6.5.2003

Bifrastarferð Ingibjargar og útskiptin á Össuri.

Bifrastarferðin.

Merkilegt er að fylgjast með vandræðaganginum í samskiptum Ingibjargar Sólrúnar og Guðmundar Árna, frambjóðenda Samfylkingarinnar, vegna afstöðunnar til einkarekinna háskóla.

Ingibjörg Sólrún talaði þannig um fjármál þessara skóla á fundi í Háskólanum í Reykjavík, að bæði kennarar og nemendur áttuðu sig á því, hve kuldalegt viðmótið var og skilningurinn takmarkaður. Fréttin barst í Viðskiptaháskólann Bifröst til nemenda þar og þá var gripið til þess ráðs, að stofna til fundar með Ingibjörgu Sólrúnu á staðnum og var hann haldinn í skólanum um hádegisbil á mánudag.

Mátti heyra það í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur milli 11 og 12 að morgni mánudagsins, að Ingibjörg Sólrún varð að flýta sér þaðan fyrir þáttarlok vegna ferðar sinnar upp að Bifröst.

Þær Arnþrúður ræddu einkum um fátæktina og Hörpu Njáls, en ritsmíð hennar hefur valdið Ingibjörgu Sólrúnu vandræðum vegna þess hve mikið hún lét með ágæti rannsókna Hörpu („nýja biblían mín“ sagði hún í síðari ræðu sinni í Borgarnesi) og síðan kemur í ljós, að Reykjavíkurborg undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar hefur ýtt undir ásókn fólks til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar, þegar frásögn Hörpu um nýjar og þrengri reglur Reykjavíkurborgar er lesin.

Ég var undrandi yfir mærðinni og tóninum í Arnþrúði, þegar þær stöllur dæstu yfir þessu öllu saman, fengu sér kaffisopa og hneyksluðust á Davíð Oddssyni eins og kjaftastéttirnar keppast við að gera þessa daga – nú síðast heyrði ég í nýjum spjallara í Víðsjá, Gunnari Þorra Péturssyni, sem er það efst í huga, þegar hann minnist Davíðs, að hann snæddi fyrsta hamborgarann hjá Macdonald’s á Íslandi og virtist ekki mjög hrifinn af því. Er nú áreiðanlega allt á flot sett, sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins geta fundið honum og formanni hans til foráttu.

Ingibjörg Sólrún fór sem sagt að Bifröst til að reyna að rétta hlut sinn vegna óvarlegra ummæla sinna um einkarekna háskóla. Einn nemanda þar hafði haft áhyggjur af þessu tali Ingibjargar Sólrúnar og sent tölvubréf til Guðmundar Árna og spurt hann hvað talsmaðurinn væri að pæla núna. Þessar pælingar hennar öfluðu ekki margra atkvæða meðal manna á Bifröst. Velti hann því fyrir sér hvort Ingibjörg Sólrún væri virkilega að boða stefnu flokksins, þegar hún talaði í Háskólanum í Reykjavík. Í raun væri allt á hliðinni innan skólans á Bifröst vegna orða Ingibjargar Sólrúnar. 

Guðmundur Árni svaraði og sagði Ingibjörgu Sólrúnu „ hafa farið dálítið út í vegkantinn í ummælum sínum í Háskóla Rvíkur og var ekki að tóna afstöðu flokksins til þessara mála,“ eins og hann orðað það í svarbréfinu, sem síðan var sent til allra nemenda á Bifröst og komst í fjölmiðla.

Ingibjörg Sólrún var sem sé að reyna að komast inn á veginn aftur með því að fara að Bifröst. Þegar bréf Guðmundar Árna var lesið fyrir hana á fundinum, sagði hún þann, sem það gerði, „tala niður til fólks“ eftir að hafa hikstað á svarinu.

