5.4.2003

Samfylking flöktir á vorþingi - óhlutdrægni í Víðsjá?

Stjórnmálaumræðan er að komast í fastari skorður, eftir að allir flokkar hafa mótað kosningastefnu sína. Ekki er heldur líklegt, að fleiri framboð birtist. Enn er þó óljóst, hvort Nýtt afl, undir forystu Guðmundar G. Þórarinssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, býður fram í öllum kjördæmum.

Jafnréttismál.

Samfylkingin var sjálfri sér lík og beið með vorþing sitt fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins, svo að hún gæti mótað kosningastefnu með hliðsjón af því, sem aðrir flokkar höfðu samþykkt -  það er hentistefnu. Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var sagt, að jafnréttismál væru mál málanna hjá Samfylkingunni, vegna þess hve Ingibjörg Sólrún - en á vorþinginu sagðist hún vera tveggja manna maki - hefði staðið vel að þeim málum hjá Reykjavíkurborg.

 

Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, laugardaginn 5.apríl, þar sem hún bendir á þá staðreynd varðandi jafnréttisafrek Ingibjargar Sólrúnar í Reykjavík, að Samfylkingin stæri sig helst af því, að konur hafi verið ráðnar í stjórnunarstöður í Reykjavík. Ásdís Halla spyr, hvernig  hægt sé að monta sig af almennum stefnuyfirlýsingum og jafnrétti fárra stjórnenda, þegar fjöldi fjölskyldna líði fyrir skort á þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar, sem birtist til dæmis í barnabiðlistum við leikskólana. Telur Ásdís Halla, að stjórnendajafnrétti Ingibjargar Sólrúnar hjá Reykjavíkurborg megi sín lítils í samanburði við fjöldajafnréttið, sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi skapað með ákvörðuninni um að feður og mæður skyldu fá sama rétt til fæðingaorlofs. Að gera lítið úr þeim árangri sé ómálefnalegt.

 Skattamál. 

Samfylkingin er tækifærissinnað stjórnmálaafl, sem skipti um forystusauð undir lok janúar. Ingibjörgu Sólrúnu var troðið í tilbúið hlutverk í forystusveit Samfylkingarinnar, án þess að farið væri að hefðbundnum lýðræðislegum leikreglum. Þvert á gefin loforð fyrir ári, sagði Ingibjörg Sólrún af sér sem borgarstjóri í von um að verða kjörin á þing. Eftir að Ingibjörg Sólrún sá, að meirihluti þjóðarinnar var hlynntur Kárahnjúkavirkjun, ákvað hún að slást í lið með okkur í borgarstjórn Reykjavíkur, sem vildum, að borgin samþykkti eigendaábyrgð á lántöku Landsvirkjunar. 

Þegar Davíð Oddsson kynnti skattalækkunarstefnu sjálfstæðismanna á landsfundinum fyrir viku, sagði Ingibjörg Sólrún, að hún sýndi ?örvæntingu?. Síðan kemur hún með tillögur á vorþingi Samfylkingarinnar og tilgangurinn er greinilega sá einn að ?trompa? Sjálfstæðisflokkinn með því að bjóða betur  í skattamálum. Í vikunni var Ingibjörg Sólrún með það á vörunum, að hún vildi þrepabundinn staðgreiðsluskatt. Hún minntist hins vegar ekki á þá leið í ræðu sinni á vorþinginu.

Ellert B. Schram, sem situr á framboðslista með Ingibjörgu Sólrúnu í Reykjavík, skrifar grein í Fréttablaðið laugardaginn 5. apríl undir fyrirsögninni: ?Er hægt að kaupa þjóðina?? Greinin er ádrepa í garð okkar sjálfstæðismanna fyrir að bjóða skattalækkanir fyrir kosningar og líkir Ellert okkur við ?galdrakúnstnera?, sem bregða á leik með ?töfrabrögðum?. Ætli Ingibjörg Sólrún hafi ekki haft samband við Ellert, áður en hún ákvað að reyna að ?trompa? okkur sjálfstæðismenn með skattatillögum sínum? 

Utanríkísmál. 

