2.3.2003

Traust stjórn - sigur Vöku - blað án hirðis?

 

Traust stjórn.

 

Flaug um hádegisbil á laugardag til Egilsstaða og ók þaðan til Seyðisfjarðar á stjórnmálafund með Arnbjörgu Sveinsdóttur þingmanni og Hilmari Gunnlaugssyni lögmanni, sem er í fimmta sæti á lista okkar sjálfstæðismanna í Norðaustur-kjördæmi. Var fundurinn vel sóttur og vorum við spurð um margt að loknum ræðum, sem snerust um þann árangur, sem náðst hefur í landstjórninni á undanförnum og tækifærin framundan. Þau eru auðvitað sérstaklega mikil á Austurlandi vegna hinna miklu virkjanna og álverksmiðjunnar í Reyðarfirði.

 

Á sínum tíma var ég í eitt sumar á síld á Seyðisfirði og vann í bræðslunni hjá Hafsíld, sem er norðan við fjörðinn og varð illa úti í snjóflóði um árið. Á ég skemmtilegar minningar frá þeim tíma, þótt lífið hafi snúist um lítið annað en að vinna og sofa. Nú er Seyðisfjörður að taka sig nýja mynd vegna hafnarframkvæmda, svo að unnt verði að taka á móti nýrri og stærri Norrænu í vor. Varð ég undrandi að sjá hina miklu uppfyllingu í höfninni, sem gjörbreytir allri aðstöðu í bænum til að taka á móti fleiri ferðamönnum en áður.

 

Hvarvetna er viðurkennt, að staða efnahagsmála þjóðarinnar sé eins og  best verði kosið. Þannig segir í forsendum fyrir þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar árin 2004 til 2006: „Fullyrða má að þjóðarbúskapurinn sé í betra jafnvægi nú en um langt árabil.“

 

Öllum almenningi er ljós hinn mikli og góði árangur, sem hefur náðst á undanförnum árum undir forystu Sjálfstæðisflokksins, ekki síst við stjórn efnahagsmála. Við blasir einnig, að með ákvörðunum um virkjanir við Kárahnjúka, álver í Reyðarfirði og nú með samningi um stækkun álvers Norðuráls í Hvalfirði hefur verið lagður grunnur að miklu framfaraskeiði næstu ár.

 

Að þessur leyti minnir staðan á ástandið á svipuðum tíma árið 1971, þegar gengið var til kosninga eftir 12 ára viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og tekist hafði að sigrast á efnahagserfiðleikunum 1967 og 1968 og treysta innviði efnahagskerfisins, meðal annars með Búrfellsvirkjun og álverinu í Straumsvík.

 

Í kosningunum 1971 tóku kjósendur ákvörðun um að breyta og mynduð var vinstri stjórn að þeim loknum undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Hún stofnaði til opinberra útgjalda og eyðslu, kynnti undir verðbólgu og aðhaldsleysi, svo að ekki tókst að nýta hið einstaka jafnvægi í þjóðarbúskapnum sem skyldi. Má jafnvel segja, að það hafi tekið þjóðina 20 ár að vinna sig út úr þeim hremmingum, eða þar til mynduð var ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar sumarið 1991.

 

Niðurstöður kannana um þessar mundir má túlka á þann veg, að vilji margra standi til þess eins að breyta, breytinganna vegna. Vert er að minna þá á, að veldur hver á heldur. Stjórn fjármála Reykjavíkurborgar hefur til dæmis ekki átt neinn sérstakan þátt í því að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Eins og nú hefur verið staðfest af nýjum borgarstjóra hafa skuldir Reykjavíkurborgar vaxið að minnsta kosti um 389% frá 1994 til ársloka 2002 - 1100% ef miðað er við árslok 1993 til ársloka 2003. Á sama tíma hefur ríkissjóður lækkað skuldir sínar um 13%, nýtt góðærið til að létta á skuldabyrðinni í stað þess að auka hana.

 

Sé vilji til þess að nýta hið góða jafnvægi í þjóðarbúskapnum og þau tækifæri, sem eru framundan, er ekki skynsamlegt að taka þá áhættu, sem felst í því að fela hinni ábyrgðarlitlu Samfylkingu forystuhlutverk í stjórnmálum þjóðarinnar.

