8.2.2003

Fyrstu borgarstjórasporin - dómur í máli Árna.

 

Fyrstu borgarstjórasporin.

Nýr borgarstjóri, Þórólfur Árnason, sat fyrstu fundi sína með borgarráði og borgarstjórn í vikunni. Fyrir borgarráðsfundinn gaf hann til kynna í fjölmiðlum, að slíkir fundir væru fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Af því tilefni vakti ég máls á því í ræðu minni, að við væntum þess, að borgarstjórinn sæti alla fundi borgarráðs, en þeir eru hvern þriðjudag. Þórólfur sagði einnig frá því, að hann hefði átt einslega fundi með borgarfulltrúum R-listans og benti ég á það í ræðu minni, að þess vegna hefðum við sjálfstæðismenn ákveðið að leggja fyrir hann skriflega fyrirspurn í borgarráði um fjármál og skuldasöfnun borgarinnar.

 

Viðbrögð borgarstjórans við þessum ummælum mínum komu mér og ég held öllum í borgarstjórn í opna skjöldu. Hann taldi í þeim felast einhvers konar ásökun um, að hann þyrfti að spyrja mig leyfis um, hverjum hann byði á heimili sitt! Ekkert slíkt vakti fyrir mér, enda vissi ég ekki, að Þórólfur hefði boðið R-listanum á heimili sitt og skiptir það mig eða aðra engu, þegar litið er til starfa í borgarstjórn Reykjavíkur. Hugleiðingar mínar lúta að því, hvaða stjórnarhætti nýr, embættislegur borgarstjóri ætlar að tileinka sér. Vill hann leggja sig fram um að vera borgarstjóri allra Reykvíkinga?

 

Af orðum Þórólfs í fyrstu orðaskiptum okkar í borgarstjórn ræð ég, að honum sé ekki ofarlega í huga að efna til samstarfs við okkur sjálfstæðismenn. Fékk ég frekari staðfestingu á þessari skoðun, þegar ég las netviðtal við Þórólf á Visir.is. Þar er meðal annars að finna þessar spurningar og svör:

 

„Björn Bjarnason sagðist á síðasta borgarstjórnarfundi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur m.a. sammála því mati Ingibjargar Sólrúnar frá því fyrir níu árum, þegar Reykjavíkurlistinn var að fæðast, að borgarstjóri án atkvæðisréttar og án þess að vera pólitískur leiðtogi þess hóps, sem stendur honum að baki í borgarstjórn, sé verr settur en sá, sem hefur ótvírætt pólitískt umboð. Hvernig svararðu slíkri gagnrýni?
Tímarnir breytast og mennirnir með. Björn verður bara að bíða og sjá eins og aðrir hvort ég muni standa mig í starfi sem málsvari Reykjavíkurlistans. Það ætla ég mér.

Hefðir þú tekið að þér borgarstjóraembættið ef sjálfstæðismenn hefðu boðið þér það? Nei.

Mig langar að vita hversvegna þú hefðir ekki þegið starfið ef sjálfstæðismenn hefðu boðið þér það.Ég er ættaður frá vondu fólki og var svo frægur að vera við vígslu Miklaholtskirkju seinustu sem afi þinn vígði 1945 eða 1946, svo ég hefi verið við messur hjá bróður, föður og afa þínum. Margt af þínum ættingjum eru og voru rammasta íhald, besta fólk.
Ein leiðrétting fyrst, það var ekki afi minn sem vígði Miklaholtskirkju, heldur langafi minn, Árni prófastur Þórarinsson.
Nú, nú, þú spurðir hvers vegna ég hefði ekki tekið starfið undir forystu sjálfstæðismanna. Fyrst og fremst er það vegna þess að mér hugnast ekki forysta Björns Bjarnasonar í minnihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Þar veit ég, af öllum þeim fjölda yfirlýstra sjálfstæðismanna sem við mig hafa talað síðan ákveðið var að ég tæki að mér þetta starf, að ég er ekki einn um þá skoðun.

Miðað við yfirlýsingar þínar varðandi Björn Bjarnason hér að ofan, skipta stefnur og málefni ekki nokkru máli; heldur persónur. Þetta kemur svo sem ekki á óvart þar sem þú ætlar greinilega að feta vandlega í fótspor fyrirennara þíns, þ.m.t. hrokann. Er ekki viðmót þitt gagnvart fulltrúum minnihlutans og þar með hartnær helmingi kjósenda í Reykjavík líkt og að ég hefði sagt upp afnotum af síma hjá Tali, bara vegna þess að þú varst forstjóri þar?
Þú hefur lesið meira úr mínum orðum og skrifum en ég hef gert sjálfur. Mitt mat er hinsvegar að málflutningur borgarfulltrúa Björns Bjarnasonar snúist fremur um ,,flokkspólitík" en hagsmuni borgarbúa. “

Ég læt lesendum eftir að draga ályktanir af því, sem fram kemur í þessum orðum hins nýja, ópólitíska borgarstjóra. Hann er ráðinn til starfa fyrir alla Reykvíkinga sem embættismaður. Hefur hann í raun mótað leið að því markmiði? Ætlar hann aðeins að ganga erinda R-listans? 

Dómur í máli Árna.

