9.6.2003

Varnarmálaviðræður á nýtt stig og afturgenginn R-listi

 

Viðræður um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna komust á nýtt stig fimmtudaginn 5. júní, þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittu Elisabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, og aðra fulltrúa Bandaríkjastjórnar á fundi í Ráðherrabústaðnum. Í hópi Bandaríkjamannanna var Ian Brezinski, starfsmaður Pentagon, en faðir hans Zbignew var á sínum tíma öryggisráðgjafi Jimmys Carters Bandaríkjaforseta, á þeim tíma, þegar kalda stríðið stóð sem hæst og mest var rætt um nauðsyn þess að bregðast af festu við vígbúnaði Sovétmanna.

 

Á þeim árum tók Helmut Schmidt, kanslari Þýskalands, á sig mikil pólitísk óþægindi heima fyrir í því skyni að knýja í gegn samþykki fyrir því, að Bandaríkjamenn hefðu nifteindarsprengju í vopnabúrum sínum í V-Þýskalandi. Sprengjunni var með einföldun lýst á þann veg, að hún eyddi fólki en ekki mannvirkjum. Þegar málið virtist komið á beinu brautina í V-Þýskalandi og þess var eins beðið, að Carter gæfi græna ljósið, dró hann allt í einu í land og tilkynnti, að hann væri hættur við öll áform varðandi þessar sprengjur í V-Þýskalandi.

 

Minnist ég þess frá fundum, sem ég sótti á alþjóðavettvangi um öryggismál á þessum árum, hve Helmut Schmidt var misboðið vegna framgöngu Carters og höfðu kanslarinn og samstarfsmenn hans oft á orði, að varasamt gæti verið að treysta Bandaríkjastjórn, þegar teknar væru mikilvægar hernaðarlegar ákvarðanir, sem menn teldu, að byggðust á gagnkvæmu trausti. Bandaríkjamenn litu þannig á, að þeir gætu gengið fram á einhliða forsendum, ef þeim sýndist svo.

 

Svipuðu viðhorfi höfum við Íslendingar raunar kynnst á síðustu tíu árum, þegar rætt hefur verið við fyrirkomulag varna Íslands við fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Áhersla okkar á pólitískt samráð og gagnkvæmni virðist koma Bandaríkjamönnum í opna skjöldu, þótt þeir hafi til þessa áttað sig á nauðsyn slíkra vinnubragða að lokum. Á sínum tíma ræddi Davíð Oddsson varnarmálin við Al Gore, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, og við það skapaðist nauðsynleg pólitísk fótfesta í málinu.

 

Bandaríkjastjórn nálgast oft varnarsamstarfið við okkur Íslendinga á þröngum tæknilegum forsendum og lætur tæknimenn innan Pentagon og einkum flughersins ráða ferðinni. Þeirra hagsmunir byggjast á því að geta sýnt fram á einhverja þætti, sem er erfitt að samræma kröfum íslenskra stjórnvalda um loftvarnir hér á landi. Tæknileg viðhorf eiga vissulega rétt á sér, en þau eiga ekki að ráða ferðinni um úrlausn stjórnmálalegra viðfangsefna og varnarsamningur okkar og Bandaríkjamanna byggist auðvitað á stórpólitískum forsendum, sem tæknimenn eiga ekki að geta spillt.

 

Í fréttum hefur verið sagt frá því, að Elisabeth Jones hafi afhent Davíð Oddssyni bréf frá George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þar með er kominn skýr pólitískur þráður til Hvíta hússins í þessum viðræðum núna og spurning er hvernig unnt er að nýta hann til að sætta ólík sjónarmið í þessu mikilvæga máli. Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna eru sammála um gildi hins tvíhliða varnarsamstarfs. Innihald þess verður að vera á þann veg, að stjórnvöld landanna beggja geti vel við það unað.

 

Afturgenginn R-listi.

Í síðustu viku skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir grein í Fréttablaðið til að sannfæra sjálfa sig og aðra um að R-listinn lifði enn góðu lífi. Birgir Guðmundsson, einn af málsvörum andstæðinga Sjálfstæðiflokksins á fjölmiðlavettvangi og fyrrverandi blaðamaður, ritaði einnig grein í Fréttablaðið í síðustu viku til að árétta, að R-listinn gæti í raun lifað eftir dauðann við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar úr borgarstjórastóli. Því meira sem vinstrisinnar rita ym lifandi kraftinn í R-listanum þeim mun skýara er það í mínum huga, að þetta samstarf er orðið hluti af pólitískri sögu okkar og þess vegna sífellt hættulegra fyrir Reykvíkinga að borg þeirra sé stjórnað undir merkjum þess. Fráleitt er að bera saman ákvörðun mína um að taka sæti í ríkisstjórn, þrátt fyrir að hafa verið kjörinn í borgarstjórn, og afsögn Ingibjargar Sólrúnar úr borgarstjórastóli til misheppnaðrar tilraunar til að komast á þing. Ákvörðun mín leiddi ekki til neins ágreinings innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna en R-listinn logar í svikabrigslum eftir framgöngu Ingibjargar Sólrúnar og síðustu þingkosningar, þegar Samfylkingin gekk freklega á hlut vinstri/grænna, einkum í Reykjavík. Er raunar með ólíkindum, að stjórnmálaflokkur láti slíkt yfir sig ganga, sem vinstri/grænir máttu reyna í kosningabaráttunni.

 

Ég var á fundi dómsmálaráðherra Schengen-ríkjanna í Lúxemborg, þegar borgarstjórnarfundur var haldinn fimmtudaginn 5. júní og gat því ekki tekið þátt í þeim umræðum, sem þá fóru fram. Athygli mína hefur vakið, að við upphaf fundarins sá Steinunn Valdís Óskarsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks R-listans, ástæðu til að lesa sérstaka bókun frá listanum, þar sem sagði meðal annars:

 

“Í framhaldi af umræðum um málefni Reykjavíkurlistans hér á fundinum vill borgarstjórnarflokkur Reykjavíkurlistans taka fram að engar þær breytingar hafa orðið á högum Reykjavíkurlistans sem kalla á endurskoðun málefnasamnings eða samstarfsyfirlýsingar flokkanna þriggja sem að R-listanum standa.  Borgarstjórnarflokkurinn, ásamt með Þórólfi Árnasyni borgarstjóra, er einhuga um að vinna af heilum hug að málefnum Reykjavíkurborgar á þeim samstarfsgrunni sem lagður var fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 enda fékk hann til þess umboð reykvískra kjósenda.”

 

Þetta er óneitanlega sérkennileg bókun og óvenjulegt, að samstarfsflokkar telji sig þurfa að árétta samstöðu sína á þennan hátt. Þótt áhersla sé lög á samstöðu í bókuninni verður hún ekki lesin öðru  vísi en sem veikleikamerki. Afturgenginn R-listi verður ekki til þess að leysa neinn vanda fyrir Reykvíkinga, þótt bókað sé á þennan hátt í borgarstjórn Reykjavíkur í tilefni af því, að við sjálfstæðismenn skiptum með okkur verkum á nýjan hátt.