15.8.2003

Valdabarátta Ingibjargar Sólrúnar - furðutal Kristins H.

 

 

Nú er greinilega hafið svipað ferli innan Samfylkingarinnar og leiddi til þess, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yfirgaf R-listann í von um að öðlast meiri pólitískan frama á öðrum vettvangi. Fyrir um það bil ári beittu stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar á Kreml.is sér fyrir skoðanakönnun í þeim tilgangi að hanna atburðarás í því skyni að auðvelda leið hennar inn á alþingi. Nú eru stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar teknir til við að hanna henni leið til formennsku í Samfylkingunni. Stofnað hefur verið til skoðanakönnunar á Púlsinum og sagt er, að meirihluti samfylkingarfólks vilji Ingibjörgu Sólrúnu í formannssætið.

 

Markmið Kremlar.is fyrir ári var tvíþætt: Ingibjörg Sólrún átti að bjóða sig fram til þings vegna þess að hún myndi auka fylgi Samfylkingarinnar um 8% og hún átti einnig að taka við formennsku í Samfylkingunni. Þá sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, að Ingibjörg Sólrún gæti orðið forsætisráðherraefni flokksins  - hann ætlaði að halda formennskunni.

 

Vegna andstöðu formanna Framsóknarflokksins og vinstri/grænna fór Ingibjörg Sólrún ekki eftir þeim ályktunum, sem dregnar voru af skoðanakönnun Kremlar.is.  Hér verður á hinn bóginn ekki rakin atburðarásin vegna brottfarar Ingibjargar Sólrúnar úr stóli borgarstjóra um síðustu jól og áramót, eftir að hún ákvað að skipa 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.

 

Hinn 12. janúar 2003 efndu þau Össur og Ingibjörg Sólrún til blaðamannafundar á Hótel Borg. Þar var tilkynnt, að Ingibjörg Sólrún væri orðin forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar og mundi verða forsætisráðherra, þótt hún næði ekki kjöri á þing, ef Samfylkingin tæki þátt í stjórnarmyndun. Össur var á þennan hátt að efna yfirlýsinguna, sem hann gaf eftir að Kreml.is fór að hanna atburðarás sína.

 

Þegar sjónvarpsstöðvarnar sögðu frá þessum blaðamannafundi, sagði Stöð 2: “Hún [Ingibjörg Sólrún] segist styðja Össur sem formann og hún hafi ekki áform um að bjóða sig fram gegn honum og Össur segist ekki ætla að segja af sér formennsku.”

 

Í ríkissjónvarpinu sagði 12. janúar 2003:  Ingibjörg segir það ekki á dagskránni að hún bjóði sig fram sem formann Samfylkingarinnar og síðan er haft orðrétt eftir henni: “Össur er formaður, ég styð Össur í því, í þeirri formennsku, Tel hann hafi unnið þarna mjög gott starf og það stendur ekki til að breyta því á landsfundinum í haust.”

 

Þegar Ingibjörg Sólrún talar þarna um haust, vísar hún til haustsins 2003. Nú eru fjölmiðlarnir hins vegar að draga athygli okkar að því, að ekkert sé að marka þessi orð Ingibjargar Sólrúnar.

 

Andrés Magnússon sagði í Íslandi í bítið á Stöð 2 13. ágúst 2003, að hann teldi, að herráð Ingibjargar Sólrúnar hefði nú ákveðið, að hún yrði enn eina ferðina að ganga á bak orða sinna og hlaupa frá gömlum loforðum – hún yrði að verða formaður Samfylkingarinnar í haust, alveg sama hvað það kostaði. Taldi Andrés Ingibjörgu Sólrúnu vera komna í gang eina ferðina er: “Hún komst ekki á þing, hún náði ekki 32% [í þingkosningunum], hún felldi ekki stjórnina, hún varð ekki forsætisráðherra, hún gat ekki keypt þingsæti af Gunnu Ögmunds og hún vill fórna öllu til þess að verða formaður. En hún er enn einu sinni í bölvaðri klípu, því hún var víst búin að heita Össuri stuðningi sínum og segja öllum frá því.”

 

Til að auðvelda henni að ganga á bak orða sinna frá 12. janúar 2003 á nú að hanna atburðarás með nýrri könnun, úrslitin liggja fyrir um 60% samfylkingarfólks segist vilja Ingibjörgu Sólrúnu – er teningunum þá ekki kastað? Orð Ingibjargar Sólrúnar verða að víkja fyrir vilja fólksins!

 

DV fjallar um málið í leiðara 15, ágúst undir fyrirsögninni: Að segja eitt í dag og annað á morgun. Sækir hún vísan til þess, hvernig Ingibjörg Sólrún gengur hvað eftir annað á bak eigin orða, þegar spurningin snýst um hana sjálfa, völd og áhrif. Rifjar blaðið upp, að eftir þingkosningarnar í vor eða hinn 13. maí hafi hún sagt í Fréttablaðinu: “Ég kom inn til þess að starfa við hliðina á Össuri Skarphéðinssyni og öðrum í forystusveit Samfylkingarinnar. Ég held að formannsslagur yrði þessum flokki ekki til framdráttar, þannig að ég stefni ekki á neitt slíkt.”  Þriðjudaginn 10. ágúst sagði þessi sama Ingibjörg Sólrún hins vegar við þetta sama Fréttablað, þegar rætt var við hana um hugsanlega formennsku í Samfylkingunni: “Ég ákvað strax í vor að ég ætlaði að taka mér sumarið til þess að athuga minn gang og hvað ég ætlaði að gera á næstu árum. Ég mun greina frá því í fyllingu tímans.”

