30.11.2002

Stöðnuð Samfylking - vandi framhaldsskóla- viðhorf Samtaka iðnaðarins

Andstæðingar sjálfstæðismanna taka sér nú fyrir hendur að túlka niðurstöður í prófkjöri okkar hér í Reykjavík 22. og 23. nóvember. Í Morgunblaðinu 29. nóvember birtust tvær greinar eftir þrjár stjórnmálakonur Samfylkingarinnar, þar sem þær fjölluðu um hlut kvenna á framboðslistum sjálfstæðismanna í Reykjavík. Auðvitað sjá allir lesendur blaðsins, að allt annað en umhyggja fyrir Sjálfstæðisflokknum eða konum innan hans, ræður þessum skrifum. Von samfylkingarkvennanna er að treysta stöðu eigin flokks og afla honum fylgis.

 

Ég minnist þess ekki, að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafi kvatt sér hljóðs með þessum hætti um niðurstöður prófkjara innan Samfylkingarinnar, enda er það að sjálfsögðu mál þeirra, sem velja fulltrúa á þá lista, hvernig þeir eru skipaðir.  Að þrjár samfylkingarkonur séu ósammála rúmlega 7000 sjálfstæðismönnum, sem tóku þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, breytir að sjálfsögðu engu um niðurstöðuna. Hafi þær áhyggjur af stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum, hefðu þær átt að láta í sér heyra í prófkjörsbaráttunni til að móta afstöðu kjósenda en ekki eftir að úrslitin eru kunn.

 

Góð framganga þeirra Guðlaugs Þórs, Sigurðar Kára og Birgis Ármannssonar í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur dregið athygli að stöðnun innan Samfylkingarinnar, þar sem sitjandi þingmenn mynda einskonar hræðslubandalag gegn öllum nýliðum. Þá vakti það einnig athygli í tengslum við prófkjör Sjálfstæðisflokksins, að fyrrverandi fylgismaður Alþýðuflokksins, Stefán Hrafn Hagalín, lýsti yfir brotthvarfi sínu frá Samfylkingunni og inngöngu í Sjálfstæðisflokkinn.

 

Í Reykjavík blasir við kjósendum Samfylkingar, að þeir, sem áður voru í Alþýðubandalaginu, hafa náð undirtökum á lista fylkingarinnar. Alþýðuflokksmönnum hefur einfaldlega verið úthýst fyrir utan Jóhönnu Sigurðardóttur, sem skilgreindi sjálfa sig vinstra megin við Alþýðuflokkinn og stofnaði Þjóðvaka á sínum tíma til að árétta það.

 

Samfylkingin er enn í tilvistarkreppu. Fyrst var okkur sagt, að hún kæmist úr henni, þegar fylkingu hefði verið breytt í flokk. Síðan var okkur sagt, að fylking orðin að flokki yrði fullburða, þegar hún hefði eignast formann. Nú er okkur sagt, að fylking orðin að flokki með formann nái sér á strik, þegar hún hafi mótað sér stefnu!

 

Vandi framhaldsskólanna

 

Við lokaafgreiðlsu fjárlaga fyrir árið 2003 hafa skólameistarar framhaldsskólanna gengið fram fyrir skjöldu og krafist hærri fjárveitinga til skóla sinna og sagt, að veikleiki sé í reiknilíkaninu, sem mælir þeim fé, Sérstaklega er fjárskorturinn sagður bitna á verkmenntaskólum.

 

Fyrir hinn almenna blaðalesanda eða fréttahlustanda er vafalaust ekki auðvelt að átta sig á einstökum atriðum þessa máls. Á vefsíðu minni er unnt að lesa um fyrri umræður um þetta líkan og þá aðferð við fjárveitingar til framhaldsskólanna, sem var mótuð með því. Í stuttu máli má segja, að leitast sé við að finna kostnað við hvern einstakan nemanda og láta fjármuni fylgja honum. Þá er skólum reiknað fé til kostnaðar við aðra þætti í starfi sínu en kennslu. Viðhaldskostnaður skóla hefur hins vegar verið fluttur úr menntamálaráðuneytinu til Fasteigna ríkisins og er því ekki verið að fjalla um hann í umræðum um reiknilíkanið. Stofnkostnaður við skóla fellur ekki heldur undir reíknilíkanið.

