31.8.2003

WITFOR í Vilníus - Qigong í Lónkoti - stjórnmálasviptingar.

 

Fyrsti hluti þessa pistils er skrifaður í vél Icelandair frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur að kvöldi föstudagsins 29. ágúst. en við Rut erum á heimleið frá Vilnius, höfuðborg Litháens, þar sem við höfum verið síðan á þriðjudagskvöld. Tók ég þátt í ráðstefnu um upplýsingatækni, WITFOR 2003, eða World Information Technology Forum, sem nú var haldið í fyrsta sinn með stuðningi UNESCO og IFIP, sem eru alþjóðasamtök upplýsingatæknifélaga.

 

Ástæðuna fyrir því, að ég var þarna meðal þátttakenda og ræðumanna, er að rekja til Vigdísar Finnbogadóttur og starfa hennar á vegum UNESCO, meðal annars að því er varðar siðferðileg álitaefni og vísindi. Flutti ég ræðu í þeim starfshópi ráðstefnunnar, sem fjallaði um siðferðilegar og félagslegar hliðar upplýsingatækninnar. Ég hef ekki fullbúið erindið til að birtingar á síðunni minni, en það mun verða þar innan tíðar. Einnig tók ég þátt í pallborðsumræðum ráðherra og fulltrúa þeirra, sem voru á ráðstefnunni, en alls voru þar um 600 þátttakendur frá 68 þjóðum.

 

Ég var eini Íslendingurinn á ráðstefnunni en flestir þátttakendur voru fræðimenn eða starfsmenn í upplýsingatæknifyrirtækjum. Við Íslendingar eigum erindi á þennan vettvang, því að þjóðfélag okkar er háþróað á þessu sviði, þegar litið er til þess, hve fljótt og markvisst við höfum tileinkað okkur upplýsingatæknina á mörgum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í menntakerfinu. Á alþjóðaráðstefnum af þessu tagi er ekki síst rætt um the digital divide eða stafræna bilið milli þjóða og einstaklinga og leiðir til að brúa þetta bil.

 

Alþjóðlegar kannanir sýna, að Íslendingar eru jafnan í hópi þeirra fimm þjóða, sem eru hvað lengst komnar við nýtingu upplýsingatækninnar. Við höfum sigrast á mörgum vandamálum, sem enn eru framtíðarviðfangsefni annarra þjóða. Er ekki nokkur vafi, að reynsla okkar og þekking á þessu sviði, getur nýst mörgum þjóðum, hvort heldur litið er til stefnu stjórnvalda og framkvæmd hennar eða lausnir á einstökum viðfangsefnum.

 

Á undanförnum árum hef ég einkum nálgast þetta viðfangsefni frá sjónarhóli þeirra, sem vinna að mennta- og menningarmálum. Var ekki síður forvitnilegt að kynnast sjónarmiðum þeirra, sem fjalla um viðfangsefnið frá siðferðilegum og félagslegum sjónarhóli, en þaðan skoða menn meðal annar opinber eftirlitskerfi, starf lögreglu og rétt hins almenna borgara.

 

Eftir að hafa setið ráðstefnuna í tvo og hálfan dag, gafst okkur síðan tækifæri til að hitta embættismenn í dómsmálaráðuneyti Litháens. Stjórnvöld í Litháen búa sig nú undir aðild ríkisins að Evrópusambandinu (ESB). Eitt af þeim sérstöku vandamálum, sem þau þurftu að leysa, snerti ferðir Rússa um Litháen til Kaliningrad, sem er rússneskt landsvæði í horni Eystrasaltsins á milli Litháens og Póllands. Töldu embættismennirnir, að góð og einföld lausn hefði fundist á þessum vanda, en tryggja þurfti, að Schengen-reglur yrðu í heiðri hafðar, án þess að Rússum væri gert of erfitt að fara frá Rússlandi til Kaliningrad.

 

Þegar Litháen hefur gengið í ESB verður landið Schengen-hlið gagnvart Hvíta-Rússlandi en sameiginleg landamæri eru 90 km. Hvít-Rússar búa enn við einræðisstjórn, en aðeins um 50 km eru frá landamærunum til Vilnius. Er enginn vafi á því, að við brotthvarf hins sérkennilega einræðisherra í Hvíta-Rússlandi reynir mjög á landamæravörslu Litháa, því að hið sama gerist í Hvíta-Rússlandi og alls staðar, þar sem einræðisherrar kommúnista hverfa frá völdum, fólkið grípur fyrsta tækifæri til að reyna að komast eitthvert annað og freista gæfunnar.

 

Síðasta klukkutímann fyrir brottför frá Vilnius fórum við í skoðunarferð um borgina undir frábærri leiðsögn. Við fórum í tvö hundruð ára gamlan kirkjugarð og sáum minnismerki um þá, sem létu lífið í átökum vegna frelsisgöngu þjóðarinnar undan oki Sovétríkjanna á árinu 1991. Þar voru grafir níu af þrettán, sem féllu fyrir sovéskum skriðdrekum 13. janúar 1991 við sjónvarpsmastrið í Vilnius. Einnig voru þar grafir manna, sem voru drepnir við landamæri Hvíta-Rússland skömmu síðar. Einn komst af, illa særður af skoti, en hefur náð sér, gift sig og á börn, Hann fer að nokkru huldu höfði, af því að hann er hinn eini, sem sá ódæðismennina, en þeir eru ófundnir.

