8.12.2002

Fjárhagsáætlun - framboð ISG? - bannlisti ISG.

Fyrsta umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fór fram fimmtudaginn 5. desember. Að þessu sinni er svo óvenjulega staðið að áætluninni, að tvæ umræður duga ekki. Stafar þetta af því, að R-listinn hefur ekki getað lagt fram heildstæða áætlun fyrir borgarstjórn, heldur er hún lögð fram í bútum. Það vantar samstæðureikning borgarinnar, sem sýnir stöðu fyrirtækja í meirihlutaeign hennar eins og Orkuveitu Reykjavíkur.

Ég lýsti yfir mikilli vantrú á áætluninni í ræðu minni í borgarstjórn, en ræðuna í heild er unnt að sjá hér á vefsíðunni. Borgarstjóri svaraði ræðu minni einkum með því að ræða um fjárlög ríkisins. Síðan lentu þau borgarstjóri og fjármálaráðherra í deilum um það, hvernig á að skilgreina handbært fé. Flutti borgarstjóri langa bókhaldsskýringu um þetta í hádegisfréttatíma RÚV, en henni er mikið í mun að hampa því, að 4,4 milljarður króna af um 34 milljarða króna tekjum borgarinnar fari til framkvæmda en ekki í rekstur. Fyrir þessa fjármuni eru reist mannvirki og lagðar götur og greiddar niður skuldir. Finnst mér sérkennilegt, hvernig borgarstjóri talar um þessa fjármuni, eins og það sé eitthvert sérstakt afrek, að borgarsjóður geti staðið undir slíkum framkvæmdum fyrir skattfé.

Hitt er þó enn einkennilegra, að heyra þá röksemd ítrekað kynnta af borgarstjóra, að úr því að ríkið hafi selt bankana og fengið dágóða fúlgu fyrir þá sé ekkert sjálfsagðara en að ríkið noti þá fjármuni til að kaupa um 45% hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun! Fyrir nokkrum árum notaði R-listinn lækkun ríkisins á sköttum til að hækka álögur á Reykvíkinga. Krafan um að fá söluandvirði Landsbanka og Búnaðarbanka í sinn hlut fyrir Landsvirkjun er í eðli sínu skyld ákvörðuninni um hærri skatta, eftir að ríkið lækkaði þá. Ætli orðið heimtufrekja lýsi því ekki betur en græðgi, hvaða tilfinning stendur hér að baki.

Á Íslandi er vart hægt að hugsa sér arðsamari kost til langs tíma litið en að eiga fé í fyrirtæki, sem nýtir orkuauðlindir landsins. Stofnkostnaður virkjana er greiddur upp á um 25 árum, ef að megninu til er virkjað fyrir stóriðju, eins og dæmið af Búrfellsvirkjun og álverinu í Straumsvík sannar. Síðan mala þær eigendum sínum gull, það sem eftir er.

Framboð ISG?

Orðaskipti okkar Ingibjargar Sólrúnar um þingframboð hennar vöktu sérstaka athygli. Besta fréttin um þau birtust í RÚV-fréttum klukkan 18.00 fimmtudaginn 5. desember og var hún á þessa leið:

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri sagði í borgarstjórn í dag að ekki væru öll kurl komin til grafar varðandi hugsanlega þátttöku sína í landsmálum. Hún lét þessi orð falla í snerru við alþingismanninn Björn Bjarnason, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Hann túlkaði orð borgarstjóra þannig að hún væri enn að velta fyrir sér framboði til Alþingis í vor.

Borgarstjóri lagðist undir feld síðsumars og íhugaði framboð eftir að kynnt var skoðanakönnun þar sem fram kom að margir vildu sjá hana í forystu Samfylkingarinnar. Við það myndi fylgi flokksins aukast að mati þátttakenda. Niðurstaða borgarstjóra þá var að bjóða sig ekki fram í næstu þingkosningum. Í umræðum um fjárhagsáætlun borgarstjórnar í dag sagði Björn Bjarnason að borgarstjóra langaði greinilega í landsmálin svo tíðrætt yrði henni um fjárlög og annað sem til umræðu væri á Alþingi. Borgarstjóri sagði þetta þegar hún svaraði Birni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri (R): Og svo varðandi þingið og að ræðuflutningur minn hér einkennist af því að mig langi svo yfir þangað og borgarfulltrúinn virðist sakna mín á þeim vettvangi. Þá verð ég bara að segja við borgarfulltrúann að það eru ekki öll kurl úti ennþá.

