27.6.2003

Sauðárkrókskirkja, Saltsjöbaden og varnarmál.

Í vikunni flutti ég fyrstu ræðu mína sem kirkjumálaráðherra og sótti einnig fyrsta norræna ráðherrafund minn sem dómsmálaráðherra. Spurning er, hvort skilja má þannig á milli þessara tveggja embætta, þar sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið er eitt og óskipt. Augljóst er að þeir, sem eiga samskipti við embættið gera það, eftir því hvaða málaflokkar eru til umræðu hverju sinni. Þegar ég var menntamálaráðherra þótti ýmsum á menningarsviðingu við hæfi að nota heitið menningarmálaráðherra, ef svo bar undir, og einnig íþróttamálaráðherra, þegar viðfangsefni lutu að þeim málaflokki.

Hvað sem þessu líður var í senn hátíðlegt og skemmtilegt að vera við vígslu herra Jóns Aðalsteins Baldvinssonar vígslubiskups á Hólum sunnudaginn 22. júní, í yndislegu, björtu veðri og sumarblíðu. Var Hóladómkirkja þéttsetinn og gjallarhorn utan dyra, fyrir þá, sem ekki komust fyrir í kirkjunni.

Við höfðum tíma til þess mánudaginn 23. júní að fara í Hofsós og skoða það, sem gerst hefur í Vesturfarasetrinu síðan við heimsóttum það síðast. Staðfestist enn, að það er rekið af miklum metnaði og áhuga. Skoðuðum við Norður-Dakóta sýninguna og fórum síðan í bókasafnið, þar sem Wincie Jóhannsdóttir tók á móti okkur.

Frá Hofsósi ókum við út í Lónkot og heimsóttum Ólaf Jónsson, sem vinnur að því að skapa þar einstæðar aðstæður til að njóta náttúru, krása og kúnstar með fjölskyldu sinni. Var fróðlegt og uppörvandi að fara í fylgd hans um staðinn og kynnast áhuga hans á því að nýta hann sem best.

Við dvöldum þennan mánudag ekki í Skagafirði til að njóta þess að vera ferðamenn heldur til að taka þátt í setningu prestastefnu, sem hófst klukkan 17.00 í Sauðárkrókskirkju. Kom það í minn hlut að flytja þar ávarp, eftir að herra Karl Sigurbjörnsson biskup hafði sett stefnuna með ítarlegri og merkilegri ræðu um stöðu þjóðkirkjunnar.

Án þess að ég hefði hugmynd um, hvað biskup tæki fyrir í setningarrræðu sinni hafði ég samið ávarp mitt með það í huga að lýsa viðhorfi mínu til stöðu kirkju og kristindóms á líðandi stundu. Féllu sjónarmið okkar biskupsins mjög saman.

Ég ætla ekki að endursegja ávarp mitt, enda er unnt að nálgast það hér á vefsíðunni auk þess, sem þeir, er skrá sig á póstlista minn fá senda tilvísun til þess með þessum pistli. (Innan sviga vil ég geta þess, að ég fæ jákvæð viðbrögð við hinu nýja útliti á póstsendingum mínum. Þeim fjölgar jafnt og þétt, sem skrá sig á listann. Rétt er að láta þess getið að jafn auðvelt er að skrá sig af listanum og á hann. Er það gert með því að fara inn á tengilinn „Áskrift“ efst á vefsíðunni bjorn.is og velja þar til hægri tengil inn á afskráningu.)

Prestar tóku ávarpi mínu vel, ef marka má lófatak þeirra og orð, sem féllu í minn garð í góðviðrinu fyrir utan Sauðarkrókskirkju eftir setningarathöfnina.  Ég kallaði ávarpið: Til heiðurs staðfestunni, vegna þess að kirkjan er sú grunneining í menningu okkar og þjóðlífi, sem stendur á traustasta grunni og þar ættu menn að eiga auðveldast að finna orðum sínum stað og flytja það af festu.

Ég skrifa þennan pistil í háloftunum milli Stokkhólms og Keflavíkur síðdegis föstudaginn 27. júní, þar sem ég nýt þess að vera í góðri umsjá Icelandair og starfsmanna þess. Eins og á útleiðinni hefur allt verið samkvæmt áætlun og virðumst við muna lenda fyrr en ætlað var.

Fundur dómsmálaráðherra Norðurlandanna var haldinn í Saltsjöbaden, sem er í skerjagarðinum rétt utan við Stokkhólm. Vorum við þar í fræðslumiðstöð sænsku samvinnuhreyfingarinnar, sem er einnig leigð sem ráðstefnumiðstöð og stendur nærri Grand Hotel þarna í þessum litla strandbæ. Aðstæður eru eins og best verður á kosið, bæði frá náttúrunnar hendi og til fundarhalda.

