13.7.2003

Varnarliðsmaður og vanþekking á varnarmálum.

Umræður síðustu daga um stöðu bandaríska hermannsins, sem handtekinn var vegna hnífstungu í Hafnarstræti í Reykjavík að morgni 1. júní, snerta í senn samskipti íslenskra stjórnvalda og bandarískra á grundvelli varnarsamningsins og innbyrðis valdmörk íslenskra stjórnvalda.

Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins kemur fram fyrir hönd íslenska ríkisins í málum sem þessum. Eftir að hermaðurinn var handtekinn af bandarískri lögreglu var hann afhentur lögreglunni í Reykjavík. Hún yfirheyrði manninn og lauk rannsókn hennar 8. júlí og ákvað ríkissaksóknari, að ákæra yrði gefin út á hendur manninum. Hinn 9. júlí rann út gæsluvarðhald mannsins og fór ríkissaksóknari fram á framhald þess og féll úrskurður á þann veg í héraðsdómi þann dag og hefur honum verið skotið til hæstaréttar.

Að kvöldi föstudagsins 11. júlí var ákveðið að maðurinn yrði fluttur úr íslensku varðhaldsfangelsi í hendur lögreglu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Breytti þessi ákvörðun engu um lögsögu í málinu.

Bandarísk yfirvöld óskuðu eftir að fá manninn framseldan og lögsögu í máli hans. Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sendi frá sér bréf til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins mánudaginn 7. júlí og barst það til fjölmiðla, áður en viðtakandi bréfsins hafði tök á að kynna sér efni þess.

Utanríkisráðuneytið taldi, að á þess valdi væri að ákveða, hvort lögsaga málsins væri í íslenskum höndum eða ekki. Leiddi það af varnarsamningnum og ákvæðum í reglugerð um stjórnarráðið. Taldi ráðuneytið málið ekki hafa „sérstaka þýðingu fyrir Ísland og að framselja beri lögsögu í málinu til bandarískra stjórnvalda eins fljótt og kostur er.“ Segir í bréfinu, að utanríkisráðuneytið hafi sent dómsmálaráðuneytinu beiðni um framsal mannsins og hafi dómsmálaráðuneytið framsent hana til ríkissaksóknara, sem hafi í bréfi hinn 30. júní sagt, að hann teldi ekki efni til að verða við beiðni varnarliðsins um lögsögu í málinu. Segir utanríkisráðuneytið, að þessi málsmeðferð hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti og ríkissaksóknara hafi valdið „utanríkisráðuneytinu áhyggjum í ljósi þess að ótvíræðar lagaheimildir fela öll mál sem tengjast framkvæmd varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna í hendur utanríkisráðherra.“

Ég hef lýst afstöðu minni til málsins á þann veg í fjölmiðlum, að samskipti við varnarliðið af hálfu íslenska ríkisins séu í höndum utanríkisráðuneytisins en við framkvæmd valds síns sé ráðuneytið bundið af sömu lögum og önnur íslensk stjórnvöld, þess vegna beri utanríkisráðuneytinu að virða vald ríkissaksóknara til að ákveða lögsögu og framsal í þessu máli. Ríkissaksóknari sé á hinn bóginn bundinn af alþjóðlegum skuldbindingum eins og önnur íslensk stjórnvöld og hann verði að leggja mat á þá hagsmuni, sem eru í húfi í þessu máli eins og öðrum, og taka ákvarðanir í ljósi þess, sem fyrir hann er lagt bæði um inntak afbrots og þeirra alþjóðasamninga, sem Ísland hefur gert.

Telji utanríkisráðuneytið ákæruvaldið í höndum utanríkisráðherra er um misskilning að ræða.  Fráleitt er að draga þá ályktun af þessu máli, að breyta eigi lögum um ákæruvaldið og veita utanríkisráðherra meira vald en dómsmálaráðherra hefur.

Hugmyndir um slíkt ganga þvert á sjónarmiðin að baki sjálfstæði ákæruvaldsins, sem kom til sögunnar árið 1962. Var einmitt lögð rík áhersla á þá meginröksemd þá, að tryggja yrði sjálfstæði ríkissaksóknara gagnvart pólitískum þrýstingi og skapa honum starfsaðstæður í samræmi  við það. Röksemdir á þann veg,  að vegna pólitísks þrýstings frá Bandaríkjastjórn verði að búa þannig um hnúta, að hún eigi síðasta orðið í málum sem þessum, eru einfaldlega marklausar.

Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands, spurði í Speglinum á RÚV 8. júlí, hvenær Ísland ætti að hafa lögsögu, ef ekki í því máli, sem hér um ræðir og hvaða mál það yrði þá, sem Bandaríkjamenn gætu ekki heimtað til sín lögsögu yfir, þegar þeim sýndist. Hann bætti við: „Ég sé ekki hvað það ætti að vera og ég held að hér fyrr á tíð að það megi alveg segja það með sanngirni að bæði bandarísk og íslensk stjórnvöld hafi yfirleitt verið mjög sanngjörn og samstarfsfús. En það var líka virt þá til fullnustu þær meginreglur sem að varnarsamningurinn og viðbótarsamningurinn við hann segja til um en ekki þannig að því sé öllu snúið á haus og meginreglan er orðin sú eins og virðist vera núna meiningin hjá Bandaríkjamönnum að þeir hafi lögsögu þegar þeim sýnist.“

Kjarni málsins er sá, að lögsagan er í höndum íslenskra stjórnvalda og í þessu máli hjá ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari er að sjálfsögðu bundinn af alþjóðasamningum eins og önnur íslensk stjórnvöld, en hann hefur sjálfstætt mat um efni samninganna.  Hann ákveður, hvort maðurinn verður framseldur, hvorki utanríkisráðuneytið né Bandaríkjamenn grípa fram fyrir hendur hans. Saksóknari getur auðvitað enn komist að þeirri niðurstöðu, að maðurinn skuli framseldur.

                                       ***

Ýmsir hafa reynt fyrir sér í umræðum um varnarmálin í tilefni af þessu máli og varnarmálaviðræðunum við Bandaríkjamenn. Fyrir þann, sem lengi hefur tekið þátt í þessum umræðum á opinberum vettvangi, er forvitnilegt að sjá, hvernig nýliðar í umræðunun nálgast viðfangsefnið. Einn þeirra er Dagur B. Eggertsson, óháður borgarfulltrúi innan R-listans, sem skrifar grein í Fréttablaðið laugardaginn 12. júlí undir fyrirsögninni: Goðsagnir kalda stríðsins.

Degi er ekki efst í huga í grein sinni að hafa það, sem sannara reynist, til dæmis þegar hann vísar til Vals Ingimundarsonar þeirri staðhæfingu sinni til réttlætingar, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi gengið harðast fram í því,  þegar að kreppti í efnahagsmálum að veifa Rússaviðskiptum framan í bandalagsþjóðir til að ná viðlíka viðskiptasamningum við þær.

Skýrasta dæmið um tilraun til að nota varnarsamninginn til efnahagslegs ávinnings er að finna í tíð fyrstu vinstri stjórnarinnar, 1956 til 1958, en þau hrossakaup öll hefur Valur rakið í bókum sínum. Síðan gerist það í tíð annarrar vinstri stjórnarinnar 1971 til 1974, að enn er stefnt að brottför varnarliðsins og síðan tekið til við að versla um brottförina við Bandaríkjastjórn meðal annars með því að blanda 50 mílna landhelgisdeilunni í málið.

Rússaviðskiptin hófust á samningsbundinn hátt, þegar sjálfstæðismenn sátu í ríkisstjórn og svöruðu löndunarbanni Breta vegna landhelgisdeilunnar 1952 með því að gera viðskiptasamning við Rússa árið 1953,

Dagur gefur sér einnig þá forsendu, að sérstakt trúnaðarsamband hafi verið milli Bandaríkjastjórnar og forystu Sjálfstæðisflokksins og það hafi án efa, eins og hann segir, „verið ein af styrkustu stoðunum undir stöðu Sjálfstæðisflokksins sem kjölfestu í íslenskum stjórnmálum.“

Þetta er undarleg ályktun í ljósi þess, að um áratugi var þetta helsti áróður andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í því skyni að veikja flokkinn. Töldu þessir menn, að gögn í þjóðskjalasafni Bandaríkjanna mundu, þegar fram liðu stundir. sanna staðhæfingar þeirra um óeðlilegt samband forystumanna Sjálfstæðisflokksins við bandaríska ráðamenn. Nú á það að hafa verið helsti styrkleiki flokksins, að hafa haft trúnaðarsamband við Bandaríkjastjórn! 

Hvorki rannsóknir Vals Ingimundarsonar né annarra hafa staðfest neitt trúnaðarsamband Bandaríkjastjórnar við forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Þær  hafa hins vegar sýnt, að þeir stóðu vörð um hagsmuni Íslands á málefnalegum forsendum og skipuðu sér óhikað í sveit þeirra manna, sem vildu snúast til varnar gegn ógninni af Moskvuvaldinu og heimskommúnismanum. Að þessu leyti áttu þeir samleið með öðrum frjálshuga forystumönnum austan hafs og vestan. Sú staðfesta vakti traust íslensku þjóðarinnar í þeirra garð.

