15.6.2003

Skemmtilegar skólamálaumræður

 

Umræður um skólamál eru jafnan miklar á þessum tíma árs, þegar skólunum er slitið og stjórnendur þeirra ávarpa nemendur, samstarfsfólk og aðra gesti við hátíðleg skólaslit og brautskráningu.

Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, sem er einkarekinn, sagði, að hugmyndafræðin á bakvið skólann hefði „þrælvirkað“. Hann minnti á, að talsverð átök hefðu átt sér stað um grunvallarsjónarmið í rekstri háskólanna og hvaða umgerð þeim væri búin. Þar hefðu línur nokkuð  skorist eftir því hvort skólarnir væru ríkisskólar eða hvort þeir væru reknir sem óháðar sjálfseignarstofnanir. Listaháskólinn hvetti til þess að fjárveitingar hins opinbera til háskólakennslu og rannsókna yrðu stórauknar svo þær yrðu sambærilegar við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar; að fjárveitingar til háskóla tækju mið af fjölda nemenda, gerð náms og stærð viðkomandi deildar ásamt  gæðum og umfangi rannsókna og listsköpunar; og síðast en ekki ættu opinber framlög eigi að vera óháð sértekjum sem skólarnir sjálfir öfluðu sér með öðrum hætti, s.s. með skólagjöldum eða framlögum úr atvinnulífinu. Í þessum efnum ætti Listaháskólinn sér samleið með þeim tveimur öðrum íslenskum háskólum sem reknir væru sem sjálfseignarstofnanir, þ.e. Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum í Bifröst.

Runólfur Ágústsson, rektor á Bifröst, lagði til að farið yrði að fordæmi Dana og ríkisháskólum breytt í sjálfseignarstofnanir og bætti við: „Með slíku fá háskólarnir aukið fjárhagslegt sjálfstæði, þeir munu nýta opinber fjárfamlög betur, skipulag þeirra verður sveigjanlegra og virkara og síðast en ekki síst þá verður samkeppnisstaða háskóla jöfnuð.  Mestu máli skiptir þó að þetta myndi að mínu viti í heild skila okkur betri, hagkvæmari og öflugri háskólum. Hér eigum við Íslendingar að bretta upp ermar og vera óhrædd við breytingar.  Framtíð háskólanna okkar mun ráða framtíð lands og þjóðar.  Þau fjöregg sem háskólarnir eru þjóðinni mega aldrei verða fúlegg hennar.  Í þeim efnum er stöðnun sama og dauði.“

 

Laugardaginn 14. júní vakti ræðan, sem Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, flutti við slit þess skóla athygli, en þar vék hann meðal annars að því, að ríkisháskólarnir tækju höndum saman og yrðu settir undir sömu yfirstjórn með miklu sjálfstæði hver og einn á sínu sviði. Innan Kennaraháskólans er fyrir hendi mikilvæg reynsla af sameiningu skóla, því að árið 1998 tók hann til starfa undir nýjum formerkjum, eftir að fjórir skólar urðu þar að einum, það er Kennaraháskólinn og þrír skólar á framhaldsskólastigi, Þroskaþjálfaskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands og Fóstruskólinn.

 

Aðsókn að Kennaraháskólanum hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár eins og að öllum háskólunum og hefur í raun orðið sprenging á þessu skólastigi. Þegar rætt er um fjárþörf þess, snýst málið um, að innritunarþak skólanna sé hækkað, frá því að um það var samið við menntamálaráðuneytið á sínum tíma. Auk þess hefur verið unnið að því að koma fjárveitingum til rannsókna í samningsbundið form. Að mínu mati á að úthluta rannsóknafé í samkeppni milli háskóladeilda, án tillits til þess við hvaða skóla deildirnar starfa.

 

Skólarnir standa misjafnlega vel að vígi til að takast á við vaxnadi samkeppni og þeir, sem hafa fylgst með skrifum mínum um háskólastigið hér á síðunni, vita, að ég þer þeirrar skoðunar, að ríkisháskólum sé sniðinn of þröngur stakkur, þegar litið er til tekjuöflunar. Óskynsamlegasta leiðin til að bæta stöðu þeirra er að mínu mati, að þrengja að einkaskólunum og draga þannig almennt úr styrk háskólastigsins í heild. Opinber framlög eiga að vera óháð sértekjum skólanna og taka þannig mið af jafnrétti til náms.

