6.9.2003

Borgarstjórn - skólamál og sinfónían – lygabrigsl Ingibjargar Sólrúnar.

Fyrsti borgarstjórnarfundur að loknu sumarleyfi var fimmtudaginn 4. september. Hann var langur eins og við var að búast og stóð frá klukkan 14.00 til 22.00 með stuttu kaffihléi. Ég skrapp af fundinum á fimm ára afmælishátíð Háskólans í Reykjavík, sem haldin var í Salnum.

 

Skömmu áður en ég fór á hátíðina var verið að ræða í borgarstjórn um einkarekstur á grunnskólum og Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, flutti eina af sínum löngu ræðum, án þess að segja í raun nokkuð annað en sjálfsagða hluti, líklega til að komast hjá því að skýra, hvers vegna R-listanum er svo mjög í nöp við að gefa einkaframtakinu aukið svigrúm við grunnskólarekstur.

 

Vissulega varð mikil og jákvæð breyting á grunnskólanum, þegar hann losnaði undan miðstýringu ríkisins og fluttist til sveitarfélaganna. Á grunnskólastiginu hefur á hinn bóginn ekki orðið sambærileg bylting og á háskólastiginu, eftir að einkaskólar létu þar verulega að sér kveða. Mikilvægt skref var þó stigið í Garðabæ á dögunum, þegar samið var um einkarekinn grunnskóla í anda Hjallastefnunnar.

 

Reykjavík er stærsta sveitarfélagið og þar eru um 45 grunnskólar undir stjórn eins fræðsluráðs. Hið pólitíska viðhorf R-listans er, að taka beri mið af hagsmunum hinnar miðstýrðu fræðslsustjórnar frekar en setja valddreifingu og frumkvæði einstaklinga í öndvegi. R-listinn leggst bæði gegn því, að fleiri skólahverfi verið í Reykjavík og að einkaaðilar fái að koma meira að rekstri grunnskólans – R-listinn vill einnig murka lífið úr þeim einkaskólum, sem enn starfa í borginni.

 

Á meðan gamaldags skoðun R-listans ræður í skólamálum Reykjavíkur er þess ekki að vænta, að þar verði stigin nein skref til að virkja einkaframtakið á markvissan hátt í þágu grunnskólans. Er einkennilegt, að fordæmið frá háskólastiginu og hinni góðu reynslu af einkaframtakinu þar, skuli ekki hafa smitað meira frá sér inn á grunnskólastigið. Ástæðan í Reykjavík er augljós, meirihlutinn þar tekur ekki mið af því, sem skilar árangri, heldur er hann blindaður af vinstrimennskunni á móti einkaframtakinu og ofurtrú á ágæti hins opinbera í öllum myndum.

 

Staða sinfóníunnar.

 

Fyrir utan að taka þátt í umræðum um einkaskólana sagði ég einnig álit mitt á bókuninni í borgarráði 12. ágúst, sem á var á þann veg, að Reykjavíkurborg ætti að hætta þátttöku í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) og borgarstjóri ætti að kynna þá samþykkt og óska eftir því, að lögum um SÍ yrði breytt í samræmi við það. Var þessi samþykkt almennt túlkuð á þann veg, að Reykjavíkurborg væri að draga sig út úr rekstri SÍ.

 

Hófust umræður um málið á því, að borgarstjóri sagði frá bréfi, sem hann hafði sent menntamálaráðherra og er dagsett 1. september. Þar segir meðal annars: “Það skal áréttað að Reykjavíkurborg er reiðubúin til þess að koma að endurskoðun rekstrarforms og styðja áfram fjárhagslega við starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands skv. samkomulagi sem af endurskoðun kann að leiða.”

 

Vakti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti okkar sjálfstæðismanna, réttilega athygli á því misræmi, sem er á milli bókunarinnar í borgarráði frá 12. ágúst og bréfsins frá 1. september.  Taldi hann bréf borgarstjóra stangast á við bókunina og að senda það væri gagnstætt vandaðri  stjórnsýslu.  Ég tók eindregið undir með Vilhjálmi og er með ólíkindum, að borgarstjóri skuli senda þetta bréf, án þess að bera það fyrst formlega upp í borgarráði og láta það breyta afstöðu sinni. Má þess vegna efast um lögmæti bréfsins að mínu mati.

 

R-listinn er ekki mikið að velta slíkum atriðum fyrir sér og borgarstjóra leiðist yfirleitt að svara spurningum um slíka grundvallarþætti í starfsskyldum embættismanna. Virðist hann líta á það sem frekar leiðinlegt nöldur og tímasóun, þegar vikið er að formhlið mála, en virðing fyrir henni er forsenda þess, að lögmæti opinberra ákvarðana sé tryggt.

