22.2.2003

ESB-snúningur - deilt um staðreyndir - blekking fyrir kosningar.

Yfirlit

ESB-snúningur.

Í vikunni tók ég þátt í tveimur sjónvarpsþáttum og einum umræðuþætti í útvarpi, það er Í vikulokin laugardaginn 22. febrúar með þeim Þorfinni Ómarssyni og Össuri Skarphéðinssyni en að morgni þriðjudagsins 18. febrúar hittumst við Össur Í bítið á Stöð 2 og að kvöldi 19. febrúar hitti ég Þórólf Árnason borgarstjóra í Íslandi í dag einnig á Stöð 2.

 

Í fyrsta þættinum vorum við Össur kallaðir á vettvang til að ræða niðurstöður í skoðanakönnun á vegum Stöðvar 2, sem sýndi, að meirihluti er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Kom mér á óvart, hve Össur gerði í raun lítið úr Evrópustefnu Samfylkingarinnar, en síðast þegar við hittumst til að ræða málið fyrir nokkrum vikum í Silfri Egils var Össur þeirrar skoðunar, að við ættum í raun að sækja um aðild strax með því að breyta viðræðunum um stækkun EES í aðildarviðræður að ESB. Endurtók hann þessa skoðun síðan á öðrum vettvangi en þegar við hittumst núna var hann þeirrar skoðunar, að ekkert þýddi að ræða ESB-aðild nema Sjálfstæðisflokkurinn hefði þar forystu.

 

Hvorki í þessum þætti á Stöð 2 né Í vikulokunum fékk ég viðhlítandi skýringu á þessum sinnaskiptum Össurar. Mér dettur helst í hug, að nú sé hann kominn í hendur á einhverjum ímyndarsérfræðingum, sem hafa sagt honum og Samfylkingunni, að það sé til einskis að setja ESB-aðild á oddinn í kosninganbaráttunni – það græði enginn á því. Össur segir að vísu, að ESB eigi ekki upp á pallborðið núna, vegna þess að það geri svo ósvífnar fjárkröfur á hendur okkur í viðræðunum um stækkun EES-svæðisins. Hvað heldur hann að gerist, ef við sækjum um aðild að ESB? Heldur hann, að það komi ekki fjárkröfur? Kröfur um að ESB ráðstafi 750 þúsund ferkílómetra lögsögu okkar á Norður-Atlantshafi? Krafa um að við segjum ekkert, sem Frakkar telja móðgandi fyrir sig?

 

Ekki er aðeins, að Össur tali á annan veg um ESB og Ísland en hann hefur gert. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, blés málið einnig út af borðinu í setningarræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna föstudaginn 21. febrúar.

 

Fyrir nokkrum árum var ég í Silfri Egils með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og þar sagði hún afdráttarlaust, að hún teldi Ísland eiga að ganga í Evrópusambandið. Hvaða skoðun skyldi hún hafa á málinu núna? Er hún samstiga Össuri? Hvað um Bryndísi Hlöðversdóttur, þingmann Samfylkingarinnar? Hefur hún snúist eins og Össur? Talar Össur ööru vísu um málið, af því að hann er hættur að vera talsmaður Samfylkingarinnar?

 

Deilt um staðreyndir? 

 

Við Þórólfur Árnason borgarstjóri ræddum um fjármál Reykjavíkurborgar og mörg hundruð prósent skuldasöfnun hennar síðan 1993. Ég ætla ekki að fara út í einstaka þætti málsins hér, enda er unnt að fræðast um þá með því að lesa ræður mínar um málið í borgarstjórn, sem birtast hér á vefsíðu minni.

 

Ég átta mig ekki á því, hvort Þórólfur lítur í raun þannig á, að reka eigi Reykjavíkurborg eins og fyrirtæki með eignir, sem unnt er að selja fyrir skuldum, ef í harðbakkann slær. Mér sýnist þó, að hann nálgist fjármálaumræður vegna Reykjavíkurborgar á þann veg. Hann leggur áherslu á, að hann verði ekki var við annað en bóhaldið sé rétt fært, endurskoðun sé í góðu lagi og starfsmennirnir heiðarlegir. Með því er hann ekki að svara spurningum okkar sjálfstæðismanna.

 

Við byggjum röksemdafærslu okkar á því, að árið 1994 gaf R-listinn Reykvíkingum það loforð að létta af þeim sameiginlegum skuldum í nafni borgarinnar. Síðan hafa þær vaxið um 1100%, ef mælt er frá árslokum 1993 til ársloka 2003. Þótt skuldasöfnunina megi rökstyðja með því að benda á fjárfestingu, þó það nú væri, eru það Reykvíkingar, sem þurfa að greiða þær, annað hvort með sköttum eða gjöldum til Orkuveitu Reykjavíkur eða Félagsbústaða hf., svo að stærstu skuldararnir séu nefndir. Þetta eru skuldir, sem R-listinn lofaði að safna ekki.

 

Auðvitað geta einkafyrirtæki verið verðmæt á markaði, þótt þau séu rekin með tapi eins og til dæmis Tal hf. Þrátt fyrir tapið, seldist Tal hf. fyrir 4 milljarði króna. Þegar ég minnti á það í sjónvarpsumræðunum, að tap hefði verið á rekstri Tals hf., brást Þórólfur við hinn versti og sagði mig fara með rangt mál. Minnti hann mig helst á Ingibjörgu Sólrúnu í síðasta Kastljósþætti okkar. Þá sagði hún  mig fara með rangt mál, þegar ég hélt því fram, að árið 1999 hefðu millifærslur verið notaðar til að fegra skuldastöðu borgarsjóðs. Hafði hún raunar í hótunum um, að sýnt yrði fram á það eftir þáttinn, hvílíkur ósannindamaður ég væri. Við þessa hótun hefur hún að sjálfsögðu ekki staðið, enda veit hún, að 1. janúar 1999 voru færðir fjármunir frá Orkuveitu Reykjavíkur til borgarsjóðs í því skyni að bæta stöðu hans.

