24.5.2003

Ráðherra að nýju.

Alltaf þegar sagt er frá því, að þeir, sem tilnefndir eru ráðherrar af hálfu Sjálfstæðisflokksins undir formennsku Davíðs Oddssonar, hafi ekki vitað um það, fyrr en við lestur tillögu formannsins, bregðast menn við á þann veg, að efast má um, hvort þeir trúa frásögninni. Hvort sem menn trúa þessu eða ekki, þá er málum háttað á þennan veg. Ég bendi á frásögn mína af því, þegar ég var ráðherra í fyrsta sinn 23. apríl 1995 en hana er að finna hér á síðunni. Kvöldið sem þingflokkurinn kom saman þá vorum við Rut með góðan vin minn Lars Roar Langslet, fyrrverandi menningarmálaráðherra Noregs, og fleiri gesti heima hjá okkur. Fór ég á þingflokksfundinn þá án minnstu vitneskju um það, hvort ég yrði ráðherra. Sama er að segja um fundinn síðastliðinn fimmtudag, 22. maí, en til hans var boðað eftir flokksráðsfund okkar sjálfstæðismanna, þar sem Davíð var veitt heimild til að ganga frá stjórnarmyndun með Framsóknarflokknum í þriðja sinn.

Fyrir flokksráðs- og þingflokksfundina á fimmtudag hafði þingflokkurinn komið saman til fundar miðvikudaginn 21. maí og lagt blessun sína yfir stjórnarsáttmálann auk þess að hlýða á röksemdir Davíðs fyrir því, að hann ákvað að bjóða Halldóri Ásgrímssyni að verða forsætisráðherra 15. september 2004, sagði Davíð, að fyrir því væru sanngirnisrök auk þess sem fyrir Sjálfstæðisflokkinn yrði ekki skynsamlegt að ganga til kosninga eftir fjögur ár með sig í forystu, eftir að hafa verið forsætisráðherra í 16 ár og biðja enn um umboð til að leiða ríkisstjórn.  Davíð flutti svipuð rök á flokksráðsfundinum, einn fundarmanna stóð þar upp, sagðist hafa komið til fundarins í andstöðu við þá tillögu Davíðs, að Halldór fengi stólinn, en við ræðu Davíðs hefði sér snúist hugur.

Flokksráðsfundurinn var lokaður og þess vegna get ég ekki skýrt frá því, sem þar kom fram í máli Davíðs. Hitt þótti mér eins og ræðumanninum, að hann setti mál sitt fram með málefnalegum og sterkum rökum.

Strax eftir flokksráðsfundinn eða um klukkan 19.00 hittist þingflokkurinn í miðstjórnarherbergi flokksins í Valhöll. Davíð lagði þar fram tillögu sína, sem náði ekki aðeins til þess, hverjir yrðu ráðherrar í fjórða ráðuneyti hans heldur einnig hvernig yrði staðið að því að breyta ríkisstjórninni fyrst 31. desember 2003 með því að Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra viki fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Tómas Ingi yrði á árinu 2004 sendiherra í París, Sigríður Anna Þórðardóttir yrði umhverfisráðherra 15. september 2004, þegar Halldór tæki við af Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn fengi utanríkisráðuneytið, en ekki er ákveðið, hver tekur við því. Þá yrði ég dóms- og kirkjumálaráðherra en Sólveig Pétursdóttir tæki við sem forseti alþingis fyrir þingið haustið 2005 af Halldóri Blöndal. Loks yrði Einar K. Guðfinnsson formaður þingflokks okkar sjálfstæðismanna.

Tillaga Davíðs var samþykkt einróma en síðan hann varð formaður hefur þingflokkurinn jafnan fallist á tillögu hans og er það breyting frá því var til dæmis fyrir 20 árum, þegar þinflokkurinn hafnaði tillögu Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að flokkurinn hefði forsætisráðuneytið í stjórn með Framsóknarflokknum, var þess í stað samþykkt að hann fengi fleiri ráðherra en framsókn og fór síðan fram atkvæðagreiðsla í þingflokknum um það, hverjir skyldu verða ráðherrar. Hefur því verið haldið fram, að meginástæðan fyrir því árið 1983, að þingflokkurinn vildi ekki að sjálfstæðismaður yrði forsætisráðherra, hefði verið óþreyja margra þingmanna eftir að komast í ráðherrastólana, fleiri hefðu komist að ríkisstjórnarborðinu með því að Steingrímur Hermannsson yrði forsætisráðherra.

