31.5.2003

Þing kemur saman og oddvitaskipti í borgarstjórnarflokki.

 

Alþingi kom saman til fundar mánudaginn 26. maí og varð upphaf þess óvenjulegt að því leyti, að stjórnarandstaðan sætti sig ekki við niðurstöður kosninganna. Við gagnrýni hennar vaknaði sú hugsun, að einhverjir ræðumanna teldu sig vera að endurlifa atkvæðatalningu í forsetakosningum í Bandaríkjunum.

 

Af hálfu talsmanna frjáslyndra var þess meira að segja krafist, að atkvæðaseðlar yrðu ekki eyðilagðir og gefið til kynna, að þar með fengist tækifæri á grundvelli upplýsingalaga að fá að skoða þá. Í Bandaríkjunum var upplýsingalögum beitt af fjölmiðlum til að komast í atkvæðaseðlana og endurtelja þá, án þess að það skipti að lokum nokkru máli eða breytti neinu.

 

Ég þekki ekki bandaríska kosningalöggjöf eða skyldur þar til upplýsinga en vísaði í umræðunum til kosningalaganna, þegar því var beint til mín sem dómsmálaráðherra að koma í veg fyrir, að atkvæðaseðlarnir yrðu eyðilagðir. Lögin leggja ekki neina skyldu í því efni á herðar dómsmálaráðherra.

 

Í umræðunum sá Halldór Ásgrímsson, sem sat á forsetastóli, þar eð hann hefur lengstan starfsaldur þingmanna, ástæðu til að mælast til þess við Helga Hjörvar, nýorðinn þingmann Samfylkingarinnar, að hann gætti tungu sinnar og sýndi háttsemi við orðaval í ræðustól þingsins. Er líklega einsdæmi, að forseti sjái ástæðu til að veita þingmanni slíka áminningu, þegar hann flytur jómfrúrræðu sína.

 

Ég hef kynnst framgöngu Helga Hjörvars í borgarstjórn Reykjavíkur og oft undrast hinn ósvífna tón, sem hann tileinkar sér í málflutningi. Starfsaldursforseti þingsins kærði sig ekki um, að þessi tónn setti svip sinn á umræður í þingsalnum, enda er hann til þess eins fallinn að færa umræður á lægra plan en menn eiga að venjast á alþingi.

 

Ég heyrði líka í einhverjum útvarpsþætti, að Helgi Hjörvar var að leggja út af oddvitaskiptum okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn á sinn einkennilega hátt. Ekki er þar tekið mið af staðreyndum heldur þráðurinn spunninn á þann veg, sem helst er talinn leiða til ímyndaðs pólitísks ávinnings fyrir andstæðinga okkar sjálfstæðismanna. Ég veit ekki af hvaða stalli Helgi telur sig geta talað um stjórnmál til annarra, þegar haft er í huga, að hann var færður niður eftir framboðslistanum hjá R-listanum og náði ekki neinum sérstökum árangri í prófkjöri Samfylkingarinnar við ákvörðun framboðslista hennar til alþingis. Eigi hann að verða málsvari R-listans í borgarstjórn og Samfylkingarinnar á þingi verður það ekki til þess að hækka risið á þessum framboðum, og var maklegt, að Halldór Ásgrímsson gerði athugasemd við framgöngu hans í jómfrúrræðunni og athyglisvert, að samherjar Helga tóku lítt eða alls ekki upp hanskann fyrir hann, enda líklega þótt nóg um sjálfum.

 

Við sjálfstæðismenn í borgarstjórn komum saman síðdegis miðvikudaginn 28. maí og ákváðum, hvernig við skyldi brugðist í tilefni af því, að ég taldi ekki falla saman að gegna embætti dóms- og kirkjumálaráðherra og vera oddviti borgarstjórnarflokksins. Mikil samstaða hefur skapast innan hóps okkar og var hún enn staðfest á þessum fundi, því að einróma og með lófataki var samþykkt, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tæki við af mér sem oddviti. Hanna Birna Kristjánsdóttir færi í borgarráð, Guðrún Ebba Ólafsdóttir í stjórnkerfisnefnd, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Guðlaugur Þór Þórðarson í stjórn skipulagssjóðs, svo að hið helsta sé talið.

 

Ég er stoltur af þessu samstarfsfólki mínu og þakklátur fyrir það traust, sem það hefur sýnt mér og ég er viss um, að það mun sýna Vilhjálmi, sem er vel að forystunni kominn vegna yfirburðaþekkingar sinnar á málefnum Reykjavíkurborgar og sveitarstjórnarmálum almennt. Ég ætla að sitja áfram í borgarstjórninni. Er grátbroslegt að fylgjast með því, hvernig sumir halda áfram að reyna að bera í bætifláka fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og svik hennar við R-listann með því að líkja ákvörðun minni við gjörning hennar. [Við kjör í stjórnir og ráð á alþingi var Ingibjörg Sólrún að eigin ósk kjörin í bankaráð Seðlabanka Íslands, þótt Samfylkingin hafi lengi flaggað því að þingmenn eða forystumenn í stjórnmálum ættu ekki heima í stjórnum fjármálastofnana.]

 

 

Eftir að einróma niðurstaða okkar sjálfstæðismanna var kynnt þótti mér forvitnilegt að fylgjast með því, sem fulltrúar annarra flokka í borgarstjórn sögðu og hve samdóma fréttamenn virtust vera í því mati sínu, að brestirnir í R-listanum yrðu sífellt skýrari. Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra og óháðra taldi í sjónvarpsfréttum klukkan 22.00 miðvikudaginn 28. maí ekki ólíklegt, að nýr meirihluti í borginni liti dagsins ljós síðar í sumar eða haust. Hann sagði orðrétt:

„Það kæmi mér alls ekki á óvart. Vilhjálmur þekkir marga borgarfulltrúa vel, bæði menn innan R-listans, ég hef líka lengi átt gott samstarf við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, og það kæmi mér ekkert á óvart þó að Sjálfstæðisflokkur, hugsanlega með frjálslyndum og broti úr R-listanum, gæti myndað nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og eins og staðan er núna þá er slík valdþreyta farin að gera vart við sig hjá R-listanum að ég held það væri gott fyrir borgarbúa að tekið yrði á því máli já og skoðað hvort það sé möguleiki  á nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.“

Í sjónvarpsfréttum að kvöldi 29. maí var rætt við Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúa úr Samfylkingunni. Hann sagði, þegar hann var spurður, hvort hann hefði trú á að það væri  hluti af ríkisstjórnarkapli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins að þeir tækju líka upp samstarf í borginni:

„Sko, ef menn tefla bara valdanna vegna og hafa hvorki mannorð sitt né sóma með í því spili þá kann vel að vera að menn geri eitthvað svoleiðis og vilji vera með í slíkum rottagangi. Ég bara trúi því ekki.“

Við, sem erum utan R-listans, vitum ekki, hvort þar er slíkur rottugangur eða ekki – það kemur í ljós. Hitt hef ég fjallað um svo oft hér á þessum síðum, að R-listinn snýst aðeins um völd, að ég ætla ekki að gera það oftar.