24.11.2002

Ánægjuleg niðurstaða - raforkulagafrumvarp í klemmu 

Prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík heppnaðist vel. Alls kusu 7159, ég hlaut 3785 atkvæði í 1. til 3. sæti og samtals 5765 atkvæði. Keppinautar mínir um 3. sætið voru tveir, Sólveig Pétursdóttir og Pétur Blöndal. Pétur hlaut samtals 1753 atkvæði í 1. til 3. sæti en Sólveig 1421 atkvæði, Pétur hlaut 4. sætið og Sólveig 5.

Ég gleðst yfir niðurstöðunni og er þakklátur öllum, sem lögðu mér lið. Þeir Hafsteinn Þór Hauksson kosningastjóri og Hrafn Þórisson önnuðust kosningaskrifstofuna fyrir mig að Sætúni 8 og þangað lagði fjöldi fólks leið sína, en við skipulögðum ekki neinar sérstakar hringingar. Ég sendi eitt dreifibréf til allra á kjörskrá, skrifaði greinar í blöð og auglýsti í DV og Morgunblaðinu. Auk þess var vefsíðan mín endurhönnuð og með auglýsingu á www.mbl.is var fólki gert kleift að tengjast þaðan beint á vefsíðuna mína.

Vegna breytinganna á síðunni raskaðist hin daglega mæling á heimsóknum á síðuna, svo að ég veit ekki, hvaða áhrif auglýsingin á mbl.is hafði á heimsóknir. Póstkerfið er ekki enn komið í framtíðarhorf í nýja umhverfinu, svo að um þessar mundir er ekki unnt að skrá sig af póstlistanum.

Ég heyri í fréttum, að lagt er út af stöðu kvenna á framboðslistunum í Reykjavík og meðal annars leitað til Auðar Styrkársdóttur, sem leggur Sjálfstæðisflokknum yfirleitt ekki gott orð og virðist hún hafa áhyggjur af því, að kjósendur í prófkjörinu hafi ekki lagt konum nægilega öflugt lið. Mér finnst sérkennilegt, þegar rætt er um niðurstöðuna í prófkjörinu, eins og við frambjóðendur ráðum því, hvernig við röðumst á lista ? svo er auðvitað ekki, því að kjósendur gera það með atkvæði sínu.

Frambjóðendur eru einstaklingar, sem bjóða sig fram á jafnréttisgrunni og leita hver með sínum hætti stuðningi kjósenda, sumir meira að segja með það sem megináherslu, að þeir séu þó fremri en aðrir, af því að þeir séu á ákveðnum aldri, þessu kyni en ekki hinu og jafnvel í háum embættum eða úr einhverri starfstétt, hafi eigin skoðun og svo framvegis. Niðurstöðunni ráða kjósendur og líklega er undantekning, að nokkrir tveir kjörseðlar séu eins.

Góð endurnýjun verður í þingflokknum með þremur ungum körlum.  Árangur Sigurðar Kára Kristjánssonar er bestur. Hann náði 7. sæti. Guðlaugur Þór Þórðarson hlaut 6. sæti, sem auðvitað er einnig mjög góður árangur. Guðlaugur Þór er hins vegar ekki í sínum fyrstu kosningaátökum meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík eins og Sigurður Kári og Guðlaugur Þór hefur verið borgarfulltrúi í fjögur ár, auk þess að hafa verið varaþingmaður 1995 til 1999 á Vesturlandi. Birgir Ármannsson er vel að sínu sæti kominn. Það rættist ekki, að hörð barátta þessara nýju mann myndi koma þeim í koll.

Raforkulagafrumvarp í klemmu

Í vikunni ritaði ég grein í Morgunblaðið um nauðsyn þess að brjóta raforkulagafrumvarp upp í tvö frumvörp. Annars vegar yrði kynnt með sérstöku frumvarpi, hvað þyrfti að lögfesta hér til að standast kröfur vegna aðildar okkar að evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar yrði lagt fram frumvarp að heildarlöggjöf um raforkumál.

Ég skrifaði greinina eftir að hafa hlýtt á útlistanir embættismanna iðnaðarráðuneytisins á frumvarpinu, sem iðnaðarráðherra vill endurflytja á alþingi, en á síðustu dögum þings sl. vor kom þetta frumvarp fram og fylgdi ráðherra því úr hlaði í lok næturfundar. Lá svo mikið við að koma málinu fyrir þingið, vegna þess að ráðherrann segir Íslendinga eiga á hættu að sæta ámæli eftirlitsmanna í Brussel, sem eiga að tryggja virðingu fyrir EES-samningnum.

Vandinn í málinu er sá, að frumvarpið segir ekkert um það, hvað er heimasmíð sérfræðinga iðnaðarráðuneytisins og hvað leiðir af Evrópuréttinum. Þingmenn eru alls ekki ánægðir með frumvarpið, en vilja ekki sitja undir því að brjóta samninga við aðrar þjóðir, sem þeir hafa samþykkt. Svara þarf þeirri spurningu með skýrum hætti, hvort frumvarpið er með þeim ágöllum, sem valda óánægju þingmanna vegna Evrópuréttarins eða ekki.

Af svargrein eftir iðnaðarráðherra í Morgunblaðinu við athugasemdum mínum ræð ég, að embættismenn iðnaðarráðuneytisins treysti sér ekki til að semja sérstakt frumvarp, sem byggist einungis á Evrópuréttinum. Verður málið því áfram í þeirri spennu, sem það er núna. Er þetta undarlegt, svo að ekki sé meira sagt, eins og sú skoðun ráðherrans, að ég megi ekki setja fram skoðun á málinu, andsnúna ráðherranum, af því að ég hafi á sínum tíma setið í ríkisstjórn, þegar þetta mál var reifað þar, áður en ráðherrann lagði það fram á alþingi.

Mín almenna afstaða til afgreiðslu mála í ríkisstjórn er sú, að einstakir ráðherrar fyrir utan forsætisráðherra, eigi ekki að vera að hlutast til um málefni á verksviði annarra ráðherra. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald, heldur er hver ráðherra ábyrgur fyrir sínum málaflokki. Mál eru ekki leidd til lykta í ríkisstjórn með atkvæðagreiðslu. Þingflokkar og alþingi eru allt annars konar vettvangur og þar er tækifæri til að hreyfa sjónarmiðum sínum og reifa þau á flokkspólitískum forsendum.

Hefð er fyrir því, að ráðherrar snúist ekki gegn frumvörpum meðráðherra sinna innan þingflokka. Ég er ekki bundinn af slíku, eftir að ég hvarf úr ríkisstjórn. Hver maður lítur einnig á mál frá sjónarhóli sínum á hverjum tíma og nú þarf ég að sinna orkumálum í fyrsta sinn og huga að stefnu þar og framkvæmd hennar. Þess vegna hef ég kynnt mér raforkulagafrumvarpið sérstaklega og myndað mér ofangreinda skoðun um það, hvernig standa beri að málinu.

Ef iðnaðarráðherra kýs að haga málum á þann veg, að taka ekki mið af því, sem þingflokkar ríkisstjórnarinnar segja um raforkulagafrumvarpið, er borin von, að þingið afgreiði málið. Staðan er ekki flóknari en það, hvað sem líður eftirlitsmönnunum í Brussel.