13.4.2003

Traust eða tækifærismennska í stjórnmálum og fjölmiðlum.

 


 


Nú eru aðeins tæpar fjórar vikur til þingkosninganna 10. maí og þegar dagarnir eru taldir verður að hafa í huga páska, sumardaginn fyrsta og 1. maí. Baráttan er að herðast og síðasta skoðnakönnun Félagsvísindastofnunar í Morgunblaðinu í gær, laugardaginn 12. apríl, sýnir, að við sjálfstæðismenn höfum verulegt verk að vinna til að halda forystuhlutverki okkar.


Landsfundur flokksins gaf okkur frambjóðendum skýrt veganesti og áform okkar um miklar skattalækkanir hafa vakið verulega athygli. Í því efni hafa kjósendur skýra kosti. Ég minnist þess úr kosningabaráttunni 1991, 1995 og 1999 að gjarnan var að okkur sótt fyrir að hafa ekki sett fram nægilega skýra stefnu og markmið. Nú getur enginn kvartað undan því, að honum sé ekki ljóst, hvað er í boði með stefnu Sjálfstæðisflokksins. Auk þess hefur Davíð Oddsson áréttað eindreginn vilja sinn til að framkvæma stefnuna og sagt, að næsta haust festi alþingi hana í lög, fái Sjálfstæðisflokkurinn til þess þingstyrk, og síðan verði henni hrundið í framkvæmd stig af stigi á kjörtímabilinu.


Traust og trúverðugleiki eru þeir þættir, sem móta mest viðhorf kjósenda til stjórnmálamanna. Enginn getur borið Davíð Oddssyni það á brýn, að hann standi ekki við orð sín. Hann ávann sér traust meðal Reykvíkinga sem borgarstjóri á níunda áratugnum með skýrum kosningaloforðum og með því að standa við þau. Davíð hefur ekki hlaupist undan merkjum, þegar syrtir í álinn, heldur tekist af farsæld á við hvert viðfangsefni.


Þessir kostir Davíðs eru nú enn einu sinni í boði fyrir kjósendur og er sjálfsagt að bera þá saman við það, sem andstæðingar okkar sjálfstæðismanna hafa að bjóða. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stenst Davíð Oddssyni alls ekki snúning í slíkum mannjöfnuði. Traust og trúverðugleiki er ekki einkenni hennar sem stjórnmálamanns, heldur hið gagnstæða, tækifærismennska og hentistefna.


Í síðasta pistli lýsti ég þeirri skoðun minni, að undir kosningar bæri á því að pistlahöfundar í ríkisútvarpinu færu á svig við hlutleysisreglur útvarpsins í skjóli þess, að enginn treysti sér til að hrófla við þeim, af því að þá yrðu þeir, sem beittu ritstjóravaldinu, sakaðir um pólitíska íhlutun. Þannig snerist í raun öflug ritstjórn þessa ríkismiðils upp í andhverfu sína á þessum pólitískt viðkvæma tíma.


Ég sé, að á pressan á strik.is, hina deyjandi og rykföllnu vefsíðu, sem Ásgeir Friðgeirsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, stýrir, skrifar Hallgrímur Thorsteinsson, þáttarstjórnandi í útvarpi Sögu, pistil og gefur til kynna, að þessi gagnrýni mín á ríkisútvarpið missi marks, af því að ég sinni stjórnmálastörfum og sé auk þess sjálfstæðismaður.


Þetta er enn ein hliðin á dapurlegum umræðum um fjölmiðla. Stjórnmálamenn (og alls ekki sjálfstæðismenn) mega ekki hafa skoðun á fjölmiðlum, vegna þess að einhver annarleg sjónarmið hljóti þar að búa að baki. Síst af öllu mega stjórnmálamenn (og alls ekki sjálfstæðismenn) hafa skoðun á því, sem sagt er í ríkisfjölmiðlunum og skil ég Hallgrím þannig, að hann telji leiðina til að draga úr afskiptum stjórnmálamanna af þessari ríkisstofnun þá, að segja hana lögum samkvæmt í eigu almennings en ekki íslenska ríkisins!


Vilji menn breyta lögum um ríkisútvarpið er besta leiðin til að auka sjálfstæði þess og styrkja í samkeppni að gera það að hlutafélagi í eigu ríkisins. Vilji menn, að stofnunin sé í eigu almennings á að breyta henni í almenningshlutafélag, þá hættir hún að vera ríkisstofnun.


