28.12.2002

Pólitísk hringavitleysa - engin pólitísk hugsun - stórmál bíða

 

 

 

Pólitísk hringavitleysa

 

Pólitíska hringavitleysan, sem hófst miðvikudaginn 18. desember innan R-listans, heldur enn áfram. Hið furðulega í málinu núna er, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir snýr málflutningi sínum á þá sveif, að þeir, sem gagnrýna hana fyrir að leika tveimur skjöldum innan R-listans, séu að hindra, að hún geti staðið við loforð sín við kjósendur í borgarstjórnarkosningunum í vor. Á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 28. desember stendur:

 

"Tillagan [frá framsóknarmönnum] kveður á um að Ingibjörg Sólrún láti af störfum borgarstjóra 15. janúar. Árni Þór Sigurðsson verði borgarstjóri í hennar stað, Steinunn Valdís Óskarsdóttir forseti borgarstjórnar, Alfreð Þorsteinsson formaður borgarráðs og að þessi skipan mála gildi þar til annað verði ákveðið. "Þessari tillögu hef ég hafnað af þeirri einföldu ástæðu að þetta kemur í veg fyrir að ég geti staðið við mín fyrirheit gagnvart kjósendum um það að vera borgarstjóri í Reykjavík og fyrirheit sem samstarfsflokkarnir gáfu einnig,""

 

Í sjónvarpsfréttum að kvöldi laugardagsins sagðist hún vera að "róa lífróður" til að bjarga R-listanum, svo að hún gæti staðið við loforð sín! Fréttamaður spurði hana, og gætti meðaumkunar, hvort hún hefði eitthvað í hendi til þess. Varð lítið um svör.

 

Ég nota orðið hringavitleysa um þetta vegna þess að nú, 10 dögum eftir að Ingibjörg Sólrún hleypti R-listanum í uppnám með því að tilkynna framboð sitt til alþingis fyrir Samfylkinguna, fer hún í sitt gamla far og lætur sem vandi R-listans sé öllum öðrum  en henni sjálfri að kenna. Gagnrýnendur hennar í Framsóknarflokknum og meðal vinstri/grænna séu að gera henni ókleift að efna kosningaloforð sín. Jafnvel lætur hún í veðri vaka, að vandann innan R-listans megi með einhverjum hætti rekja til Sjálfstæðisflokksins, barátta hennar snúist um að halda honum í skefjum.

 

Á síðustu dögum hefur Ingibjörg Sólrún greinilega ákveðið að feta í fótspor don Kíkóta, búið til sinn eigin heim og hafið baráttu við andstæðinga sína innan hans.  Síst af öllu vill Ingibjörg Sólrún horfast í augu við þá staðreynd, að hún rauf R-listasamstarfið með yfirlýsingu sinni 18. desember. Sjálfskaparvítin hafa löngum þótt verst.

 

 

Engin pólitísk hugsun.

 

Eftir setu með Ingibjörgu Sólrúnu í borgarstjórn kemur ekki á óvart, að hún afneiti þeirri stöðu, sem skapaðist eftir 18. desember. Hún neitar til dæmis staðfastlega, að nokkuð sé athugavert við hina gífurlegu skuldasöfnun, sem orðið hefur undir stjórn hennar í Reykjavík. Hrósar sér raunar af henni, eins og hún hrósar sér nú af því að standa gegn þeim, sem vilja eyðileggja R-listann!!

 

Morgunblaðið fjallar um framvindu mála eftir yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar í leiðara sínum laugardaginn 28. desember og lýkur honum með þessum orðum:

 

"Niðurstaðan af því flókna pólitíska valdatafli, sem nú stendur yfir virðist því vera þessi:

Með ákvörðun um framboð Ingibjargar Sólrúnar til þings hefur verið dregið verulega úr líkum á samstarfi Framsóknarflokks og Samfylkingar á landsvísu.

Með yfirlýsingum borgarstjóra um að markmið hennar sé að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum er tæpast lagður grundvöllur að samstarfi við þann flokk í ríkisstjórn að kosningum loknum.

Ekki verður annað séð en ákvörðun um þingframboðið hafi orðið til að borgarstjóri missi eitt valdamesta embætti landsins.

Enn er óljóst hvort samstarfið innan Reykjavíkurlistans heldur.

Hvaða pólitísk hugsun ræður hér ferð?"

 

Stórmál bíða.

 

Um þessi áramót er þörf á öðru í stjórn Reykjavíkurborgar en enn meiri lausatökum í málefnum hennar. Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2003 einkennist af þenslu útgjalda og meiri skuldasöfnun. Við lokahönd á áætlunina, lagði Ingibjörg Sólrún til að stofnuð yrði sparnaðarnefnd til að hefta frekari útgjaldaþenslu. Við sjálfstæðismenn neituðum að setjast í nefndina en lögðum síðan fram sparnaðartillögur við fjárhagsáætlunina fyrir árið 2003. Engin þeirra hlaut náð fyrir augum Ingibjargar Sólrúnar. Fór hún þvert á móti mörgum orðum um nauðsyn þess að hrófla ekki við neinum útgjaldaliðum í áætluninni til sparnaðar. Sannaði það enn, hve mikilvægt var fyrir okkur sjálfstæðismenn að taka ekki þátt skrípaleiknum með sparnaðarnefndinni.

 

R-listinn þarf að afgreiða, hvernig Reykjavíkurborg á að taka á ábyrgðarmálum vegna eignarhalds á Landsvirkjun í tilefni af Kárahnjúkavirkjun. Tíminn til að taka þá ákvörðun styttist, því að þess er vænst, að fyrir 10. janúar viti stjórnendur Landsvirkjunar um hug borgarstjórnar. Að sjálfsögðu er það í verkahring borgarstjóra og þeirra, sem að meirihluta borgarstjórnar að hafa hér frumkvæði. Ástæða er til að eftast um, að Ingibjörg Sólrún hafi pólitíska burði eða vilja til að leiða þetta mikla mál á vettvangi borgarráðs og borgarstjórnar.

 

Ingibjörg Sólrún hefur sett málefni borgarsendurskoðunar í uppnám með tillögu um að leggja starfsemi hennar niður. Er með ólíkindum, að athygli fjölmiðla hafi ekki beinst meira að þessu máli en raun er, því að hér er um grundvallarþátt í stjórnsýslu borgarinnar að ræða, þar sem borgarstjóri gengur fram af mikilli þvermóðsku. Við sjálfstæðismenn knúðum fram, að málið verður ekki rætt í borgarstjórn fyrr en 16. janúar. Við lögðum einnig fram tillögu, sem miðar að því að borgarendurskoðun hverfi ekki.

 

Í borgarstjórn Reykjavíkur er vandinn ekki einungis sá, að Ingibjörg Sólrún hefur tekið eigin hag fram yfir hag R-listans og samstarfsmanna sinna þar. Vandinn er ekki síður sá, að fjárhagsvandi borgarinnar vex og mörg stórmál bíða afgreiðslu. Þegar tómarúm er á toppnum, eins og leiðir af framboðsákvörðun Ingibjargar Sólrúnar, ýtir róðurinn fyrir pólitísku eigin lífi öllu öðru til hliðar. Ingibjörg Sólrún er ekki í lífróðri í þágu Reykvíkinga heldur R-listans, eftir að hún gaf honum sjálf náðarhöggið.