 

Er óvenjulegt að sitja í þáttum sem þessum og vera sagður ósannindamaður, þegar viðmælandinn hlýtur að vita betur. Á borgarstjórnarfundi 20. febrúar lenti Þórólfur Árnason að nýju í þeirri stöðu, að spurning hlýtur að vakna í huga þess, sem hlustaði á hann, hvort  hann vissi ekki betur, þegar hann svaraði.

 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins spurði Þórólf, hvort hann hefði vitað fyrirfram um þá ákvörðun stjórnar Strætó bs. að hækka fargjöldin langt umfram verðlagshækanir. Þórólfur svaraði á þennan veg: “Spurt er hvort að vitneskja hafi hér verið fyrirliggjandi áður en hækkunin kom til framkvæmda og svarið við því er já.”

 

Urðu umræður um, hvernig skilja ætti þetta svar. Taldi Þórólfur þær lítils virði, af því að þær bæru keim af stjórnmálum! Þegar stjórnmálaumræður snúast um að fá vitneskju um hlut embættismanna eins og borgarstjórans í Reykjavík í töku ákvarðana eins og hækkunar fargjalda Strætó bs., geta þessir embættismenn ekki skotið sér undan því að svara með því að gera lítið úr stjórnmálaumræðunum!  Þeir verða auðvitað að svara á svo skýran hátt, að ekki þurfi að ræða málið frekar. Það gerðist ekki í þessu tilviki – enda er málinu ekki lokið.

 

Forvitnilegt var að sjá, hvernig Fréttablaðið sagði frá þessum umræðum í borgarstjórn Reykjavíkur og á hve augljósan hátt það dró taum Þórólfs. Hið sama má segja um það, sem ég heyrði af orðum Hallgríms Thorsteinssonar um málið á Útvarpi Sögu. Þar datt Hallgrímur í þann pytt að hæla Þórólfi á kostnað stjórnmálamannanna vegna þessara umræðna, sem áttu þó  rætur að rekja til þess, hve loðið og óskýrt hann svaraði einföldum spurningum.

 

Blekking fyrir kosningar.

 

Í viðræðum okkar Össurar Í vikulokin var rætt um margt. Þorfinnur spurði, hvort ekki væri rétt hjá Sigmundi Erni, hinum samfylkingarsinnaða leiðarahöfundi DV, að fyrirheit Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar um skattalækanir væru kosningaloforð kortér fyrir kosningar. Ég sagði, að auðvitað væri rétt, að þessi loforð væru gefin rétt fyrir kosningar og væru þess vegna kosningaloforð kortéri fyrir kosningar. Spyrja mætti: Hvenær á að gefa kosningaloforð nema rétt fyrir kosningar? Hvaða loforð eru kosningaloforð nema þau, sem eru gefin rétt fyrir kosningar?

 

Í slíkum vangaveltum hlýtur rétta spurningin að vera: Standa menn við kosningaloforðin? Eru forsendur til þess að efna þau? Eru þeir, sem gefa loforðin trúverðugir? Þeir, sem lofuðu að létta skuldum af Reykvíkingum fyrir kosningar 1994, en sjá þær nú hafa aukist um 1100% eru ekki trúverðugir. Þar hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verið í forystu.

 

Ég vakti máls á því í þættinum, að mesta blekkingin fyrir þessar þingkosningar væri talið um forsætisráðherraefnið hjá Samfylkingunni. Með því væri vísvitandi verið að blekkja kjósendur, því að kosningar til alþingis snerust ekki um forsætisráðherraefni heldur frambjóðendur einstakra flokka, sem tækju síðan höndum saman að kosningum loknum og mynduðu meirihluta að baki ríkisstjórn. Íslenska stjórnskipunin gerir einfaldlega ekki ráð fyrir því kerfi, sem er forsenda kosningabaráttu Samfylkingarinnar í kringum Ingibjörgu Sólrúnu og er þess vegna um vísvitandi blekkingu að ræða – ímyndarfræðingarnir leggja svo mikla áherslu á þessa blekkingariðju, að þeir banna Össuri að ræða um málefni eins og aðild Íslands að ESB.

 

Hitt er svo annað mál, að engum íslenskum stjórnmálamanni hefur í seinni tíð verið ýtt jafn neyðarlega til hliðar af eigin flokksmönnum og Össuri. – Kortéri fyrir kosningar er hann sviptur umboði til að vera talsmaður og forsætisráðherraefni þess flokks, sem hann veitir formennsku. Þettar er gert án þess að kallaðir séu saman fundir kjörinna fulltrúa en með því að boða fréttamenn til fundar síðdegis á sunnudegi í Gyllta sal Hótel Borgar. Að loknu slíku valdabrölti er ákveðið að hefja kosningabaráttu til alþingis á forsendum, sem eru á skjön við stjórnskipunina. Spilað er undir með skoðanakönnunum og innan tómu fjölmiðlahjali um “turnana tvo”. Þeir menn, sem þannig tala, hafa lítil efni á því að skrifa leiðara í blöð og hneykslast á stjórnmálamönnum fyrir að kynna stefnu sína fyrir kosningar.