Ég rifja þessa atburði upp í Morgunblaðsgrein í dag, laugardaginn 24. maí og er einnig unnt að lesa hana hér á síðunni. Þykir mér meira til þess að koma, að hafa rifjað þetta upp, eftir að ég las furðugrein Sverris Hermannssonar í Morgunblaðinu í dag,  þar sem hann hneykslast á tillögu Davíðs um stólaskiptin. Sverrir var í hópi þeirra þingmanna, sem snerust gegn Geir Hallgrímssyni 1983 og gripu fram fyrir hendur hans með því að kjósa Steingrím Hermannsson yfir sig og þjóðina sem forsætisráðherra. Hafði Steingrímur árin áður tekið þátt í tilraun til að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn með stjórnarsamstarfi við Gunnar Thoroddsen í óþökk þingflokksins.

Sverrir studdi Davíð til formennsku í Sjálfstæðisflokknum 10. mars 1991 en hann snerist gegn flokknum og stofnaði Frjálsynda flokkinn fyrir kosningarnar 1999, eftir að hann hafði hrökklast við litla reisn úr Landsbankanum. Síðan hefur Sverrir reynt með öllum ráðum að gera hlut Davíðs Oddssonar sem verstan. Er sérstakt rannsóknarefni í stjórnmálasögu síðari tíma að skilgreina þá óvild, sem berst úr penna hans inn á síður Morgunblaðsins. Grein hans í blaðinu í dag er hluti af þessu dapurlega óvildarsafni í garð Davíðs og nú fyrir það, að Davíð boði afsögn sína sem forsætisráðherra!  Miðað við það hvernig Sverrir gekk gegn Geir Hallgrímssyni við stjórnarmyndun 1983, mann sem hann studdi til formennsku í Sjálfstæðisflokknum um það bil áratug áður, má segja, að sagan endurtaki sig nú með öfugum formerkjum – þá var Sverrir að vísu í Sjálfstæðisflokknum en er það ekki lengur og eru áhyggjur og hneykslun af ákvörðun Davíðs núna þeim mun einkennilegri og marklausari. Sverrir lét sér ekki nægja að vilja hlut Geirs lítinn við stjórnarmyndunina árið 1983 heldur átti eftir að sýna honum frekari óvirðingu síðar.

Aftur að því, sem máli skiptir. Áður en flokksráðfundurinn var haldinn klukkan 18.00 á fimmtudaginn, ræddi Davíð einslega við hvern þingmann flokksins fyrir sig til að kynnast viðhorfum hvers og eins til þess, hvernig menn vildu, að ríkisstjórnin yrði skipuð og einnig hvert hugur þingmanna stefndi varðandi nefndakjör á þingi.

Ég átti tíma hjá Davíð klukkan 10.45 en við fórum á fund hans í stafrófsröð. Hann var í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, þar sem erfitt er að komast að stjórnarráðshúsinu vegna framkvæma í Bankastræti. Sat hann í skrifstofunni á efri hæð hússins, þar sem hann var á sínum tíma, þegar stjórnarráðshúsið var endurgert. Hverjum þingmanni voru ætlaðar 15 mínútur, þegar ég gekk eftir Tjarnargötunni í blíðviðrinu og var rétt kominn fram hjá ráðhúsinu renndi ráðherrabíll Árna Mathiesens upp að gangstéttinni og Árni kom út og heilsaði mér, sagði hann, að ég þyrfti ekki að flýta mér, því að tíminn hefði farið úr skorðum, en þar sem ég var með hugann við fundinn með Davíð gaf ég mér rétt tíma til að skiptast á kveðju við Árna og hélt áfram göngu minni.

Í borðstofunni á neðri hæðinni sat Bjarni Benediktsson, frændi minn í föðurætt og nýkjörinn þingmaður, og beið þess að Birgir Ármannsson lyki samtali sínu við Davíð. Var te og kaffi á borðum með brauði og kökum og ræddu menn heima og geima við þá, sem voru á staðnum. Áður en ég var kallaður upp á fund Davíðs var Drífa Hjartardóttir, frænka mín í móðurætt, kominn á staðinn. Hún rifjaði upp með Birgi, eftir að hann kom frá Davíð, að Ármann, faðir Birgis, hefði kennt henni ræðumennsku á sínum tíma.

