. –  Þessari stefnu er fylgt fram af offorsi,  þó líklega sé einsdæmi, að í hjarta höfuðborgar finnist staðfesting á því, hvar fyrstu landnámsmenn áttu bústað.

Hótelbyggingin hefur algjöran forgang hjá R-listanum og meira að segja gerðist það í sumar, að byggingarsvæði var stækkað, án þess að skýrt væri frá því í borgarráði og ekki nóg með það, fyrirspurn sjálfstæðismanna í borgarráði varð til þess, að upplýst var um ummerki eftir útbyggingu við austurvegg landnámsskálans, líklega fordyri. Fordyrið þykir afar merkilegur hluti skálans og ákveðið var að það skyldi varðveitt með skálarústinni. Á hinn bóginn var ákveðið að fjarlægja rúst anddyrisins tímabundið á meðan undirstöður nýbyggingarinnar væru gerðar. Var borgarráði skýrt frá því, að áður hefði hún verið mæld, teiknuð, skráð mjög nákvæmlega og mynduð. Síðan á að leggja rústina aftur á sinn stað, hvern stein og hverja örðu.

Án þess að leita álits og samþykkis borgarráðs hefur verið ákveðið að fara á þennan veg með þetta fordyri og á borgarstjórnarfundinum kom fram, að hvorki borgarstjóri, formaður menningarmálanefndar né nokkur annar málsvari R-listans hafði minnstu hugmynd um það, sem þarna var að gerast. Sagði Kjartan Magnússon borgarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna, að borgarstjóri talaði um þennan merka fornleifafund sem landnámskjallara og sýndi það hug hans til málsins. Þórólfur Árnason borgarstjóri mótmælti þessu en sagðist þó ekki muna, hvaða orð hann hefði notað á hverfafundi um þessar sögulegu minjar. Staðfestir það aðeins enn frekar áhugaleysi hans á málinu.

Ég sagði þetta metnaðarleysi allt aðeins sýna réttmæti, sem Steinunn Birna Ragnarsdóttir, fráfarandi varaborgarfulltrúi og varaformaður menningarnefndar Reykjavíkurborgar fyrir hönd R-listans, hefði sagt við afsögn sína úr borgarstjórn, að R-listinn hefði enga stefnu í menningarmálum fyrir utan að haga sér þannig að efna fyrst til umræðna um mál, eftir að ákvörðun hefði verið tekin.

Sérkennileg blaðamennska.

 

Fréttablaðið hefur gert mikið með tölvubréf, sem Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri ritaði yfirmönnum RÚV vegna Spegilsins, það er útvarpsþáttar, sem hefur meðal annars verið nefndur hér á þessari síðu. Fimmtudaginn 16. október birti Fréttablaðið forsíðufrétt um bréfið og þar var gefið til kynna, að það ætti rætur að rekja til skrifa minna hér á þessari síðu. Lét blaðamaður Fréttabréfsins þess ógetið, að kveikjan að því, að ég ritaði um Spegilinn, voru þau orð Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu 3. október, að Spegillinn væri „vinstrisinnað fréttaskýringarprógramm.“

Tilgangur þessarar fréttar Fréttablaðsins var greinilega ekki að segja alla sögu málsins frekar en þegar blaðið birti forsíðufréttina um, að ég hefði sætt ákúrum forseta mannréttindadómstóls Evrópu. Sýnist tilgangur slíkra frétta helst sá, að gefa vinstrisinnum tilefni til að japla á einhverju, sem þó er ekki bitastætt, eins og sannaðist þegar ISG tók að ræða um forseta mannréttindadómstólsins í ræðustól alþingis.

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði pistil um bréf Markúsar Arnar og lagði út af málinu með vísan til mín en sleppti því að minnast á Þráin Bertelsson, samstarfsmann sinn, sem var þó kveikjan að umfjöllun minni og einnig að bréfi Markúsar Arnar eins og hann hefur sjálfur lýst á vefsíðu RÚV.

Fer Fréttablaðinu heldur illa að setja sig í dómarasæti gagnvart öðrum fjölmiðlum í krafti góðra vinnubragða, þegar eins er staðið að meðferð mála og við bréf Markúsar Arnar.

Hræsni.

 

Meirihluti fjárlaganefndar hefur ekki tekið undir ósk Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, um að leitað verið frumtillagna frá ríkisstofnunum við fjárlagagerð. Var þetta rætt á alþingi að morgni föstudagsins 17. október og lýsti Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, því á afdráttarlausan hátt, að meirihlutinn réði þessu.

Þá steig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, í ræðustól og lýsti mikilli hneykslan á afstöðu Einars Odds og þeirri afstöðu, að minnihlutinn skyldi eiga að éta það, sem úti frýs.

Var sagt frá þessu í öllum fjölmiðlum eins og um eitthvert einsdæmi væri að ræða í stjórnmálasögu Ingibjargar Sólrúnar. Fjölmiðlamenn hefðu þó ekki þurft annað en fara yfir Vonarstrætið og í ráðhúsið til að kynnast því viðhorfi Ingibjargar Sólrúnar, að víst og örugglega skuli minnihlutinn í borgarstjórn jafnan éta það, sem úti frýs. Og ekki nóg með það, því að nú hefur einn úr borgarstjórnarflokki R-listans, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, sagt af sér, af því að hún sætti sig ekki við, að þar fari fyrst fram umræður um mál, eftir að ákvarðanir hafi verið teknar