5.10.2003

OR-bruðl, Spegillinn, stytting framhaldsskólans, dómarar og lagasetning, stefnuræðan.

Ástæða er að halda því til haga fyrir áhugamenn um samstarf innan R-listans, sem fram kom í grein eftir Andrés Jónsson, formann ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, í DV mánudaginn 29. september (síðan hefur Andrés sigrað í formannskjöri innan Sambands ungra jafnaðarmanna (SUJ)) um Orkuveitu Reykjavíkur. Í greininni, sem má skoða sem framlag Andrésar í formannskosningunum innan SUJ, fjallar hann meðal annars um mistök R-listans og segir:

„Ég get t.d. ekki betur séð en illa hafi verið farið með almannafé þegar byggðar voru nýjar höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur og að ýmsar áherslur í rekstri Línu.nets hafi verið heldur hæpnar.“

Undir þessi orð er ástæða til að taka og er gleðilegt að sjá, að ábendingar okkar sjálfstæðismanna vegna OR eru farnar að síast inn í raðir stuðningsmanna R-listans. 85% borgarbúa svöruðu Gallup nýlega á þann veg, að þeir teldu gjaldskrárhækkun fyrirtækisins ósanngjarna.

Má færa fyrir því rök, að um 7 milljörðum króna hafi verið varið af OR í nýju höfuðstöðvarnar og Línu.net. Til að kóróna sköpunarverkið við höfuðstöðvarnar hefur nú verið ákveðið að verja 4 milljónum króna til að kaupa hallarhlyn frá Svíþjóð. Síðastliðið vor ákvað R-listinn sumarlokanir á leikskólum borgarinnar til að spara 12 milljónir króna.

Munar um minna en 7 milljarði króna, jafnvel hjá OR. Ef þessu fé hefði verið betur varið, hefði ekki þurft að hækka gjaldskrá OR um rúm 10% í sumar til að bregðast við hlýindum. Snemma á árinu seldi Garðabær hlut sinn í OR og nú hefur Hafnarfjörður einnig gengið úr OR og selt sinn hlut. Vilja þessi bæjarfélög ekki bera sem eigendur ábyrgð á þeirri stefnu, sem fylgt er af stjórnendum og stjórnarmeirihluta OR.

Andrés Jónsson er ekki hinn eini úr samfylkingararmi R-listans, sem gagnrýnir Alfreð Þorsteinsson fyrir fjárráðstafanir í nafni OR. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét hafa það eftir sér á dögunum, að hún væri ekki hrifin af hinum nýju höfuðstöðvum OR. Mátti skilja orð hennar á þann veg, að hún hefði viljað sjá starfsemi OR flutta í Vatnsmýrina. Þegar samfylkingarfólk er að gagnrýna OR er ástæðulaust að gleyma því, að Lína.net er skilgetið afkvæmi hugmyndaflugs Helga Hjörvars, varaborgarfulltrúa R-listans og þingmanns Samfylkingarinnar.

Réttilega er því fagnað, að Landsbankinn hefur áform um að reisa nýtt hús fyrir starfsemi sína og höfuðstöðvar í miðborginni. Sérkennilegt er þó að heyra Alfreð Þorsteinsson tala um þetta af mikilli ákefð með hagsmuni miðborgarinnar að leiðarljósi. Hvers vegna beitti hann sér ekki fyrir því, að OR flytti starfsemi sína í miðborgina?

