23.3.2003

Áróðursstríðið - íslenski vinkillinn - Samfylking til vinstri.

Áróðursstríðið.

 

Þegar rætt er um síðari heimsstyrjöldina og framgang hennar, er ein af stóru gátunum, hvers vegna Hitler stöðvaði framrás herja sinna og gaf Bretum færi á að flytja meira en 300 þúsund hermenn yfir Ermarsund frá Dunkirk. Menn geta endalaust velt vöngum yfir þessu og leitað skýringa, staðreynd er hins vegar, að hefði þessi einstæði atburður ekki gerst, er ólíklegt að gangur styrjarldarinnar hefði orðið á þann veg, sem við þekkjum og Winston Churchill hefði tekist að blása kjarki og sigurvissu í brjóst bresku þjóðarinnar og efla hana og aðra til andstöðu við Hitler.

 

Spurning er, hvort björgun þessa mikla fjölda hermanna, fleiri, en mynda hinn öfluga her bandamanna, sem sækir nú undir bandarískri forystu gegn Saddam Hussein í Írak, ef atburðirnir í Dunkirk, flótti breska hersins undan ofureflinum og flutningur liðsaflans yfir sundið á öllu, sem gat flotið, hefðu verið sýndir beint á Sky, CNN eða BBC World. Þessari spurningu hafa margir velt fyrir sér og hún vaknaði enn á ný í huga mínum, þegar ég las grein eftir Garry Kasparov, heimsmeistara í skák, í The Wall Street Journal, laugardaginn 22. mars. Hann segir meðal annars:

 

„Því miður hafa einræðisherrarnir lært að nota nútíma rafræna fjölmiðla til að hafa áhrif á almenningsálitið. Göbbels hefði ekki síður verið mælskur fyrir framan sjónvarpsvélarnar og hvatt til þess að lífi þýskra brana yrði þyrmt en Tariq Aziz í Írak, sem var hrósað af einum fréttamanni CNN á dögunum fyrir að vera „öflugur og áhrifamikill.“ Hver veit nema hershöfðingjarnir Ulysses S. Grant og Dwight D. Eisenhower hefðu endað á sakamannabekk í Haag fyrir glæpi gegn mannkyninu í stað þess að verða kjörnir inn í Hvíta húsið, ef þeir hefðu komið við sögu í því andrúmslofti, sem nú ríkir á alþjóðavettvangi.

 

Þeir, sem nú mótmæla Bush á götum úti eða hallmæla honum í fjölmiðlum eru hjákátlegir vegna þess að aðgerðir þeirra byggjast á hinu alranga sögulega mati, sem á rætur í vinstri hreyfingum síðustu aldar. Hugmyndaheimur og orðaval þessara hreyfinga er orðinn samofinn stjórnmálaumræðum samtímans. Fréttaþulir tala þannig jafnan um Fidel Kastró „forseta“ Kúbu og Saddam Hussein forseta Íraks en Agusto Pinochet „einræðisherra“ Chile.“

 

Þessar hugleiðingar Kasparovs minna mig á umæður um menn og málefni í kalda stríðinu. Þá var mikið rætt um, hvernig væri unnt að greina afstöðu fjölmiðla og annarra með vísan til þátta á borð við þá, sem Kasparov nefnir. And-ameríkanismi er ekki síður áberandi nú en þá.

 

Ég fór í hádeginu síðastliðinn fimmtudag á viðskiptaþing í Háskólanum í Reykjavík og ræddi þar um átökin, sem hófust þá um morguninn. Er ég viss um, að ekki síst meðal ungs fólks, sem þekkir ekki gamla hitann í deilum um alþjóðamál, vekja stríðsátökin í Írak  nýjar og sterkar tilfinningar

 

Upplýsingaflæðið er meira en nokkru sinni., Netið er mikið notað til að miðla fróðleik og skiptast á skoðunum. Víða eru spjallrásir um stríði, til dæmis hvetur breska útvarpið, BBC World Service, hlustendur sínar mjög til þess að skoða vefsíðu sína bbcnews.com og láta skoðanir sínar í ljós.