 

Ég lýsti þeirri skoðun minni, að Reykjavíkurborg ætti að vera metnaðarmál að taka þátt í rekstri SÍ. Væri með öllu ástæðulaust að breyta henni í ríkisstofnun og hefði ég verið andvígur því sem menntamálaráðherra.

 

Lygabrigsl Ingibjargar Sólrúnar.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (ISG) var á fundinum og tók hún til máls um SÍ og mátti skilja mál hennar á þann veg, að henni þætti vel koma til álita að Reykjavíkurborg hætti þátttöku í SÍ, úr því að önnur sveitarfélög ættu þar ekki hlut að máli. Síðan vék hún þeirri spurningu til mín, hvort í minni tíð sem menntamálaráðherra hefði verið samið lagafrumvarp, sem gerði ráð fyrir því, að SÍ yrði ríkisstofnun. Ég sagði, að ekkert slíkt frumvarp hefði verið samið um SÍ, á hinn bóginn hefði ég hrundið af stað undirbúningi að almennum tónlistarlögum og hefði hugmynd mín verið sú, að þar yrðu ákvæði um SÍ eins og Þjóðleikhúsið í leiklistarlögum. Á hinn bóginn hefði ég aldrei lýst þeirri skoðun eða stefnu, að SÍ yrði ríkisstofnun. Áréttaði ISG spurningu sína og svaraði ég henni aftur. Þótti mér skrýtið, að þessum spurningum væri beint til mín og raunar tilefnislaust miðað við afskipti mín af málefnum SÍ sem menntamálaráðherra.

 

Leið nú og beið á fundinum og var farið að draga að lyktum hans, þegar ISG tók að nýju að ræða þetta mál og sagðist hafa undir höndum frumvarp til laga um SÍ frá minni tíð sem menntamálaráðherra og sýndi það, að ég hefði sagt ósatt fyrr á fundinum, þegar hún spurði mig. Var henni greinilega mikið í mun að koma á mig lygastimpli og hafði ókyrrst mjög, þegar ég hvarf af fundinum til að fara á afmælishátið Háskólans í Reykjavík og gekk þá hart eftir að fá upplýsingar um það, hvort ég mundi ekki örugglega koma aftur á fundinn.

 

Ég hélt, að ISG vildi hafa mig á fundinum til að ræða um samning borgarstjóra og menntamálaráðherra um framhaldsskólana en samningurinn gengur þvert á þá stefnu ISG sem borgarstjóra, að Reykjavíkurborg skyldi ekki koma að stofnframkvæmdum við eldri framhaldsskóla borgarinnar. Nei, hún gaf ekki tilefni til umræðna um það mál af minni hálfu heldur hóf árásir á mig fyrir ósannsögli og taldi, að ekki væri unnt að treysta mér sem ráðherra, vegna þess að ég hefði ekki sagt satt um frumvarp um SÍ, hún hefði skjal undir höndum því til staðfestingar, sig hefði rámað í þetta og síðan hefði hún fengið skjalið.

 

Ég sagði ekkert frumvarp hafa verið samið með mínu samþykki um SÍ sem ríkisstofnun, ítrekaði hugmyndina um tónlistarlög, hefði ISG skjal undir höndum væri það vafalaust vinnuskjal embættismanna, sem hefðu verið að velta fyrir sér leiðum en ekki að útfæra stefnu mína. Ég lýsti undrun minni á þessum málatilbúnaði, hann ætti ekkert skylt við afstöðu mína til framtíðar SÍ heldur væri til marks um innræti þess, sem að honum stæði.

 

Í tilefni af því, hvernig ISG flutti mál sitt og hve mikla áherslu hún lagði á að hafa sannað á mig lygar, kannaði ég daginn eftir borgarstjórnarfundinn, hvaða skjöl þetta voru, sem hún hafði undir höndum. Kom þá að sjálfsögðu í ljós, að ég hafði sagt rétt frá. Embættismenn í ráðuneytinu voru að þreifa fyrir sér um orðalag og hugmyndir að frumvarpi til tónlistarlaga, Síðasta starfsdag minn í ráðuneytinu sem menntamálaráðherra hinn 28. febrúar 2002 hafði ég fengið minnisblað um málið inn á mitt borð með fyrstu drögum að frv. að tónlistarlögum en ég ritaði á blaðið sama dag, að ég hefði ekki tök á að taka afstöðu til frv. en ákvæði um SÍ hlytu að ráðast af því, sem kæmi út úr starfshópi, sem var þá að vinna að fjármálum SÍ.  Jafnt þá, fyrr og síðar, var öllum ljóst, sem um þetta mál ræddu við mig, að ég var ekki málsvari þess, að SÍ yrði breytt í ríkisstofnun.

