22.12.2002

Pólitískur jarðskjálfti - skýr afstaða framsóknarmanna - spuninn byrjar.

 

 

Það varð pólitískur jarðskjálfti miðvikudaginn 18. desember, þegar Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, tók af skarið og tilkynnti, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri yrði í 5. sæti á framboðslista flokks síns í Reykjavík-norður í þingkosningunum 10. maí 2003. Daginn eftir lýstu þeir Árni Þór Sigurðsson, fyrir hönd vinstri/grænna, og Alfreð Þorsteinsson, fyrir hönd Framsóknarflokksins, yfir því, að þessi ákvörðun Samfylkingarinnar jafngilti því, að borgarstjóri hefði ákveðið að yfirgefa embætti sitt, hún gæti ekki lengur verið sameiningartákn R-listans eftir ákvörðun um að bjóða sig fram gegn samstarfsflokkunum sínum í þingkosningunum. Ítrekuðu þeir með þessu mótmælin frá því september 2002, þegar Ingibjörg Sólrún lýsti afdráttarlaust yfir því, að hún færi ekki í framboð til alþingis, eins og þá var mjög til umræðu.

 

Í pistli mínum 8. desember rakti ég orðaskipti okkar Ingibjargar Sólrúnar um framboðsmál hennar í borgarstjórn 5. desember. Nú hefur komið í ljós, að hún var ekki að grínast þá heldur að tilkynna, að framboðsmálið væri enn opið af sinni hálfu. Hvort það leiddi til þess, að formaður uppstillingarnefndar Samfylkingarinnar og Össur sneru sér til hennar með ósk um að hún tæki 5. sætið, veit ég ekki. Hitt veit ég, enda hefur það komið fram opinberlega, að þau Össur bundust um það sammælum um síðustu helgi, að Ingibjörg Sólrún settist á listann.

 

Fyrir Össur skipti miklu, að þetta næði fram að ganga, svo að ekki yrði enn á ný sambærileg vandræðastaða fyrir Samfylkinguna og í september. Með yfirlýsingu sinni á miðvikudag "negldi"  Össur  Ingibjörgu Sólrúnu í framboð og ákvað að gera það nógu fast,  til að hún gæti ekki haldið lönguvitleysunni áfram. Að hún hætti nú við að fara í þingframboð er óhugsandi. Samstarfsmenn hennar í R-listanum líða framboðið hins vegar ekki og krefjast þess, að hún ?söðli um?, það er hætti sem borgarstjóri.

 

Að kvöldi sunnudagsins 22. desember áréttuðu framsóknarmenn í fréttum, að borgarstjóri yrði að víkja eftir fund forystuliðs framsóknarmanna í Reykjavík um málið fyrr um daginn. Vilja þeir fá svör frá borgarstjóra sem fyrst, helst fyrir jól. Er þess beðið með vaxandi óþreyju, að borgarstjóri svari, því að greinilegt er, að hvorki vinstri/grænir né framsóknarmenn hafa ótakmarkaða biðlund. Er með ólíkindum, að forystumaður í stjórnmálum neiti að horfast í augu við óhjákvæmilegar afleiðingar af jafnskýrum yfirlýsingum um, að hann njóti ekki lengur trausts samherja. Raunar spurði Valgerður Jóhannsdóttir, fréttamaður sjónvarpsins, Ingibjörgu Sólrúnu að því í einu viðtalinu í vikunni, hvort afstaða hennar til yfirlýsinga vinstri/grænna og framsóknarmanna væri ekki ?afneitun?, það er að hún neitaði einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir.

 

Skýr afstaða framsóknarmanna.