Eftir að hafa tekið þátt í fjölmörgum norrænum mennta- og menningarmálaráðherrafundum var nokkur nýlunda að kynnast allt öðrum hefðum á fundi dómsmálaráðherranna. Þar eru menn frekar að skiptast á skoðunum um einstök málefni en að afgreiða úrlausnarefni, sem eru mörg á borðum hinna ráðherranna, þar sem þeir hafa verulegt fjárveitingar- og úthlutunarvald í umboði Norðurlandaráðs.

Viðfangsefni dómsmálaráðherra eru brýn og vaxandi vegna neikvæðu hliðarinnar á alþjóðavæðingunni, sem lýtur að vaxandi glæpastarfsemi milli landa og snýr mjög að því að versla með fólk bæði til að misnota það kynferðislega og einnig til að auðvelda því að setjast að utan ættlands síns.

Fjölgun hælisleitenda vex óðfluga hvarvetna á Norðurlöndum og alls staðar er hugað að úrræðum til að halda uppi góðu og skilvirku eftirliti við komu þeirra til landanna, því að tölfræðin sýnir, að margt af þessu fólki reynir að fara á svig við alþjóðareglur um pólitíska flóttamenn og mannúðarsjónarmið í þágu þeirra. Fyrsti dómurinn hér á landi vegna verslunar með fólk er nýfallinn yfir manni, sem reyndi að koma Kínverjum til búsetu í landinu á fölskum forsendum, en fórnarlömb hans hafa verið send til síns heima.

Danir hafa gripið til nýrra reglna til að sporna við straumi erlendra ríkisborgara í hælis- eða búsetuleit til lands síns og meðal annars breytt lögum á þann veg, að ekki er sjálfgefið, að maki dansks ríkisborgara fái búseturétt í Danmörku. Er þetta gert, því að augljóst var, að sumir höfðu það greinilega að tekjulind að bindast hjúskap við útlendinga.

Á fundinum ræddum við um verslun á fólki en einnig frumvarpið að nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins. Þar er meðal annars gert ráð fyrir breytingu á samstarfi ríkja að refsimálum. Almenn gagnrýni mín á frumvarpið felst í því, að gengið sé of nærri rétti einstakra ríkja til að fara með eigin mál sjálf. Er skrýtið að þessi skerðing á fullveldinu sé talin óhjákvæmileg til að tryggja snurðulaust samstarf ESB-ríkjanna.

Kvöldið áður en ég hélt á ráðherrafundinn eða þriðjudaginn 24. júní var ég í Kastljósumræðum við Ögmund Jónasson, þingmann vinstr/grænna, um varnarmál og viðræðurnar við Bandaríkjamenn, sem fóru fram daginn áður á milli embættismanna ríkjanna.

Við Ögmundur vorum ekki sammála vegna þess að hann er þeirrar skoðunar, að ekki eigi að gera neinar ráðstafanir til að tryggja öryggi þjóðarinnar nema unnt sé að benda á einhvern óvin, sem ógni öryggi hennar. Á tímum kalda stríðsins, þegar auðvelt var að benda á þennan óvin, var Ögmundur hins vegar þeirrar skoðunar, að úr því að óvinurinn væri svona augljós ætti ekki að gera neitt til að tryggja öryggi þjóðarinnar, af því að varnir hennar breyttu henni í skotmark!

Ég hef aldrei getað sett mig í þessi spor, þegar rætt er um öryggismál. Ég sagðist hafa samið við Securitas um að setja öryggiskerfi í hús mitt, af því að ég teldi það skynsamlegt, án þess að ég gæti bent á einhvern á götu úti eða í nágrenni mínu, sem ætlaði að ráðast á hús mitt eða mína. Ég gæti ekki heldur bent á neitt ríki eða aðra, sem hefðu að markmiði að ráðast á Ísland, en í því fælist ekki, að skynsamlegt væri að falla frá öllum ráðstöfunum til að tryggja öryggi þjóðarinnar.

Viðræðurnar við Bandaríkjamenn komust greinilega á nýtt stig með bréfaskiptum þeirra George W. Bush og Davíðs Oddssonar. Þær eru ekki lengur á tæknilegum forsendum heldur er vilji til þess að láta pólitísk viðhorf setja mark sitt á þau tæknilegu úrlausnarefni, sem til umræðu eru.