Hugleiðingar Hallgríms eru að verulegu leyti byggðar á röngum forsendum, því að hann virðist ekki átta sig á því, að sá galli var á lagasetningu við samþykkt nýrra útvarpslaga árið 2000, að ekki reyndist unnt að breyta neinum ákvæðum laganna um ríkisútvarpið. Þau eru óbreytt frá því sem var vegna pólitísks ágreinings um málið milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í ríkisstjórn og á alþingi.


Hallgrímur heldur því þess vegna ranglega fram, að með lögum frá árinu 2000 hafi verið ákveðið, að menntamálaráðherra skipi framkvæmdastjóra á ríkisútvarpinu auk útvarpsstjóra eða að ríkisútvarpið skiptist í deildir. Þetta eru gömul ákvæði, sem mundu að sjálfsögðu hverfa, ef ríkisútvarpið yrði hlutafélag í ríkiseign.


Þá tillögu hef ég margoft kynnt og rökstutt til að auka sjálfstæði ríkisútvarpsins. Hún breytir auðvitað engu um rétt minn til að gagnrýna efni í ríkisútvarpinu eða öðrum fjölmiðlum, ef mér þykir ástæða til þess. Ég er þar að nota lýðræðislegan rétt minn en ekki ?berja á lýðræðinu? eins og Hallgrímur orðar það. Er sérkennilegt, að maður með daglegan umræðuþátt í útvarpi skuli telja lýðræðið barið með því, að fólk segi skoðun sína hér á netinu eða annars staðar. Kannski eru það bara við stjórnmálamenn úr Sjálfstæðisflokknum, sem berjum á lýðræðinu, með því að segja skoðun okkar?


Átökin í Írak hafa kallað á það víðar en hér á landi, að menn velti fyrir sér trúverðugleika þeirra, sem koma fram í fjölmiðlum. Í Bandaríkjunum gera menn skipulega úttekt á því, hvernig helstu fjölmiðlarnir, fréttamenn þeirra, dálka- og pistlahöfundar standa sig. Sýnist það samdóma álit, að hinir svonefndu liberalar í þessum fjölmiðlum, eða vinstrisinnar á íslensku, hafi ekki aukið taust sitt og virðingu með framgöngu sinni. Þeir séu í raun deyjandi hópur með meðal fjölmiðlamanna vegna þess að enginn treysti dómgreind þeirra lengur.


Vegna þess hve almenningur ber lítið traust til þessara vinstrisinna, eiga umræðuþættir undir þeirra stjórn sífellt meira undir högg að sækja bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi. Er það helst í ríkisstyrktum útvarpsstöðvum, sem þeir fá tíma og tækifæri til að viðra skoðanir sínar. Ástæðan fyrir því, að þróunin er á þennan veg er meðal annars sú, að hlustendur hafa ekki áhuga á þeim, sem alltaf eru á móti á veikum, ef ekki heimasmíðuðum, forsendum, sem standast ekki eðlilega gagnrýni.


Ég hef engar forsendur til að meta það almennt, hvernig íslensku ljósvakamiðlarnir hafa fjallað um átökin í Írak. Viðurkenni raunar fúslega, að ég hef valið þann kost eins og margir aðrir, að treysta frekar á erlendar útvarpsstöðvar í þessu efni en hinar íslensku. Hér drepa margir þáttastjórnendur fljótt áhuga manns á að hlusta á þá vegna þess að þeir eru svo augljóslega hallir undir einhvern málstað, að ekkert annað kemst að en viðleitni til að varpa sem bestu ljósi á hann ? meira að segja viðmælendur verða að hlustendum í sumum þessara þátta, því að stjórnendunum er svo mikið í mun að láta ljós sitt skína.


Af ritstjórnarskrifum í blöð um átökin í Írak hafa mér þótt leiðarar Sigmundar Ernis, ritstjóra DV, furðulegastir, sérstaklega sá, sem hann skrifaði um Saddam Hussein og írösku þjóðina og birtist mánudaginn 7. apríl, aðeins tveimur sólarhingum áður en veldi Saddams hrundi með tákrænu falli styttunnar af honum í Bagdad. Í þessum leiðara er meðal annars þetta gullkorn: „Saddam hefur sumsé alltaf verið upptekinn af því að brauðfæða þjóð sína. Hann hefur alltaf vitað að vísasta leiðin til að friða fólk er að færa því mat. Fæstir biðja um meira.“ Þessum leiðara lýkur Sigmundur Ernir á orðunum: „Saddam er ekki alveg sami skrattinn heima fyrir og erlendis.“


