19.4.2003

Borgarnessræðan síðari – spunameistarar - hlutur fjölmiðla

Borgarnessræðan síðari

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kýs að velja Borgarnes á ný til að gera ómálefnalega árás á okkur sjálfstæðismenn og sérstaklega á Davíð Oddsson, formann okkar. Ímyndarfræðingar Samfylkingarinnar hafa ráðlagt Ingibjörgu Sólrúnu að höggva aftur í sama knérunn og endurtaka Borgarnesstefið frá 9. febrúar, þá vék hún að því að stórfyrirtæki mættu þola mismunun af hálfu forsætisráðherra – í síðari Borgarnessræðunni sagði hún um störf sjálfstæðismanna:

“Því fylgir mikil ábyrgð að fara með slíkt vald og forustan [Sjálfstæðisflokksins] umgengst það ekki af virðingu. Hún hamast á fólki sem ekki vill lúta þeirra pólitísku forsjá og valdi. Þannig hafa þeir alltaf hamast á forsetanum og biskupnum ef þessir æðstu menn þjóðar og kirkju tala ekki eins og forustunni er þóknanlegt. Þeir neyta aflsmunar gagnvart fjölmiðlamönnum sem ekki eru eins og þeim finnst að þeir eigi að vera og ef fjölmiðlamenn þyrðu að segja frá, þá yrðum við margs vísari. Þeir beita ítökum sínum í viðskiptalífinu til að tryggja að réttir aðilar eignist rétt hlutabréf í réttum fyrirtækjum. Þeir hamast á rithöfundum sem skrifa sögur eða pistla sem þeim eru ekki að skapi. Þeir breiða út sögusagnir um einstaklinga og fyrirtæki sem rísa upp gegn valdi þeirra. En þeir þurfa ekki alltaf að beita þessum meðulum vegna þess að vald þeirra hefur fælingarmátt.”

Um fólkið í landinu sagði Ingibjörg Sólrún:

“Í okkar litla íslenska samfélagi beitir forusta Sjálfstflokksins með formanninn í broddi fylkingar valdi sínu til að deila og drottna, umbuna og refsa. Umhverfis þetta vald verður til þagnarmúr og ótrúlegasta fólk telur þá leið vænlegasta að láta sig hafa það, taka þátt frekar en vera úthýst. Fólk er ekki heimskt og það skilur fyrr en skellur í tönnum. Margir eiga svo mikið undir valdinu, við skulum ekki gleyma því. Stöðuveitingar, verkefni, fyrirgreiðslu, liðlegheit, ítök eða bara mannorð sitt. Þegar ekki þarf að beita valdinu heldur bara láta vita að það sé þarna, þá kallast það á tungutaki félagsfræðinnar skilyrðing eða félagsleg aðlögun. Í alkoholista og fjölskyldumeðferðarfræðunum kallast þetta meðvirkni. Einstaklingurinn tekur nauðugur viljugur þátt í viðurkenndu atferli þess hóps sem hann vill tilheyra.”

Þessar tilvitnanir lýsa á skýran hátt sýn Ingibjargar Sólrúnar á þjóðfélagið. Að hennar mati er fólk eins og meðvirkt með valdsmönnum Sjálfstæðisflokksins og þorir sig hvergi að hreyfa af ótta við að missa spón úr aski sínum. Röksemdafærslan byggist hvorki á skýrum rökstuðningi né skilgreindum forsendum heldur tilfinningalífi ræðumannsins og flokkspólitísku viðhorfi til stjórnmála.

Síðan setur Ingibjörg Sólrún sjálfa sig í hlutverk frelsishetjunnar, sem berst gegn ofurvaldinu:

“En mér má á sama standa hvað þeir segja. Ég hef ekkert að óttast af því að það er ekkert svo dularfullt við líf mitt að það sé ástæða til að gera það að umfjöllunarefni. Þeir einu sem geta lagt til atlögu við Sjálfstæðisflokkinn eru þeir sem hafa engu að tapa eins og öryrkjarnir forðum.”

Undir lokin snýr hún sér að fátækt. Nú skortir hvorki fræðimenn né fræðasetur eða aðra heimildarmenn. Ingibjörg Sólrún segir meðal annars:

“Við höfum áratuga rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors. Við höfum nýlega viðamikla rannsókn Hörpu Njáls sem var gerð á vegum Borgarfræðaseturs og sem var að koma út á bók núna. Við höfum tölur Félagsþjónustunnar. Við höfum upplýsingar frá Mæðrastyrksnefnd, Þjóðkirkjunni, samtökum aldraðra, öryrkja og svona mætti áfram telja. Allt ber að sama brunni. Það er fátækt í íslensku samfélagi og birtingarmynd hennar hefur versnað. Hún hefur versnað vegna þess að íslenska velferðarkerfið hefur verið að þróast í anda frjálshyggjunnar. Og nú ætla ég að draga upp biblíuna mína, þessa nýju sem er þessi mikla bók Hörpu Njáls, Fátækt á Íslandi.”

