14.12.2002

ESB-stækkar - afstaða Bondeviks - nýr fréttastjóri

 

 

 

 

Ákveðið hefur verið, að tíu ný ríki gangi í Evrópusambandið (ESB). Á þetta eftir að breyta ásýnd Evrópu og hafa áhrif hér eins og hvarvetna annars staðar.  Einkennilegt er að heyra þau viðbrögð við þessum mikilvægu þáttaskilum í sögu Evrópu, að óhjákvæmilegt sé vegna þeirra, að við Íslendingar förum í Evrópusambandið. Hlustaði ég á tvo umræðuþætti um viðburði vikunnar í útvarpi, þar sem viðmælendur töldu ekki lengur nauðsynlegt að ræða rök með eða á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB); það væri eins og pólitískt náttúrulögmál, að Íslendingar hlytu að slást í hópinn.

 

Í öðrum þættinum var vakið máls á því, að Davíð Oddsson forsætisráðherra hefði bent á það á þingi, að Evrópusambandsmenn hefðu sagt, að Norðmenn og Íslendingar ættu ekki að kippa sér upp við, að krafist væri margföldunar á greiðslum þeirra fyrir samninginn  um evrópska efnahagssvæðið vegna stækkunar samningssvæðisins, því að fjárkröfurnar væru aðeins brot af kröfum um fjárgreiðslur, ef til aðildar Noregs og Íslands kæmi. Þá sagði einn þátttakenda, að ekki væri ástæða til að býsnast yfir kostnaði vegna ESB-aðildar, því að Íslendingar yrðu að leggja sitt af mörkum til að jafna lífskjör í Evrópu.

 

Í hinum þættinum var Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, meðal þátttakenda. Þar kom fram hjá einum viðmælanda, að líklega hefði verið best fyrir Íslendinga að ganga  fyrr í Evrópusambandið. Á þeim tímum þegar fjölmiðlamenn keppast um að ræða við Jón Baldvin í tilefni af æviminningum hans, væri vel við hæfi, að hann sjálfur eða einhver viðmælenda hans minntist þess, að Jón Baldvin var einarðasti talsmaður þess við gerð samningsins um evrópska efnahagssvæðið, að hann gerði ónauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að ganga í ESB.

 

Í umræðum á alþingi í tilefni af stækkun ESB og samningaviðræðum okkar við fulltrúa þess spurði Svanfríður Jónasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, utanríkisráðherra að því, hvað hann segði um ummæli, sem höfð voru eftir Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs í fréttum hljóðvarps ríkisins, að aðild að ESB yrði helsta kosningamálið í næstu þingskosningum í Noregi. Þá sagði í fréttinni: „Bondevik, sem er gamall andstæðingur ESB, segir að Evrópusambandið sé að breytast og ljær nú í fyrsta sinn máls á að endurskoða afstöðu sína til sambandsins.” Var greinilegt, að Svanfríður, sem er hlynnt aðild Íslands að ESB, taldi þessa frétt málstað sínum til framdráttar.

 

Afstaða Bondeviks.

 

Davíð Oddsson vék að þessari spurningu Svanfríðar í umræðunum og dró athygli þingmanna að þeirri staðreynd, að fréttastofa hljóðvarps ríkisins hefði farið rangt með ummæli norska forsætisráðherrans. Las Davíð úr frétt í norska blaðinu Aftenposten, þar sem segir, að Bondevik telji, að ESB-aðild verði eitt af mörgum kosningamálum í Noregi árið 2005, auk þess sem hann segist ekki hafa neitt nýtt um afstöðu sína til ESB að segja. EES-samningurinn hafi reynst Noregi vel og leitt til þjóðarsamstöðu, hann hafi veitt Norðmönnum aðild að innri markaði ESB án þess að þeir hafi orðið þátttakendur í hinni dýpri samrunaþróun innan ESB. Bondevik segist átta sig á því, að það muni reyna á EES-samninginn, þegar gengið verði til viðræðna um að stækka hann. Evrópukortið breytist, það sé sér ljóst. „Það er of snemmt að hefja raunverulegar rökræður heima fyrir um aðild á þessari stundu. Við verðum að vita um hvað málin snúast , áður en við óskum enn á ný eftir því, að Norðmenn gangi til atkvæða,” sagði Bondevik.

 

Norski forsætisráðherrann endurtók í Aftenposten með öðrum orðum hið sama og hann sagði á Norðurlandaráðsfundi í Helsinki á dögunum, þegar hann taldi fráleitt að setja ESB-aðild Noregs á dagskrá, á meðan menn vissu ekki við hvers konar ESB væri verið að semja. Fyrir utan stækkun ESB er nú unnið að því að setja ESB stjórnarskrá og nýja stjórnskipan.

