22.11.2002

Prófkjörið hafið – Stefán Hrafn í flokkinn – vefræn baráttaÞetta er skrifað að kvöldi föstudags 22. nóvember, fyrri kjördags í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík.  Veðrið hefur verið einstaklega gott í dag og margir lagt leið sína á kjörstað. Þegar við Rut fórum að kjósa í Valhöll um klukkan 17.30 var þar margt  manna, án þess að við þyrftum þó að bíða í röð.


Skiptir miklu, að sem flestir nýti sér þetta tækifæri til að láta að sér kveða við val fólks á framboðslista okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík. Vil ég enn á ný hvetja til þátttöku í prófkjörinu, gildi þess eykst í réttu hlutfalli við þátttökuna í því.

 

Vil minna á, að kosningunni lýkur klukkan 18.00, laugardaginn

23. nóvember.

Stefán Hrafn í flokkinn


Þegar ég var að kjósa, hitti ég meðal annars Stefán Hrafn Hagalín, tölvu-áhrifamann og blaðamann, í sömu erindagjörðum í Valhöll, en sérstaka athygli vakti, að í dag ákvað hann að ganga í Sjálfstæðisflokkinn og kom á kosningaskrifstofu mína að Sæbraut 8 til þess.


Sagt er frá þessari ákvörðun Stefáns Hrafns með þessum hætti á strik.is í dag:


„Þeir sem fylgjast grannt með þjóðmálaumræðunni muna væntanlega margir eftir endurtekinni gagnrýni Stefáns á forystu og stefnu Samfylkingarinnar og hreyfingar jafnaðarmanna. Jafnframt skrifaði hann ítrekað til stuðnings Birni fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Þessi formlegu hamskipti Stefáns núna koma þess vegna kannski fáum á óvart. Hann hafði alla tíð hátt um þá skoðun sína að hægrikratar ættu ekki margra annarra kosta val en að styðja Sjálfstæðisflokkinn og syrgði mjög í pistlum sínum þá tíð þegar Alþýðuflokkurinn var um margt staðsettur hægra megin við íhaldið.

Formleg innganga Stefáns í Sjálfstæðisflokkinn verða að teljast allnokkur tíðindi, því þarna er á ferðinni náfrændi Jóns Baldvins Hannibalssonar af svonefndri eðalkrataætt, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sambands ungra jafnaðarmanna, sem var aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðuflokksins um skeið og fréttastjóri Alþýðublaðsins um árabil.”


Ég var síðdegis í þætti hjá Hallgrími Thorsteinssyni á útvarpi Sögu með Stefáni Hrafni og Eiríki Bergmann Einarssyni, sem er hægri-krati og einn af stofnendum www.kreml.is með Stefáni Hrafni. Var greinilegt á Eiríki Bergmann, að honum þótti mikill missir af félaga sínum inn í raðir okkar sjálfstæðismanna. Stefán Hrafn taldi hins vegar ljóst, að ekki væri neins að vænta af Samfylkingunni.


Er Stefán Hrafn síður en svo hinn eini úr hópi svonefndra eðalkrata, sem telur sig eiga litla samleið með Samfylkingunni, vegna þess hve vinstri sinnuð hún er, þar sem Össur Skarphéðinsson líti til dæmis til Lionels Jospins, hins fallna leiðtoga franskra sósíalista, sem fyrirmyndar, en eins og kunnugt er hafa franskir sósíalistar næstum orðið að engu, eftir illa útreið Jospins í frönsku forsetakosningunum s.l. vor.


Hefur verið ánægjulegt að geta tekið á móti nýjum og góðum liðsmönnum við Sjálfstæðisflokkinn í skrifstofu minni. Hvaða skoðun, sem menn hafa á prófkjörum, eru þau einstök leið til að ná tengslum við þá, sem kjósa að ganga til liðs við flokk vegna þess, að þeir hafa augastað á einstaklingi í framboði fyrir hann.


Vefræn barátta


Kosningabarátta vegna prófkjörsins hefur verið vinsamleg. Hún hefur að mestu verið háð á síðum Morgunblaðsins og á blaðið heiður skilinn fyrir það rými, sem lagt er undir kynningu á einstökum frambjóðendum. Formið, sem blaðið hefur valið til þess, er ákjósanlegt, því að síðurnar með stuttu hvatningarorðunum svala að minnsta kosti forvitni margra. Efnið höfðar að sjálfsögðu misjafnlega til lesenda, en með þessari þátttöku í prófkjörum áréttar Morgunblaðið, hve mikilvægu hlutverki það gegnir í skoðanamyndandi umræðum í landinu.


www.mbl.is skiptir einnig máli í kosningabaráttunni, því að margir frambjóðendur hafa valið að hafa þar tengingar í auglýsingum inn á vefsíður sínar. Hefur pólitískum vefsíðum fjölgað töluvert vegna þessa prófkjörs og annarra að undanförnu. Verður forvitnilegt að fylgjast með því, hve mörgum þeirra verður viðhaldið fram yfir þingkosningar og hvernig stjórnmálanotkun netsins þróast á næstu vikum og mánuðum.


Í tilefni af prófkjörinu ákvað ég að stíga enn nýtt skref við þróun vefsíðu minnar í samvinnu Hugsmiðjuna og taka upp vefstjórnarkerfið Eplica, sem auðveldar alla umsýslu vefja og býður upp á notendavænt viðmót til að skrifa, gefa út og viðhalda vefsíðum.


Hefur verið unnið að þessum breytingum nú í vikunni og eins og sjá má hefur útlit síðunnar minnar þegar breyst mikið. Ég á hins vegar sjálfur eftir að læra á að nýta mér kosti Eplicu og ætla að tileinka mér þá á eins skömmum tíma og mér er fært. Á meðan ég er að fikra mig áfram bið ég trausta lesendur síðu minnar að sína mér skilning og þolinmæði.


Fyrst og síðast hvet ég þó til þess núna, að allir, sem vettlingi geta valdið, nýti sér rétt til að kjósa í prófkjörinu í Reykjavík og muni eftir mér í 3. sætið.