Hryðjuverk og spilling – norræn tölfræði – sigur Schwarzeneggers
Dómsmálaráðherrar ríkja Evrópuráðsins komu saman í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, í síðustu viku til að ræða um aðgerðir gegn hryðjuverkum. Ljóst er, að skilin á milli starfa lögreglu annars vegar og hers hins vegar til að tryggja daglegt öryggi hins almenna borgara eru að riðlast, þegar æ fleiri ríki telja sig knúin til að endurskoða lög og reglur í því skyni að herða öryggisgæslu í því skyni að vernda borgara sína gegn hryðjuverkum. Endurspegluðu ræður magra á fundinum þessar staðreyndir auk þess sem rætt var um það, hvort Evrópuráðið ætti að taka frumkvæði að gerð ný alhliða alþjóðasáttmála um aðgerðir gegn hryðjuverkum og stuðla þannig að því, að meiri þungi færðist í slíka samningsgerð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Vilji Evrópuráðsþingsins og framkvæmdastjóra Evrópuráðsins hefur staðið til slíks frumkvæðis en á ráðherrafundinum varð niðurstaðan sú, að líta bæri á þennan vanda sem alþjóðlegan og þess vegna skyldi lögð megináhersla á starfið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samhliða því sem sérfræðingar Evrópuráðsins könnuðu einstaka þætti og skilgreindu þau svið sérstaklega, þar sem ráðið og aðildarríki þess gætu látið að sér kveða innan hins alþjóðlega ramma.
Um 2,5 milljónir manna búa í Sófíu og er auðvelt að greina það, þótt dvölin hafi verið stutt og lítill tími gefist til að fara um borgina, að kjör manna, sem þar búa eru mjög misjöfn. Þessa dagana er þess minnst, að 800 dagar eru liðnir frá því að ríkisstjórn undir forsæti Simeons Saxe-Coburgs, fyrrverandi konungs Búlgaríu (hann var 50 ár í útlegð eftir að kommúnistar ráku hann frá völdum, barn að aldri), tók við völdum en á 800 dögum hét hann því að rífa þjóðfélagið upp úr niðurlægingu kommúnismans, bæta lífskjör þjóðarinnar og styrkja efnahag þess með markaðslausnum. Nokkuð hefur að sjálfsögðu miðað á þessum tíma en mörgum þykir, að forsætisráðherrann og stjórn hans, sem að hluta er skipuð landflótta eða brottfluttum Búlgörum, hafi ekki staðið undir hinum miklu væntingum, sem við hana voru bundnar.
Stjórnarandstaðan lýsir fjárhagslegri stöðu almennings þannig, að 66% þjóðarinnar hafi innan 100 levur, það er minna en 4000 krónur, til að greiða fyrir lífsnauðsynjar hvern mánuð. Hér skal enginn dómur lagður á þessa tölu eða annað í efnahagslífi Búlgaríu. Víst er að enn er erfið og ströng leið fyrir Búlgara að fara til að ná lífskjörum á borð við þau, sem við njótum.
Á dómsmálaráðherrafundinum kom Jóhannes, dómsmálaráðherra Finna, til mín og óskaði mér til hamingju með góðan árangur Íslendinga í mælingu alþjóðastofnunarinnar, sem berst gegn spillingu, International Organisation for Combating Corrubtion. Lentum við þar í öðru sæti að þessu sinni með 9,6 af 10, næstir á eftir Finnum, sem fengu 9,7 stig. Hækkuðum við um nokkur sæti en Finnar hafa í nokkur ár skipað efsta sætið.
Í búlgörsku blaði, The Sofia Echo, var sagt frá því, að Búlgaría hefði lækkað um 9 sæti milli mælingar frá því í fyrra og lent í 54. sæti að þessu sinni með 3,9 stig, en fyrst þegar Búlgaría var mæld, árið 1998, hlaut hún 2,9 stig, að þessu sinni eru Brazilía og Tékkland með Búlgaríu í 54. sætinu af 133 ríkjum, sem voru mæld. Við mælinguna er stuðst við upplýsingar frá Alþjóðabankanum, Viðreisnar- og þróunarbanka Evrópu, Gallup og vikuritinu The Economist.