 Spegillinn

Fyrir nokkrum vikum vakti ég athygli á ánægju vefsíðunnar East Germany (nafnið er til heiðurs austur-þýska alþýðulýðveldinu), sem er haldið úti af ungum vinstri/grænum, með fréttastofu hljóðvarps ríkisins og þó sérstaklega með Spegilinn, fréttaskýringaþátt að loknum kvöldfréttum, sem ungu vinstrisinnarnir töldu „flaggskip“ fréttastofunnar. Sagði ég meðal annars:

„Gæðastimpill fréttastofunnar kemur frá þeim, sem eru lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Hið sérkennilega er, að þetta þykir engum sérstökum tíðindum sæta, vera bæði sjálfsagt og eðlilegt. Segjum sem svo, að frjálshyggjumenn hrósuðu fréttaflutningi hljóðvarps ríkisins eða teldu skoðanamótandi þátt á vegum þess sér mjög að skapi. Ætli það þætti ekki sérstökum tíðindum sæta? Jafnvel á fréttastofunni sjálfri?“

Þráinn Bertelsson, sem á sínum tíma var ritstjóri Þjóðviljans, er nú meðal dálkahöfunda Fréttablaðsins. Hann skrifar meðal annars um fjölmiðla í það blað og sagði þar hinn 3. október: „Spegillinn er vinstrisinnað fréttaskýringarprógramm sem yfirleitt er gaman að hlusta á.“

Fagnaðarefni væri, ef stjórnendur fréttastofu hljóðvarps ríkisins tækju af skarið og kynntu Spegilinn með þessum formerkjum, svo að  hlustendum þáttarins væri ljóst, að í Speglinum gæfist þeim kostur á að líta atburði í vinstrisinnaðri skuggsjá. Flaggskip eiga að sjálfsögðu að hreykja sér af fána sínum.

Stytting framhaldsskólans

Í byrjun síðustu viku lagði Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra fram skýrslu um styttingu framhaldsskólans úr fjórum árum í þrjú. Er þar velt upp álitaefnum vegna þessa og hugað að leiðum að markmiðinu, verði ákvörðun tekin um styttinguna, að lokinni kynningu.

Umræður um þetta álitaefni hafa staðið lengi. Þegar ég beitti mér fyrir endurskoðun námskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla var þetta að sjálfsögðu eitt af þeim atriðum, sem komu til álita. Niðurstaða mín var sú, að óskynsamlegt væri að blanda styttingu framhaldsskólans inn í námskrárgerðina. Yrði að forgangsraða og semja námskrár fyrst, hrinda þeim í framkvæmd og taka síðan við að huga að styttingunni, en við gerð námskránna skyldi hafa hliðsjón af því, að auðvelt yrði að laga þær að þriggja ára framhaldsskólanámi. Gekk þetta eftir.

Samhliða því sem að þessu var unnið hvatti ég til þess, að samið yrði við Ólaf H. Johnson, sem vildi stofna einkarekinn 2ja ára framhaldsskóla, Hraðbraut, en hann tók einmitt til starfa nú í haust og byggist kennsla þar að sjálfsögðu á námskrá framhaldsskólanna, sem þar er sniðin að tveggja ára námi til stúdentsprófs. Á alþingi snerist Samfylkingin að sjálfsögðu gegn hugmyndum um Hraðbrautina, þegar þær voru fyrst kynntar, eins og vinstrisinnar snúast jafnan gegn því að einkaaðilar fái að láta að sér kveða í skólastarfi.

Að mínu mati á að vera sveigjanleiki í lengd náms innan framhaldsskólanna og raunar er það svo núna, að innan áfangakerfisins er tiltölulega auðvelt fyrir nemendur að ljúka námi á þremur árum auk þess sem margir afla sér mun fleiri eininga á fjórum árum en nauðsynlegt er til að taka stúdentspróf. Spurningin um þriggja ára nám snýr sérstaklega að bekkjarkerfisskólunum.

Innan framhaldsskólastigsins er mest um vert að mínu mati að varðveita fjölbreytnina og skapa sem flestum tækifæri til að leita þar menntunar. Áhugi á starfsnámi ræðst ekki síst af þeim kröfum, sem fyrirtæki gera til starfsmanna sinna.

Dómarar og lagasetning.

Þegar ég sá fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 30. september, þar sem stóð yfir hana þvera: Ráðherra gagnrýnir Mannréttindadómstól, velti ég því fyrir mér, hvað væri nú á seyði, hvort ég hefði misst af einhverju. Sá ég svo, að blaðið var að segja frá minni eigin ræðu á málþingi lögfræðinga vegna 50 ára afmælis mannréttindasáttmálans.

