29.3.2003

Af landsfundi.

Þriðji dagur landsfundar okkar sjálfstæðismanna var í dag, laugardag. Fór hann vel fram og án ágreinings um mikilvæg mál. Efnt var til skriflegrar atkvæðagreiðslu um eitt mál. Var það við afgreiðslu ályktunar um sjávarútvegsmál og var samþykkt að hugað yrði að ívilnun að úthlutun kvóta fyrir dagróðrabáta, með öðrum orðum var komið til móts við smábátaeigendur.


Á fundinum í dag sannaðist enn, að enginn veit, hvaða málefni það er, sem vekur heitar tilfinningar í umræðum á fundinum. Í dag voru til dæmis fluttar margar ræður um tillögu frá Þorsteini Davíðssyni og Orra Haukssyni um að hugað yrði að því að lækka sjálfsræðismörkin að nýju í 16 ár. Lauk þeim með því að tillagan náði ekki fram að ganga. Á hinn bóginn urðu litlar umræður um tillöguna í ályktun utanríkismálanefndar um stuðning við stefnu ríkisstjórnarinnar vegna innrásarinnar til frelsunar Íraks.


Í grein í Morgunblaðinu í dag (sem einnig er á vefsíðu minni) ræddi ég almennt um setningarfund landsfundarins, þar sem Hamrahlíðakórarnir undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur glöddu eyru og augu á annað þúsund fundarmanna, áður en Davíð flutti setningarræðuna, þar sem fyrirheit um miklar skattalækkanir vakti mesta athygli.


Heyrði ég í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, laugardaginn 29. mars, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, vissi ekki, hvernig hún ætti að bregaðst við tillögu Davíðs og taldi hana bera vott um örvæntingu! Ég hef oft áður heyrt hana tala svona, þegar henni þykir að sér sótt. Samfylkingin ákvað að opna kosningamiðstöð sína við Lækjargötu í dag. Húsnæðið hefur verið í leigu Baugs, sem ákvað eftir jólavertíðina 2002 að loka Top Shop versluninni í miðborginni, vegna þess að dæmið gekk ekki upp fjárhagslega.


Á landsfundinum í gær, föstudag, sátu ráðherrar fyrir svörum fram að hádegi. Þegar Kjartan Gunnarsson hafði flutt skýrslu sína sem framkvæmdastjóri flokksins og Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnmálanefndar, hafði kynnt drög að stjórnmálaályktun, tóku fimm ungir flokksmenn frá jafnmörgum háskólum landsins til máls og kynntu landsfundinum sjónarmið sín.


Var sérstaklega ánægjulegt að hlýða á unga fólkið bæði vegna þess, sem það hafði að segja, og ekki síður vegna hins, af hve miklu öryggi og festu þau fluttu mál sitt.


Viðhorf ungu ræðumannanna til þróunar menntamála á síðustu árum var dálítið annað en neikvæður söngur samfylkingarmanna og annarra um þessi mikilvægu málefni. Finnst mér raunar með ólíkindum, að Samfylkingin telji sér hag af því að draga upp svarta mynd af stöðu menntamála fyrir þessar kosningar, því að sá áróður er síst til þess fallinn að vekja traust á þeim, sem hann flytur. Hann er einfaldlega í hróplegu ósamræmi við staðreyndir, sem blasa við öllum óhlutdrægum mönnum.


Ég tók þátt í fundum þriggja nefnda á fundinum. Fyrir hann hafði ég átt hlut að gerð ályktunar um vísindamál fyrir hönd þingflokksins og tók því þátt í landsfundarnefndinni um þau mál. Ályktunin einkennist af framsýni og víðsýni og byggist á því, að áfram verði haldið á þeirri braut að auka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra í mennta-, vísinda- og rannsóknamálum. Keppt skal um opinbert fé en ekki forgangsraðað í þágu stofnana eftir því, hvort þær eru ríkisreknar eða ekki. Einróma stuðningur var um ályktunina á landsfundinum.


Eftir ræður unga menntafólksins á landsfundinum kvaddi ég mér hljóðs til að minna á, að frjálsræðið í menntamálunum væri ekki sjálfgefið. Það væri síður en svo á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka að auka svigrúm einstaklinga á þessu mikilvæga sviði. Við sæjum það til dæmis í Reykjavík, hvernig R-listinn þrengdi að Ísaksskóla og Landakotsskóla, svo að dæmi væru tekin. Hið sama yrði uppi á teningnum á öðrum skólastigum, ef vinstri flokkarnir fengju forystu í menntamálum. Þá yrði leitast við að hneppa allt og alla í fjötra ríkisafskipta.


 Að loknum fundi vísindanefndar fór ég í utanríkismálanefndina og tók þar þátt í málefnalegum og ítarlegum umræðum um Evrópumál og afstöðuna til átakanna í Írak. Náðist góð samstaða um ályktunina og var hún samþykkt  í dag, án þess að til ágreinings kæmi. Voru sérstaklega greidd atkvæði um efnisgreinina um Írak og var hún samþykkt af öllum þorra fundarmanna.


 Síðdegis í dag sat ég síðan fund stjórnmálanefndar til að kynna samþykkt utanríkismálanefndar um frelsun Íraks. Varð samstaða í nefndinni um það, hvernig á þessu máli yrði tekið í stjórnmálaályktuninni, en hún verður til umræðu á morgun.