The Sofia Echo sagði, að mælingin skipti máli, því að hún gæfi fjárfestum vísbendingu um, hvort þeir þyrftu að gera ráð fyrir mútu- og spillingarfé í fjárfestingaráætlunum sínum og færi upphæðin eftir því, hvar ríkið væri í röðinni. Stór-einkavæðing í fyrrverandi kommúnistaríkjum er undir smásjá eftirtliststofnana. Mörg dæmi eru um, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi hagnast ólöglega af þessum gífurlega miklu viðskiptum og tekur spillingar-mælingin ekki síst mið af slíku.
Mikilvægur þáttur í baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkum snýst um að hefta fjárstreymi til þeirra og er alls staðar unnið að því að styrkja stofnanir, sem vinna gegn efnahagsbrotum, og efla saksóknara og lögreglu til að takast á við slíka glæpastarfsemi. Neikvæð hlið hnattvæðingarinnar birtist meðal annars í peningaþvætti og skilin á milli lögmætrar og ólögmætrar bankastarfsemi eru óglögg í ýmsum ríkjum.
Í flugvélinni á leiðinni heim frá Kaupmannahöfn las ég um aðra mælingu á árangri ríkja í danska vikublaðinu Weekendavisen birtist hún undir fyrirsögninni: Tölfræði. Norðmenn ríkastir. Íslendingar duglegastir. Bræðurnir. Þar er sagt frá tölum í nýjústu útgáfunni af Nordic Statistical Yearbook. (Á vefsíðu Hagstofu Íslands kemur fram, að þar er unnt að panta bókina ásamt geisladiski fyrir tæpar 5000 krónur.)
Samkvæmt árbókinni eru Íslendingar önnur ríkasta þjóðin á eftir Norðmönnum meðal Norðurlandaþjóðanna, þegar litið er á brúttóþjóðarframleiðslu (bruttonationalprodukt BNP) á íbúa. Í blaðinu er þess sérstaklega getið, að 22% af BNP Norðmanna eigi rætur að rekja til olíu og gass.
Blaðið bendir á þá staðreynd, að BNP á íbúa sé nú minnst í Svíþjóð meðal Norðurlandanna og Svíar séu því ekki lengur stóri bróðirinn í hópnum eins verið hafi fyrstu áratugina eftir síðari heimsstyrjöldina. Þetta hafi verið reynt að afsaka á þann veg sl. fimmtudag í grein í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter, að þrátt fyrir allt sýndu alþjóðlegar mælingar, að lífsgæðin (livskvaliteten) væru mest í Svíþjóð, þótt Svíþjóð hefði fallið niður í 16. til 17. sæti á alþjóðamælikvarða BNP en verið í 4. sæti fyrir 30 árum, Siðustu 10 til 20 ár hafa Svíar stöðugt lækkað á þennan mælikvarða.
Árið 1990 voru Svíar enn nokkru ofar en aðrar Norðurlandaþjóðir en þær stóðu allar nokkuð jafnar að vígi, því að bilið milli þess hæsta og lægsta var aðeins 7%. Árið 2002 var þetta bil orðið að 38%, því að þá var norsk BNP svo miklu meiri en hin sænska og finnska, en Danir og Íslendingar voru 12 til 13% hærri en hinir lægstu.
Blaðamaður Weekendavisen Frede Vestergaard bendir undrandi á, hve skatthlutfallið er lágt á Íslandi “bara” 37%, en 52% í Svíþjóð, 50% í Danmörku, 45% í Finnlandi og 43% í Noregi. Hann segir einnig, að Íslendingar vinni lengst Norðurlandabúa, því að margir þeirra séu við störf fram undir sjötugt og flest bendi til þess, að það sé hollt að vinna. Í það minnsta sé meðaldurinn hæstur á Íslandi, 78,5 ár fyrir karla, fjórum árum lengri en í Danmörku, þar sem hann sé skemmstur. Meðalaldur íslenskra kvenna sé 82,3 ár, þremur árum lengri en í Danmörku. Íslendingar eignist einnig flest börn eða 1,95 árið 2001. Þó sé frjósemi meiri í Færeyjum 2,30 og Grænlandi 2,45 en minnst í Svíþjóð 1,57.