 

Hinn 20. ágúst árið 2000 skrifaði ég pistil hér á síðuna um ólíka strauma innan Framsóknarflokksins í Reykjavík gagnvart R-listanum.  Þar stóð meðal annars:

 

"Föstudaginn 30. júní birtist síðan viðtal í Morgunblaðinu við Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins, þar sem hann segir ekki sjálfgefið, að flokkurinn verði þátttakandi í framboði Reykjavíkurlistans í næstu borgarstjórnarkosningum. Telur hann, að Framsóknarflokkurinn hafi ekki notið samstarfsins eins og flokksmenn teldu eðlilegt. Hann sagðist vita, að framsóknarfélögin í Reykjavík myndu fjalla um framtíð samstarfsins innan R-listans í því ljósi, að breytingar hefðu orðið á vinstri væng stjórnmálanna frá því að R-listinn kom til sögunnar."

 

Það er því síður en svo nýtt af nálinni, að framsóknarmenn í Reykjavík efist um gildi þess fyrir sig að vera í samstarfi innan R-listans. Það er ekki heldur nýtt, að ég fjalli um þessi mál hér á síðunni og skilgreini R-listann frá mínum sjónarhóli. Hef ég á þeim tæpu átta árum, sem ég hef haldið síðunni úti, haft þá skoðun, að R-listinn byggist á jafnvægi milli flokkanna á bakvið listann og hlutleysi Ingibjargar Sólrúnar á milli flokkanna, í raun sé listinn ekki annað en valdabandalag, þar sem Ingibjörg Sólrún tróni á toppnum. Ef jafnvægið raskast, eins og gerðist í póltíska jarðskjálftanum síðastliðinn miðvikudag, hrynur meistaraverkið og fallið verður mest hjá þeim, sem á toppnum trónar.

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 22. desember var vitnað til pistils á vefsíðu Valgerðar Sverrisdóttur, þar sem hún kemst meðal annars þannig að orði: "Tvennt stendur upp úr við ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar. Annars vegar hefur hún gengið svo berlega á bak orða sinna að hún stendur sködduð eftir. Hins vegar kallar framkoma Samfylkingarinnar fram spurningar um hæfni hennar til samstarfs við aðra stjórnmálaflokka. Þetta tvennt verður Samfylkingunni til vandræða í komandi þingkosningum. Ingibjörg Sólrún á fullt erindi í landsmálin, en þá verður hún að fórna borgarstjórastólnum. Það hafa orðið þáttaskil. Nú lít ég á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem hvern annan andstæðing minn í pólitík. Því kveð ég hana sem samherja og þakka fyrir samstarfið."

 

Af öllum, sem hafa fjallað um hlut Ingibjargar Sólrúnar í stjórnmálum vegna þessara framboðsrauna, finnst mér hlutur Dags B. Eggertssonar, óflokksbundins borgarfulltrúa, einkennilegastur. Rökstuðningur hans fyrir því í Morgunblaðinu 7. september, að Ingibjörg Sólrún ætti ekki að fara í framboð og fyrir því núna, að hún eigi að rjúfa grið R-listans með framboði, lýsir óskiljanlegri afstöðu til stjórnmálamanna og hlutverks þeirra.

 

Spuninn byrjar.

 

Í fréttum í gær voru lausafrásagnir, óstaðfestar og óljósar, um einhverjar þreifingar af hálfu flokka innan R-listans gagnvart okkur sjálfstæðismönnum. Einkum var gefið til kynna, að þar væru framsóknarmenn á ferð. Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, náði sambandi við mig í síma á heimili mínu. Sagði hann mikið slúðrað um þessa hluti en ég sagðist ekki vilja láta neitt hafa eftir mér um slíkt slúður, auðvitað ræddu stjórnmálamenn saman, þegar þeir hittust. Hvað þeim fer á milli er hins vegar ekki alltaf það, sem menn ætla.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar og hljóðvarps ríkisins í dag, þóttist ég heyra spunafréttir, sem áttu rætur að rekja til þeirra, sem vilja skapa óvild á milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í von um, að það spilli fyrir því, sem um er slúðrað vegna upplausnarinnar innan R-listans. Póltitísk slúður leiðir til pólitísks spuna.