 

Reiknilíkan leysir aldrei neinn vanda í eitt skipti fyrir öll. Það skapar hins vegar nýjar leiðir til aðhalds og eftirlits auk þess sem stofnanir eiga auðveldar en áður með að bera sig saman. Inn í líkan framhaldsskólanna er byggð sú árangurskrafa, að þeir skili nemendum til prófs – líkanið á því að hvetja skólana til að halda vel utan um nemendahópinn og sporna gegn brottfalli. Verð ég alltaf undrandi, þegar skólameistarar kveinka sér undan þessari kröfu, því að ég hef talið, að mesta áskorun fyrir hvern kennara og skólamann felist í því að halda sem best utan um hópinn og stuðla að góðri námsframvindu nemenda sinna.

 

Á fundum mínum með skólameisturum spurði ég, hvort þeir vildu hverfa frá líkaninu og tapa upp fyrirkomulagið, sem gilti fyrir tíð þess, fékk ég alltaf þau svör, að ekki væri áhugi á því. Líkanið veitir einstaka sýn á starfsemi framhaldsskólanna og unnt er með skýrum rökum að sýna, hvar veiku hlekkirnir eru og taka á þeim. Staða einstakra námsgreina innan framhaldsskólanna er mismunandi, rekstur bekkjakerfisskóla er einnig einfaldari en áfangaskóla og þar sem fáir nemendur eru á námsbrautum sprengir kostnaður við hvern þeirra ramma líkansins. Alla þessa þætti er nauðsynlegt að ræða, ef menn vilja skoða innviði reiknilíkansins. Á grundvelli þess kann að vera nauðsynlegt að taka ákvörðun um að hætta að bjóða nám í þessari grein eða hinni. Ef það hefði ekki verið gert í tímans rás, værum við enn með skóla hér eins og reknir voru í Skálholti og á Hólum fyrr á öldum.

 

Viðhorf Samtaka iðnaðarins

 

Viðhorf Samtaka iðnaðarins til skólasrekstur er allt annað, en Samtaka verslunarinnar. Verslunarmenn hafa rekið skóla á eigin forsendum í marga áratugi, Verslunarskóla Íslands, sem er öflugur og vinsæll framhaldsskóli. Verslunarráðið hvatti einnig til þess, að lögum um háskóla var breytt, svo að forsendur yrðu til þess að reka háskóla undir forystu einkaaðila. Gekk það eftir og Háskólinn í Reykjavík, Viðskiptaháskólinn Bifröst og Listaháskóli Íslands eru góð dæmi um framtak einkaaðila í háskólarekstri, Hafa skólarnir dafnað vel og nú síðast var skólinn á Bifröst að taka nýtt hús í notkun. Stjórnendur skólans hafa enn sannað, að öflugt menntastarf getur dafnað utan Reykjavíkur.

 

Samtök iðnaðarins standa ekki að skólarekstri eða hafa forystu um hann eins og Samtök verslunarinnar heldur skilgreina hlutverk sitt sem kröfugerðaraðila á hendur ríkinu um aukið fjármagn. Samtökin hafa til þessa dags ekki treyst sér að þorað að taka ábyrgð á neinum skóla – lengi var beðið eftir því, hvort þau vildu hafa forystu um að flytja Tækniskóla Íslands á háskólastig og breyta honum í einkarekinn skóla. Þegar Samtök iðnaðarins fengu ekki þá fjármuni, sem þau kröfðust af ríkinu, ef þau ættu að koma að Tækniskóla Íslands, lauk viðræðum um það mál.

 

Yfirlýsingar forráðamanna Samtaka iðnaðarins um að illa sé staðið að verknámi í landinu eru ekki til þess fallnar að auka áhuga ungs fólks á því að innrita sig í slíkt nám. Miðað við að fjármunir fylgi nemanda, ráðast fjárveitingar til verknáms af því, hve margir nemendur stunda það.