Þessar tölur, sem hér hafa verið raktar úr alþjóðlegum og norrænum samanburðarrannsóknum, sýna, að við Íslendingar getum vel við unað, þegar litið er á stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Þessi staða breytir ekki hinu, að enn þykir okkur betur mega gera til að bæta hag landsins barna.
Hinn mikli sigur Arnolds Schwarzeneggers í ríkisstjórakosningunum í Kaliforníu fer fyrir brjóstið á mörgum. Síðustu daga fyrir kosingarnar var veist harkalega að honum persónulega og heyrði ég sagt frá því í fréttum hljóðvarps ríkisins á þann veg, að ekki var unnt að draga aðra ályktun en, að hin mesta vá væri fyrir dyrum, því að Arnold væri sakaður um að hafa áreitt fjölda kvenna auk þess að hafa talað hlýlega um Adolf Hitler á sínum yngri árum. Þessi frétt endurspeglaði umræðurnar í líberölum eða vinstrisinnuðum fjölmiðlum í Bandaríkjunum, en þær setja mikinn svip á miðlun allra frétta af bandarískri stjórnmálabaráttu, þar sem meirihluti blaðamanna er andvígur rebúplíkönum og vildi veg Arnolds að sjálfsögðu með minnstan í Kaliforníu, höfuðvígi demókrata í Bandaríkjunum.
Hinn einfaldi áróður andstæðinga Arnolds síðustu dagana fyrir kosningar minnir á þá staðreynd, að hugtakið “political correctness” eða pólitísk rétthugsun á uppruna sinn meðal vinstrisinnaðra menntamanna í Kaliforníu en með þeirri hugsun er leitast við að sporna gegn umræðum um mál eða framgöngu á opinberum vettvangi, sem þessum mönnum er ekki að skapi. Arnold er í raun holdgervingur alls þess, sem gengur þvert á hina pólitísku rétthugsun, en samt fékk hann meira fylgi en nokkur vænti, vakti meiri áhuga á stjórnmálum og kallaði fleiri á kjörstað en áður hefur verið í Kaliforníu. Hann höfðaði með öðrum orðum til fleiri en frambjóðendum hafði áður tekist.
Kosningarnar í Kaliforníu eru einnig sérstakar að því leyti, að knúin var fram með þátttöku almennings krafa um að kjósendur í ríkinu fengju að dæma um störf sitjandi ríkisstjóra í almennri kosningu, þótt kjörtímabili hans væri ekki lokið. Í slíkri aðferð felst mikið agavald kjósenda og til dæmis meira en vald þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem ríkisstjórn situr áfram, þótt málstaður leiðtoga hennar hafi orðið undir í slíkri atkvæðagreiðslu. Nægir þar að nefna nýlega þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð um evruna, þar sem Göran Persson forsætisráðherra mælti eindregið með upptöku hennar en þjóðin hafnaði.
Kalifornía myndar fimmta stærsta hagkerfi heims en er nú á barmi gjaldþrots meðal annars vegna stjórnarhátta demókrata, sem hafa á hinn bóginn talað álíka digurbarkalega um fjármálastjórn sína þar og R-listinn um stjórn sína á fjármálum Reykjavíkurborgar. Þar þótti vinstrisinnum álíka fráleitt að ræða um veikan efnahag ríkisins og þeim, sem standa að því hér í Reykjavík að hækka orkugjöld um 10% vegna hlýnandi veðurs á sama tíma og orkufyrirtækið fjarfestir fyrir 7 milljarða króna í nýju skrauthýsi yfir starfsemi sína og í Línu.net.
Viðbrögð vinstrisinna nú við kjöri Arnolds minna á það, sem sagt var, þegar Ronald Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Andstæðingar hans létu í veðri vaka, að hann mundi leiða veröldina inn í kjarnorkuátök við Sovétríkin, hlógu að áætlun hans um eldflaugavarnir og kenndu hana við stjörnustríð í háðungarskyni, en það var einmitt hún, sem dugði til að hefta hernaðarbrölt Sovétríkjanna og stuðla þannig að dramatísku hruni þeirra.