Borgarnessræðan síðari var flutt að kvöldi 15. apríl, Daginn eftir var skipulögð opinber athöfn, þar sem forseti Íslands hitti Hörpu Njáls og tók við ritgerð hennar, nýju biblíu Ingibjargar Sólrúnar. Sagðist forsetinn sem fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði telja bókina með því merkasta, sem ritað hefði verið á því fræðasviði. Fór hann svipuðum orðum um fátæktargildrur íslensks þjóðfélags og Ingibjörg Sólrún hafði gert í Borgarnesi. Að jafna ritgerðinni um fátækt við biblíuna og segja hana eitt merkasta félagsvísindaverk á íslensku er magnað, svo að ekki sé meira sagt, enda afhjúpar verkið fátæktargildrur frjálshyggjunnar að mati þessara pólitísku andstæðinga hennar.

Í fréttum sjónvarpsins klukkan 22.00 miðvikudaginn 16. apríl var sagt frá því, að Karl Sigurbjörnsson biskup  vildi ekki tjá sig um ummæli Ingibjargar Sólrúnar. Forsetinn sagðist ekki blanda sér í kosningabaráttuna.

Er eindsæmi að forseti og biskup séu dregnir inn í kosningabaráttu til alþingis. Er mikilvægt fyrir þá, sem þessum embættum gegna að gæta þess að verða ekki hluti af flokkadráttum í þjóðfélaginu. Er sérkennilegt að gagnrýna forsætisráðherra og pólitískan forystumann fyrir að taka þátt í stjórnmálaumræðum en draga í sömu andránni embætti forseta og biskups inn í stjórnmáladeilur, embætti, sem eru ofar flokkadráttum, þegar litið er til hins tákræna gildis, sem þau hafa.

Ég nefndi ímyndarfræðingana hér að ofan, Einn slíkur hefur starfað fyrir þau öll Ólaf Ragnar Grímsson, Karl Sigurbjörnsson og Ingibjörgu Sólrúnu, en það er Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hann hlýtur að hafa komið að málum, þegar ákveðið var, að Ingibjörg Sólrún mundi enn á ný nota Borgarnes sem stökkpall inn í ómálefnalega kosningabaráttu.

Líklegt er, að röksemdarfærslan hafi verið á þann veg, að best væri fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að fara aftur í þennan gír, því að hún hefði komist á mest flug samkvæmt skoðanakönnunum á fyrstu vikum kosningabaráttunnar. Vegur hennar hefði minnkað eftir að málefni tóku að setja svip sinn á umræður. Í ljós hefði komið í tveimur sjónvarpsþáttum með leiðtogum flokkanna og einnig í þáttum með Geir H. Haarde annars vegar og Halldóri Ásgrímssyni hins vegar, að hún hefði ekki tök á skattamálum eða fiskveiðistjórnarmálum. Þess vegna kæmi henni best að stuðla að neikvæðum umræðum með hálfkveðnum vísum um Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn. Það hefði þó ekki gengið sem skyldi að setja störf Davíðs í samhengi við stórfyrirtæki, þess vegna yrði að velja aðila, það er forsetann, biskupinn, fjölmiðlamenn og rithöfunda. Þeir gætu brugðist við á annan hátt en kaupsýslumennirnir.

Enginn þarf að efast um hug Ólafs Ragnars í stjórnmálum. Spurning er, hvort túlka á þögn biskupsins sem blessun hans yfir orð Ingibjargar Sólrúnar.

Spunameistarar

Skoðanir stjórnmálafræðinganna, sem koma fram undir merkjum Háskóla Íslands, eru oft fréttaefni. Ingibjörg Sólrún tók það sérstaklega fram, að Harpa Njáls hefði unnið að rannsóknum sínum undir forsjá Borgarfræðaseturs. Setrið er samstarfsverkefni á vegum Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar undir stjórn Stefáns Ólafssonar prófessors. Er vel við hæfi að undir merkjum sveitarfélags sé unnið að rannsóknum á fátækt, enda hafa málefni fátækra verið helsta verkefni sveitarfélaga frá örófi alda hér á landi. Varla hefur R-listinn verið að búa til fátæktargildrur frjálshyggjunnar í Reykjavíkurborg?