Ingibjörg Sólrún ræddi einnig um utanríkismál á vorþinginu. Hún vill ekki, að Íslendingar skipi sér í röð þeirra Evrópuþjóða, sem styðja sóknina gegn Saddam Hussein. Kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að hún lýsi andstöðu við Bandaríkjastjórn, því að hún er gamall herstöðvaandstæðingur og hefur aldrei lagt þeim lið, sem telja nauðsynlegt að tryggja öryggi íslensku þjóðarinnar með aðild að NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin. Raunar er furðulegt, að fjölmiðlar skuli ekki hafa leitað eftir skoðunum hennar á varnar- og öryggismálum. Á Samfylkingarfundi í Reykjanesbæ taldi hún varnarsamninginn ekki lengur í gildi, sem virðist til marks um vanþekkingu hennar á málaflokknum. Auk þess sagðist hún vilja loka Reykjavíkurflugvelli, þegar að því kæmi á næstunni, að hennar mati, að Íslendingar tækju við stjórn Keflavíkurflugvallar af Bandaríkjamönnum. 

Svo virtist sem Ingibjörg Sólrún væri að taka upp Evrópuþráðinn á þann veg, að Ísland ætti að gerast aðili að Evrópusambandinu (ESB). Hún væri með öðrum orðum að gera flótta Össurar frá Evrópustefnunni marklausan. Í janúar vildi Össur, að við snerum viðræðum við ESB um stækkun evrópska efnahagssvæðisins upp í aðildarviðræður að ESB. Í febrúar sagði Össur, að ekki þýddi að ræða um aðild að ESB nema Sjálfstæðisflokkurinn vildi hana og þar sem svo væri ekki, ætti ekki að eyða tíma í málið fyrir kosningar.

Óhlutdrægni í Víðsjá? 

Þegar ég var að vinna við þennan texta heyrði ég Guðmund Steingrímsson flytja vikulegan pistil sinn í Víðsjá á laugardegi á rás 1. Ég veit ekki undir hvaða formerkjum Guðmundur er ráðinn til þess að ávarpa hlustendur en honum er valinn tími í þætti, sem ég kveiki á í þeirri trú, að í boði sé menningarlegt efni. Mér heyrist Guðmundur alltaf vera að fjalla um stjórnmál, þegar ég hlusta á hann, að vísu oftast með öðru eyranu. 

Stundum dettur manni í hug, að pistlahöfundar hins óhlutdræga ríkisútvarps noti tækifærið rétt fyrir kosningar til að ganga eins langt á svig við óhlutdrægnina og þeir frekast mega í trausti þess, að þeir verði ekki reknir fyrir að brjóta gegn henni, þar sem það þætti sérstakt hneyksli og til marks um ofríki í ritstjórn á þessum viðkvæma pólitíska tíma ? sérstaklega af því að útvarpsráð er kjörið á alþingi. Vegna þess hve fáir hlusta á orð þeirra geti þeir síðan sagt sér fórnað á altari pólitísks ofríkis en uppsögnin sé ekki vegna þess, að þeir bregðist því trausti, sem þeim er sýnt með því að veita þeim aðgang að þessum ríkisrekna miðli.   

Ég hef aldrei heyrt neinn pistlahöfund Víðsjár flytja andstæð sjónarmið við skoðanir Guðmundar, og veit því ekki, hvort innan þáttarins á að vera stuðlað að óhlutdrægni á þann hátt. Furðulegasta jafnvægiskúnst ríkisútvarpsins var, þegar Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni var sagt upp sem pistlahöfundi, af því að Illugi Jökulsson pistlahöfundur gekk út fyrir hæfileg mörk að mati þeirra, sem bera ritstjórnarlega ábyrgð á þessari ríkisstofnun. Til að skapa ekki að nýju vandræðaástand af þessum toga er líklega talið best að láta aðeins eina rödd og eina skoðun heyrast í pólitískum pistlum Víðsjár. 

Guðmundur Steingrímsson flutti að þessu sinni pistil sinn úr fjallakofa í Sviss og úthúðaði Bandaríkjamönnum vegna hernaðarins í Írak. Mér heyrðist hann kalla Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra þeirra, ?einskonar brjálæðing? auk þess sem hann hélt áfram sínu venjulega hnútukasti í Davíð Oddsson forsætisráðherra.  

Síðast sá ég Guðmund ræða með segulband í hönd við Davíð Oddsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Var mér sagt, að hann væri þar sem  blaðamaður Fréttablaðsins. Framsóknarmenn höfðu orð á því á sínum tíma, að þeim þætti sérkennilegt, að Þröstur Emilsson væri blaðamaður Fréttablaðsins á flokksþingi þeirra, þótt hann hefði þá ráðið sig sem kosningastjóra Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi. Blaðamenn Fréttablaðsins bregða sér greinilega í mörg gervi.