Í vikunni féll dómur Hæstaréttar í máli Árna Johnsens. Hefur það tekið okkur gamla samstarfsmenn Árna og vini hans sárt að fylgjast með framvindu máls hans. Málaferlum er lokið og niðurstaða er fengin. Árni tekur út refsingu í samræmi við dóminn, sem er þungur. Er undarlegt, að enn hlakkar í einhverjum vegna þessa sorglega máls. Ég bið, að Árni og fjölskylda hans hafi sem mestan styrk til að sigrast á þessum raunum. Enginn getur sett sig í þeirra spor.

Huglausir nafnleysingjar halda á vefsíðum áfram að vega að mér í tilefni lykta málsins fyrir hæstarétti. Hlutur menntamálaráðuneytisins var ræddur til hlítar fyrir opnum tjöldum í ágúst 2001, eftir að skýrsla ríkisendurskoðunar birtist. Má meðal annars benda á Morgunblaðið frá 17. ágúst 2001, þar sem birt eru bréf, sem gengu á milli menntamálaráðuneytis og framkvæmdasýslu annars vegar og hins vegar frá menntamáláráðuneyti til ríkisendurskoðunar.

Eftir að þessi gögn birtust og stjórnsýslulegur þáttur málsins hafði verið ræddur fram og aftur kom grein í Morgunblaðinu hinn 2. september 2001 eftir Pál Þórhallsson, lögfræðing á mannréttindaskrifstofu Evrópuráðsins, undir fyrirsögninni: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.“ Þar segir meðal annars:

„Miðað við það sem fram hefur komið sýnist þó ekki réttmætt að tala um lagalega ábyrgð ráðherra. Ætti að nægja að benda á að meint aðgerðarleysi menntamálaráðherra gagnvart byggingarnefnd Þjóðleikhússins getur seint talist alvarlegt embættisbrot. Ekki er því haldið fram að ráðherra hafi haft vitund um hugsanleg auðgunarbrot hvað þá notið góðs af. Þá má líka spyrja hvort ráðherra hafi sömu eftirlitsskyldur gagnvart þingmanni, sem er í raun umbjóðandi hans, og eiginlegum undirmanni sínum. Aðfinnslur Ríkisendurskoðunar í garð menntamálaráðuneytisins eru í raun svipaðar og fjölmörg ráðuneyti og ríkisstofnanir hafa sætt í gegnum tíðina í álitum umboðsmanns Alþingis. Ekkert þeirra hefur orðið tilefni til aðgerða af hálfu Alþingis á hendur ráðherrum. Það er auðvitað ekki þar með sagt að gagnrýni, a. m. k. þegar hún er réttmæt, kalli ekki á úrbætur.“

Í Morgunblaðsviðtali hinn 16. ágúst 2001 sagði ég meðal annars að menntamálaráðuneytið mundi taka mið af skýrslu ríkisendurskoðunar að því er varðar starfsferla í ráðuneytinu og í viðtali við blaðið daginn eftir benti ég, að ráðuneytið  hefði vakið athygli ríkisendurskoðunar sérstaklega á að það skorti stjórnsýslureglur um störf byggingarnefnda. Síðan segir orðrétt í viðtalinu:

„Við vekjum m.a. athygli á að umboðsmaður Alþingis hefur margsinnis bent á að mjög erfitt sé að halda uppi stjórnsýsluaga á þeim sviðum þar sem ekki hafa verið settar sérstakar stjórnsýslureglur. Við höfum ekki það eftirlitskerfi með störfum nefnda eins og þessara að við getum áttað okkur á því hvenær þær eru komnar út fyrir þau mörk sem valda áhyggjum hjá Ríkisendurskoðun. Almennt finnst mér að menn megi ekki líta á þetta mál út frá þeirri vitneskju sem við höfum núna um framgöngu formanns byggingarnefndarinnar heldur verði að gera það út frá þeirri stöðu sem við vorum í áður en í ljós kom að hann misfór með það traust sem honum hafði verið sýnt,“ segir Björn.

„Ég tel mjög brýnt, ef ætlunin er að framfylgja svona málum með skipulegum hætti, að settar verði skýrar og ótvíræðar reglur. Þær eru ekki fyrir hendi. Fram hefur komið að á vegum fjármálaráðuneytisins er unnið að því að setja reglur um byggingarnefndir. Þetta mál sýnir okkur að það er brýnna en ella og ég tel auk þess að það þurfi að huga rækilega að skipulagi við opinberar framkvæmdir," sagði Björn.“

Réttmæti þessara ábendinga er staðfest með dómi hæstaréttar. Þegar um þetta mál er rætt, er nauðsynlegt að greina á milli stjórnsýslulegra þátta og úrbóta varðandi þá og þess, sem leitt hefur til þungs refsisdóms yfir Árna. Vegna málsins taldi menntamálaráðuneyti nauðsynlegt að setja skýrari starfsreglur um framkvæmd laganna um opinberar framkvæmdir, sem falla samkvæmt verkaskiptingu innan stjórnarráðsins undir fjármálaráðuneyti. Hinn  27. maí árið 2002 setti fjármálaráðuneytið verklagsreglur um tilhögun frumathugunar, áætlunargerðar og verklegrar framkvæmdar við opinberar framkvæmdir.