3.5.2003

Póstmódernismi – vinstri stjórn – þekkingarleysi?

Póstmódernismi.

Líklega hefur Morgunblaðið aldrei fundið að málflutningi stjórnmálamanns á sama hátt og gert er við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í forystugrein blaðsins hinn 4. maí 2003, þegar bent er á sögulegar staðreyndavillur í grein hennar, sem birtist á miðopnu blaðsins laugardaginn 3. maí. Þennan sama laugardag leita ég fanga hjá Kristjáni Kristjánssyni, heimspekingi og prófessor við Háskólann á Akureyri, þegar ég færi rök að því í miðopnugrein í Morgunblaðinu, að greina megi ógagnrýnan póstmódernisma í kosningatilburðum Samfylkingarinnar, það er óskilgreinda samsuðu í stefnu og léttuð gagnvart sannleikanum í öllum málflutningi.

Um hvað er þessi miðopnugrein Ingibjargar Sólrúnar og af hvaða tilefni er hún rituð? Jú, tilefnið er ótti höfundar og Samfylkingarinnar við umræðurnar um, að hún eigi hugsanlega kost á því að kosningum loknum að mynda ríkisstjórn með frjálsyndum og vinstri/grænum.

Vinstri stjórn

Á mánudagskvöldið 28. apríl var ég í útvarpsþætti með frambjóðendum í Reykjavík norður. Þar gaf Össur Skarphéðinsson yfirlýsingu, sem enginn skildi á annan veg en þann, að hann teldi sjálfsagt, að mynda stjórn með frjálslyndum og vinstri/grænum eftir kosningar, hefðu flokkarnir til þess þingstyrk. Hann vildi einnig snúa því upp á Davíð Oddsson, að Ingibjörg Sólrún setti í sjónvarpsþætti forystumanna flokkanna á Stöð 2 skýr, einhliða skilyrði fyrir stjórnarþátttöku Samfylkingarinnar í ríkisstjórn og létu frjálslyndir og vinstri/grænir sér ekki neitt bregða við það. Sagði hann það, að menn settu einhliða skilyrði fyrir stjórnarþátttöku til marks um viðmót Sjálfstæðisflokksins!

Kolbrún Halldórsdóttir, oddviti vinstri/grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður, var ekki í neinum vafa um það, hvernig ætti að túlka orð Össurar um nýja stjórn. Hún sagði í þættinum: “Þetta er í fyrsta skipti sem að hann orðar það í mín eyru í öllu falli og hef ég nú verið að reyna að fylgjast með að falli þessi ríkisstjórn að þá séu það stjórnarandstöðuflokkarnir [Samfylking, frjálslyndir og vinstri/grænir] eðli málsins samkvæmt sem að ættu að taka að sér að mynda næstu ríkisstjórn og í sjálfu sér fagna ég því en bendi jafnframt á að þessi rödd kom auðvitað upphaflega úr herbúðum vinstri/grænna.”

Sagt var frá þessum orðaskiptum í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins hinn 29. apríl en í hádegisfréttunum hinn 30. apríl birtist þessi skrýtna frétt:

“Ekki rétt haft eftir

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar segir viðmót forystu Sjálfstæðisflokksins þannig að ólíklegt sé að ætla að þessir 2 flokkar myndi ríkisstjórn eins og sakir standa. Þetta sagði Össur í kosningaþætti á Rás 2 í fyrrakvöld. Hann sagði ekki eins og haft var eftir honum í hádegisfréttum í gær að hann vildi mynda ríkisstjórn með stjórnarandstöðunni heldur gaf til kynna að það væri eðlilegt. Hann teldi að Framsóknarflokkurinn hefði gefið þátttöku í ríkisstjórn upp á bátinn og Sjálfstæðisflokkurinn talaði þannig að margt kæmi til greina nema eitt, samstarf við Samfylkinguna.”

Fréttin daginn áður hafði hafist á þeim orðum, að Össur segði Samfylkinguna vilja mynda nýja ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna eftir kosningar. Þá var þetta haft orðrétt eftir Össuri: “Þeir sem að vilja breyta þeir kjósa Samfylkinguna, vinstri/græna eða Frjálslynda flokkinn.”

Ég las svo einhvers staðar haft eftir Kára Jónassyni, fréttastjóra hljóðvarpsins, að ástæða hefði þótt til þess af hálfu fréttastofunnar að biðja Össur afsökunar! Eitthvað hefur nú gengið á vegna þessa á milli manna, ef að líkum lætur. 