Ég sé ekki betur en Óli Björn Kárason, aðalritstjóri DV, sé að svara þessum ótrúlega málflutningi í leiðara DV laugardaginn 12. apríl, þegar hann segir: „Í ofstæki sínu hafa sumir lagst svo lágt að gefa í skyn að þrátt fyrir allt sé Saddam Hussein frelsishetja sem brauðfætt hafi þjóð sína. Hræsnin þekkir á stundum engin mörk.“ Og síðar segir Óli Björn: „Andspænis staðreyndum um eitt mesta illmenni sögunnar geta þeir sem hafa geð í sér eða í firringu vestrænnar velmegunar reynt að mála bjarta mynd af föllnum morðingja og talið honum það til sérstakra tekna að hafa gefið þjóð sinni að borða.“


Ég tek undir með Óla Birni, að í umræðum um átökin í Írak þekkir hræsnin á stundum engin mörk. Þegar deilt er um mál af þessum toga, er oft sorlegt að sjá, hve fljótt margir hlaupa í skjól blekkinga í stað þess að horfast í augu við staðreyndir. Það var ekki fyrr en Saddam var fallinn, sem Sigmundur Ernir skrifaði í DV, við hliðina á leiðara Óla Björns 12. apríl:


„Um hitt verður ekki deilt að fallinn er af stalli sínum einhver versti einræðisherra sem komist hefur til valda yfir nokkurri þjóð. Fögnuður fólks á götum úti er skiljanlegur. Saddam var grimmdin uppmáluð og hélt þjóð sinni í heljartökum..... Það saknar enginn Saddams, allra síst landar hans...“


Spurning er, hvers vegna Sigmundur Ernir sagði þetta ekki í leiðaranum um Saddam og þjóðina en þar skrifaði hann: „ [E]r ekki eins víst að alþýða manna í Írak hugsi jafn illa til þessa manns [Saddams] og æði margir útlendingar gera. Saddam er vitaskuld slyngari stjórnmálamaður en svo að hann safni aðeins óvinum í eigin heimalandi. Í huga æði margra Íraka er hann lifandi goðsögn, bjargvættur þjóðar sinnar á bágum tímum.“


Mat Sigmundar Ernis á framgöngu Bandaríkjamanna og Breta í Írak birtist í leiðara DV hinn 4. apríl, þar sem hann lýsti þeirri skoðun, að andstaða herja Íraka væri ekki „einasta vandamál bandamanna heldur og andstaða almennings í Írak.“ Mat Sigmundar Ernis var, að stríðið væri að dragast á langinn og bitnaði meira á almenningi í Írak en góðu hófi gegndi: „Ef til vill eru það mestu mistök hernaðarsérfræðinganna sem undirbjuggu innrásina í Írak að slá því föstu að allur meginþorri írösku þjóðarinnar tæki fagnandi á móti hermönnum bandamanna.“


Í leiðara hinn 19. mars, miðvikudaginn áður en fyrsta loftárásin var gerð á Bagdad,  réðst Sigmundur Ernir á þá George W. Bush og Tony Blair fyrir að hafa „gert eins lítið úr starfi og eðli Sameinuðu þjóðanna og þeim var nokkur kostur. Þeir hafa í reynd rétt þeim langan fingur.“ Þá sagði hann íslensk stjórnvöld hafa „komið sér fyrir í hópi þeirra herskáu.“ Og enn: „Ísland hefur sumsé stillt sér upp í alþjóðasamfélaginu. Ekkert er lengur að fela. Ísland er í hópi árásarlandanna.“ Reiðilestrinum lýkur með þessum orðum hins framsýna greinanda: „Og þetta skulu menn hafa hugfast þegar líkin af tugþúsundum saklausra borgara fara að hrannast upp í hverfum stærstu borga Íraks - í skiptum fyrir einn mann.“


Í grein sinni í DV hinn 12. apríl hefur Sigmundur Ernir það eftir Abu Dhabi-sjónvarpsstöðinni, að 1252 almennir borgarar hafi látið lífið í innrásinni. Þá segir hann 136 hermenn úr liði Bandaríkjamanna og Breta hafa fallið í átökunum - allmarga fyrir eigin liðsmönnum, auk að minnsta kosti þúsunda íraskra hermanna.