Satt að segja er furðulegt að huga að þessari uppákomu og þessu sjálfsmarki hjá Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkingunni í kosningavikunni sjálfri. Ég sá í sjónvarpsþætti á Stöð 2 með frambjóðendum í Sðvesturkjördæmi, að Guðmundur Árni sýndi mikla vandlætingu yfir því, að á þetta væri minnst – en er þetta ekki einmitt sýnishorn af því, hve ósamstiga og vandræðalegt samfylkingarfólkið er? Þess vegna varð Guðmundur Árni svona reiður. Kosningarbarátta Samfylkingarinnar hefur öðrum þræði snúist um að verjast því, sem eitthver frambjóðenda hennar sagði á þessum fundinum eða hinum.

Útskipti Össurar

Hins vegar þótti það sérstakt fréttaefni í 22.00 fréttunum eftir spjallþáttinn við Ingibjörgu Sólrúnu í stað Össurar, að stýrimaður spurði mig á fundi hjá Landhelgisgæslunni í hádeginu þennan sama dag, hvar dómsmálaráðherra væri og hvers vegna hún væri ekki á þeim fundi. Hafði hún þó aldrei verið kynnt til fundarins, því að frá því að tekið var til við að ræða um hann lá ljóst fyrir, að ég yrði þar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Óskaði ég eftir því vegna sérstaks áhuga míns á Gæslunni, þar sem ég starfaði með menntaskóla. Þegar ég sagði þetta á fundinum, gall í Össuri, að ekki hefði ég verið á fundi um málefni kirkjunnar, þótt ég hefði áhuga á þeim. Það var hans málefnalega framlag til þessa þáttar fundarins – en sjálfur lét hann ógert að koma í auglýstan sjónvarpsþátt þetta sama kvöld. Hvað olli því? Var honum skipað að víkja til að Ingibjörg Sólrún gæti reynt að rétta hlut sinn og Samfylkingarinnar, þegar enn ein könnunin staðfesti mikið fylgistap flokksins og var enn til marks um, að kosningabaráttan sjálf skilar ekki þeim árangri, sem að er stefnt, þegar litið er til kannana?

Hið sérkennilega var, að það blasti við öllum, sem horfðu á þáttinn með Ingibjörgu Sólrúnu, að hún var síður en svo ánægð með að sitja þar fyrir svörum. Hefur hana vafalaust langað til að segja hið sama og við námsmanninn á Bifröst, að talað væri niður til sín, þegar hún var spurð og leitað svara við því til dæmis, hvernig á því stæði, að skoðanakannanir sýndu sífellt minnkandi Samfylkingarfylgi. Þegar kom að kvótaumræðum, fór hún út um víðan völl og  var raunar furðulegt, að spyrjendur skyldu ekki biðja hana skýringa á orðum hennar. Spurning er, hvort það hefði ekki bara verið betra að fara eftir auglýstri dagskrá og leyfa Össuri að fara í þáttinn.

Birgir Guðmundsson, fyrrverandi blaðamaður á DV og víðar, líkti í Fréttablaðsgrein á dögunum kosningabaráttu Samfylkingarinnar við ferð sólar um sólkerfið, svo glæsileg væri hún og þvílík birta af framgöngu Ingibjargar Sólrúnar. Birtist þessi grein í þann mund, sem Samfylkingin virtist komin í frjálst fall. Ég sá, að þrátt fyrir þetta dómgreindarleysi á gang mála í kosningabaráttunni, ef tekið er mið af skoðanakönnunum, leitaði Egill Helgason enn til Birgis um álit á baráttunni í þætti sínum á sunnudag. Þar taldi hann, að í þessari viku hlyti Samfylkingin að koma með lokatrompið, sem myndi skila henni sigrinum. Það skyldi þó aldrei hafa verið Bifrastarferð Ingibjargar Sólrúnar eða útskiptin á Össuri í sjónvarpinu? Eða kannski auglýsingin af íslensku skólastúlkunni, sem sýnd er dragast aftur úr? Að innræta ungum Íslendingum á þennan hátt, að þeir séu að dragast úr öðrum þjóðum er út í hött, einkum þegar það er gert á fölskum forsendum.