19.7.2003

Varnarliðsmaður í gæslu og Sovétáhrif á olíuviðskipti.

Umræður um varnarliðsmanninn og varðhald hans á Keflavíkurflugvelli setti mikinn svip á umræður vikunnar í fjölmiðlum, þar til frásögn af rannsókn Samkeppnisstofnunar á málefnum olíufélaganna náði yfirhöndinni.

Hæstiréttur komst í byrjun vikunnar að þeirri niðurstöðu, að lögsaga í máli varnarliðsmannsins væri hjá ríkissaksóknara og staðfesti á þann hátt réttmæti þeirra sjónarmiða, sem komu fram hjá mér um þann þátt málsins bæði hér á síðunni og í fjölmiðlum.

Umræður í vikunni hafa einkum snúist um það, hvernig gæslu varnarliðsmannsins innan varnarsvæðisins væri háttað. Var það ekki fyrr en síðdegis í gær, föstudag, að Bandaríkjastjórn brást á formlegan hátt við þungri gagnrýni ríkissaksóknara og annarra á fyrstu aðferð sína við að gæta hans. Hefur gæsla varnarliðsmannsins nú verið hert á þann veg, að samkomulag er um framkvæmd hennar á milli utanríkisráðuneytisins og bandaríska sendiráðsins. Utanríkisráðuneytið fer með lögsögu af hálfu íslenskra stjórnvalda á varnarsvæðunum.

Áður en þetta samkomulag tókst um framkvæmd á gæslu mannsins á varnarsvæðinu, lá fyrir samkomulag milli utanríkisráðuneytisins og varnarliðsins um að unnt yrði að yfirheyra þá menn aðra í varnarliðinu, sem íslensk lögregla telur nauðsynlegt, til að upplýsa hnífstungumálið í Hafnarstræti.

Reynsla af málum af þessum toga er sem betur fer ekki mikil í síðari tíð innan stjórnkerfis Íslands og Bandaríkjanna. Aukið ferðafrelsi varnarliðsmanna í landinu kann á hinn bóginn að kalla á fleiri álitaefni og árekstra en áður. Er mikilvægt, að menn skoði vel fordæmi frá fyrri tíð, taki mið af þróun þessa máls og átti sig á afdráttarlausu forræði Íslendinga, svo að ekki þurfi á nýjan leik að koma til ágreinings á borð við þann, sem verið hefur fréttaefni undanfarna daga.

Læri menn ekki af sögunni eða hafi fordæmi hennar að leiðarljósi, þurfa þeir oft að fara erfiðari leið að markmiði sínu, en ella hefði verið. Rifjast það upp í tengslum við þetta mál og einnig vegna umræðnanna um skort á samkeppni milli olíufélaganna eða samráð þeirra um verð.

Morgunblaðið minnir á það í leiðara sínum í dag, laugardaginn 19. júlí, hvernig við því var jafnan brugðist á sínum tíma, þegar í ritstjórnargreinum blaðsins var vakið máls á því, að ef til vill væru íslenskir hagsmunir ekki best tryggðir með því að kaupa alla olíu frá Sovétríkjunum. Á þeim tíma var olíuverð í raun ákveðið af opinberum embættismönnum og hlutverk verðlagsstofnunar, forvera samkeppnisstofnunar, var að tryggja, að sama verð væri örugglega hjá öllum, ekki væri nein samkeppni!

Á sínum tíma ritaði ég oftar en einu sinni um þetta mál og lýsti þeirri skoðun minni, að viðskiptahagsmunir þjóðarinnar væru ekki best tryggðir með því að beina öllum olíuviðskiptum við Sovétríkin. Viðbrögðin við slíkum skrifum voru á þann veg, að engu var líkara, en ég hefði gerst sekur um landráð. Í fjölmiðlum voru andmæli hörðust í Tímanum sáluga, en Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) átti mikið undir Sovétviðskiptum ekki síður en olíufélögin, auk þess að ráða ferðinni í ESSO.

Röksemdirnar voru einfaldar: með því að gagnrýna Sovétviðskiptin og kaup olíu af Sovétmönnum væri verið að spilla fyrir því, að við gætum flutt út fisk og iðnaðarvörur til Sovétríkjanna. Sérstaklega voru talsmenn síldarsölu til Sovétríkjanna snöggir upp á lagið.

Með vísan til viðskiptanna fjölguðu Sovétmenn stöðugt í sendiráði sínu og alkunna var, að stór hluti starfsmanna í sovéskum sendiráðum stunduðu njósnir. Viðskiptin ollu því, að gagnrýni á þessa útþenslu sendiráðsins, var einnig talin andstæð íslenskum hagsmunum. Ekki var fyrr stigið á skott Sovétvaldsins við Garðastræti en það urraði í utanríkisráðuneytinu eða viðskiptaráðuneytinu og viðmælendur þeirra meðal embættismanna sögðu þjóðarhagsmuni í húfi, ef ekki yrði dregið úr gagnrýninni.

Olíufélögin störfuðu í þessu umhverfi og einnig stóru fiskútflutningsfyrirtækin. Miðað við þau orð, sem þá féllu um mikilvægi Sovétviðskiptanna, er undarlegt að áhrif hruns Sovétríkjanna á íslenskt efnahags- og atvinnulíf skuli hafa ekki orðið meiri en varð á sínum tíma.

Ef marka má skýringar þeirra, sem þekkja til olíuviðskipta af eigin raun, eru olíufélögin nú að súpa seyðið af því, að hafa ekki á markvissan og skipulegan hátt horfið frá viðskiptaháttum Sovéttímans í íslenskum olíuviðskiptum. Aðrir guldu þessara viðskipta á þann veg að framleiða vöru fyrir kröfulítinn markað, þar sem stjórnarerindrekar ákváðu hvað keypt skyldi, án tillits til krafna markaðarins. Bitnaði þetta til dæmis á iðnaðarframleiðslu á vegum SÍS á Akureyri.

Saga Sovétviðskiptanna er ekki síður merkileg í íslenskri verslunarsögu en saga hafta og skömmtunar. Skýringin á því, hvers vegna Íslendingar sömdu við Sovétmenn um olíukaup á sínum tíma, byggist á skýrri pólitískri hagsmunagæslu til að koma sjávarafurðum í verð. Á hinn bóginn er erfiðara að skýra, hvers vegna gætti svo mikillar tregðu til að laga viðskiptin að nýjum háttum, til dæmis eftir aðild Íslands að EFTA árið 1970, og hvers vegna öllum umræðum um nauðsyn breytinga á viðskiptunum var tekið af óvild bæði innan stjórnkerfisins og á vettvangi viðskiptalífsins, eftir að frelsi var orðið að leiðarljósi í alþjóðaviðskiptum.