 

Við fórum í barokk-kirkju frá 17. öld og þaðan í hinar gömlu höfuðstöðvar KGB í Vilnius ? þar fyrir framan er stór garður og stóð þar stytta af Lenín, sem hefur verið fjarlægð eins og öll minnismerki frá Sovéttímanum, nema fjórar styttur í sósíal-realistískum, listrænum stíl Stalíns við eina af brúnum í borginni. Auðmaður í Litháen hefur búið til garð men styttum af Lenín, Stalín og þeim félögum, svo að fólk geti komið og séð minnisvarða um þann tíma í lífi þjóðarinnar, sem nú er öllum til léttis á öskuhaug sögunnar.

 

Eins og ég sagði í síðasta pistli hef ég  verið að lesa bókina Koba the Dread eftir Martin Amis en hún snýst um grimmdarverk Leníns og Stalíns. Þess vegna var enn áhrifameira en ella að fara ofan í fangaklefana í KGB-húsinu í Vilnius. Fórum við meðal annars inn í herbergi, þar sem Litháar héldu að hefði verið kjötbúr eða eldhús, en þegar nánar var skoðað var þetta aftökuherbergi og má sjá merki um það á veggjum auk þess, sem bætt var við gólflögum til að hylja blóð og líkamsleifar.

 

Litháar ræða um Sovét-tímann sem eitt af niðurlægingar- og kúgunarskeiðum sögu sinnar og er engin furða, þegar hlustað er á frásagnir af grimmd og niðurlægingu þess tíma, að þjóðin vilji tengjast NATO og Evrópusambandinu sem nánustum böndum. Litháar hafa að ýmsu leyti farið betur út úr samskiptunum við Sovétmenn en Lettar og Eistar vegna þess að í Litháen voru Rússar dreifðir um landið en mynduðu ekki þjóðarbrot eins og til dæmis í Ríga, höfuðborg Lettlands.

 

Qigong í Lónkoti

 

Allt var á áætlun í fluginu og að morgni laugardagsins 30. ágúst ók ég norður í Skagafjörð, eða að Lónkoti, þar sem félagar í Aflinum, qigong-félaginu, höfðu komið saman kvöldið áður.

 

Vorum við þarna í mjög góðu yfirlæti fram undir hádegi á sunnudag. Veðrið lék við okkur en öll aðstaða í Lónkoti til qigong iðkunar er eins best verður á kosið. Ef ekki er unnt að vera utan dyra er auðvelt að bregða sér inn í stóra tjaldið á staðnum. Gistiaðstaða og matur til mikillar fyrirmyndar.

 

Vetrarstarfið hjá okkur í Aflinum er nú að hefjast undir forystu Gunnars Eyjólfssonar eins og áður. Er ljóst, að færri komast að við æfingar en vilja. Til að koma til móts við þann áhuga, sem er á qigong, höfum við unnið að því í sumar að gera myndband, sem verður leiðbeinandi um æfingarnar, eins og þær hafa þróast undir stjórn Gunnars.

 

Við ákváðum í Lónkoti að stofna þar til qigong-móts um sólstöður á næsta ári og hafa það opið öllum áhugasömum um að kynnast þessum aðferðum til að leggja rækt við lífsorkuna, njóta hennar og nýta hana sem best.

 

Stjórnmálasviptingar.

 

Skoðanakannanir Fréttablaðsins um síðustu helgi og DV, sem birtist á föstudag, sýna, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verulega styrkt stöðu sína frá því í kosningunum. Um 40% sögðust styðja flokkinn í Fréttablaðinu og um 43% í DV.

 

Fyrir Fréttablaðinu vakti líklega að gera könnun, þegar blaðið taldi Sjálfstæðisflokkinn standa höllum fæti, en blaðið hefur haldið því stíft fram undanfarna daga og vikur, að flokkurinn sé ekki trausts verður meðal annars vegna starfa okkar ráðherra hans. Reynir blaðið til dæmis að halda lífi í umræðu um, að ég hafi farið á svig við góða stjórnsýsluhætti við skipun dómara í hæstarétt.

 

Skrýtið var að lesa útleggingu Gunnars Smára, ritstjóra Fréttablaðsins, á því, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn fengi þrátt fyrir allt svona mikið fylgi. Taldi hann stjórnarandstöðuna sýna of mikla linkind gangvart ríkisstjórninni. Enginn hefur verið í jafnmikilli stjórnarandstöðu undanfarið en einmitt Fréttablaðið ? ritstjórinn er því að líta í spegil, þegar hann harmar útlitið á þeim, sem sækja fastast gegn Sjálfstæðisflokknum með þessum lélega árangri.

 

Ingibjörg Sólrún tilkynnti þriðjudaginn 26. ágúst, að hún ætlaði að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni 2005 og hefur þetta verið túlkað á þann veg, að hún hafi gefið Össuri Skarphéðinssyni næstu tvö ár til að búa sig undir brotthvarf sitt.

 

Þetta er óvenjuleg aðferð til formannsframboðs í stjórnmálaflokki. Fyrir réttu ári brást Ingibjörg Sólrún við niðurstöðu í skoðanakönnun um, að hún ætti að bjóða sig fram til þings, á þann veg að bjóða sig ekki fram, af því að hún þyrfti þá að segja af sér borgarstjórastarfinu, sem hún hafði fáeinum mánuðum áður lofað að gegna í 4 ár. Um jólin snerist henni hugur en hélt, að hún gæti boðið sig fram í 5. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar til þings í Reykjavík norður og setið áfram sem borgarstjóri. Öllum er kunnugt, að þetta gekk ekki eftir. Ingibjörg Sólrún er nú hvorki borgarstjóri né þingmaður. Skyldi hún verða jafnmikill klaufi við að nálgast formannsstöðuna af Össuri?