 

Ég heyrði Þorstein Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, tala um, að það þrengdi að fjárhag skólans vegna þess að nemendur væru fleiri en við var búist, en hins vegar ætti ekki að mæta þeim vanda með því að leggja aukin gjöld á nemendur. Þetta viðhorf hjá rektorum ríkisrekinna háskóla er á undanhaldi um heim allan. Samkeppni milli skóla leiðir til þess, að ríkisreknir skólar dragast aftur úr hinum, nema hinum ríkireknu sé gefinn kostur á að afla sér tekna á sama hátt og einkareknu skólunum. Síðan sé leitast við að jafna aðstöðumun nemenda með lánum og styrkjum.

 

Vissulega er unnt að berja sér á brjóst og segjast aldrei munu viðurkenna þessa staðreynd og víst skuli vera unnt að halda áfram að reka háskóla á vegum ríkisins, án þess að gjald sé lagt á nemendur vegna kennslukostnaðar. Auðvitað er þetta hægt með auknum opinberum fjárframlögum og hækkun skatta. Á hinn bóginn á ekki að líta á einkarekna háskóla sem ógnun við hina ríkisreknu og þrengja kost þeirra, eins og vinstrisinnar vilja.

 

Umræðurnar um einkareknu grunnskólana í Reykjavík sýna í hnotskurn hvert vinstrimennskan leiðir menn. Leitast er við að búa til formúlur, sem gerir einareknu skólunum færi á að skrimta. Svo er sagt, að þennan vanda megi að einhverju leyti rekja til þess, að það vanti lög um einkarekna grunnskóla. Það eru einmitt engin lög um þá til að tryggja sjálfstæði sveitarfélaga á þessu sviði og gera þeim kleift að láta skólastigið þróast að þessu leyti án annarra afskipta löggjafans en þeim, sem felast í grunnskólalögunum og almennum reglum, námskrám og öðrum opinberum kröfum, sem eru gerðar til skólanna.

 

Grunnskólastigið stendur verst, þegar litið er til samkeppni milli skóla, einkum í Reykjavík. Foreldrar velja hins vegar búsetu í sveitarfélgum eða hverfum eftir mati á gæðum skóla. Ég varð þess var fyrir rúmu ári, þegar við sjálfstæðismenn kynntum þá stefnu fyrir borgarstjórnarkosningarnar, að ýmsum þótti nóg um tal okkar um nauðsyn samkeppni á grunnskólastigi. Við lögðum til að borginni yrði skipt í skólahverfi og foreldrum væri frjálst að velja skóla fyrir barn sitt án tillits til hverfaskiptingar. R-listamenn fundu þessum tillögum allt til foráttu en engu að síður var samþykkt í borgarstjórn að senda þær til umsagnar hjá stjórnkerfisnefnd borgarinnar og þaðan í fræðsluráði og leikskólaráði. Mál af þessu tagi fara með hraða snigilsins innan R-listans og borgarkerfisins en æ fleiri eru að sjá kosti tillagna okkar til að gera grunnskóla borgarinnar enn betri. Og mér heyrðist í fréttum, að Þórólfur Árnason borgarstjóri teldi nú þegar nokkra samkeppni milli grunnskóla borgarinnar.

 

Umræður um auglýsingar framhaldsskóla eftir nemendum hafa dregið athygli að samkeppni milli þeirra. Hún er vaxandi og þar ræður tvennt. Í fyrsta lagi ákvörðun í minni tíð sem menntamálaráðherra um að hætta að skipta landinu í framhaldsskólahverfi – það er að skólunum væri skylt að taka við nemendum í næsta nágrenni sínu og nemendum væri skylt að fara í sinn hverfisskóla. Í öðru lagi ákvörðun, sem einnig var tekin í tíð minni sem menntamálaráðherra, að framhaldsskólarnir sérhæfðu sig meira en áður var og höguðu innritunarskilyrðum sínum í samræmi við það, meðal annars með hliðsjón af því, að ekki væri lengur skylda að gangast undir grunnskólapróf. Loks er þess auðvitað að geta, að fjárveitingum til framhaldsskólanna er nú háttað á þann veg, að þeir fá fé með hverjum nemanda, sem innritar sig til prófs.