 

Eftirmaður minn, Tómas Ingi Olrich, mun síðar hafa heimilað, að frumvarp, sem ég þekki ekki. yrði kynnt þröngum hópi manna án nokkurra skuldbindinga af sinni hálfu, trúnaður yrði að ríkja um málið meðal viðmælenda, enda væri það á hugmynda- og vinnslustigi.  Í þessum hópi var Hjöleifur Kvaran borgarlögmaður og hlýtur ISG að hafa fengið vinnuskjölin frá honum.  Var það ekki með mínu samþykki sem ráðherra, að þetta frv. var afhent starfsmönnum Reykjavíkurborgar eins og skilja mátti á orðum ISG í borgarstjórn og voru liður í lygavef hennar. Með vísan til vandaðra stjórnsýsluhátta tel ég víst, að Hjörleifur Kvaran hafi afhent ISG þessi skjöl á sínum tíma með fyrirvörum um nauðsynlegan trúnað og traust í samskiptum við menntamálaráðuneytið.

 

Þegar litið er á þetta og málatilbúnað ISG á borgarstjórnarfundinum og heiftina í árásum hennar, er augljóst, að fyrir henni vakti aðeins að sverta mannorð mitt, tilgangurinn helgaði meðalið og henni var alveg sama um sögu og eðli skjalanna frá menntamálaráðuneytinu eða málefnið til umræðu, aðalatriðið var, að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi. Þótt hún talaði á annan veg, hafði hún líklega frá upphafi umræðnanna undir höndum þessi skjöl, sem voru komin úr menntamálaráðuneytinu, eftir að ég lét þar af störfum sem ráðherra. Fyrsta vinnudagsetningin mun hins vegar vera frá því janúar 2002, nokkrum vikum, áður en ég baðst lausnar til að taka þátt í borgarstjórnarkosningunm. Þá dagsetningu ætlaði ISG að nota til að leiða mig í einhvers konar gildru og knýja mig til játningar.  Þá þótti henni sérstaklega styðja málstað sinn, að plaggið, sem hún hafði undir höndum, væri uppsett eins og lagafrumvarp.  Skýringin á þessu er einföld:  í málaskrá stjórnarráðsins hafa embættismenn aðgang að forriti til að nota, þegar þeir setja saman texta í lagafrumvörp – forritið hefur að geyma nauðsynleg föst útlitsatriði slíkra skjala en segir að sjálfsögðu ekkert til um, hve langt vinna við einstök frumvörp er komin eða hvaða pólitískar ákvarðanir búa þar að baki.

 

Heift knýr ISG oft áfram í pólitík. Borgarnesræðurnar frægu í þingkosningabaráttunni snerust um að sverta mannorð Davíðs Oddssonar. Hún hefur einsett sér að koma Össuri Skarphéðinssyni frá, hvað sem það kostar. Grunnt er á heiftinni í hans garð, þótt hún dylji hana betur en reiðina í garð okkar Davíðs. Verst er fyrir hana, hve vopn hennar eru bitlaus, þegar á reynir, því að hún sækir hvað eftir annað fram frekar af kappi en forsjá. Sumir vilja kenna þetta lélegum ráðgjöfum eða almannatengslamönnum, hvað sem því líður er þetta ekki einleikið.

 

ISG ætlaði að leggja til atlögu við í Össur á flokksþingi Samfylkingarinnar nú í haust en varð að hverfa frá því áformi sínu, þegar henni var settur stóllinn fyrir dyrnar, daginn, sem kynna átti formannsframboðið. Er sagt, að hún hafi hætt við að boða blaðamannafund um framboð sitt vegna þrýstings frá Össuri og félögum hans. Þess í stað hafi verið send tilkynning í faxi klukkan 18.03 þriðjudaginn 26.ágúst til fréttastofu hljóðvarps ríkisins frá GSP-almannatengslum um, að ISG ætlaði að bjóða sig fram til varafomanns og formanns eftir tvö ár! Skrafað er um það í tengslum við þessi síðustu átök í Samfylkingunni, að inn í þau blandist sár reiði ISG yfir því, að hafa ekki fengið neitt opinbert hlutverk í sumarferð Samfylkingarinnar. Hún hafi verið niðurlægð með því að þurfa sjálf að troða sér í að stjórna fjöldasöng, svo að ekki færi fram hjá fólki, að hún væri með í ferðinni.