 

DV veltir fyrir sér, hvernig þessi ummæli öll koma heim og saman – ekki að ástæðulausu. Þau gera það einfaldlega ekki – Ingibjörg Sólrún er enn einu sinni að búa sig undir að ganga á bak orða sinna. Hún er að búa í haginn fyrir framboð gegn Össuri Skarphéðinssyni.

 

Okkur, stjórnmálamönnum utan Samfylkingarinnar, kemur þetta ef til vill ekki við, ekki er það okkar að ráða því, hver þar er í formennsku eða velja á milli manna. Rétt er það – en hitt skiptir alla, sem gefa sig að stjórnmálastarfi máli, að forystumaður í stjórnmálum hagi sér á þann hátt, sem Ingibjörg Sólrún gerir, því að blindir stuðningsmenn hennar leitast við að afsaka svik hennar við eigin yfirlýsingar með því að vísa til orða og gjörða annarra stjórnmálamanna og setja þá í sömu svika-skúffuna. Þetta hef ég sjáfur reynt, þegar Ingibjörg Sólrún og aðrir vildu halda því fram, að ákvörðun mín um að setjast í ríkisstjórn, þótt ég sæti í minnihluta í borgarstjórn, væri einskonar aflát fyrir loforðasvik Ingibjargar Sólrúnar. Frá mínum bæjardyrum er sá málflutningur álíka trúverðugur og traustið, sem unnt er að bera til þess, að orð Ingibjargar Sólrúnar standi.

 

 

***

 

Eitt er þegar stjórnmálamenn umgangast eigin orð af þeirri virðingu, sem Ingibjörg Sólrún gerir, annað að standa frammi fyrir því,  þegar hlustað er á marklaus orð þeirra, af því að þau byggjast ekki á öðru en þeirra eigin ímyndun og oft viðleitni til að sverta andstæðinga sína.

 

Þetta kom mér í hug, þegar ég hlustaði á Finnboga Hermannsson, fréttamann RÚV á Ísafirði, ræða við Kristinn H. Gunnarsson, þingmann Framsóknarflokksins í norð-vesturkjördæmi, um skyldur opinberra aðila til að rannsaka verðsamráð olíufélaganna að morgni 15. ágúst.

 

Í þessu samtali var ekki leitast við að kynna þau sjónarmið, sem fram hafa komið um rannsóknar- og verkaskiptingu samkeppnisstofnunar annars vegar og ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra hins vegar heldur var um einhliða áróður að ræða í þá veru, að ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri væru að bregðast embættisskyldum sínum.

 

Kristinn talaði eins og sá, sem valdið hefði, af því að hann væri varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis, og lagði út af lögum á þann veg, að með ólíkindum var. Klykkti hann út með því, að líklega færi enginn að furðulegum lögskýringum hans, vegna þess að það væri pólitískur draugangur í málinu, eins og Kristinn orðaði það og hver var hann: “Þær grunsemdir hljóta að vakna í ljósi þess hversu sterk pólitísk tengsl hafa verið milli olíufélaganna og sumra stjórnmálaflokka sérstaklega Sjálfstæðisflokksins. Þessi embætti verða auðvitað að skýra afstöðu sína betur en þau hafa gert til þessa ef þessar grunsemdir eiga ekki að styrkjast á komandi vikum.” Eftir að Kristinn hafði sagt þetta bætti hann við: “ Ég ætla ekki að gera þær að mínum kenningum en þetta eru skoðanir sem koma upp strax þegar menn skilja ekki þessa afstöðu embættanna.”

 

Þessi aðferð, að fullyrða eitthvað og ýta undir grunsemdir en taka síðan fram, að auðvitað séu þetta orð einhverra annarra, er meðal ómerkilegustu bragða í opinberum umræðum. Hitt er síðan auðvitað sögulega rangt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé í meiri tengslum við olíufélög en aðrir flokkar – var ekki Héðinn Valdimarsson, einn af helstu frammámönnum jafnaðarmanna og Alþýðuflokksins, stofnandi BP, síðar Olís? ESSO, SÍS og Framsóknarflokkurinn voru á sínum tíma tvær hliðar á sama peningnum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft sambærileg tengsl við neitt olíufélag.

 

Þeir Finnbogi Hermannsson og Kristinn H. Gunnarsson voru undir lok samtals síns sammála um, að það væri “pattstaða” í rannsókn samkeppnisstofnunar á verðsamráði olíufélaganna. Byggðist sú niðurstaða enn á lagatúlkun Kristins, sem á ekki við nokkur rök að styðjast.  Auðvitað er engin pattstaða í þessu máli, nema menn gefi sér rangar forsendur eins og Finnbogi gerði í spurningu sinni, eftir að hafa hlustað garnrýnislaust  á Kristin og eftir að hafa látið hjá líða að kynna önnur og betur rökstudd sjónarmið til sögunnar.

 

Ætla mætti, að í málum sem eins og þessu olíumáli, væri fjölmiðli á borð við RÚV mikils virði að halda trausti hlustenda sinna í krafti vandaðs fréttaflutnings og ábyrgrar miðlunar upplýsinga. Jafnframt hljóta fréttastjórendur að velta fyrir sér þeirri ábyrgð, sem felst í því að ýta á rakalausan hátt undir vantraust á ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.