25.1.2003

Framboðslisti ákveðinn - öflugt starf á Bifröst - rætt um Evrópumál.


Framboðslisti ákveðinn.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík komu saman í dag, laugardaginn 25. janúar, og ákváðu framboðslista sína í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fyrir alþingiskosningarnar 10. maí næstkomandi. Ríkti mikil eindrægni á fundinum og voru listarnir samþykktir einum rómi auk þess sem Margeir Pétursson hlaut einróma endurkjör sem formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

Eftir venjuleg aðalfundastörf var efnt til málþings um atvinnumál og var það niðurstaða þeirra, sem þar töluðu, að fyrir eðlilega framtíðarþróun íslensks vinnumarkaðar án atvinnuleysis yrðu menn að líta til iðnaðar. Það væri ekki unnt að búast við því, að landbúnaður og fiskveiðar þyrftu á meiri mannafla að ræða. Þjónustustörf til dæmis við ferðamenn væru unnin í svo mikilli samkeppni, að þau yrðu aldrei vel launuð. 

Þau Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir við Háskólann í Reykjavík, verkefnisstjóri við Auð í krafti kvenna, og Guðmundur Ólafsson, lektor við Háskóla Íslands, lögðu öll áherslu á nauðsyn starfsmennta og fjölgunar starfa í þeim greinum, sem krefjast verkmenntunar. 

Í vikunni hlustaði ég á Laufskálaviðtal á Rás 1 við Baldur Gíslason, skólameistara við Iðnskólann í Reykjavík, þar sem hann lýsti meðal annars skoðun sinni á þróun iðnnáms og verknáms. Kvað þar við nokkuð annan tón en hjá þeim, sem ræða um þessi mál að því er virðist frekar með fortíðina en framtíðina í huga, það er með augað á því námi, sem þeir stunduðu á sínum tíma, frekar en framtíðarkröfum vinnumarkaðarins.

Vissulega er þörf á ákveðinni grunnfærni og þekkingu, en í raun er enginn núna að taka próf í neinni verklegri grein, sem tryggir honum að vera þar í fremstu röð alla ævi eða njóta sín í greininni. 

Baldur talar um þessi mál af mikilli reynslu. Hann var til dæmis fenginn til þess fyrir fáeinum árum að semja nýja námskrá fyrir prentiðnaðinn, en þar sáu menn fram á, að þessi iðngrein hafði tekið stakkaskiptum með nýrri tækni og í stað þess að ríghalda í fortíðina lögðu þeir á ráðin um framtíðina með gjörbyltingu á skipulagi námsins. Hefur þetta gengið eftir með góðum árangri. 

Sambærilegs átaks er þörf í öðrum greinum til þess að laga þær að breyttum kröfum og kalla á stærri hóp nemenda. Laði menn ekki nemendur að námi er til lítils barist í þágu menntunar. 


Öflugt starf á Bifröst. 

Fimmtudaginn 23. janúar fór ég í heimsókn í Viðskiptaháskólann Bifröst. Þar hitti ég þá Runólf Ágústsson rektor og Stefán Kalmansson fjármálastjóra og skoðaði nýbyggingar með þeim og fræddist um framtíðaráform.  

Við ræddum meðal annars stöðu einkarekinna háskóla í samanburði við ríkisrekna og fjárstreymi til skólanna úr opinberum sjóðum. Vinstrisinnar eru þeirrar skoðunar, að skerða beri fjárveitingar til einkareknu skólanna vegna þess að þeir hafi heimild til að innheimta skólagjöld. Ég er andvígur þessu sjónarmiði og tel, að það byggist í besta falli á misskilningi eða í hinu versta á óvild í garð einkarekstrar. 

Þegar samið var milli menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Háskóla Íslands um að fjárstreymi til skólans skyldi taka mið af fjölda nemenda, var í sátt komist að niðurstöðu um kostnað við nemanda í einstökum deildum. Að sjálfsögðu var þar tekið mið af fjölda nemenda við Háskóla Íslands, sem nýtur hagkvæmni stærðarinnar. Þessar sömu tölur eru lagðar til grundvallar, þegar samið er við aðra háskóla án tillits til nemendafjölda þar.  

Ég lít þannig á, að ríkið eigi að vera hlutlaust gagnvart einstökum skólum, þegar það veitir fé með nemanda til að stunda nám í einhverri grein, það sé hins vegar nemandans að velja skóla. Nemendur hafa val á milli ríkisrekins skóla og einkarekins, þeir ákveða, hvort þeir vilja greiða skólagjöld eða ekki.  

Þegar stjórnendur skólans á Bifröst stóðu frammi fyrir samningi ríkisins og Háskóla Íslands sáu þeir, að fé með hverjum nemanda í viðskiptafræði var mun lægra en þeir fengu þá með hverjum nemanda í skóla sínum. Þeir urðu að laga skólann að samningnum, ef þeir vildu halda áfram á sömu braut. Það var gert, þegjandi og hljóðalaust og Bifrastarskólinn vex og dafnar. 


Rætt um Evrópumál.

Erindi mitt að Bifröst var ekki aðeins að fylgjast með þróun skólans heldur einnig að tala þar í nýjum og vel hönnuðum fyrirlestrarsal um Ísland, Evrópu og hnattvæðinguna. Fjöldi manns sótti fyrirlesturinn og urðu líflegar umræður að honum loknum. Hafði ég ekki síður ánægju af þessum þætti heimsóknarinnar en hinum. 

Í máli mínu lýsti ég undrun á þeirri yfirlýsingu Kjartans Jóhannssonar, sendiherra og formanni íslensku samninganefndarinnar við Evrópusambandið (ESB) um framtíð evrópska efnahagssvæðisins (EES), að EES-samningurinn yrði ónýtur, ef ekki tækist að semja við ESB. Þá mótmælti ég því einnig eindregið, að EES-samningurinn hefði veikst. 

Skil ég ekki, hvað býr að baki hjá þeim talsmönnum íslenskra hagsmuna, sem gera lítið úr EES-samningnum á þessari stundu í samskiptum okkar og ESB. Gildi alþjóðasamninga skiptir smáþjóðir meira máli en þá, sem eru stærri og valdameiri. Með alþjóðasamningum eru hendur stórvelda bundnar gagnvart smáþjóðum. Að smáþjóð gangi fram með þeim hætti, að samningur hennar við stórveldi sé gagnslaus, er í andstöðu við almenn og skynsamleg rök í alþjóðasamskiptum. 

Samkvæmt 128. grein EES-samningsins á ESB að sjá til þess, að ný aðildarríki ESB gerist aðilar EES-samningnum. 

Ég hvatti einnig til þess, að í umræðum um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi gleymdu menn ekki hinum nánu og miklu tengslum okkar við ríkin í Norður-Ameríku. Á sama tíma og ESB hefur ekki áhuga á öðru en að komast með einum eða öðrum hætti að íslenskum sjávarauðlindum, hvort heldur fiskimiðum eða fyrirtækjum, fjárfesta fyrirtæki frá Bandaríkjunum og Kanada í stóriðnaði á Íslandi, það er Norðurál,  Alcoa og Alcan.