4.1.2003

Afsögn Ingibjargar Sólrúnar - ótti við sjálfstæðismenn - enn um verkmenntun

 

Afsögn Ingibjargar Sólrúnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði af sér sem borgarstjóri í beinni útsendingu ljósvakamiðlanna um kvöldmatarleytið sunnudaginn 29. desember. Þrátt fyrir heitstrengingar við kjósendur og samstarfsmenn innan R-listans um að hún mundi ekki bjóða sig fram til þings, varð ákvörðun hennar um þingframboð til þess. að henni var ekki sætt sem borgarstjóri. Atburðarásin var með ólíkindum. Hún var stjórnlaus alveg frá fyrsta degi hinn 18. desember fram á lokamínútuna. Ingibjörg Sólrún bar höfuðábyrgðina á því, þar sem hún neitaði að horfast í augu við, að persónulegur metnaður hennar réð aðeins úrslitum fyrir hana en ekki aðra.

 

Síðdegis sunnudaginn 29. desember hittust leiðtogar flokkanna innan R-listans á fundi hjá Ingibjörgu Sólrúnu í ráðhúsinu. Þar kynnti hún þeim, að hún hefði í hyggju að segja af sér frá 1. febrúar og tillaga sín væri sú, að Þórólfur Árnason, fyrrverandi forstjóri Tals, tæki við af sér sem borgarstjóri. Alfreð Þorsteinsson, oddviti framsóknarmanna, samþykkti tillöguna, en síðar hefur komið fram, að Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, nefndi fyrstur nafn Þórólfs, en Ingibjörg Sólrún sagðist hafa hringt í hann um hádegisbil laugardaginn 28. desember. Þórólfur sagði við fréttastofu hljóðvarps ríkisins, að fréttamaður þaðan hefði haft samband við sig á aðfangadag, þriðjudaginn 24. desember, og spurt, hvort hann væri að verða borgarstjóri. Síðdegis laugardaginn 28. desember gerði Ingibjörg Sólrún Alfreð grein fyrir jákvæðri afstöðu Þórólfs til að taka að sér borgarstjórastarfið.

 

Ingibjörg Sólrún sagði hvorki Stefáni Jóni Hafstein, oddvita Samfylkingarinnar, né Árna Þór Sigurðssyni, oddvita vinstri/grænna og forseta borgarstjórnar, frá nafni Þórólfs og viðbrögðum hans fyrr en á fundinum klukkan 14.00 sunnudaginn 29. desember. Þeir voru því verr undir fréttina búnir en Alfreð, sem hafði um sólarhings fyrirvara. Alfreð vildi fá tafarlaus svör þeirra, þegar þau komu ekki, fór hann af fundinum fyrir klukkan 16.00, sagðist samþykkur tilboði borgarstjóra og hélt í höfuðstöðvar Framsóknarflokksins við Hverfisgötu til að ræða við samstarfsmenn sína og flokksbræður. Hann sagði í samtali við fréttamann hljóðvarps ríkisins rétt fyrir þann fund klukkan 17.00, að allt gæti gerst. Fréttamaður spurði Alfreð, hvort hann kynni að gera tillögu um það á fundinum, að samstarfi innan R-listans yrðu slitið. Sagði Alfreð, að svo kynni að fara.

 

Rétt fyrir klukkan 18.00 bárust þær fréttir, að Árni Þór og Stefán Jón væru til viðtals um tilboð borgarstjóra. Var næsta grátbroslegt að fylgjast með því í beinni útsendingu á fréttum hljóðvarps ríkisins, hve miklar áhyggjur fréttamennirnir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Sigríður Árnadóttir og höfðu af því, hvort framsóknarmenn hefðu fengið vitneskju um sinnaskipti Árna Þórs og Stefáns Jóns. Þau Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi og Jóna Hrönn Bolladóttir varaborgarfulltrúi, læknir og prestur, voru send úr ráðhúsinu með boð til framsóknarmannanna, af því að þau voru "ópólitískir fulltrúar Reykjavíkurlistans" eins og Þóra Kristín orðaði það. Þegar Sigríður í fréttastofunni á Efstaleiti heyrði, að þau hefðu ekki fengið leyfi til að sitja fundi framsóknarmannanna, spurði hún áhyggjufull: "En komust þau inn á fundinn með þessi skilaboð eða komust þau aldrei lengra en að dyrunum?" "Nei, " sagði Þóra Kristín, "þau  bíða hér enn eftir að koma þessum skilaboðum inn á fundinn. Ég veit ekki hvort einhver annar hefur fært þau inn á fundinn."  Síðar í fréttatímanum náði Þóra Kristín tali af Birni Inga Hrafnssyni , skrifstofustjóra Framsóknaflokksins, og var samtal þeirra sent bein í fréttatímanum. Þegar Björn hafði svarað nokkrum spurningum kallaði Sigríður ofan af Efstaleiti: "En Þóra Kristín, vita framsóknarmenn af afstöðu vinstri-grænna og Samfylkingarinnar?"

