9.8.2003

Skemmdarfýsn – Ann Coulter og félagar – Schwarzenegger.

Með ólíkindum er, að ekki skuli unnt að sýna hér á Austurvelli í hjarta Reykjavíkur hinar einstæðu ljósmyndir franska loftmyndatökumannsins vegna skemmdarfýsnar ungs fólks. Var sagt frá þessu í fréttum nú að kvöldi laugardagsins 9. ágúst og jafnframt skýrt frá því, að erlendir ábyrgðarmenn sýningarinnar væru að velta fyrir sér að taka hana niður, fyrr en ætlað er vegna þessa. Þeir hefðu aldrei áður kynnst slíkri framgöngu  við listaverkin, sem hafa verið sýnd víða um lönd.

 

Alþjóðlegur samanburður er af ýmsu tagi. Færist í vöxt, að efnt sé til samanburðarprófa og mældur árangur nemenda í ólíkum löndum. Vekja niðurstöður slíkra kannana jafnan mikla athygli og hafa til dæmis leitt til þess hér á landi, að gert hefur verið átak á einstökum sviðum innan skólakerfisins. Annað verður á mæla með öðrum aðferðum eins og til dæmis, hvaða virðing er sýnd sýningu eins og þeirri, sem nú er á Austurvelli. Við höfum greinilega fallið á því prófi vegna fáeinna skemmdarvarga, sem koma því orði á þjóðina, að ekki sé unnt að sýna henni sama traust í umgengni við útilistaverk og öðrum.

 

***

 

Í síðasta pistli mínum minntist ég á nýju bókina eftir Ann Coulter, sem nefnist Treason eða Landráð  og snýst um afstöðu vinstrisinna í Bandaríkjunum til kommúnista og hryðjuverkjamanna. Pistillinn varð til þess, að ég fékk tölvubréf um Ann Coulter og er greinilegt, að hér á landi eins og í Bandaríkjunum eru skiptar skoðanir um ágæti hennar.

 

Ég hafði ekki heyrt á hana minnst fyrr en ég sá þessa bók hennar kynnta á Netinu og nálgaðist hana til að átta mig af eigin raun á efnistökum og skoðunum hennar. Eftir að ég fékk tölvubréfin hef ég farið inn á vefsíður erlendis og séð, að Ann Coulter vekur mikla athygli fyrir skoðanir sínar og kallar fram jafnt öflugan stuðning og andstöðu.

 

Þessar pælingar vöktu áhuga minn á öðrum bókum um svipað efni og er að finna hjá Coulter. Ein þessara bóka heitir Bias og er hún eftir Bernard Goldberg og kom út hjá Regnery Publishing 2002. Goldberg var í hópi þekktustu og virtustu fréttamanna CBS-sjónvarpsstöðvarinnar árið 1996, þegar hann ritaði grein í Wall Street Journal, þar sem hann gagnrýndi CBS-fréttastofuna og sjónvarpsfréttir Dans Rathers fyrir vinstri hlutdrægni vegna fréttar, sem flutt var um tillögu Steve Forbes, forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum, um flatan skatt.

 

Er skemmst frá því að segja, að Goldberg missti starfið og lenti í ónáð hjá Dan Rather og öllum helstu forkólfum CBS. Segir hann frá viðbrögðum þeirra og samskiptum sínum við þá vegna greinarinnar auk þess sem hann færir rök fyrir vinstri hlutdrægni hjá starfsbræðrum Rathers þeim Tom Brokaw hjá NBC og Peter Jennings hjá ABC og nefnir dæmi máli sínu til stuðnings. Goldberg heldur því fram eins og Coulter, að The New York Times sé svo vinstrsinnað í fréttamati sínu, að það standi ekki undir því trausti, sem til þess er borið.  Blaðið gefi fréttamönnum CBS, NBC og ABC hins vegar tóninn.

 

Dæmin, sem þau Coulter og Goldberg nefna um hvernig þessir fjölmiðlar sóttu að Ronald Reagan eru forvitnileg. Goldberg segir til dæmis merkilegt, að svo virðist sem vandi heimilislausra hafi horfið á sömu stundu og Bill Clinton varð forseti. Í tíð Reagans hafi villandi og beinlínis rangar fréttir um þá verið notaðar til að draga upp neikvæða mynd af stefnu forsetans í félagsmálum.

 

Af bók Goldbergs má draga þá ályktun, að í Bandaríkjunum séu öll þekktustu dagblöðin vinstrisinnuð (liberal), sömu sögu sé að segja um fréttastofur CBS, ABC og NBC en vinsældir þeirra minnki til dæmis á kostnað FOX-sjónvarpsstöðvarinnar, sem sé lengra til hægri, en hægri menn (conservatives) hafi undirtökin og njóti mestra vinsælda á útvarpsrásunum.

 

***

 

Ný mælistika á framgöngu bandarískra fjölmiðla er komin til sögunnar með framboði Arnolds Schwarzeneggers til ríkisstjóra í Kaliforníu. Í Morgunblaðinu í dag, laugardaginn 9.ágúst, segir í fyrirsögn, að honum sé spáð góðu gengi en “virtustu dagblöð Bandaríkjanna tala um “skrípaleik” og “vöðvastjórnmál”.”

 

Í AFP-frétt Morgunblaðsins er vitnað í The New York Times og Washington Post sem tvö af virtustu blöðum Bandaríkjanna, en þau hafa flest á hornum sé vegna framboðsins og kosninganna í Kaliforníu, sem eru áfall fyrir demókrata í Bandaríkjunum.  Morgunblaðið lætur þess ekki getið, að blöðin séu vinstrisinnuð og hliðholl Demókrataflokknum og þar með flokkspólitískum andstæðingum Schwarzeneggers. Síðan segir hins vegar í Morgunblaðsfréttinni: “Jafnvel hið hægrisinnaða Washington Times, sem er mjög hliðhollt Repúblíkanaflokknum, sagði að of snemmt væri að segja til um hvers konar stjórnmálamaður Schwarzenegger ætti eftir að verða.”

 

Þessi pólitíska eyrnarmerking á Washington Times er dæmigerð. Hitt er þó varla fréttnæmt, að of snemmt sé að dæma um stjórnmálastörf Schwarzeneggers einum sólarhring, eftir að hann býður sig fram, eða láta að því liggja, að í því felist vantraust að gera það ekki, jafnvel í hægrisinnuðu flokksblaði repúblíkana!  Í Morgunblaðsfréttinni eru The New York Times og Washington Times ekki stimpluð með flokkspólitískri afstöðu sinn – til vinstri- og sem stuðningsblöð Demókrataflokksins.  Bernard Goldberg nefnir mörg dæmi um hlutdrægni af þessum toga í bandarískum fréttaflutningi. Bók hans á erindi til allra, sem hafa áhuga á að kynna sér umræður um innviði bandarískra fjölmiðla og hvernig þeir taka á málum.