5.7.2003

Þögnin og afstaða Samfylkingarinnar í varnarmálum

Í blaðinu Suðurfréttum, sem kom út 3. júlí, er sagt frá því, að þriðjudaginn 1. júlí hafi verið rætt um viðræður okkar Íslendinga og Bandaríkjamanna um varnarmál í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Jóhann Geirdal, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórninni, líkti stöðu mála við snjóhengju, sem væri að því komin að falla. Vildi hann, að Samband sveitarfélga á Suðurnesjum (SSS) efndi sem fyrst til fundar um málið. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins sögðust ekki sjá tilganginn með því, þar sem viðræðurnar væru í höndum ríkisstjórnarinnar. Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna og formaður SSS, sagðist treysta ríkisstjórninni í málinu, hann mundi beita sér fyrir fundi um leið og fyrir lægju upplýsingar um efni og niðurstöðu viðræðnanna, eðlilegt væri, að um þær ríkti trúnaður á meðan þær færu fram.

Umræðurnar í bæjarstjórninni snerust greinilega að öðrum þræði að minnsta kosti um fréttir undanfarið um, að Bandaríkjamenn hefðu tilkynnt forsætisráðherra bréflega 2. maí, að herþotur og björgunarþyrlur yrðu kvaddar frá Keflavík mánuði síðar. Hafa stjórnarandstæðingar látið sem það kynni að hafa leitt til meira fylgis við þá í kosningunum 10. maí, ef frá þessu hefði verið skýrt.

Eftir Árna Sigfússyni, Sjálfstæðisflokki og bæjarstjóra í Reykjanesbæ, er

þetta haft í Suðurfréttum: “Það hlýtur að hafa verið gríðarleg freisting fyrir Sjálfstæðsiflokk og Framsóknarflokk að upplýsa um vilja varnarmálaráðuneytsins [bandaríska] í kosningavikunni ef það er rétt að stjórnvöld fengu slíkt bréf þá. Að geyma bréfið var mjög ábyrgt og í hag Samfylkingarinnar.” Máli sínu til stuðnings vísaði hann til þess, að Margrét Frímannsdóttir, fyrsti maður á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, væri gamall herstöðvaandstæðingur og einnig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi forsætisráðherraefni hennar.

Jóhann Geirdal, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, var í Alþýðubandalaginu á sínum tíma og barðist fyrir brottför varnarliðsins undir merkjum þess. Á fyrrgreindum bæjarstjórnarfundi sagði Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, að sögn Suðurfrétta: "Óvinurinn er farinn, staðan er breytt í heiminum frá því sem áður var, en ég vona, að varnarliðið verði hér áfram.”

Katrín Jakobsdóttir, kosningastjóri vinstri/grænna í Reykjavík í þingkosningunum og varaborgarfulltrúi R-listans, ræðir um varnarmálin í Morgunblaðinu í dag, laugardaginn 5. júlí. Er tilgangur hennar að árétta, að ekki sé unnt að setja vinstri/græna og Samfylkinguna undir sama hatt í varnarmálum. Telur hún mig hafa leitast við að gera það í Morgunblaðsgrein 1. júlí, þegar ég vakti máls á því, að í forystusveit Samfylkingarinnar væru nú einstaklingar, sem hefðu lagt herstöðvaandstæðingum lið, á meðan þeiri voru og hétu. 

Fleiri en ég hafa velt fyrir sér, hver sé stefna Samfylkingarinnar í varnarmálunum, eftir að Guðmundur Árni Stefánsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir töldu það þjóna hagsmunum flokksins að þyrla upp pólitísku moldviðri yfir þeim samtölum, sem voru á milli Bandaríkjamanna og íslenskra ráðherra skömmu fyrir kosningar. Eru þau sama sinnis og Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ? Ef marka má ræður Ingibjargar Sólrúnar á kosningafundum í vor var hún þeirrar skoðunar þá, að varnarsamningurinn væri ekki lengur í gildi og þess yrði skammt að bíða, að Keflavíkurflugvöllur tæki við af Reykjavíkurflugvelli sem innanlandsflugvöllur.

Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 15. mars síðastliðinn sagði ég frá skoðunum Ingibjargar Sólrúnar á grundvelli frétta úr kosningabaráttunni:

“Á dögunum fékk ég fyrirspurn frá jafnaðarmanni, sem hafði verið á Samfylkingarfundi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Reykjanesbæ. Hún teldi varnarsamninginn ekki lengur í gildi og áréttaði, að hún hefði verið herstöðvaandstæðingur. Bað hann mig að skýra stöðu samskiptanna við Bandaríkjamenn fyrir sér, því að málflutningur Ingibjargar Sólrúnar hafði greinilega vakið fleiri spurningar en svör,

Frásögn Morgunblaðsins í gær af ræðu Ingibjargar Sólrúnar á Höfn í Hornafirði segir okkur, að hún búist við því, að ekki líði á löngu, þar til Íslendingar taki við stjórn Keflavíkurflugvallar af Bandaríkjamönnum og þá verði Reykjavíkurflugvelli lokað. Hvaða viðhorf til varnar- og öryggismála Íslendinga felst í þessum orðum?”

Ástæða er til að ítreka þessa spurningu eftir umræður síðustu daga. Barnalegt er af fréttamönnum Stöðvar 2 að láta í veðri vaka, eins og þeir hafa gert í tilefni af Morgunblaðsgrein minni hinn 1.júlí, að í því felist einhver ný og áður ókunn sannindi, að starfsmenn bandaríska sendiráðsins ræði við stjórnmálamenn úr stjórnarandstöðunni í aðdraganda þingkosninga eins og stjórnarsinna. Það er beinlínis skylda þessara sendiráðsmanna að kynna sér strauma og stefnur í stjórnmálum og rækta í því sambandi tengsl við sem flesta. Ætli sendiráðsmennirnir hafi ekki verið svipaðrar skoðunar og allir aðrir, að mjótt yrði á munum milli stjórnar og stjórnarandstöðu og því allt í óvissu um stjórnarsamstarf að kosningum loknum? Þeir hafa einnig metið afstöðu manna og flokka á grundvelli þeirra skoðana, sem birtust í kosningarbaráttunni.

Þarf nokkur að fara í grafgötur um það, að Samfylkingarstjórn undir forsæti Ingibjargar Sólrúnar hefði tekið öðru vísi á varnarmálunum og samstarfi við Bandaríkjastjórn en ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar? Davíð hefur aldrei talað um varnarmál Íslands á jafn ábyrgðarlausan hátt og Ingibjörg Sólrún eða af jafn miklu þekkingarleysi.

Í krafti þessarar staðreyndar heldur Árni Sigfússon því fram, að Samfylkingunni hafi verið gerður greiði með þögn ríkisstjórnarinnar um skilaboðin frá Bandaríkjastjórn rétt fyrir kjördag 10. maí í vor.

Fyrir kosningar var ekki neinn þrýstingur frá Samfylkingunni í þá veru að krefjast upplýsinga um stöðu mála í samskiptum ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnarmálin. Samfylkingin taldi það þá þjóna hagsmunum sínum að leggja illt til Bandaríkjastjórnar og þó sérstaklega George W. Bush forseta.

Viðræðurnar um varnarmál við Bandaríkjamenn eru á viðkvæmu stigi. Enginn veit enn með vissu, hver verður niðurstaða þeirra. Þegar metin er staðan frá innlendum sjónarhóli er mikilvægt að missa ekki sjónar á þeim mun, sem er á stefnu stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna. Í því efni á að gera ríkar kröfur um skýr svör til þeirra, sem segjast vilja náið varnarsamstarf við Bandaríkjamenn og inntaksríkan varnarsamning til framtíðar, þótt þeir hafi verið á móti þessu samstarfi og samningnum, þegar hann skipti sköpum um afstöðu manna til deilumála kommúnistaríkja og lýðræðisríkja á tímum kalda stríðsins.