2.8.2003

Fliss vinstrisinna vegna Sovétviðskipta – Þórólfur í skjóli R-listans.

Fyrir tveimur vikum tók ég undir með Morgunblaðinu í pistli hér á síðunni, þegar blaðið taldi, að skoða yrði álitaefni í skýrslu samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna í ljósi sögunnar og minnast þess, að í um það bil fjörutíu ár störfuðu þau sem sjálfstæð, einkarekin félög undir opinberu verðlagningarkerfi, sem átti rætur í viðskiptum við Sovétríkin. Minnti ég jafnframt á andstöðu mína við þessa viðskiptahætti og hve illa var við brugðist, þegar þeir voru gagnrýndir opinberlega á sínum tíma.

Að ég skyldi hafa áréttað þessa sögulegu staðreynd og leitt líkur að því, að viðskiptahættir til að þóknast Sovétríkjunum hafi mótað viðskiptavenjur og kúltur innan olíufélaganna, hefur orðið ýmsum tilefni til að flissa í fjölmiðlum eins og vinstrisinnar gera gjarnan, þegar rætt er um þá atburði, sem gerðust, á meðan Sovétríkin voru enn við lýði og hópur manna á Íslandi gekk erinda þeirra leynt og ljóst.

Um hásumarið hef ég ekki gefið mér tíma til að halda öllu því saman, sem sagt hefur verið vegna þessarar nærtæku söguskýringar, en ég man þó eftir greinum eftir Ögmund Jónasson, þingmann vinstri/grænna, í Fréttablaðinu og Árna Bergmann, fyrrverandi ritstjóra Þjóðviljans, í DV. Báðir völdu þeir þá leið að telja skírskotun til Sovétviðskiptanna hlægilega og flissuði dálitíð vandræðalega í greinum sínum, eins og þegar menn vita ekki alveg, hvernig þeir eiga að haga sér, þegar sannleikurinn er sagður um einhvern nákominn.

Í sjálfu sér er gleðilegt að stuðla að því, að þeir félagar brosi í gegnum tárin vegna brotthvarfs Sovétríkjanna. Árni Bergmann lifði í þeirri trú og ritaði um það óteljandi greinar og að minnsta kosti eina bók, Miðvikudagar í Moskvu, að Sovétríkin mundu batna í krafti sósíalisma og kommúnisma, þau mundu komast yfir miðvikudaginn og við taka eilífur sunnudagur  - ef ekki bara sífelld verslunarmannahelgi.

Sú skoðun er uppi hjá sumum, að ástæðulaust sé að ræða um Sovétríkin, ill áhrif þeirra eða málflutning talsmanna þeirra á íslenskum stjórnmálavettvangi. Þau séu horfin og komi vonandi aldrei aftur, málsvararnir eigi um nógu sárt að binda, þótt ekki sé verið að strá salti í sárin eða rifja upp orð þeirra og gerðir í þágu hins tapaða málstaðar. Segja má, að þetta sjónarmið hafi almennt verið viðurkennt í opinberum umræðum hér á landi. Við erum á hinn bóginn nokkrir, sem viljum ekki, að farið með þennan þátt í sögu okkar og mannkyns alls á sama hátt og Kremlverjar gerðu á sínum tíma, þegar þeir einfaldlega þurrkuðu óvini sína út af myndum eða breyttu alfræðiorðabókum til að enginn gæti aflað sér vitneskju um þá.

Árni Bergmann vill gera lítið úr söguskýringum vegna viðskiptahátta olíufélaganna, af því að hann bregst enn við á sama hátt og hann gerði á árum áður: að leitast við að sýna á grundvelli svonefndra samanburðarfræða, að ástandið sé í raun alltaf verra hjá þeim, sem gagnrýna Sovétríkin, þótt þú séu  að vísu ekki enn alfullkomin. Ögmundi Jónassyni er illa við, að minnt sé á eðli sovéskra viðskiptahátta og á hvað þeir kalla, vegna þess að hann er talsmaður þess, sem leið undir lok með Sovétríkjunum, að ríkið hafi alla þræði viðskiptalífsins í hendi sér og öll meðul séu leyfileg til að koma einkarekstri fyrir kattarnef.