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor hefur komist að þeirri niðurstöðu, að kosningabaráttunni megi líkja við tíma Jónasar frá Hriflu. Því miður hefur hann aðeins slegið þessu fram í fréttatíma en ekki rökstutt nánar. Á hann við það,  þegar Jónas sagði, að neikvæð ummæli sín um andstæðinga hans gætu verið sönn? Sögulegar líkingar af þessum toga eru frekar í stíl fjölmiðla en fræðimanna.

Á forsíðu Fréttablaðsins (sem tók vikulegar skoðanakannanir um fylgi flokkanna af forsíðu sinni, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var orðinn stærri en Samfylkingin) er sú ranga staðhæfing höfð eftir Svani Kristjánssyni prófessor, að viðreisnarstjórnin hafi ekki viljað færa úr fiskveiðilögsöguna árið 1971 – stjórnin  vildi það en ekki fara sömu leið og stjórnarandstaðan.

Þessar hliðar kosningabaráttunnar eru ekki síður forvitnilegar en þær, sem snúa að okkur stjórnmálamönnunum. Hvarvetna í hinum lýðfrjálsa heimi er meira og meira rætt um hlutverk spunameistaranna í stjórnmálstarfi, það er þeirra manna, sem skipa sér í það hlutverk að búa til brýr á milli orða og athafna stjórnmálamannanna og almennings og gera það með því að stjórna umræðunum í fjölmiðlum.

Hlutur fjölmiðla

Ég heyri frá gömlum samstarfsmönnum á fjölmiðlum, að þrýstingur á þá er sífellt meiri frá stjórnmálamönnum og handlöngurum þeirra. Gerðar eru athugasemdir við stórt og smátt. Í Morgunblaðinu á skírdag kom fram, að athugasemd hefði verið gerð við blaðið vegna orðanna “lauslátar konur” í frétt um lifnaðarhætti Udays, sonar Saddams Husseins. Segir ritstj. að orðalagið hafi verið með öllu óviðeigandi og eru lesendur beðnir velvirðingar á mistökunum.

Í leiðara Morgunblaðsins þennan dag er svarað gagnrýni Þorvalds Arnar Árnasonar, framhaldsskólakennara á Suðurnesjum, á Íraksfréttir blaðsins. Mótmælir blaðið því harðlega, að staðreyndum og skoðunum sé blandað saman í fréttum blaðsins. “Þegar því er haldið fram er ekki lengur um heilbrigða og eðlilega gagnrýni að ræða heldur einhvers konar áróður gegn blaðinu,” eru lokaorð leiðarans.

Í skírdagsblað DV skrifar Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður grein um kosningabaráttuna undir fyrirsögninni: Fær stjórnarandstaðan frítt spil? Hann segir fjölmiðla alla jafna beina kastljósi sínu fyrst og fremst að stjórnvöldum. “Í kosningabaráttunni reynir hins vegar meira á það en á öðrum tímum hvort þeim [fjölmiðlum] tekst að rýna jafn gagnrýnum augum í spilin sem stjórnarandstaðan leggur á borðið.” Er niðurstaða Ólafs Teits sú, að næstum allir fjölmiðlar hafi gefið Samfylkingunni frítt spil í skattamálum, þar sem þeir hafi kynnt skattatillögur hennar á jákvæðari veg en efni þeirra leyfir.

Á átakatímum eru fjölmiðlar meira undir smásjánni en ella. Hér fer ekki fram skipuleg og markviss umræða um efni eða efnistök fjölmiðla eins og víða erlendis. Er oft sérkennilegt að sjá, hve tilfinningalegt mat ræður afstöðu fólks til þess, sem sýnt er eða flutt í ljósvakamiðlunum. Skrif um þessi efni, til dæmis blaðamanna DV og Fréttablaðsins, segja meira um höfundana en efnið í ljósvakamiðlunum.

Á ýmsum vefsíðum er haldið utan um efni erlendra fjölmiðla, það reifað og skilgreint. Þar nefni ég til dæmis þessa síðu http://www.mediaresearch.org . Á henni má til dæmis kynnast hinum miklu umræðum í Bandaríkjunum um framgöngu fjölmiðla þar vegna átakanna í Írak.

Síðari Borgarnessræða Ingibjargar Sólrúnar þjónar þeim tilgangi að beina fjölmiðlaumræðunum og athygli kjósenda frá málefnum að persónu Ingibjargar Sólrúnar í því skyni að upphefja hana enn frekar á kostnað Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt er farið af stað með auglýsingaherferð, sem byggist á því að höfða sérstaklega til kvenna á kostnað karla í stjórnmálum.