Nýtt útlit Morgunblaðsins - ADSL-tenging - staðan auglýst
Morgunblaðið birtist okkur með nýju útliti í dag. Finnst mér það vel úr garði gert og tímabært að brjóta upp þá reglu, að aðeins erlendar fréttir séu á forsíðunni. Ég stóð raunar í þeirri trú, að lengra væri en síðan 1970, að reglan um erlendar fréttir væri ráðandi við frágang forsíðunnar.
Um nokkurt árabil kom það í minn hlut sem fréttastjóri erlendra frétta að eiga hlut að ákvörðun um forsíðufréttir blaðsins. Oft lá það auðvitað í augum uppi, hvaða frétt skyldi setja mestan svip á síðuna, en alls ekki alltaf. Raunar var oft sagt um Morgunblaðið, að það væri einstætt meðal blaða, að ekki þyrfti að huga að sölu þess með vali efnis á forsíðuna. Flestir kaupendur væru áskrifendur og þeir keyptu blaðið án tillits til forsíðufréttanna.
Ákvarðanir við val frétta á forsíðuna verða flóknari núna og fleiri koma að þeim en áður, eftir að jafnt innlendar og erlendar fréttir eiga þar heima. Er ekki nokkur vafi á því, að breytingin á forsíðunni hefur áhrif á fleira en útlit blaðsins – keppni um að koma efni á forsíðuna eykst. Mat á gildi frétta breytist og val á ljósmyndum tekur jafnt mið af innlendum og erlendum atburðum. Viðmið blaðmanna og ljósmyndara breytist. Árangursmatið verður annað bæði innan blaðsins og meðal lesenda þess.
Margir hafa vanið sig á að lesa blaðið þannig að byrja á innlendu fréttunum á baksíðunni og fletta sig þannig í gegnum blaðið. Þetta breytist vegna nýja útlitsins.
ADSL-tenging
Í vikunni tengdist ég í fyrsta sinn með ADSL inn á netið heiman frá mér og steig þannig enn eitt skrefið á tæknibrautinni. Er með ólíkindum að hafa tekið þátt í þessari öru tækniþróun. En ég minnist þess, hve undrandi ég var á níunda áratugnum, þegar ég gat í fyrsta sinn hringt úr tölvunni minni á Morgunblaðinu inn í tölvukerfi The Daily Telegraph í London og sótt þaðan fréttir, sem áttu að birtast í því blaði daginn eftir og fengið aðgang að þeim til birtingar í Morgunblaðinu næsta dag.
Síðan var tölvan heima hjá mér tengd inn á símakerfið og ég gat skoðað Morgunblaðið áður en það var prentað heiman frá mér og skrifað greinar heima og sent beint inn í tölvukerfi blaðsins. Þá var hraðinn með mótaldinu talsvert minni en núna, svo að ekki sé meira sagt.
Með ADSL-tengingunni berast boð á svipstundu og leit í gagnagrunnum gerist á örskotsstundu auk þess sem ég þarf ekki að hringja neitt til að komast í samband við netið heldur sér tölvan sjálf um að tengjast því um leið og ég kveiki á henni.
Staðan auglýst
Þegar ég fjallaði um stjórnsýslu innan Háskóla Íslands í síðasta pistli, velti ég því fyrir mér, hvernig hefði verið staðið að því í félagsvísindadeild skólans að ráða forstöðumann nýrrar stofnunar um stjórnsýslu og stjórnmál. Ræddi ég þetta einnig í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur í þætti hennar á útvarpi Sögu á miðvikudag og sagðist ætla að kanna, hvort staðan hefði ekki verið auglýst.
Ég þurfti ekki að leggja mikið á mig til að komast að hinu sanna, því að Margrét S. Björnsdóttir, hinn nýráðni forstöðumaður stofnunarinnar, hafði samband við mig bæði með tölvupósti og í síma og sagði mér, að staðan hefði verið auglýst í Morgunblaðinu í byrjun september. Sjö hefðu sótt um hana og hefði hún verið valin úr þeim hópi.
Kem ég þessum upplýsingum hér með á framfæri en ítreka það, sem ég sagði í síðasta pistli, að ekki var unnt að ráða það af frétt Morgunblaðsins um málið, hvort fleiri hefðu sótt um stöðuna en Margrét. Venja er hjá opinberum aðilum að birta ekki aðeins nafn þeirra, sem fá starf, heldur einnig hinna, sem sóttu um það en fengu ekki. Raunar er það svo núna, að þeir, sem óska nafnleyndar við umsókn um opinbert starf, detta strax upp fyrir, því að óheimilt er að halda nöfnum umsækjenda leyndum.