11.1.2003

Fréttastofan og orðrómurinn - hvaða Samfylking? - endurteknar Evrópuumræður.

 

 

 

Fréttastofan og orðrómurinn

Furðulegt var að sitja við útvarpstækið og hlusta á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fráfarandi borgarstjóra, vera með kröfu á hendur sjálfstæðismönnum vegna ábyrgðar Reykjavíkurborgar á lántöku Landsvirkjunar til að standa undir kostnaði við Kárahnjúkavirkjun.

 

Þetta gerðist í fréttum hljóðvarps ríkisins í hádeginu laugardaginn 11, janúar og það var Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (sem hafði af því mestar áhyggjur sunnudaginn 29. desember, hvort skilaboðin hefðu borist til framsóknarmanna um að lífsmark væri með R-listanum),sem ræddi við Ingibjörgu Sólrúnu og bar undir hana orðróm um, að einhverjir borgarfulltrúar sjálfstæðismanna ætluðu að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna um ábyrgðina í borgarstjórn fimmtudaginn 16. janúar. Ingibjörg Sólrún staðfesti, að hún hefði heyrt þennan orðróm en fréttamaðurinn lagði út af honum á illskiljanlegan hátt.

 

Ingibjörg Sólrún veit auðvitað ekkert um það, hvernig sjálfstæðismenn ætla að fara með atkvæði sitt í þessu máli í borgarstjórn. Þegar Ingibjörg Sólrún fer að tala um, að borgarstjórn sé fjölskipað stjórnvald, eins og hún gerði í þessu samtali sínu við Þóru Kristínu, og ábyrgð borgarfulltrúa er það til marks um, að hún er í hinum mestu vandræðum og sér að hún kemst ekki hjálparlaust frá þeim. Þeir, sem sitja í fjölskipuðu stjórnvaldi, geta að sjálfsögðu tekið afstöðu með eða á móti máli eða setið hjá við afgreiðslu þess.

 

Ingibjörg Sólrún hefur forystu í þessu fjölskipaða stjórnavaldi, borgarstjórn Reykjavíkur, til 1. febrúar 2003. Hennar er að leiða ábyrgðarveitinguna til Landsvirkjunar í gegnum borgarstjórn og nú er hún að verða pólitískur talsmaður og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, sem hefur lýst yfir stuðningi við Kárahnjúkavirkjun. Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur datt ekki í hug að leita frétta af því, þegar hún ræddi við Ingibjörgu Sólrúnu, hver væri afstaða hennar til tilmæla Landsvirkjunar um ábyrgðina.

 

Af mörgu sérkennilegu við fréttina, þegar Ingibjörg Sólrún var spurð um orðróminn varðandi afstöðu borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, var furðulegast, að hún skyldi ekki spurð um eigin afstöðu. Ætli hún þyki ekki fréttaefni?

 

Hvaða Samfylking?

Í borgarstjórn Reykjavíkur veit enginn, hver verður afstaða fulltrúa Samfylkingarinnar til ábyrgðarbeiðni Landvirkjunar, þótt stefna flokksins sé að styðja Kárahnjúkavirkjun. Áður en Ingibjörg Sólrún lýsti yfir framboði sínu til þings og var formlega utan Samfylkingarinnar, gat hún sagt, að hún þyrfti ekkert að taka mið af stefnu Samfylkingarinnar. Nú getur hún ekki lengur svarað með þessum fyrirvara, verðandi talsmaður Samfylkingarinnar. Í borgarstjórn situr einnig Stefán Jón Hafstein, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, sem hefur lýst andstöðu við Kárahnjúkavirkjun, þótt Samfylkingin styðji hana. Í borgarstjórn er einnig Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrir Samfylkinguna, en hún kom þangað úr Kvennalistanum. Enginn veit, hver er afstaða hennar til ábyrgðar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Varamaður Samfylkingarinnar í borgarstjórn er Helgi Hjörvar, sem situr í stjórn Landsvirkjunar fyrir R-listann og var eini stjórnarmaður Landsvirkjunar, sem lýsti andstöðu við Kárahnjúkavirkjun á stjórnarfundinum 10. janúar, þegar ákveðið var að óska eftir ábyrgð Reykjavíkurborgar sem 45% eiganda Landsvirkjunar.

 

Fyrir fáeinum dögum tók Össur Skarphéðinsson af skarið um, að hann væri forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar enda formaður hennar. Fráleitt væri að ímynda sér, að Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherraefni flokksins. Nú hefur verið látið berast til fjölmiðla, að þjóðin skuli búa sig undir u-beygju hjá Össuri í þessu máli. Ingibjörg Sólrún verði forsætisráðherraefnið og talsmaður Samfylkingarinnar í komandi kosningum en Össur ætli að leiða Samfylkinguna í stjórnarmyndunarviðræðum og stjórna innra starfi flokksins!