 

Þegar ráðist er á pólitíska andstæðinga í þeim tilgangi að útmála þá sem ósannindamenn er skynsamlegt að hugsa sig tvisvar um og “anda með nefinu”, svo að vitnað sé til þeirra orða, sem ISG notaði um síðustu jól, þegar hún hélt sig komast upp með að bjóða sig fram til þings og sitja áfram sem borgarstjóri. Eins og vitað er gekk hvorugt eftir, nú er ISG hvorki þingmaður né borgarstjóri. Hefði hún sjálf átt að “anda með nefinu” á þessum tíma og einnig áður en hún vó að mér á þennan ómaklega hátt.

 

Fréttastofa hljóðvarps ríkisins undir ritstjórn Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur sagði frá þessum lygabriglsum ISG í hádeginu laugardaginn 6. september án þess að birta þau orð mín, að málatilbúnaður ISG væri fyrst og síðast til marks um innræti hennar. Ég hef ekki orðið var við, að fréttastofan leitaði að því, sem sannara er í þessu máli en orð Ingibjargar Sólrúnar. Hér hefur hún aðgang að upplýsingum það.

 

Stjórnmálamenn þurfa jafnan að meta, hve langt þeir eiga að ganga í gagnrýni á andstæðinga sína, á hvaða forsendum það er gert og hverjar afleiðingar verða. Embættismenn verða að stíga enn varlegar til jarðar og þess vegna er með ólíkindum að verða hvað eftir annað vitni að því, að æðsti embættismaður borgarkerfisins, Þórólfur Árnason, borgarstjóri, skuli telja sig vera í stöðu til að ráðast að okkur borgarfulltrúum sjálfstæðismanna fyrir skoðanir okkar og viðhorf til einstakra mála. Má oft skilja viðbrögð hans á þann veg, að þakkarvert sé fyrir okkur,  að hann brjóti odd af oflæti sínu með því að svara athugasemdum okkar.

 

Í umræðunum í borgarstjórn um framhaldsskólana í Reykjavík sá Þórólfur Árnason borgarstjóri til dæmis ástæðu til að gera að þau orð í bókun R-listans í borgarráði, að jákvæð viðbrögð sjálfstæðismanna við samkomulagi borgarstjóra og menntamálaráðherra væru “hjákátleg”, að sínum.  Lét borgarstjóri þessi ómaklegu orð falla, þegar þeir Vilhjálmur Þ. ræddu málið á borgarstjórnarfundinum.

 

Vilhjálmur Þ. mótmælti þessum orðum borgarstjóra harkalega. Minnti hann á, að hann hefði ekkert umboð frá kjósendum heldur starfaði sem embættismaður allra borgarfulltrúa, þótt hann hefði verið ráðinn af R-listanum. Með öllu væri ástæðulaust að gera lítið úr ánægju sjálfstæðismanna með þetta samkomulag. Sagðist Vilhjálmur Þ. hafa rætt ofar en einu sinni við menntamálaráðherra um að gera samkomulag um framhaldsskólana við Reykjavíkurborg og það væri vissulega fagnaðarefni, að sá áfangi hefði náðst.

 

R-listinn hefur kúvent í afstöðu sinni til framhaldskólanna, eftir að ISG hætti sem borgarstjóri. Hún mátti ekki heyra á það minnst, að borgin kæmi að framkvæmdum í þágu gömlu framhaldsskólanna í borginni. Hét því að vísu, að sletta einhverjum fjármunum í MH og MR á kosningafundum á vegum þessara skóla vorið 2002 og taldi það sýna fádæma örlæti. Nú hefur aðild borgarinnar að nýframkvæmdum við þessa skóla verið tryggð með samkomulagi en að sjálfsögðu heldur ríkið áfram viðhaldsskyldu sinni, aldrei hefur komið til tals, að borgin sinnti viðhaldsverkefnum vegna skólanna.

 

Sjórnarmið mitt um aðild borgarinnar að uppbyggingu framhaldsskólanna hefur náð fram að ganga. Líklega hefur ISG vænst þess, að á borgarstjórnarfundinum mundi ég rekja samskipti okkar um framhaldsskólana, eins og ég gerði í Morgunblaðinu sama dag og fundurinn var haldinn. Á hún engin rök til að verjast þeirri staðreynd, að kúvending varð eftir brottför hennar úr stóli borgarstjóra. Lygabrigsl hennar í minn garð á fundinum voru kannski hugsuð til að styrkja málstað ISG vegna framhaldsskólanna, tilgangur ISG hafi í raun verið að lýsa mig ósannindamann til að rétta hlut sinn, vegna þess að málstaður hennar vegna framhaldsskólanna varð að engu.

 

Enn hefur sannast, að klókindi Ingibjargar Sólrúnar koma henni sjálfri í koll en ekki öðrum. Skyldi formannsgangan innan Samfylkingarinnar einnig enda úti í eyðimörkinni?