 

Um leið og barist er með vopnum á vígvellinum er háð áróðurstríð í fjölmiðlum. Leitast er við að stýra fréttum eins og frekast er unnt í því skyni að hafa áhrif bæði innan og utan Íraks. Las ég einhvers staðar að Tommy Franks, hershöfðingi, sem stjórnar herjum bandamanna frá Qatar við Persaflóa, vildi segja sem minnst, vegna þess að hann vissi, að allar helstu fréttastofur og sjónvarpsstöðvar hefðu ráðið fyrrverandi hershöfðingja til að túlka framrás átakanna fyrir sig. Fengju þeir mikið af upplýsingum gætu þeir dregið upp mynd af hernðaraáætluninni og lýst henni fyrir andstæðingnum.

 

Íslenski vinkillinn.

 

Í aðdraganda kosninganna hjá okkur hafa andstæðingar ríkisstjórnarinnar reynt að gera afstöðu hennar og stuðning við ákvarðanir ríkisstjórna Bandaríkjanna og Breta tortryggilega, Í fyrsta lagi er sagt, að afstaðan sé í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar, á meðan leitað var diplómatískra lausna. Í öðru lagi er sagt, að ríkisstjórnin hafi brotið þingskapalögin með því að hafa ekki samráð við utanríkisnefnd. Í þriðja lagi er látið í veðri vaka, að forsæstisráðherra og utanríkisráðherra séu ekki sammála.

 

Hið sama á við um mat á þessum fullyrðingum og ýmsu, sem að okkur er haldið vegna stríðsátaknna sjálfra í alþjóðlegum fjölmiðlum, að nauðsynlegt er að greina á milli þess, sem er rétt, og hins, sem er sagt í áróðursskyni.

 

Frá fyrsta degi umræðna um aðgerðir gegn Saddam Hussein í kjölfar ályktunar öryggisráðs SÞ frá 8. nóvember 2002 númer 1441, hafa forsætisráðherra og utanríkisráðherra sagt, að ekki sé unnt að útiloka valdbeitingu. Á meðan úrslitatilraun var gerð til að finna diplómatíska lausn lögðu íslensk stjórnvöld áherslu á að sú leið yrði farinn. Þorsteinn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, fór meira að segja fyrir öryggisráðið og flutti þennan boðskap í ræðu þar, ræðu, sem Rannveig Guðmundsdóttir, talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum á alþingi fagnaði sérstaklega.  Þar var valdbeiting ekki útilokuð.

 

Við vitum öll, hver framvindan hefur síðan orðið. Frakkar hótuðu að beita neitunarvaldi í öryggisráðinu, sama hvaða tillaga yrði gerð þar til að styrkja forsendur fyrir valdbeitingu. Hætt var að leita diplómatískra lausna. Þar með var aðeins ein leið fær vildu ríki framfylgja ályktunum öryggisráðsins, sem eru orðnar 17 síðan samið var um vopnahlé við Íraka við lyktir Persafólastríðsins fyrir 12 árum.

 

Röksemdin um skort á samráði við utanríkismálanefnd er ekki trúverðug, þegar litið er á efni málsins og hve oft það hefur verið rætt á alþingi og í utanríkismálanefnd. Raunar er það rauður þráður í málflutningi stjórnarandstæðinga í utanríkismálanefnd í áranna rás, þegar stórir viðburðir gerast, að sitjandi ríkisstjórn hafi ekki nægilegt samráð við þá.

 

Tilraunin til að reka fleyg á milli stjórnarflokkanna og forsætisráðherra og utanríkisráðherra vegna þessa máls er byggð á pólitískri óskhyggju.

 

Samfylking til vinstri.

 

Afstaða ríkisstjórnarinnar er í samræmi við þá utanríkisstefnu, sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt undanfarna áratugi. Alþýðuflokkurinn var jafnan samstiga Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki við mótun þessarar stefnu og framkvæmd hennar. Nú hallar Samfylkingin sér hins vegar að vinstri/grænum og sameiginlega taka flokkarnir svipaða afstöðu og tíðkaðist hjá Alþýðubandalaginu á árum áður. Er það nýmæli, þegar litið er á átökin í ljósi íslenskra stjórnmála. Hitt er ekki nýtt, að innan Framsóknarflokksins deili menn opinberlega um það, hve langt eigi að ganga í stuðningi við bandamenn okkar, Bandríkjamenn og Breta.