 

Það var sérkennilegt að fylgjast með umræðum um það fyrir þingkosningarnar, þegar gefið var til kynna, að deilt hefði verið um samræmd próf í framhaldsskólum á stjórnmálavettvangi. Um nauðsyn þessara prófa var samstaða á alþingi en ég beitti mér fyrir frestun á framkvæmd þeirra, á meðan nýrri námskrá var hrundið í framkvæmd. Nú er því verki lokið og verður samræmt próf í íslensku í fyrsta sinn 3. maí 2004. Prófin eru til þess að fá samræmda mælistiku á innra starf skólanna og ætti það að verða nemendum til hagsbóta á sama hátt og birting niðurstaðna á samræmdum prófum í grunnskólum hefur ýtt undir metnað í skólastarfi. Þá heyrði ég einhvern skólameistara vera að kvarta undan því, að stærðfræðikröfur á félagsfræðibraut væru minni samkvæmt nýju námskránni en hinn gömlu – þetta er rétt. Á hinn bóginn er lögð á það áhersla, að nemendur átti sig á því, að þeir hafa val um meira stærðfræðinám og í mörgum tilvikum er það nauðsynlegt til að þeir njóti sín í námi til dæmis í félagsvísindadeildum háskólanna. Hér eins og endranær er meiri ábyrgð en áður lögð á herðar nemendum. Loks er látið eins og þriggja ára nám til stúdentsprófs sé eitthvert pólitískt deilumál. Það er ekki rétt. Unnið hefur verið að undirbúningi málsins undanfarin misseri og nýja námskráin tekur mið af því, að námið verði stytt í þrjú ár. Hitt er, að ýmsir eru þeirrar skoðunar, að ekki sé endilega skynsamlegt að stytta þetta nám.

 

Raunar er ætlunin að í haust komi Hraðbraut til sögunnar, tveggja ára skóli til stúdentsprófs. Ólafur H. Johnson vann að undirbúningi skólans í tíð minni sem menntamálaráðherra og þegar ég gerði fyrst tillögu um það í fjárlagafrumvarpi, að ætlað yrði fé til skólans, reis samfylkingarfólk upp á afturlappirnar af hneykslan og taldi annað brýnna við fjármunina að gera. Þess vegna er grátbroslegt að lesa þetta í grein í Morgunblaðinu eftir Björgvin G. Sigurðsson, nýkjörinn þingmann Samfylkingarinnar, sem segir 10. júní síðastliðinn: „Það hefur skort á viljann til verka og framsækni af hálfu stjórnvalda. Hraðbrautin mun að sjálfsögðu ýta við stjórnvöldum menntamála í landinu og innan tíðar verður trúlega boðið upp á hraðferð til stúdentsprófs í nokkrum framhaldsskólum landsins.“

 

Hraðbrautin átti undir högg að sækja eins og aðrir einkaskólar hjá Samfylkingunni í opinberum umræðum. Um árabil hef ég oft af mikilli undrun fylgst með opinberu glamri Björgvins G. Sigurðssonar um menntamál þjóðarinnar, allt er þar sagt af yfirlæti en lítilli þekkingu og virðingu fyrir því, sem sannara reynist. Í áfangaskólunum geta framhaldsskólanemar að sjálfsögðu lokið stúdentsprófi á skemmri tíma en 4 árum og gera það margir auk þess sem hinir eru fleiri, sem útskrifast með fleiri einingar en þær 140, sem þarf til stúdentsprófs. Þegar rætt er um lengd framhaldsskólanáms er sjálfsagt að huga einnig að því sjónarmiði, sem fram kom í Morgunblaðsgrein Lárusar H. Bjarnasonar, rektors Menntaskólans við Hamrahlíð, laugardaginn 14. júni, þegar hann sagði: „ Stytting náms til stúdentsprófs kann að líta vel út á yfirborðinu en mestu máli skiptir þó að geta fært rök fyrir því að skólinn ræki hlutverk sitt betur eftir slíka breytingu en áður. Skólar eiga að vera menntastofnanir í besta skilningi þess orðs og hafa þar með víðtækara hlutverk en að bera á borð þekkingarmola í afmörkuðum námsgreinum.“

