30.3.2003

Að loknum landsfundi.

35. landsfundi okkar sjálfstæðismanna lauk um 16.30 í dag, sunnudaginn 30. mars. Er það til marks um hve gott skipulag er á fundinum að samkvæmt áætlun tókst að afgreiða tæplega 30 ályktanir ? meiru skiptir þó, að það var gert í góðri sátt. 11 voru kjörnir í miðstjórn, síðan formaður og varaformaður. Allt gerðist þetta innan þeirra tímamarka, sem voru sett. Samhliða því, sem gengið var frá ályktunum, voru þær settar inn á vefsíðuna www.xd.is og á að vera unnt að nálgast þær þar.

Davíð Oddsson hlaut glæsilegasta kjör formanns Sjálfstæðisflokksins fyrr og síðar í meira en 70 ára sögu flokksins eða tæp 98% gildra atkvæða, 917 atkvæði af 950. Er þetta mikil og góð traustsyfirlýsing við Davíð eftir tæplega  12 ára setu á stóli forsætisráðherra og þegar 12 ár eru liðin, frá því að hann var kjörinn formaður og bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni, þáverandi formanni flokksins. Sýnir þessi eindregni stuðningur, hve vel Davíð hefur staðið að því að efla einingu innan flokksins.

Geir H. Haarde hlaut einnig góða kosningu í varafomannskjörinu eða um 93% atkvæða.

Er mikils virði fyrir hvern stjórnmálaflokk, að svo mikil samstaða ríki um forystu hans. Í miðstjórnarkjöri hlutu konur mikinn og góðan stuðning, þar á meðal tvær, sem eru í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, þær Tinna Traustadóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Hafa þær ekki áður verið í miðstjórninni. Magnús Þór Gylfason, formaður Heimdallar og starfsmaður borgarstjórnarflokksins, var endurkjörinn í miðstjórn.

Við afgreiðslu ályktana landsfundarins kom fram mikil eindrægni meðal fundarmanna um öll meginmál. Ekkert eitt mál skapaði ágreining eða olli heitum umræðum, sem skipti mönnum í fylkingar. Töluverðar umræður urðu um breytingartillögu, sem miðaði að því að fella úr ályktun ákvæði um að einkavæða ÁTVR. Var breytingartillagan felld og vill fundurinn því, að ÁTVR verði úr sögunni. Þá vildi Egill Jónsson, fyrrverandi alþingismaður, að fellt yrði úr ályktun um skólamál ákvæði um, að landbúnaðarmenntun flyttist undan forræði landbúnaðarráðuneytis til menntamálaráðuneytis. Var tillögu Egils hafnað af miklum meirihluta landsfundarfulltrúa.

Stjórnmálaályktunin rann í gegn án mikilla umræðna. Breytt var setningaröð í kafla ályktunarinnar um hryðjuverk og frelsun Íraks.

Einkenndi fundinn, hve mikill fjöldi manna var jafnan í salnum og hve virk þátttaka var í fundarstörfum. Fyrir hádegi í dag í miðstjórnarkjörinu komu 955 manns og greiddu atkvæði eða jafnmargir og tóku þátt í formanns og varaformannskjöri síðdegis. Hefur ekki áður verið staðið þannig að miðstjórnarkjöri, líklega meðal annars af ótta við, að ekki sé auðvelt að virkja fundarmenn til þátttöku í kosningu á þessum tíma, en annað sannaðist á fundinum núna.

Eftir landsfundinn fyrir tveimur árum töldum ýmsir sig hafa harma að hefna, vegna þess að þeir urðu undir í umræðum og atkvæðagreiðslum um sjávarútvegsmál eða umhverfis- og virkjanamál. Í þeim hópi var meðal annars Ólafur F. Magnússon, læknir og borgarfulltrúi, sem lét í veðri vaka, að hann hefði verið beittur lýðræðislegu ofbeldi á fundinum, þegar meginþorri fundarmanna hafnaði sjónarmiðum hans. Sagði hann skilið við Sjálfstæðisflokkinn og gekk til samstarfs við Frjálslynda flokkinn í borgarstjórnarkosningunum sl. vor. Ekkert af stefnumálum hans hefur hins vegar náð fram að ganga, þótt hann hafi náð kjöri í borgarstjórn og spillt fyrir sínum gamla flokki, stundum með hreinum ósannindum.

Davíð Oddsson var í Íslandi í dag á Stöð 2 og í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld og svaraði spurningum fréttamanna um fundinn. Athyglin beinist ekki síst, að hinum skýru fyrirheitum um lækkun skatta um allt að 22 milljörðum króna á næstu fjórum árum. Benti Davíð á hina styrku stöðu ríkissjóðs og á þá staðreynd, að með lækkun skulda ríkisins undanfarin ár hefði dregið úr vaxta- og fjármagnskostnaði ríkissjóðs, sem næmi um 6 milljörðum króna á ári. Nú hefði tekist að létta hina sameiginlegu skuldabyrði og ætti að nota tækifærið, sem það gæfi, til að auðvelda skattgreiðendum, heimilunum í landinu, til að létta á skuldabyrði sinni með lægri sköttum.

Þessi orð Davíðs minntu mig á hina gjörólíku stöðu Reykjavíkurborgar undir forystu R-listans, þar sem safnað hefur verið sífellt hærri skuldum á góðæristímum og skattar hafa jafnframt verið hækkaðir. Þar fara afborgarnir, vextir og önnur fjármagnsgjöld ekki lækkandi á næstu árum heldur munu sverfa sífellt meira að þeim, sem eru að ráðstafa skattfé Reykvíkinga, og knýja á um hækkun skatta frekar en lækkun.