Þekkingarleysi?

Á þetta er minnt í sömu andrá og rætt er um fyrrnefnda Morgunblaðsgrein Ingibjargar Sólrúnar vegna þess að tilgangur hennar er að beina umræðunum um vinstri stjórn inn á hliðarbrautir og láta eins og fráleitt sé að skírskota til sögulegrar reynslu varðandi störf slíkra stjórna. Sannast þarna enn, að skirrist menn við að læra af sögunni bíður þeirra að reyna aftur, sem hún kennir. Í þessu tilviki, að 1971 tók vinstri stjórn við af viðreisnarstjórninni og þessi vinstri stjórn glutraði niður efnahagsávinningi viðreisnarstjórnarinnar á ótrúlega skömmum tíma og stofnaði til efnahagsþróunar til óðaverðbólgu.

Undan þessari sögulegu þróun á áttunda áratugnum verður ekki vikist og er barnalegt að sjá því haldið fram, að í samtímanum megi ekki minnast þessarar reynslu. Hún er enn ljóslifandi í hugum margra og enginn þeirra getur verið þeirrar skoðunar, að æskilegt sé að sigla aftur í þetta vinstra kjölfar. Er beinlínis skylda þeirra, sem finna til pólitískrar ábyrgðartilfinningar að vara við hættunni á efnahagsöngþveiti  eftir hina styrku forystu Sjálfstæðisflokksins. Davíð Oddsson hefur réttilega líkt því við að afhenda óvitum opinn eldspýtustokk.

Sannir kratar í röðum Samfylkingarinnar, séu einhverjir þeirra þar eftir í áhrifastöðum, hljóta að hafa vakið máls á því við hin ráðandi öfl í Samfylkingunni, sem öll koma úr Alþýðubandalaginu, en það átti ráðherra í ríkisstjórninni 1971 til 1974, að þessi samlíking við stjórnina 71-74 sé til þess fallin að hræða fólk. Kratar voru mjög á móti stjórninni á sínum tíma, ekki síst Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi formaður Alþýðuflokksins.

Til að svara þessum varnaðarorðum sest Ingibjörg Sólrún niður og gerir tilraun til að umskrifa stjórnmálasöguna í Morgunblaðsgrein – hvorki meira né minna. Aðrir ganga til þess verks að óska eftir leiðréttingu og afsökun frá Kára Jónassyni í von um, að það dragi úr vægi orða Össurar og fæli aðra frá því að vitna til þeirra.

Morgunblaðið vill ekki sætta sig við hina nýju söguskoðun Ingibjargar Sólrúnar og segir í leiðara sínum sunnudaginn 4. maí um útleggingar hennar á verkum ríkisstjórnar vinstri flokkanna 1988 til 1991 :

“Í þessum orðum felst grundvallar misskilningur, sem hlýtur að byggjast á þekkingarleysi, því ekki dettur Morgunblaðinu í hug að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fari rangt með staðreyndir.”

Eftir að Morgunblaðið hefur birt ummæli Ingibjargar Sólrúnar um ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974 til 1978 segir í leiðara þess:

 “Þetta er rangt en byggist áreiðanlega á því að talsmaður Samfylkingarinnar hefur fengið rangar upplýsingar í hendur en lýsir ekki vilja til að fara vísvitandi rangt með.”

Þessum einstæða leiðara Morgunblaðsins lýkur á þessum orðum:

 “Nauðsynlegt er að halda þessum sögulegu staðreyndum til haga, þar sem augljóst er að talsmaður Samfylkingarinnar [Ingibjörg Sólrún] hefur ekki réttar upplýsingar um þennan þátt í pólitískri sögu okkar síðustu áratugi.”

Við lestur leiðara Morgunblaðsins hlýtur sú spurning að vakna, hver hafi matað Ingibjörgu Sólrúnu á hinum röngu upplýsingum, hverjum hafi dottið í hug að kveikja þessi villuljós, þegar talsmaður Samfylkingarinnar tekur sér fyrir hendur að ræða stjórnmálasöguna og skírskota til hennar í hita kosningabaráttunnar.  Er sérkennilegt, að hún hafi kosið að fara eftir þessum ljósum, einkum með það í huga, að Ingibjörg Sólrún er sagnfræðingur að mennt. Henni ætti því að vera betur ljóst en flestum öðrum stjórnmálamönnum, hve mikilvægt er að grandskoða gæði þeirra heimilda eða heimildarmanna, sem við er stuðst.