 

Sigur Vöku.

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hélt meirihluta í Stúdentaráði Háskóla Íslands í kosningum á miðvikudag og fimmtudag. Nýr óháður listi, Háskólalistinn, fékk einn fulltrúa og Röskva 3. Vaka fékk tæplega 1.900 atkvæði og þar með 5 fulltrúa kjörna til Stúdentaráðs. Röskva, samtök félagshyggjufólks fékk rúmlega 1.300 atkvæði og Háskólalistinn tæplega 400.

Þetta er glæsilegur og verðskuldaður sigur Vöku. Hefur verið allur annar bragur á forystu stúdenta við Háskóla Íslands síðan Vaka hlaut meirihluta í stúdentaráði í fyrra eftir alltof langt hlé. Jákvæð barátta fyrir vel skilgreindum viðfangsefnum er vænlegri til góðs árangurs en sú neikvæðni og síðan sjálfumgleði, sem oft einkenndi forystumenn Röskvu.

 

Nú veit ég ekki nema af lestri Morgunblaðsins og Vökublaðsins, hvernig kosningabaráttunni innan Háskóla Íslands var háttað. Þó varð ég var við, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, fór á fund með Röskvufólki síðastliðinn mánudag og kynnti þar, að ákveðið hefði verið að verja meira fé en áður úr borgarsjóði til Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

 

Ingibjörg Sólrún kynnti þessi auknu útgjöld úr borgarsjóði, áður en málið hafði verið lagt fyrir borgarráð, hvað þá heldur afgreitt þar.  Hún tók sér einnig það bessaleyfi að flytja þennan boðskap inn í kosningabaráttuna meðal stúdenta fyrir hönd borgarstjórnar Reykjavíkur, þótt hún hefði sótt um leyfi frá störfum borgarfulltrúa vegna mikilla anna og álags.

 

Blað án hirðis?

 

Íhlutun Ingibjargar Sólrúnar dugði ekki til að rétta hlut Röskvu í kosningabaráttunni eins og niðurstaðan sýndi. Hitt er ljóst, að Fréttablaðið gerir allt, sem í þess valdi stendur, til að gera hlut Ingibjargar Sólrúnar sem mestan og bestan. Því til staðfestingar má nefna hvernig blaðið sagði frá því á föstudag, þegar stjórnmálaskóli Samfylkingarinnar var settur í Top Shop síðastliðinn fimmtudag: „Hápunktur fyrsta kennsludagsins var hins vegar ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þar sem hún ræddi um pólitísk verkefni samtímans, blaðlaust, og hreif með sér nemendur.“ Að blöð segi þannig frá til að auka hlut stjórnmálamanna hefur ekki gerst í áratugi eða frá þeim tíma, þegar flokksblöðin voru og hétu. (Daginn eftir birti Fréttablaðið síðan forsíðufrétt í þeim eina tilgangi að sverta Davíð Oddsson – einnig í anda gömlu flokksblaðanna. Þá vissu menn þó úr hvaða átt var skotið, enginn vill hins vegar kannast við að eiga Fréttablaðið.)

 

Það er næsta kaldhæðnislegt, að Samfylkingin skuli velja Top Shop fyrir höfuðstöðvar í Reykjavík. Þeir, sem stunda rekstur í miðborginni, telja brotthvarf verslunarinnar Top Shop þaðan eitthvert skýrasta dæmið um, hve illa er komið fyrir slíkum rekstri á þessum stað í Reykjavík. Miðborgin er síður en svo fyrsti kostur, þegar menn huga að öflugri verslunar- eða atvinnustarfsemi. Reykjavík er ekki heldur fyrsti kostur, þegar fólk hugar að búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 2002 fjölgaði Reykvíkingum um 0,2% en landsmönnum öllum um 0,7%, íbúum höfuðborgarsvæðisins (utan Reykjavíkur) um 2,4% og íbúum á landsbyggðinni um 0,2%. Íbúaþróunin í Reykjavík var á síðasta ári hin sama og á landsbyggðinni, þar sem menn telja sig eiga verulega í vök að verjast gagnvart höfuðborgarsvæðinu!