Er í sjálfu sér ekki einkennilegt, að Dagur, sem treystir sér ekki til þátttöku í stjórnmálum á grundvelli hugsjóna í nafni stjórnmálaflokks eða hugmyndafræði, skuli líta fram hjá þessum grundvallarþætti í umfjöllun um varnarmál og stöðu Sjálfstæðisflokksins. Dagur telur greinilega, að stjórnmálastarf byggist á trúnaðarsambandi við valdamenn, hvort sem það er innan lands eða utan. Hans stjórnmálaferill byggist á því að vera einskonar fylgihnöttur með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og fara kollhnísa með henni, eins og dæmin sanna.

Trúnaðarsamband íslenskra stjórnmálamanna við stjórnmálamenn annarra landa getur verið á ýmsan hátt.  Jafnaðarmenn líta þannig á, að þeir séu í sama flokki, þótt landamæri skilji. Samfylkingin ræktar nú þessi tengsl og Ingibjörg Sólrún, talsmaður hennar, hefur skýrt fyrir hlustendum RÚV-frétta, að leiðtogafundur “þriðju leiðarinnar”, sem hún sat í London með Kristrúnu Heimisdóttur snúist ekki um innan-flokks-átök í breska Verkmannaflokknum vegna trúnaðarbrests gagnvart Tony Blair.  Bill Clinton flutti setningarræðuna á þessum fundi. Þátttaka í fundum sem þessum byggist á því, að um pólítískan samhljóm sé að ræða og samstöðu á hugsjónalegum forsendum. Þetta pólitíska samband jafnaðarmanna er annars eðlis en tengsl Sjálfstæðisflokksins við stjórnmálaflokka í öðrum löndum.

Í grein sinni í Fréttablaðinu býr Dagur B. Eggertsson fyrst til goðsögn um trúnaðarsamband sjálfstæðismanna við Bandaríkjamenn og segir síðan, að goðsögnin hafi gufað upp í varnarmálaviðræðunum síðustu vikur, þar sem ekki nógu háttsettir menn, að hans mati, hafi komið hingað til viðræðna um inntak varnarsamningsins. „Hið sérstaka samand heyrir sögunni til,“ er ályktun Dags af eigin söguskýringu – forsætisráðherra hafi ekki náð eyrum Bandaríkjaforseta – en Dagur sleppir því einfaldlega, að viðræðurnar byggjast nú á bréfum Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra. Þeir hafa skipst á orðsendingum, sem móta ramma viðræðnanna.

Í síðari hluta greinarinnar segir Dagur, að Atlantshafsbandalagið hafi veikst síðan 1994 en Evrópusambandið styrkst og á þá væntanlega við hernaðarlega þáttinn. Þessi fullyrðing byggist á vanþekkingu á umræðum um hernaðarleg málefni síðustu ár og reynslu manna af átökunum i Júgóslavíu sem var. Þróunin hefur verið sú, að Bandaríkin, forysturíki Atlantshafsbandalagsins, hafa styrkst ótrúlega mikið undanfarin ár en Evrópusambandið á við ramman reip að draga og bilið milli þess og getu Bandaríkjanna heldur áfram að breikka.

Dagur fullyrðir, að árið 1993 hafi verið leynd yfir viðræðum um varnarmál við Bandaríkjamenn að sérstakri beiðni þeirra.  Ég var  þá formaður utanríkismálanefndar alþingis og tók einnig þátt í störfum sérstakrar nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar til að gera úttekt og tillögur um stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum eftir hrun Sovétríkjanna. Að Bandaríkjamenn hafi óskað sérstakrar leyndar þá kemur mér á óvart. Eðli málsins samkvæmt þykir samningamönnum, hvort sem um er að ræða samninga milli ríkisstjórna eða einstaklinga, mikils virði, að ekki sé verið að ræða viðkvæm umræðuefni opinberlega, á meðan þau eru á samningsstigi, hvort heldur samið er  um öryggismál eða eitthvað annað. Gilti hið sama í þessu efni árið 1993 og nú 10 árum síðar og hefur raunar alltaf gilt, ef menn eru að semja með það að markmiði að komast að niðurstöðu en ekki til málamynda.

Grein Dags B. Eggertssonar um varnar- og öryggismál í Fréttablaðinu 12. júlí sýnir, að hann á að halda sig við efni, sem hann hefur betur á valdi sínu í umræðum á opinberum vettvangi. Alltaf er hættulegt að falla í þá freistni að gera andstæðingum sínum upp skoðanir til að þær hæfi  tilbúnum eigin forsendum.