 

Framsóknarmenn fengu skilaboðin, gerðu hlé á fundi sínum til klukkan 21.00 og Alfreð skundaði að nýju í ráðhúsið rétt fyrir klukkan 19.00, hitti borgarstjóra, Árna Þór og Stefán Jón. Nokkrum mínútum birtist Árni Þór og sagði við Stöð 2, að R-listanum væri borgið! Samkomulag hefði tekist um afsögn borgarstjóra og Þórólf Árnason í embættið.

 

Var í samræmi við annað, að Árni Þór greindi fyrstur frá samkomulagi um afsögn Ingibjargar Sólrúnar og að ráðinn yrði ópólitískur borgarstjóri í hennar stað, því að Ingibjörg Sólrún hafði áður hafnað sáttatilboði að undirlagi framsóknarmanna um, að Árni Þór yrði borgarstjóri í hennar stað. Gat hún greinilega ekki unnt neinum af samstarfsmönnum sínum innan R-listans að taka við embættinu af sér.

 

Í greinum í DV 2. janúar og Morgunblaðinu 4. janúar, sem sjá má hér á vefsíðu minni, færi ég rök að því, að R-listinn sé dauður með afsögn Ingibjargar Sólrúnar, allar forsendur hans séu brostnar, því að hann snerist um völd en ekki málefni - um það, hvernig menn kæmu sér saman um að hafa einn úr sínum hópi, kjörinna borgarfulltrúa, borgarstjóra. Þegar Ingibjörg Sólrún braut gegn þeirri meginreglu samstarfsins með því að fara í þingframboð fyrir Samfylkinguna voru dagar hennar sem borgarstjóra taldir og einnig R-listans. Þessi skoðun er áréttið í bókun okkar sjálfstæðismanna, sem við lögðum fram á borgarstjórnarfundi 2. janúar, þar sem við kröfðum forseta borgarstjórnar um skýr svör við því, hver yrði pólitískur málsvari R-listans eftir brottför Ingibjargar Sólrúnar. Fengum við því miður ekki skýr svör við því.

 

Ótti við sjálfstæðismenn

 

Þegar Ingibjörg Sólrún var spurð, hvers vegna hún hefði að lokum tekið ákvörðun um að segja af sér, gaf hún ýmsar ólíkar skýringar. Er augljóst, að hún veit ekki alveg, hvaða rök hún á helst að nota hverju sinni til að draga athygli frá þeirri staðreynd, að ástæðan fyrir afsögn hennar er auðvitað ákvörðun hennar sjálfrar um að bjóða sig fram til þings. Hún vill auðvitað draga athyglina frá sjálfskaparvítinu.

 

Ein helsta ástæðan, sem Ingibjörg Sólrún nefnir fyrir afsögn sinni, er, að hún hafi óttast, að ella mundu sjálfstæðismenn setjast í meirihlutastjórn með einhverjum innan R-listans. Beindist athyglin einkum að því, hvort samstarf milli okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna væri að mótast.

 

Ég ítreka hér ummæli mín við fjölmiðlamenn, þegar þeir spyrja um þennan þátt, að engar viðræður hafi verið að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna. Hitt liggur í augum uppi, að við aðstæður sem þessar ræða stjórnmálamenn saman og velta fyrir sér álitaefnum.

 

Ábyrgð okkar, sem sitjum í borgarstjórn Reykjavíkur, felst í því að tryggja meirihluta um ákvarðanir til að gæta hagsmuna borgarinnar og borgarbúa. Ef frumkvæði að því að mynda meirihluta, hefði farið úr höndum R-listans til okkar sjálfstæðismanna, hefði ég ekki rætt við eina fylkingu innan R-listans heldur fyrst kynnt mér afstöðu framsóknarmanna og vinstri/grænna, helst á sameiginlegum fundi. Miðað við hug Stefáns Jóns Hafsteins í garð okkar sjálfstæðismanna og heitstrengingar Ingibjargar Sólrúnar um að gera hlut okkar sem minnstan er líklega síst að vænta áhuga á þeim bæ á að starfa með okkur. Málum er hins vegar þannig háttað, að við getum myndað meirihluta með hverjum, sem hefur yfir tveimur atkvæðum að ráða, en R-listanum hefur einmitt verið skipt í fjögur tveggja manna hólf. Við upplausn listans verður sú breyting, að Ingibjörg Sólrún flyst væntanlega í hólf Samfylkingarinnar og situr þá Dagur B. Eggertsson einn eftir í ?ópólitíska? hólfinu.