Eitt er að átta sig á eðli Sovétríkjanna og skilgreina ástæður fyrir falli þeirra, annað að líta til málsvara þeirra á Vesturlöndum og halda málflutningi þeirra til haga. Víða um lönd hefur þetta verið gert í bókum, sem vekja athygli og umtal. Nýlega kom til dæmis út bók í Bandaríkjunum, sem heitir: TREASON, Liberal Treachery from the Cold War to the War on Terrorism – á íslensku: LANDRÁÐ, sviksemi vinstrisinna frá kalda stríðinu til stríðsins við hryðjuverkamenn. Höfundurinn heitir Ann Coulter og útgefandi er Crown Forum í New York.

Þetta er baráttubók, rituð af sannfæringu, þar sem brotnar eru til mergjar fullyrðingar og afhjúpaðir sleggjudómar, sem ganga ljósum logum eins og vofa kommúnismans á sínum tíma. Hinn svokallaði pólitíski rétttrúnaður, sem mótar mjög umræður í stjórnmálum og fjölmiðlum í lýðræðisríkjunum, byggist oft á slíkum fullyrðingum og sleggjudómum, sem eiga uppruna sinn í pólitískum deilum innan Bandaríkjanna eða um stjórnmál í Bandaríkjunum. Gengur Ann Coulter óhikað á hólm við þennan rétttrúnað. Með vísan til þess á bók hennar erindi til annarra en þeirra, sem fjalla um stjórnmál á bandarískum vettvangi.

Miðað við flissið í vinstrisinnum hér, þegar bent er á þá augljósu staðreynd, að venjur í íslenskum olíuviðskiptum mótast af  alþjóðlegum, sovéskum verslunarháttum, mætti ætla, að þeir mundu kafna úr vandræðalegum hlátri við að lesa bókina eftir Ann Coulter. Efa ég ekki, að hún sé úthrópuð kaldhæðnislega af vinstrisinnum í heimalandi sínu.

***

Að setja sig á háan hest gagnvart stjórnmálamönnum í opinberum umræðum er algengt. Þeir eru auðvitað kjörið skotmark, af því að þeir stilla sér upp til endurkjörs á fjögurra ára fresti og minna að því leyti á skotskífur. Vegna umræðna um stöðu Þórólfs Árnasonar borgarstjóra skal á það minnt, að hann er ekki stjórnmálamaður, bauð sig ekki fram og ekki er til þess vitað, að hann ætli að gefa Reykvíkingum kost á að láta í ljós álit sitt á honum í kosningum árið 2006. Þórólfur var ráðinn borgarstjóri af R-listanum vegna mikillar reynslu sinnar af viðskiptalífinu og góðs árangurs á því sviði, eins og R-listafólk hélt fram af miklum þunga við ráðningu hans.

Í orrahríðinni vegna starfa Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í viðskiptalífinu fyrir ESSO hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, sem ræddi í trúnaði um þessi mál við Þórólf, áður en hann varð borgarstjóri, sagt, að Þórólfur hefði ekki orðið borgarstjóri, ef menn hefði órað fyrir orrahríðinni núna á þeim tíma, þegar Þórólfur var valinn. Vísar Ingibjörg Sólrún nú á neikvæðan hátt til reynslu Þórólfs úr viðskiptalífinu, þvert á orð hennar um ágæti reynslunnar, þegar hún kynnti Þórólf sem eftirmann sinn. Í fréttum á Stöð 2 að kvöldi 30. júlí spurði Eva Bergþóra Guðbergsdóttir Ingibjörgu Sólrúnu:

“Hefðirðu vitað það sem þú veist í dag hefðirðu samt mælt með því að hann [Þórólfur] yrði ráðinn í þessa stöðu?”

Ingibjörg Sólrún svaraði:

“Það er önnur saga vegna þess að auðvitað er þessi orrahríð sem hann er að fara í gegnum mun meiri heldur hún væri ella ef hann hefði verið í einhverju öðru starfi. Og ég er ekki viss um að ef Þórólfur hefði sjálfur gert sér grein fyrir því að þetta kynni að kom upp með þessum hætti að þá hefði hann yfirleitt þegið þetta starf. Pólitíkin er grimm og hún er miklu grimmari heldur en ég held að Þórólfur hafi gert sér grein fyrir og hann er úti á miklu bersvæði vegna þess hann er í þessari stöðu. Meira  bersvæði heldur en aðrir þeir sem að um er fjallað í skýrslu samkeppnisstofnunar og ég hugsa að enginn hefði eða menn hefði órað fyrir þessu að þá hefði hvorki hann né aðrir hugað að þessu starfi.”