 

Ingibjörg Sólrún sagðist fara úr borgarstjórn til að koma í veg fyrir, að sjálfstæðismenn hæfu samstarf við framsóknarmenn um stjórn Reykjavíkur. Vissi hún álíka mikið um það mál og orðróminn um afstöðu borgarfulltrúa sjálfstæðismanna til ábyrgðarinnar fyrir Landsvirkjun. Hún sagðist einnig sækjast eftir þingsæti til að bola Davíð Oddssyni úr embætti forsætisráðherra. Þýðir forysta Ingibjargar Sólrúnar, að Samfylkingin ætli alls ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum?

 

Hvarvetna þar sem jafnaðarmenn í Evrópu hafa valið tvíeyki á borð við það, sem Össur Skarphéðinsson boðar nú, eftir að hafa kallað Ingibjörgu Sólrúnu yfir sig, hefur það leitt til vandræða. Hvergi eru þau skýrari en í hjá Verkamannaflokknum í Noregi.

 

Samfylkingin hefur frá upphafi verið að leita að sjálfri sér, stefnu sinni og foringja, Þeirri leit er ekki lokið og það segir mikið um áhrif fólksins í þessum flokki, sem hefur sagst boða nýja lýðræðislega stjórnarhætti, að Össur skuli með svonefndum ráðgjöfum sínum geta skipað fráfarandi borgarstjóra til forystu fyrir flokkinn í landsmálum, eftir að þessi sami frárafarndi borgarstjóri hefur ávallt neitað að taka þátt í nokkrum lýðræðislegum kosningum eða atkvæðagreiðslum um menn eða málefni innan Samfylkingarinnar. Eru þetta þeir fyrirmyndarhættir í starfi stjórnmálaflokka, sem Bryndís Hlöðversdóttir hefur verið að boða?

 

Endurteknar Evrópuumræður

Davíð Logi Sigurðsson, blaðamaður Morgunblaðsins sagði í viðhorfsgrein í Morgunblaðinu, að Davíð Oddsson forsætisráðherra hefði ekki fjallað um alþjóðamál í áramótaávarpi sínu. Var skrýtið að lesa þetta eftir blaðamann Morgunblaðsins, því að í áramótagrein í blaðinu ræddi Davíð einmitt töluvert um alþjóðamál, þar á meðal varnarsamstarf okkar við Bandaríkjamenn, sem varð tilefni baksíðufréttar í Morgunblaðinu, og um Evrópumál, sem hefur orðið tilefni umræðna vegna tillögu Davíðs um, að skipuð verði Evrópunefnd til að fjalla um tengsl okkar við Evrópusambandið. Er brýn þörf á, að þau mál verði tekin efnislegum tökum og sett í annað samhengi en dægurmálapólitík.

 

Evrópusambandið (ESB) er næsta ósvífið í viðræðunum  við EES-EFTA-ríkin um stækkun EES-svæðisins í tilefni af því, að tíu ný ríki eru að bætast við Evrópusambandið. Þessum ríkjum er skylt að gerast aðilar að EES-samningnum samkvæmt 128. grein hans. Í stað þess að líta á þetta sem tæknilegt úrlausnarefni kýst Evrópusambandið að gera háar fjárkröfur á hendur Íslandi, Noregi og Líechtenstein. Svo koma talsmenn ESB á Íslandi og segja, að þetta sýni, að best sé fyrir okkur að sækja um aðild að ESB!

 

Fyrir tíu árum voru umræðurnar um Ísland og ESB svipaðar og nú. Þá var Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, að byrja að snúast frá þeirri skoðun sinni, að aðild að EES tryggði, að við þyrftum ekki að fara í ESB, og látið var í veðri vaka, að Norðmenn myndu fara í ESB og þá yrði EES-samningurinn, sem ekki var genginn í gildi, ónýtur. Við ættum bara að snúa málinu upp í það að fara í ESB og með það á vörunum gekk Alþýðuflokkurinn til þingkosninga árið 1995. Ól hann á tortryggni í garð Sjálfstæðisflokksins og eftir kosningar kom ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til sögunnar.

 

Í þingkosningunum 1999 sögðu þeir, sem börðust fyrir ESB-stefnu Alþyðuflokksins árið 1995, að henni hefði verið hafnað og þess vegna væri ekki boðið upp á hana að nýju. Nú árið 2003 talar Össur Skarphéðinsson á sömu nótum og gert var 1995, best sé fyrir Íslendinga að snúa á Evrópusambandið vegna óbilgirni þess í samningum við okkur um EES-stækkunina, með því að sækja um aðild að ESB. Halda menn, að kröfur ESB á hendur okkar minnki við það?