Var klukkan rúmlega 11.30 þegar ég kvaddi Davíð, ræddi ég stuttlega við þá Einar K. Guðfinnsson og Einar Odd Kristjánsson í borðstofunni og fékk mér tebolla, áður en ég hélt að nýju út í góða veðrið og velti fyrir mér, hvaða ályktun ég ætti að draga af fundi okkar Davíðs. Eitt er víst, ég hafði ekki minnstu hugmynd um það, hvort ég yrði ráðherra um kvöldið eða ekki, hitt er einnig víst, að ég gekk ekki á fund Davíðs með ósk um ráðherraembætti á vörunum.

Við höfum séð það í kvikmyndum á borð við Yes, Minister! að við stjórnarmyndun í Bretlandi sitja þingmenn við símann og naga neglurnar í taugaspennu í væntingu eftir því að forsætisráðherrann hringi í þá og bjóði þeim ráðherraembætti. Hér gerist þetta ekki á þann veg, heldur koma menn alvörugefnir og miskvíðnir á þingflokksfund og bíða eftir að heyra tillögu flokksformannsins. Er vissulega mikil spenna í loftinu, en aldrei hafa þeir fundir, sem ég hef setið af þessu tilefni síðan 1991 verið langir og aldrei hafa menn haft uppi mótmæli gegn tillögu formannsins.

Niðurstaðan varð sem sagt sú, að ég varð tilnefndur dóms- og kirkjumálaráðherra. Eftir þingflokksfundinn var unnt að fá sér matarbita í Valhöll og að svo búnu ræddi ég stuttlega við blaðamenn, sem höfðu mestan áhuga á því, hvað yrði um stöðu mína innan borgarstjórnar Reykjavíkur. Ég sagðist ekki mundu halda áfram að vera oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna en hefði ekki tekið ákvörðun um setu mína í borgarstjórninni.

Ég heyri, að einhverjir eru að bera ákvörðunina um að ég verði ráðherra saman við þá ákvörðun Ingibjargar Sólrúna Gísladóttur að ganga á bak þeirra orða sinna, að sitja sem borgarstjóri allt kjörtímabilið, sem hófst fyrir réttu ári. Þessi samanburður er fráleitur og virðist markmið hans helst vera að gera hlut Ingibjargar Sólrúnar eitthvað betri. Þegar ég bauð mig fram í borgarstjórn sagðist ég mundu halda áfram sem þingmaður og fór þess vegna í prófkjör síðastliðið haust, þar sem ég náði góðum árangri. Seta mín í borgarstjórn tekur mið af skyldum mínum sem þingmanns og nú ráðherra eins og þingmennskan hefur tekið mið af skyldum í borgarstjórn.

Rut, kona mín, hafði farið utan daginn áður, það er miðvikudaginn 21. maí, með félögum sínum í Kammersveit Reykjavíkur og voru þau þá um kvöldið með tónleika í Brugge í Belgíu undir stjórn Vladimirs Ashkenazys. Nokkrir góðir vinir heimsóttu mig um kvöldið og ræddum við atburði dagsins.

Föstudaginn 23. maí klukkan 13.30 var ríkisráðsfundur á Bessastöðum og ráðherrar í fjórða ráðuneyti Davíðs Oddsson voru skipaðir. Bíll sótti mig heim og ók mér aftur frá Bessastöðum eftir fundinn og myndatöku, skrapp ég heim, áður en ég hélt rétt fyrir klukkn 15.00 í Arnarhvol,  þar sem ég tók við lyklunum að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu af Sólveigu Pétursdóttur, hitti starfsfólk ráðuneytisins, drakk með þeim kaffi og fékk tertu.

Eftir þessa fundi ákvað ég að halda austur í Fljótshlíð til að njóta góða veðursins, lesa þau gögn, sem ég hafði fengið, sinna vorverkum í sveitinni, skrifa þessa frásögn og fylgjast með Evróvision-keppninni.