 

Núna í vor lætur Tryggvi Gíslason af störfum sem skólameistari Menntaskólans á Akureyri (MA) eftir um þriggja áratuga starf við skólann. Tryggvi er eftirminnilegur öllum, sem honum kynnast. Þótti mér ánægjulegt að skiptast á skoðunum við hann um skólamál. Hann segir frá því í Morgunblaðsviðtali vegna brottfarar sinnar úr skólanum, að hann hafi lagt fyrir mig að gera MA að sjálfseignarstofnun en ég hafi reynst minni frjálshyggjumaður en hann framsóknarmaðurinn. Ekki minnist ég sérstaklega ágreinings okkar um þetta efni heldur hitt, hvort fjárlög ættu að setja skólameistara skorður, þótt kröfur væru gerðar til skólastarfs í framhaldsskólalögum. Hélt ég fast við þá túlkun, að fjárlögin ætti að virða, hvað sem öðru liði.

 

Tryggvi sótti fast, að reisa nýja nemendavist sem sjálfseignarstofnun og gekk það eftir, enda þjónaði hún bæði nemendum MA og Verkmenntaskólans á Akureyri. Er notkun byggingarinnar einmitt að hefjast núna. Lögðu margir hart að sér innan stjórnkerfisins til að unnt yrði að ráðast í þessa byggingu og vonandi stendur hún undir væntingum.

 

Þegar ég ritaði um reiknilíkan framhaldsskólanna hér á síðuna fyrir nokkrum mánuðum, fékk ég langt og lært bréf frá Tryggva. Sýndi það mér enn af hve miklum áhuga hann fylgist með því, sem sagt er um skólakerfið.

 

Hugmyndin um að breyta MA í sjálfseignarstofnun er góðra gjalda verð, ef aðrir en ríkið taka að sér að verða bakhjarlar skólans. Að breyta ríkisstofnun í sjálfseignarstofnun í ríkiseigu vakir væntanlega ekki fyrir neinum. Einkaaðilar og sveitarfélög komu að málum, þegar hússtjórnarskólunum að Hallormsstað og í Reykjavík var breytt í sjálfseignastofnanir og síðan hefur ekki verið árleg rimma um það við gerð fjárlaga, hvort loka ætti skólunum eða ekki og veit ég ekki betur en þeir dafni vel á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið. Þá hafa útgerðarmenn og sjómenn ákveðið að taka að sér rekstur Stýrimannaskólans og Vélskóla Íslands og hefst starf þeirra sem einkaskóla núna í haust. Þannig er unnt að standa að því að einkavæða skólakerfið og vonandi bætast fleiri skólar í hóp einkarekinna framhaldsskóla á komandi árum, Verslunarskóli Íslands er þar hin góða fyrirmynd með öflugan bakhjarl í Verslunarráði Íslands.

 

Þróun skólastiganna á aldrei að ljúka og styrkur þeirra ræður miklu um stöðu okkar í samkeppni á milli þjóða. Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, hefur verið óragur við að hreyfa nýmælum um rekstur ríkisháskólanna, hvort heldur litið er til fjármögnunar þeirra eða samstarfs. Almennu háskólalögin voru sett árið 1997 og síðan lög fyrir hvern ríkisháskólanna á grundvelli þeirra, síðast fyrir Tækniháskóla Íslands vorið 2002. Þegar ráðist verður í endurskoðun lagarammans á enn að styrkja innra stjórnkerfi ríkisreknu skólanna og taka mið af því, sem best þykir reynast á alþjóðavísu, því að samkeppnin er alþjóðleg og harðnandi.