21.6.2003

R-listinn, rusl í geymslum annarra.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarfulltrúi og varaþingmaður, flutti ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar afmælisdag fomannsins, Össurar Skarphéðinssonar, fimmtudaginn 19. júní, og sagðist ætla að fara í „tiltekt í geymslunni“ eins og hún orðaði það. Umræður vegna orða hennar benda til þess, að hún hafi tekið til við að kasta eigin rusli í geymslur gamalla samstarfsmanna, þeim til nokkurs ama.

Raunar er illkiljanlegt, að Ingibjörg Sólrún telji sér til framdráttar í baráttu til forystu innan Samfylkingarinnar eða til að efla eigið traust hjá kjósendum, að setja enn á ný salt í sár R-listans og snúa síðan bitvopninu.

Á flokkstjórnarfundinum taldi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráleitt að halda því fram að hún hefði gengið á bak orða sinna við kjósendur Reykjavíkurlistans með því að gefa kost á sér til setu í varaþingmannssæti fyrir Samfylkinguna á alþingi. Á hinn bóginn hefði hún ekki séð fyrir hörð viðbrögð framsóknarmanna og vinstri/grænna og þætti sér þau enn einkennileg og ósanngjörn. „Það voru … framsóknarmenn og vinstri/grænir sem tóku þá ákvörðun að ég yrði að standa upp úr stóli borgarstjóra til þess að samstarf Reykjavíkurlistans héldi áfram. Það er bæði pólitísk og söguleg staðreynd sem ég mun aldrei sætta mig við að verði skrumskæld eða snúið upp í andhverfu sína,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagðist draga í efa, að aðgerðir, sem framsóknarmenn og vinstri/grænir gripu til í desember, hefðu verið í samræmi við vilja almennra flokksmanna og kjósenda R-listans. Og bætti við að lokum:Ég skal hins vegar viðurkenna að ég sá ekki fyrir þessi hörðu viðbrögð samstarfsflokka okkar í Reykjavíkurlistanum gagnvart því að ég settist á varamannabekk í þingflokki Samfylkingarinnar og mér finnst þau ennþá vera bæði einkennileg og ósanngjörn. Þetta var tiltektin í geymslunni.“

Tiltekt Ingibjargar Sólrúnar geymslu sinni felst í því að kasta R-lista ruslinu í geymslur annarra, til að þeir sitji uppi með skömmina.  Þörfin fyrir að þvo eigin hendur er svo rík, að enn á ný stofnar Ingibjörg Sólrún  til umræðna meðal forystumanna R-listaflokkanna um viðskilnað sinn og augljós svik við kjósendur R-listans.Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa.

Alfreð Þorsteinsson, forystumaður framsóknarmanna í R-listanum, segir í Morgunblaðinu 21. júní yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar um samstarfsflokka Samfylkingarinnar í R-listanum afar óheppilega og „stílbrot á þeim samskiptavenjum sem ríkt hafa milli þessara samstarfsaðila.“ Í kvöldfréttum Stöðvar 2 föstudaginn 20. júní sagði Alfreð Ingibjörgu Sólrúnu hafa verið með hnútukast í garð samstarfsflokka sinna í Reykjavíkurlistanum „með þeim hætti að mér finnst þetta vera svona hálfgerður trúnaðarbrestur á ferðinni, ég verð að segja það alveg eins og er.“

Árni Þór Sigurðsson, forystumaður vinstri/grænna innan R-listans, telur orð Ingibjargar Sólrúnar ekki til þess fallin „að efla liðsheildina innan Reykjavíkurlistans,“ eins og hann orðar það í Morgunblaðinu 21. júní. Borgarfulltrúar R-listans hafi borið saman bækur sínar, „Menn eru ekki sáttir við að það sé verið að gefa svona yfirlýsingar,“ sagði Árni Þór einnig við Morgunblaðið. Í kvöldfréttum sjónvarpsins 20. júní voru viðbrögð Árna Þórs við uppgjöri Ingibjargar Sólrúnar þessi: „Ég ætla ekkert að hafa nein orð um það önnur en þau að það er alla vegana ekki komið að tiltekt í minni geymslu í þessu sambandi.“

Björn Ingi Hrafnsson, sem er í skipulags- og byggingarnefnd fyrir R-listann og varaþingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík-suður, gagnrýnir söguskoðun Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðsgrein 21. júní. Hún hafi auðvitað sjálf kosið að stíga úr stóli borgarstjóra með því að gefa kost á sér á lista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningar. Henni hafi hvorki verið þröngvað til eins né neins heldur tekið flokkshagsmuni Samfylkingarinnar fram yfir fyrirheit sín við samstarfsflokkana, Reykvíkinga og þá ekki síst kjósendur R-listans um að hún hyggðist sitja sem borgarstjóri allt kjörtímabilið. „En þó að ekki hafi spilast jafnvel úr spilunum síðan er hvorki stórmannlegt né skynsamlegt að sprengja upp umræðuna nú með innihaldslitlum upphrópunum og haldlitlum söguskýringum. Allir, þeir sem eitthvað fylgjast með íslenskum stjórnmálum, vita betur,“ sagði Björn Ingi.

