11.9.2003

Anna Lindh myrt - 11. september - Luo Gan um Hong Kong

Morðtilræðið við Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, vekur óhug allra og þó einkum að sjálfsögðu Svía, sem búa enn við þá staðreynd, að ekki hefur tekist að leysa morðgátuna um Olof Palme, forsætisráðherra þeirra, þótt við hana hafi verið glímt í áratugi.

Nú sér lögreglan á eftir ungum, hávöxnum manni hlaupa út úr verslunarhúsi í hjarta Stokkhólms. Hann kastar frá sér felujakka og blóðugum hnífi, sem hann notaði til að stinga ráðherrann á hol, þegar hún var á síðdegisstundu á milli pólitískra stríða að skoða fatnað á slá með vinkonu sinni.

Atburðir sem þessir skilja eftir djúp sár hjá þeim, sem eftir lifa, en þau gróa vonandi, því að maðurinn hefur hæfileika til að sigrast á sorg. Sárin í þjóðarsálinni eru kannski erfiðari viðfangs, því að þau mótast meðal annars af sektarkennd, vegna þess að ekki var meira gert til að tryggja öryggi ráðherrans og stjórnmálamannsins.

Þegar við fáum fréttirnar af andláti Önnu Lindh er hugurinn einnig við atburðina í New York á þessum degi, 11. september, fyrir tveimur árum. Stundum má sjá menn undrast yfir því, að Bandaríkjamenn lýsi því, sem þá gerðist með því einu að nefna tölurnar níu og ellefu, 9/11, eða 11. september.

Franski heimspekingurinn og póst-módernistinn Jacques Derrida hefur skýrt þessa orðnotkun á þann veg, að með henni sé í raun verið að segja, að menn viti í raun ekki almennilega hvað gerðist 11. september 2001. Eitthvað hafi gerst, sem sé svo ótrúlegt og framandi, að ekki sé unnt að lýsa því með neinum venjulegum tilvísunum eða orðum og þess vegna sé sá kostur einfaldlega valinn að vísa bara til dagsetningarinnar og nú sé hún orðinn tákn fyrir ótrúlegt og svo einstakt, að við vitum í raun ekki um hvað við erum að tala.

Mér þótti þessi skýring á hugtakinu „11. september“ eða „9/11“ segja mikið um þá breytingu, sem varð þennan dag. Við vitum ekki enn tveimur árum síðar, hver urðu þáttaskilin, þótt við skynjum vel, að þau hafi orðið. Gildi þeirra er metið á ólíkan hátt eftir því úr hvaða átt er litið. Er dapurlegt að heyra útleggingar sumra vinstrisinna hér á landi á þróuninni í öryggismálum undanfarin tvö ár, sérstaklega þegar þeir virðast hafa þann tilgang helstan með málflutningi sínum, að sanna, að George W. Bush sé ívið meiri ógn við öryggi heimsins en þeir Osama bin Laden og Saddam Hussein. Minnir þetta á samanburðarfræðin á tímum kalda stríðsins, þegar tilgangur þeirra var sá hjá vinum Sovétríkjanna, að sýna fram, að þrátt fyrir allt væru Kremlverjar heldur friðasamari en ráðamenn í Washington.

Við fengum Luo Gan, sjálfan öryggismálastjórann í stjórnmálaráði kínverska kommúnistaflokksins, hingað til lands hinn 7. september og kom það í minn hlut að fræða hann um íslenska réttarkerfið hinn 8. september og bjóða honum til hádegisverðar. Níu menn eru í stjórnmálaráðinu, svo að augljóslega er Luo Gan í æðsu forystusveit Kína, menntaður í málmiðnaði frá Austur-Þýskalandi, þar sem hann var í átta ár og talar að sjálfsögðu þýsku, en lætur túlka fyrir sig á ensku og af ensku.

Ég spurði Luo Gan að því, hvað hefði orðið um grein 23. í stjórnlögum Hong Kong, sem Peking-stjórnin hefur ráðið síðan 1997 undir fyrirsögninni: „Eitt land, tvö kerfi“. Þessi grein snýst um öryggislöggjöf fyrir Hong Kong, yrði henni hrundið í framkvæmd mætti til dæmis gera húsleit án heimildar dómara, dæma blaðamenn í margra ára fangelsi fyrir að ljóstra upp svonefndum ríkisleyndarmálum ( í Kína er unnt að fella hagtölur undir þetta hugtak) og banna starfsemi hópa í Hong Kong, sem eru óleyfilegir í Kína, eins Kínverska lýðræðisflokkinn, Falun gong iðkun, eða jafnvel kaþólsku kirkjunnar.

Hinn 1. júlí síðastliðinn var efnt til mikilla mótmæla í Hong Kong gegn því, að þessari grein yrði hrundið í framkvæmd. Urðu þau til þess, að horfið var frá gildistöku hennar. Síðan hafa vestrænir sérfræðingar líkt gildi þessara mótmæla við það, sem gerðist á Torgi hins himneska friðar 1989 – en þá beittu kínverskir ráðamenn og þar á meðal Luo Gan hervaldi til að brjóta mótmælendur á bak aftur. Spurningin hefur verið, hvort frestunin á gildistöku 23. gr. í Hong Kong væri tímabundin á meðan stjórnvöld væru að sækja í sig veðrið til að láta til skarar skríða af meiri þunga en ella vegna mótmælanna 1. júlí eða hvort þau ætluðu að láta af kröfunni um gildistöku greinarinnar.

Spurði ég Luo Gan að því, hvað gert yrði með þessa grein. Hann sagði skýrt og skorinort, að hún hefði verið dregin til baka, ekki hefði verið fallið frá henni, en ekki væri vitað, hvenær hún tæki gildi. Það væri ljóst, að efnahagslega (!) væru Hong Kong búar ekki í stakk búnir til að sætta sig við hana, efnahagsþróunin yrði að fá lengri tíma.

Af þessum orðum hins kínverska ráðamanns má draga þá ályktun, að nú sé ekki fyrir hendi í Peking sami grimmdarlegi járnvilji og ríkti, þegar Deng Xiaoping tók ákvörðunina um að ráðist skyldi með vopnum gegn fólkinu á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Þetta þótti mér merkilegast af því, sem fram kom í viðræðum mínum við Luo Gan.