28.9.2003

Umskipti í viðskiptalífi – þing kemur saman.

Stjórnmálastarf tekur nú á sig nýjan búning, þegar þing kemur saman og  landsins gagn og nauðsynjar verða rædd á þeim vettvangi. Sumarþingið að loknum kosningum snerist einkum um formsatriði en nú kemur að því, að tekið sé á einstökum málefnum.

Í sumar hefur athygli ekki síst beinst að því, sem hefur verið að gerast á vettvangi viðskiptalífsins – og ekki að ástæðulausu. Umskipti hafa orðið mikil og með einkavæðingu bankanna hafa skapast algjörlega ný viðhorf. Í einkavæðingarferlinu var rætt um, að æskilegt yrði að dreifa eignaraðild að bönkunum sem mest. Nú er ekki lengur helst rætt um það, heldur hitt hver skuli vera hlutur banka í eigu fárra stórra aðila í stærstu fyrirtækjum landsins.

Þegar lesnar eru frásagnir fjölmiðla af því, sem er að gerast í viðskiptalífinu, kemur í hugann, að reyndir hershöfðingjar séu alltaf að heyja gömlu orrustuna sína aftur, þótt aðstæður hafi gjörbreyst. Umskipti í viðskiptalífinu nú eru færð mörg ár aftur í tímann, þegar um þau er fjallað, og látið í veðri vaka, að um framhald á einhverju, sem þá gerðist, sé að ræða. Best sé að skýra framvindu mála í ljósi þess til dæmis, að Hafskip varð gjaldþrota og þá hafi átt hlut að máli sumir þeirra, sem enn eru í fremstu röð viðskiptalífsins.

Fyrirsagnir og fréttaskýringar byggjast á því, að nú sé Kolkrabbinn að leggja upp laupana. Þar með er haldið í goðsögn, sem var smíðuð af andstæðingum öflugra manna og fyrirtækja í viðskiptalífinu. Kom ekki nafnið Kolkrabbinn til sögunnar vegna ítalskra mafíuþátta í sjónvarpinu á sínum tíma? Þá má einnig sýna fram á, að hugmyndin um „fjölskyldurnar fjórtán“, sem þótti lykill að einhverjum leyndardómum í íslensku þjóðfélagi fyrir nokkrum árum, er komin frá Mið-Ameríku, þar sem slíkt kerfi var talið ráða ferðinni í El Salvador, ef rétt er munað.

Skýringar á slíkum grunni eru einfeldningslegar og ekki til þess fallnar að lýsa því af raunsæi, sem nú er að gerast. Oft er það ekki heldur tilgangur fjölmiðlamanna eða annarra, sem þannig tala. Tilgangurinn virðist stundum helst vera sá, að nota gamlar tuggur til að bregða skugga á viðburði í samtímanum. Nú skín til dæmis í gegn hjá sumum, að það hafi verið keppinautar Hafskips í viðskiptaheiminum, sem hafi lagt sig fram um að koma því fyrirtæki á kné. Þessi skoðun stenst ekki neina gagnrýni. Til að leita að þeim, sem hæst töluðu um nauðsyn þess, að Hafskip hyrfi af vettvangi, ættu menn að lesa þingtíðindi frá þeim átakatímum, ekki síst ræður Ólafs Ragnars Grímssonar, eða Helgarpóstinn sáluga.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag, sunnudaginn 28. september, er lagt út af ræðu Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs Landsbankans,  á hátíð bankans í Lúxemborg föstudaginn 26. ágúst. Björgólfur boðaði þar, að Landsbankinn mundi leita frekari vaxtar á erlendum vettvangi. Í tilefni af ræðunni og þróun undanfarinna daga og vikna spyr blaðið, hvort íslensku athafnalífi sé til framdráttar, að bankar séu í senn stórir hluthafar í fyrirtækjum og viðskiptabankar þeirra; og hvort íslensku þjóðfélagi sé til framdráttar, að eignir þjóðarinnar færist á fárra manna hendur. Blaðið samþykkir tímabundið eignarhald banka á fyrirtækjum, enda sé tilgangur þess að greiða fyrir breytingum á eignarhaldi. Blaðið telur eignarhald of fárra á of miklu valda óróleika og átökum. Verði átök geti þau ekki endað nema með því, að alþingi grípi taumana. Telur blaðið ræðu Björgólfs í Lúxemborg sýna, að hann og blaðið séu sammála um, að skynsamlegast sé að efla stórfyrirtæki hér með því að sækja fram á erlendum mörkuðum. Vill blaðið, að menn sættist á, að hin stefnumarkandi ræða Björgólfs vísi ekki aðeins veginn fyrir hans fyrirtæki heldur alla, sem hér eiga hlut að máli. Síðan segir orðrétt: „Telji einhverjir í þeim hópi [umsvifamestu manna í athafnalífinu] að ósætti ríki milli þeirra og almennings í þessu landi geta þeir verið vissir um að sættir geta tekizt á þeim grundvelli, sem lagður var í Lúxemborgarræðu formanns bankaráðs Landsbankans.“

Fagna ber því, ef unnt er að setja niður deilur á þann veg, sem Morgunblaðið lýsir í Reykjavíkurbréfi sínu. Hitt er líklegt, að lesendur blaðsins átti sig ekki allir til fulls á sáttaumleitunum og sáttinni, sem lýst er í Reykjavíkurbréfinu. Er mikils virði, að ræða Björgólfs í Lúxemborg sé sett í þetta stóra samhengi fyrir þá, sem ekki hafa gert sér grein fyrir þeim deilum, sem er verið að leysa með henni.

