2.2.2003

Þingvellir tilnefndir - skuldastaða kynnt - spennandi kosningar.

Þingvellir tilnefndir.

 

Í vikunni var send umsókn um það til UNESCO, menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í París, að Þingvellir yrðu settir á heimsminjaskrá stofnunarinnar. Rituðum við Davíð Oddsson undir skjöl þess efnis við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu á vegum menntamálaráðuneytisins.  Er þess vænst, að niðurstaða fáist hjá matsnefnd UNESCO á næsta ári.

 

Á heimsminjaskrá UNESCO voru á miðju síðasta ári  730 staðir í 124 löndum og eru allir  taldir einstakir og sameiginleg arfleifð mannkyns. Þar er að finna ýmsa  merkustu staði heims þar á meðal pýramídana í Egyptalandi, Stonehenge í Englandi, Kínamúrinn, Taj Mahal á Indlandi, Galapagos-eyjar, Grand Canyon  í Bandaríkjunum og af norrænum stöðum má nefna stafkirkjuna í Urnes í Noregi.

 

Sögu Íslands frá víkingatímanum tengist viðurkenning á L?Anse aux Maedows á Nýfundnalandi, þar sem Leifur Eiríksson og hans menn höfðu vetursetu. Var þessi frægi staður settur á listann þegar árið 1978. Að mínu mati ætti að vinna að því að fá siglingaleið víkingana yfir Norður-Atlantshaf viðurkennda á heimsminjaskránni. Yrði það spennandi, sameiginlegt viðfangsefni þjóðanna, sem búa við Norður-Atlantshaf.

 

Þegar ég varð menntamálaráðherra vorið 1995 var vakið máls á því við mig, að Ísland hefði ekki gerst aðili að sáttmálanum um heimsminjaskrána, en hann var samþykktur 1972 og gekk í gildi 1975, þegar nægilega margar þjóðir höfðu fullgilt hann. Taldi ég einsýnt, að Ísland gerðist aðili að þessu alþjóðlega samstarfsverkefni og varð það í desember 1995 og urðum við 145 þjóðin til að fullgilda samninginn. Nú eru aðildarríkin 175. Á vefsíðunni http://whc.unesco.org/heritage.htm#debut má sjá, hvaða staðir eru á listanum.

 

Ég hef ekki kynnt mér til hlítar, hvers vegna tegða var innan íslenska stjórnkerfisins að ríkið gerðist aðili að þessums samningi. Þó veit ég, að ýmsir óttuðust að með aðild að honum væri verið að setja sig undir of mikil alþjóðleg afskipti af þeim stöðum, sem kæmust á listann. Var það sjónarmið meðal annars uppi í Þingvallanefnd á sínum tíma.  Núvernadi Þingvallanefnd er hins vegar þeirrar skoðunar, að það sé Þingvöllum og landi og þjóð til virðingar og vegsauka að hljóta þá viðurkenningu, sem felst í skrásetningu á þennan lista. Samþykkti nefnin snemma árs 2001 heimild til tilnefningar á Þingvöllum og síðla árs 2001 lagði ég tillögu um það efni fyrir ríkisstjórnina og einnig um aðra staði hér, sem skyldu tilnefndir. Samþykkti ríkisstjórnin þennan lista en á honum eru auk Þingvalla:  Skaftafell, Breiðafjörður, Núpsstaður, Keldur, Gásir, Reykholt, Víðimýri, Surtsey, Mývatn, Herðubreiðarlindir og Askja.

 

Seint á síðasta ári var svo ákveðið að ríða á vaðið með Þingvelli og hefur umsókn um þá nú verið lögð fram í París.

 

 

Skuldastaða kynnt.

 

Í tilefni af því að nýr borgarstjóri er að taka við störfum í Reykjavík og í framhaldi af því, að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga hafa verið samþykktar fyrir árið 2003 efndum við sjálfstæðismenn í borgarstjórn til blaðamannafundar miðvikudaginn 29. janúar og kynntum niðurstöður athugana okkar á skuldastöðu Reykjavíkurborgar. Skuldabyrðin hefur þyngst ár frá ári síðan R-listinn tók við völdum með það á vörunum að létta á skuldum Reykvíkinga, en í árslok 1993 voru hreinar skuldir á hvern Reykvíking 40 þúsund krónur en við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar eru þær 415 þúsund. Hver Reykvíkingur ber þyngsta skuldabaggann af íbúum í stærri sveitarfélgögum þegar heildarskuldir, það er með lífeyrisskuldbindingum, eru metnar, það er 733 þúsund krónur. Frá 1993 hafa skuldir Reykjavíkurborgar hækkað um 1100% á meðan skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 13%.

 

Ég verð alltaf jafnundrandi, þegar talsmenn R-listans með Ingibjörgu Sólrúnu í broddi fylkingar láta eins og þetta sé ekki áhyggjuefni. Skil ég raunar ekki, hvernig nokkrum ábyrgum stjórnanda Reykjavíkur dettur í hug að borgarbúar átti sig ekki á því, hvert stefnir, ef haldið er áfram á sömu braut. Ástæðan fyrir þessari þróun er ekki síst sú, að innan R-listans hafa menn aldrei getað komið sér saman um eitthvað, sem er óþægilegt, eins og að veita nauðsynlegt aðhald við opinber útgjöld.

 

Andstæðingar okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík geta ekki hnekkt þeim tölum, sem við kynnum. Þeir geta ekki heldur skotið sér undan þessum staðreyndum með því að segja, að aðeins megi nefna sumar skuldir en ekki aðrar. Segir mikla sögu um málstaðinn, þegar Ingibjörg Sólrún hverfur, að hún neitar núna að svara spurningum fjölmiðlamanna um skuldastöðu Reykjavíkur.

 

Spennandi kosningar.

 

Skoðanakannanir sýna, að kosningarnar í vor verða spennandi. Spurningin er hvort baráttan muni meira snúast um skoðanakannana-tal eða þau málefni, sem ber hæst hverju sinni. Fjölmiðlar gangast gjarnan fyrir skoðanakönnunum eða standa undir kostnaði við þær til að vekja athygli á sjálfum sér og slá því gjarnan mjög upp fréttum af könnunum.

 

Ef það er rétt, að fylgi Samfylkingarinnar byggist á ósk um breytingu, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvaða breytingar eru í boði.  Ef fjölmiðlar gæfu því jafnmikinn gaum og eigin könnunum, yrðu kjósendur betur upplýstir en af því að lesa tölur úr skoðanakönnunum og útleggingu á þeim. Þær skipta minnu um framtíð okkar en verk og stefna þeirra, sem eru í framboði.

 

Samfylkingin hefur aldrei átt aðild að ríkisstjórn og nú hefur Össur Skarphéðinsson boðað, að ráðherraefni Samfylkingarinnar séu ekki í framboði til þings fyrir utan sjálfan sig og Ingibjörgu Sólrúnu, hvort sem hún nær kjöri eða ekki. Nefnir hann Má Guðmundsson, hagfræðing Seðlabanka Íslands, og Pál Skúlason, rektor Háskóla Íslands, til sögunnar.

 

Sérkennilegt er og kannski til marks um það, hvaða þyngd orð Össurar hafa, að enginn hefur fylgt eftir ummælum hans í Íslandi í bítið um þetta efni. Hvað segir Jóhanna Sigurðardóttir um þetta? Eða Bryndís Hlöðversdóttir? Hvernig fellur það að ímyndinni um, að konur séu áberandi á listum Samfylkingarinnar, ef velja á karla utan þings til að setjast í ríkisstjórn í stað þessara kvenna?