 

Í samtali við Morgunblaðið komst ég þannig að orði um hræðslu Ingibjargar Sólrúnar við okkur sjálfstæðismenn, að besta herstjórnarlistin fælist í því að ná markmiðum sínum án þess að þurfa að grípa til vopna. Við sjálfstæðismenn þurftum ekki annað en að vera til taks, svo að Ingibjörg Sólrún ákvæði að hætta sem borgarstjóri, að hennar eigin sögn.

 

Í lok ársins birtist Gallup-könnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Þar heldur Samfylkingin því fylgi, sem hún hafði náð í nóvember og framboðsbrölt Ingibjargar Sólrúnar sýnir ekki neina breytingu á fylgi flokksins í desember. Össur Skarphéðinsson hefur þær tölur sér til stuðnings í átökum um forystuna innan Samfylkingarinnar.

 

Enn um verknám

 

Ég heyrði í fréttum, að Samtök iðnaðarins hefðu brugðist illa við því, sem ég sagði um þau og reynslu mína af áhuga þeirra á menntamálum hér á síðunni fyrir nokkru. Er því haldið fram á síðu samtakanna í grein þeirra Davíðs Lúðvíkssonar og Sveins Hannessonar, framkvæmastjóra samtakanna, að ég hafi sýnt verk- og tæknimenntun einhverja vanvirðingu sem menntamálaráðherra, af því að ekki hafi tekist að laga reiknilíkan framhaldsskólanna að sjónarmiðum Samtaka iðnaðarins um inntak þess.

 

Það eru fréttir fyrir mig, að þessir forráðamenn Samtaka iðnaðarins hafi áhuga á reiknilíkaninu. Orð þeirra benda raunar til þess, að þeir viti ekki um hvað það snýst, því að líkanið mælir fé til skóla í samræmi við fjölda nemenda í einstökum námsgreinum og mælir einnig meira fé til verknáms en bóknáms. Vandi verknámsins er ekki síst sá, að nemendum fækkar þar svo mikið, að hópar í einstökum greinum ná tæplega máli samkvæmt líkaninu. Reiknilíkanið er tæki til að nýta opinbera fjármuni sem best, líkanið réð ekki stefnumótun minni í menntamálum, en var eitt af tækjunum í markvissri viðleitni til að efla framhaldsskólastigið, sem tókst vel.

 

Í tíð minni sem menntamálaráðherra voru gerðar margvíslegar ráðstafanir til að styrkja forsendur verkmenntunar í landinu og staðfestir aðeins þekkingarleysi þessara forráðamanna Samtaka iðnaðarins á framvindu menntamála, ef þeir eru þeirrar skoðunar, að sigið hafi á ógæfuhlið fyrir verknámið í minni tíð sem ráðherra vegna skorts á frumkvæði af hálfu menntamálaráðuneytisins eða fjárskorts. Eigi verknám undir högg að sækja, er það af öðrum ástæðum, enda sýna rannsóknir, að ákvarðanir nemenda um val á námsgreinum ráðast af öðru en því, sem ákveðið er á alþingi eða í ráðuneytum.

 

Ég minntist á það í pistli mínum, að verslunarmenn og samtök þeirra hefðu verið mun öflugri á sviði menntamála en Samtök iðnaðarins. Að sjá forráðamenn Samtaka iðnaðarins gera lítið úr þessu áræði verslunarmanna á þeirri forsendu, að Háskólinn í Reykjavík hafi horfið frá því að koma að því að flytja Tækniskóla Íslands á háskólastig er með ólíkindum. Háskólinn í Reykjavík hefur stækkað mjög ört og velti þátttöku í rekstri Tækniskóla Íslands fyrir sér við stefnumörkun sína og forgangsraðaði síðan í þágu annarra námsgreina en eru á starfssviði skólans.

 

Síðan ég skrifaði pistilinn, sem kallaði á andmælin frá Samtökum iðnaðarins, hefur það gerst, að Menntafélag, sem kom til sögunnar að frumkvæði Landssambands íslenskra útvegsmanna, hefur gert samning við menntamálaráðuneytið um að reka Stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélskóla Íslands. Þetta ferli hófst í ráðherratíð minni. Þar gengu menn til verks með það að markmiði að axla ábyrgð og hafa náð markmiði sínu. Hvers vegna nálgast forráðamenn Samtaka iðnaðarins viðfangsefni í menntamálum með kröfu- og kvörtunarsjónarmið að leiðarljósi? 

 

Ég vil hvetja forráðamenn Samtaka iðnaðarins til að vera jákvæðari í umræðum um verknámið. Reynslan sýnir, að neikvætt umtal um nám er öflugasta leiðin til að draga úr áhuga á því. Allar forsendur eru hér á landi til að ræða með jákvæðum huga um aðstöðu til verknáms. Galdurinn er að fá fleiri nemendur til að stunda það! Þeim fjölgar ekki með því að starfsmenn Samtaka iðnaðarins munnhöggvist við mig eða aðra, sem vilja efla veg alhliða menntunar í landinu.