Ég leit ekki þannig á, að ég hefði hefði verið að gagnrýna dómstólinn í ræðu minni heldur vakti ég máls á álitaefnum um túlkun á lögum og hallaði mér að hinni klassísku skoðun í því efni en ekki að sjónarmiðum „framsækinna“ lögfræðinga, sem telja dómara geta sinnt löggjafarstarfi í aukaverkum. – Eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir um þetta innan mannréttindadómstólsins eins og meðal lögfræðinga almennt.

Fréttablaðið studdist við mat Eiríks Tómassonar prófessors við gerð fyrirsagnar sinnar en hann er alls ekki hlutlaus í þessu máli né hlutlægur í mati á störfum mínum eða skoðunum. Lét Eiríkur eins og forseti mannréttindadómstólsins hefði verið að svara ummælum mínum um þetta efni í ræðu sinni á málþinginu með því að benda á, að þau ríki sem væru aðilar að mannréttindasáttmálinum teldu að allt væri í lagi hjá sér. Sáttmálinn væri bara fyrir önnur ríki.

Hið rétta er, að dómsforsetinn stóð ekki upp til að finna að orðum mínum. Í ræðunni vitnaði ég til þess, sem dómsmálaráðherrann sagði fyrir rúmum 50 árum, að réttindin í mannréttindasáttmála Evrópu væru í öllu því sem nokkru máli skipti þá þegar veitt Íslendingum berum orðum í íslenskri löggjöf og að nokkru leyti í stjórnarskránni. Vildi dómsforsetinn vekja athygli á því, að þannig hefðu málsvarar fleiri ríkja talað, þegar sáttmálinn var fullgiltur, hann breytti meiru fyrir borgara annarra landa en þeirra sjálfra.

Í einkasamtali spurði forsetinn mig síðan að því, hvers vegna ég hefði lagt svo ríka áherslu á fullveldi ríkja í ræðu minni, hvort eitthvað sérstakt, íslenskt tilvik væri kveikjan að því. Ég kvað svo ekki vera, en á hinn bóginn hefði ég talið víst, að á slíku málþingi lögfræðinga yrði  stjórnmálamaðurinn hinn eini til að vekja máls á því, að hreint ekki væri sjálfgefið, að dómarar hefðu nokkra heimild til að ganga inn á verksvið löggjafans með „framsækinni“ túlkun sinni á hinum „lifandi texta“ laganna.

Varðstaða okkar kjörinna fulltrúa um ákveðin skil í þessu efni er jafnt nauðsynleg, þegar við ræðum um þjóðréttarlega stöðu ríkja gagnvart alþjóðlegum dómstólum, eins og þegar við lítum til valdmarkanna innan þjóðríkjanna.

Stefnuræðan

 

Sá fáheyrði atburður gerðist, að Stöð 2 birti efni stefnuræðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra tveimur dögum áður en hún var flutt og naut þar aðstoðar þingmanns, sem brást trúnaði. Á meðan hann gefur sig ekki fram, liggur allur þingheimur undir grun og fréttastofan hefur á þingmanninum tak. Einkennilegt var að heyra þá skýringu fréttastjóra Stöðvar 2, að þeir hefðu brotið trúnaðinn, af því að forsætisráðuneytið hefði ekki sérstaklega beðið þá um að virða hann!

Engin fréttastofa hefur gengið harðar fram í því að afhjúpa margvíslegar ávirðingar þingmanna en einmitt Stöð 2, en þegar kemur að hagsmunum hennar sjálfrar sitja Jón og séra Jón ekki við sama borð.

Þegar rætt er um ræður í stefnuumræðunum, þótti Ágústi Ólafi Ágústssyni, nýjum þingmanni Samfylkingarinnar, sem þar talaði, ræða sín svo merk, að hann sendi hana til birtingar í Morgunblaðinu og mátti lesa hana þar á miðopnu blaðsins laugardaginn 4. október.