Í umræðum um þessi mál má ekki gleyma þeim þáttaskilum, sem urðu með einkavæðingu bankanna. Saga íslensks atvinnulífs geymir mörg dæmi um hve hættulegt hefur verið fyrir fyrirtæki, þótt þau væru sterk og öflug, að komast í þá stöðu að eiga framtíð sína að verulegu leyti undir afskiptum ríkisins og stjórnmálamanna. Hefur það vafalaust verið þeim hættulegra en að hluthafar úr hópi einkafyrirtækja eða einstaklinga séu stórir og sterkir. Margir íslenskir athafnamenn hafa lýst því í áranna rás, hvernig stjórnmálamenn hafa leitast við að misnota þá aðstöðu, sem forræði þeirra yfir almannafé veitti, til að beina starfsemi fyrirtækja inn á óskynsamlegar brautir. Það er að segja brautir, sem kunnu að þjóna pólitískum hagsmunum, en stönguðust á við raunverulega hagsmuni fyrirtækjanna.

Miklu skiptir að þessi ríkisafskiptatími sé að baki. Eðlileg viðbrögð við frelsinu er að reyna fyrir sér utan hins þrönga og litla íslenska markaðar. Á hinn bóginn má ekki gleyma því, að meðal þungra raka fyrir því að selja Björgólfi Guðmundssyni og félögum Landsbankann var, að þeir væru að flytja peninga inn í landið, stækka kökuna. Íslandssagan kennir, að þeir hættir dönsku selstöðukaupmannanna að flytja allar tekjur af verslun hér á landi til útlanda urðu ekki til að styrkja innviði íslenska þjóðfélagsins.

Hin miklu umskipti í viðskipta- og athafnalífinu verða meðal umræðuefna þingmanna á komandi dögum og vikum.

Vinstri/grænir eru vegna hugsjóna sinna um öflugan hlut hins opinbera á öllum sviðum fullir tortryggni í garð einkarekinna banka og fyrirtækja. Þeir telja hönd stjórnmálamanna betri en ósýnilega hönd markaðarins og vilja ríkisforsjá frekar en svigrúm einkaaðila til að láta verulega að sér kveða á öllum sviðum viðskiptalífsins.

Samfylkingarmenn slá dálítið úr og í, þegar þessi mál ber á góma, en vandi þeirra er hinn sami í þessu tilliti og jafnan endranær: Samfylkingin hefur ekki neina heilsteypta stefnu. Ætti nú að gefast tóm til að leita að meginþráðum hennar og vefa þá fram að flokksþinginu. Ekki verða þar átök um forystumenn, því að tilkynnt var við lok framboðsfrests, að Össur Skarphéðinsson væri sjálfkjörinn formaður og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri sjálfkjörin varaformaður. Er þetta einstök aðferð við val á flokksforystu og allt önnur en hjá okkur sjálfstæðismönnum, þar sem framboðsfrestur er til þess tíma, að kosning hefst á landsfundi og menn rita eitthvert nafn á kjörseðil sinn.

Frjálslyndi flokkurinn er óskrifað blað með nýjum þingmönnum sínum. Er erfitt að átta sig á því um hvað þeir eru sammála fyrir utan að vera á móti kvótakerfinu. Enginn kemst langt í stjórnmálum með því einu að vera alltaf á móti. Viðbrögð Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þingmanns flokksins, eftir að hann tapaði máli sínu gegn Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra í hæstarétti vekja nokkra undrun, en í undirrétti hafði Árni verið dæmdur til að greiða Magnúsi Þór bætur vegna meiðyrða.  Alvarlegt hefði verið, ef niðurstaða hæstaréttar hefði verið á þann veg, að ráðherra væri refsivert að fjalla um mál á þann veg, sem Árni gerði og varð Magnúsi Þór tilefni til málaferla gegn honum.

Hjól efnahagslífsins eru farin að snúast hraðar á nýjan leik og tekjur þjóðarbúsins vaxa. Efnahags- og atvinnustefna stjórnvalda hefur enn og aftur skilað árangri og ekki er unnt að saka þau um að halda ekki skynsamlega á þeim málum. Fjárlagafrumvarpið og umræður um það munu setja mestan svip á þingstörfin fram að áramótum.

Engin skýr átakamál blasa við í upphafi þings. Fjölmörg stjórnarfrumvörp um ýmsa þætti þjóðlífsins verða lögð fram og tekin til umræðu. Stjórnarandstaðan mun einnig leggja fram sín mál, en líklegt er, að hún reyni helst að draga að sér athygli með umræðum utan dagskrár eða fyrirspurnum og óskum um skýrslur. Kapphlaupið meðal þingmanna stjórnarandstöðunnar við að tryggja sér mál til að taka upp utan dagskrár er oft næsta undarlegt.