 

En hvaða spuni var í hádegisfréttunum í dag? Jú, í Bylgjunni var Árni Snævarr með þá ?frétt?, að við Guðlaugur Þór, stjórnarmenn af hálfu Sjálfstæðisflokksins í Orkuveitu Reykjavíkur, hefðum gagnrýnt Alfreð Þorsteinsson og var gefið til kynna, að þess vegna gætu framsóknarmenn ekki litið okkur réttu auga sem samstarfsmenn, ef R-listinn liðaðist í sundur. Mórallinn í spunanum var þessi: Hvernig í ósköpunum halda menn, að þeir Björn Bjarnason og Alfreð Þorsteinsson geti starfað saman eftir það sem á undan er gengið vegna ágreinings innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur eða gagnrýni Björns á Alfreð? Ef einhver hefði ætlað að spinna á þann veg, að víst gætum við Alfreð starfað saman, hefði sá hinn sami getað vakið athygli á því, að við höfum um áratugaskeið átt saman sæti í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu, en Alfreð er í þeim armi Framsóknarflokksins, sem styður NATO-aðild og varnarsamstarfið við Bandaríkin á tímum kalda stríðsins og síðan. Brast sú samstaða ekki á miklu meiri spennutímum í íslenskum stjórnmálum en nú ríkja.

 

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 22. desember þótti Kristjáni Sigurjónssyni það fréttnæmast, að hinn 10. desember birtist frá mér lesendabréf í Morgunblaðinu, Róið á röng mið, sem var svar við rangfærslum í grein Jakobs Frímanns Magnússonar í blaðinu nokkrum dögum áður, í lok þessa lesendabréfs svaraði ég einnig Valgerði Sverrisdóttur, sem hafði nokkrum dögum á undan Jakobi Frímanni skrifað grein í Morgunblaðið, þar sem hún gerði lítið úr andstöðu minni við raforkulagafrumvarp sitt og taldi mig hafa fyrirgert rétti til að gagnrýna það, þar sem ég hefði átt sæti í ríkisstjórn, þegar einhverjar útgáfur af frumvarpinu voru þar til umræðu. Valgerður brást við þessari gagnrýni minni á vefsíðu sinni hinn 12. desember og gerir mér þar upp viðhorf til stuðnings við tónlistarlífið í landinu. Fréttnæmast í pistli Valgerðar var, að hún vill að málið, sem hún var með og forsætisráðuneytið úrskurðaði í menntamálaráðuneytið, fari nú í utanríkisráðuneytið, sem vekur enn stjórnsýslulegar spurningar.

 

Þegar ég hlustaði á þessi 10 daga gömlu orðaskipti, úr lesendabréf og af vefsíðu, flutt sem frétt í hljóðvarpi ríkisins einmitt núna, sá ég aðeins eina skýringu á áhuga fréttamannsins, að ýta undir þá vitund, að á milli mín og framsóknarmanna væri ágreiningur. Á þessum sérkennilegu forsendum má síðan halda áfram að spinna eitthvað í tengslum við umræður um hugsanlegt samstarf sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur, hvort líklegt sé eða ólíklegt, að af slíku samstarfi verði úr því að slík orð hafi farið á milli okkar Valgerðar Sverrisdóttur.

 

Spunafréttir eru helst forvitnilegar, þegar litið er til áhuga fréttamanna á að flytja þær, hvort hann kviknar inni á fréttastofunum eða hann er kveiktur af öðrum. Þegar um spunafréttir er rætt í Bretlandi, eru mest krassandi dæmin jafnan rakin til þeirra, sem standa næst Tony Blair í Downing-stræti 10. Ekki er ólíklegt, að óttaslegið Samfylkingarfólk standi á bakvið þennan spuna út af R-listanum, kannski Karl Th. Birgisson, framkvæmdastjóri flokksins, sem á eina sérkennilegustu jólabókina á markaðnum í ár, þar sem birtir eru spunapistlar hans úr útvarpi og blöðum undanfarin ár, hugarburður um menn og málefni í því skyni að gera hlut andstæðinga Samfylkingarinnar sem verstan. Karl Th. á greiðan aðgang að RÚV, þegar hann er ekki að flytja þar pólitískan boðskap, stjórnar hann spurningaþáttum.