Björn Bjarnason var fljótur að túlka orð borgarstjóra á ákveðinn hátt.

Björn Bjarnason, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn: Forseti, lokaorð borgarstjóra eru nú kannski það merkasta sem hún hefur sagt í þessum umræðum þrátt fyrir tæplega klukkutíma langa ræðu því að hún gefur til kynna að hún sé enn að velta fyrir sér að bjóða sig fram til þings næsta vor og ég held að það verði nú að fara að taka af skarið um þetta fyrir þá sem bíða eftir að fá að kjósa hana þangað.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í samtali við fréttastofu að enn væri ekki búið að loka listum og framboðsfrestur væri ekki útrunninn. Hún sagði að orð sín hefðu verið viðbrögð við málflutningi Björns Bjarnasonar og á henni er að heyra að þau beri ekki að taka of alvarlega. Borgarstjóri sagði þó að öllu gamni fylgdi nokkur alvara.

Ég vek sérstaka athygli á niðurlagsorðum fréttarinnar. Þau sýna enn, að það er alls ekki fjarlægt Ingibjörgu Sólrúnu að láta að sér kveða á alþingi og er raunar að verða æ skrýtnara, að hún ýti undir þetta tal, en slái síðan á það eins og greinilega var gert úr ráðhúsinu á föstudag. Forystumenn Samfylkingar á alþingi urðu ekki síður undrandi yfir þessu síðasta útspili Ingibjargar Sólrúnar en samstarfsmenn hennar í R-listanum.

Bannlisti ISG

Í Morgunblaðinu hinn 6. desember var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu (takið eftir að blaðamaðurinn hefur breytt ræðu borgarstjóra):

Ingibjörg sagði að svo virtist sem Björn Bjarnason saknaði þess að hún ætti ekki sæti á Alþingi. "Nú verð ég bara að segja við borgarfulltrúann að það er ekki öll nótt úti enn þá," sagði borgarstjóri. Í samtali við blaðamann sagði Ingibjörg að hún hefði sagt þetta meira í gríni en alvöru, hún verði ekki í leiðtogasæti á neinum framboðslistanna til Alþingis.

Hún sagði að það hlyti þó að vera umhugsunarefni að útlit væri fyrir að tveir borgarfulltrúar minnihlutans sitji á þingi á næsta kjörtímabili, en bæði Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson eru taldir eiga öruggt sæti á framboðslistum Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Ekki hafi komið fram annað en þeir ætli að sitja bæði þar og í borgarstjórn. Of mikið hafi verið um að þingmenn hafi ruglast á pólitískri stöðu og hagsmunum borgarinnar. Hún óttist að það geti gerst í ríkari mæli við þessar aðstæður að menn hugsi of mikið um stöðu minnihlutans í borgarstjórn í störfum sínum á þingi.

Lokaorð Ingibjargar Sólrúnar um okkur Guðlaug Þór í samtalinu við blaðamann Morgunblaðsins eru skrýtin. Hvað er borgarstjóri að fara? Illa ígrundaðar siðaprekanir af þessu tagi eru Ingibjörgu Sólrúnu tamar. Hún lætur hvað eftir annað orð falla á þann veg, að andstæðingar hennar megi ekki setja sjónarmið sín fram með þessum eða hinum hættinum. Nú er hún óttaslegin yfir því, hvað við kunnum að hugsa í störfum á alþingi! Ekki megum við tala um miðborgina, því að það dregur úr atvinnustarfsemi þar. Ekki megum við tala um Grafarholtið, því að það dregur úr áhuga fólks á að kaupa þar íbúðarhúsnæði. Ekki má segja, að Frjálsi fjárfestingabankinn ehf. hafi eignast 284 íbúðir í Grafarholti vegna þess að hann vilji forða verktökum frá greiðsluþroti.

Ég gerði þennan bannlista að umræðuefni í borgarstjórn á fimmtudag og sagði, að ég hefði hann að engu. Við sjálfstæðismenn mundum að sjálfsögðu halda áfram að ræða alla þætti borgarmálanna og nota þau orð, sem við kysum til að lýsa afstöðu okkar á skilmerkilegan hátt.