 

Hið sérkennilega við að draga Kjell Magne Bondevik inn í umræðurnar hér á landi er, að fréttastofa hljóðvarps ríkisins skuli gera það með þessum hætti, það er að talsmenn aðildar Íslands að ESB telji það vatn á myllu sína. Að flytja umræður í Noregi um ESB-aðild til Íslands hefur áður verið reynt, ekki síst þegar menn tóku sig til hér og hófu að túlka samninga ESB við Norðmenn um sjávarútvegsmál á þann veg, að víst gætu Íslendingar fengið varanlega undanþágu frá þessari stefnu. Þessar túlkanir áttu ekki við nein rök að styðjast.

 

Í Noregi er öflugasta dagblaðið, Aftenposten, eindregið fylgjandi aðild Noregs að ESB. Blaðið var því ekki ánægt með þá stefnu ríkisstjórnar Bondeviks að setja ESB-aðild ekki á dagskrá. Nú eygir blaðið, að unnt sé að ræða málið á nýjum forsendum eftir leiðtogafund ESB í Kaupmannahöfn og ummæli Bondeviks í tilefni af honum – það þykja stórtíðindi, eins og heyra mátti í hádegisfréttum ríkisins í dag, að formaður í flokki Bondeviks segir það ekki jafngilda stjórnarslitum, að  stjórnarflokkarnir ræði  ESB-aðild meðan stjórn Bondeviks situr.

 

Hvað skyldu menn hafa sagt hér, ef samið hefði verið um það við stjórnarmyndun, að stjórnarflokkar mættu ekki ræða aðild að ESB? Það er mikill munur á slíkri afstöðu og hinni, að ríkisstjórn hafi ekki aðild á dagskrá eða í stefnu sinni. Hér hefur hins vegar hvorugur stjórnarflokkanna haft ESB-aðild sem stefnumál eins og Hægri flokkurinn, einn þriggja stjórnarflokka í Noregi, sem á þar að auki utanríkisráðherrann í stjórninni. Enn sannast, að hæpið er, svo að ekki sé meira sagt, að heimfæra ESB-deilur hér á landi. Norðmenn hafa tvisvar fellt aðild í þjóðaratkvæðagreiðlsu, hér hefur málið aldrei verið lagt fyrir með þeim hætti.

 

Nýr fréttastjóri.

 

Miðað við hve fátítt er, að breytingar verði í hópi þeirra, sem stjórna fréttamiðlun til okkar Íslendinga, eru sérstök tíðindi, að Elín Hirst hafi verið ráðin fréttastjóri sjónvarpsins.

 

Sérkennilegt er, að vinstrisinnar kvarti sáran undir pólitískum áhrifum við stjórn RÚV, því að engir taka pólitískari afstöðu þar en einmitt þeir, þegar um ráðningu starfsfólks er að ræða. Sannaðist það vel í tengslum við ráðningu Elínar Hirst, því að þá rauf Gissur Pétursson, fulltrúi Framsóknarflokksins, meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn til að sameinast með vinstrisinnum gegn Elínu, sem tvímælalaust var hæfasti umsækjandinn.

 

Var öllum, sem um þetta mál fjölluðu ljóst, að engar málefnalegar ástæður voru gegn því, að Elín fengi þetta starf. Engu að síður var látið að því liggja, áður en útvarpsráð tók afstöðu til málsins og síðan útvarpsstjóri um ráðningu hennar, að ráðning Elínar byggðist á einhvers kónar pólitískri misnotkun. Tilgangurinn var greinilega sá, að hræða menn frá stuðningi við Elínu. Stóðst framsóknaramaðurinn í útvarpsráði ekki þá áraun.

 

Þegar fylgst er með framgöngu vinstrisinna vegna ráðningar Elínar Hirst, er ekki að undra, að margir hugsi sig um tvisvar, þegar þeir velta fyrir sér, hvort ástæða sé til að sækja um starf hjá RÚV. Hitt ýtir einnig undir áhugaleysi um störf fyrir RÚV, að vinstri menn í útvarpsráði og á alþingi berjast hatrammlega gegn því, að stofnuninni verði breytt í hlutafélag í ríkiseign og þannig tryggt besta rekstrarformið í samkeppnisrekstri. Rökin gegn hugmyndum um slíka breytingu á RÚV eru álíka af-því-bara-rök og notuð eru, þegar látið er eins og það sé póltíkst náttúrulögmál, að Ísland fari í ESB.