Tilraun Ingibjargar Sólrúnar til að láta gamla samstarfsmenn sína í R-listan sitja uppi með ákvörðunina um, að hún hætti sem borgarstjóri, er aðeins önnur hlið hins langvinna dauðastríðs flokkanna. Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvestur-kjördæmi og fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, reyndi að gefa R-listanum náðarhöggið á flokkstjórnarfundinum afmælisdag Össurar. Guðmundur Árni vill ekki, að Samfylkingin bjóði fram lista með öðrum flokkum í sveitarstjórnarkosningunum árið 2006. Það þjóni einfaldlega ekki hagsmunum hennar.

Þessi ummæli hafa brugðið ljósi á átök, sem eru ekki aðeins háð á vettvangi R-listans, heldur einnig innan Samfylkingarinnar. Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, hefur leitast við að gera lítið úr orðum Guðmundar Árna með því að kalla hann „landsmálaspekúlant“ í Morgunblaðsviðtali, R-listamálefni og samstarf séu hafin yfir slíkt, þótt hinn 29. maí hafi Stefán Jón þó séð ástæðu til að nota orðið „rottugang“ um hugsanlegt samstarf félaga sinna innan R-listans við sjálfstæðismenn. Það er sem sagt ýmislegt að finna í R-lista geymslunum!

Hér á þessum síðum hefur um árabil samviskusamlega verið leitast við að segja sögu R-listans og þess, sem hefur verið að gerast á vettvangi hans og við brottför Ingibjargar Sólrúnar úr stóli borgarstjóra sagði ég forsendur samstarfsins brostnar, án þess að vita, að dauðastríðið yrði bæði langvinnt og hatrammt. Taldi um daginn, að bókun Steinunnar Valdísar í borgarstjórn 5. maí, samfylkingarkonu úr R-listanum og formanns borgarstjórnarflokks hans, væri til marks um, að menn vildu gera listann að afturgöngu. Vegna átakanna innan listans nú koma ungir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík saman og segja, að R-listinn muni víst halda áfram, líka eftir næstu kosningar! Það verður að berja áfram á Sjálfstæðisflokknum – eins og Ingibjörg Sólrún varð að bjóða sig fram til þings, þar sem ég gerði það og einnig Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Óskhyggjan í kringum R-listann er ósannfærandi eins og staðhæfingar Dags B. Eggertssonar, handvalins frambjóðanda Ingibjargar Sólrúnar á R-listanum, síðastliðið haust um, að auðvitað mundi hún gegna áfram störfum borgarstjóra til 2006 en ekki bjóða sig fram til alþingis. 

Ingibjörg Sólrún kvaddi Kvennalistann í rúst og rusli, eftir að hann hafði gagnast henni sem pólitískur stökkpallur inn í R-listann, sem nú hefur kastað henni í fremstu röð samfylkingarmanna. Spurningin í hennar huga er ekki hvort heldur hvenær hún nælir sér í þá vegtyllu innan Samfylkingarinnar, sem hún telur sér við hæfi, eða eins og hún sagði á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir afmælisfagnað Össurar og Árnýjar Sveinbjörnsdóttur, mágkonu sinnar: „Það er margt í stöðunni. Spurningin snýst um formennsku, varaformennsku, formennsku í framkvæmdastjórn eða að láta mér nægja að vera formaður í framtíðarnefnd….Ég ætla að nota sumarið í að hugsa. Hins vegar hef ég engan áhuga á því að efna til formannslags í Samfylkingunni, það er ekki það sem hún þarf.“

Ingibjörg Sólrún ætlar að hugsa í sumar, hvaða rúsínu hún eigi að velja úr tebollu Samfylkingarinnar. Tiltektinni gagnvart R-listanum er lokið, hún hefur kastað R-lista ruslinu í fangið á Alfreð og Árna Þór, þeir skulu sko fá að sitja uppi með sökina á því, að hún er ekki áfram borgarstjóri.

Ætli það sé ekki Össuri að kenna, að Ingibjörg Sólrún varð ekki forsætisráðherra? Hann sagði um áramót, að hann væri forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Nokkrum dögum síðar afhenti hann Ingibjörgu Sólrúnu nafnbótina á silfurfati. Hann segist munu verða áfram formaður Samfylkingarinnar eftir landsfundinn í haust. Hvað ætli verði á silfurfatinu, þegar Ingibjörg Sólrún hefur hugsað málið? Hún segist að minnsta kosti ætla að ná formennskunni, án þess að þurfa að slást um hana.

Sagan um völd og átök  heldur áfram……