Þessar sviptingar verða ekki af engu eins og vitað er. Um er að ræða mál, sem flokksbræður þeirra, sem standa að R-listanum vilja sækja af miklum krafti og nota öll meðul ríkisvaldsins af mikilli hörku til þess. R-listinn hefur hins vegar ákveðið að slá skjaldborg um Þórólf Árnason og hefur enginn annar, sem minnst er á í frumskýrslu samkeppnisstofnunar, fengið slíka traustsyfirflýsingu. Það er þess vegna augljóslega orðum aukið, að Þórólfur sé á bersvæði. Áhrifafólk úr þremur ólíkum stjórnmálaflokkum og einn óháður borgarfulltrúi keppist við að lýsa trausti á honum og trú á orð hans og hallmæla þeim þungt, sem draga orð hans í efa.

Að mati þessa fólks ræður úrslitum, að Geir Magnússon, forstjóri ESSO, hefur lýst yfir því, sem allir vissu fyrir, að hann var forstjóri ESSO og bar ábyrgð sem yfirmaður Þórólfs. Í skjóli þessarar yfirlýsingar lýsir Þórólfur  hlutskipti sínu sem millistjórnandi hjá ESSO eins og hermanns í síðari heimsstyrjöldinni,  sem stóð af óhæfuverkum, af því að hann átti ekki annarra kosta völ, auk þess hafi enn verið blautur á bakvið eyrun, 36 ára gamall. Virðist vistin hjá ESSO jafnvel hafa verið ömurlegri en setan í stóli borgarstjóra um þessar mundir.

Thomas Möller, sem gegndi svipaðri stöðu hjá Olís og Þórólfur hjá ESSÓ, hefur horfið tímabundið úr stjórn Símans vegna rannsóknar samkeppnisstofnunar – hann ber ekki fyrir sig, að hafa verið viljalaust verkfæri í höndum annarra. Thomas kýs að skapa frið um hið opinbera stjórnarstarf, sem hann gegnir.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, knúði Þórólf til að ræða hlut sinn opinberlega og kallaði það jafnframt á, að R-listinn varð að gera upp við sig, hvort hann vildi skilja Þórólf eftir á bersvæði. 

Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins 30. júlí leggur fréttamaður þessa spurningu fyrir Þórólf borgarstjóra:

“Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fulltrúi minnihlutans í borgarstjórn, segir hreint út, einmitt í Morgunblaðinu í dag, að það sé sama hvaða útskýringar muni koma frá þér, hann trúi því ekki að þú sért að segja satt og rétt frá. Hverju viltu svara því?”

Þórólfur Árnason svarar:

“Ja ég náttúrulega sko, trúin flytur fjöll og ég ræð ekki við það ef hann trúir einhverju.”

Þetta er skrýtilegt svar, svo að ekki sé meira sagt, Morgunblaðið birti langt viðtal við Þórólf 30.  júlí. Þar sagði hann meðal annars:

"Þegar ég byrjaði í þessu starfi hér, var stokkið á mig á mínum fyrsta degi í starfi og mér þótti það sérkennilegt en sá fljótt að það var það sem tíðkast í stjórnmálum og í opinberri stjórnsýslu."

Þetta er ekki rétt. Á fyrsta borgarráðsfundi, sem Þórólfur sat, 4. febrúar 2003, spurðum við, hvort hann ætlaði að óska eftir úttekt á því, hvað hefði valdið hinni miklu skuldaaukningu hjá Reykjavíkurborg. Þá vildum við vita, hvort borgarstjóri ætlaði að beita sér fyrir því, að snúið væri af braut skuldasöfnunar. Jafnframt vildum við vita, hvort nýr borgarstjóri ætlaði að halda betur á fjármálastjórn borgarinnar en 30% frávik frá áætlunum sýndi.

Í besta lagi er barnaskapur að líkja spyrjendum þessara spurninga við villidýr, sem stökkva á bráð sína. Segja ummælin í Morgunblaðsviðtalinu meira um þann, sem á að svara,  en spyrjendur.  Er óþarft að taka fram, að Þórólfur telur fjármál borgarinnar til fyrirmyndar og gleðst eins og stuðningsmenn hans í R-listanum yfir því, hve tekist hefur að safna miklum skuldum í stjórnartíð þeirra.

Á fyrsta borgarstjórnarfundi sínum réðst Þórólfur að okkur sjálfstæðismönnum fyrir að hafa skýrt frá því, að hann ræddi ekkert við okkur borgarfulltrúa Sjállfstæðisflokksins, áður en hann tók við embætti sínu. Sagðist hann ekki þurfa að spyrja okkur, hverjum hann byði heim til sín! Síðan hafa engin ummæli hans á opinberum vettvangi komið mér á óvart.