13.10.2002

Einarður borgarstjóri - stjórnarhættir vegna Línu.nets.

Um þessa helgi er því fagnað í New York, að Kristófer Kólumbus sigldi til Ameríku, Mánudagurinn 14. október er frídagur af þessu tilefni. Er þá efnt til skrúðgöngu til heiður Kólumbusi upp 5. breiðgötu. Venja er, að borgarstjóri New York gangi þar í fararbroddi með forystumönnum í vináttufélagi Ítala í borginni. Michael R. Bloomberg borgarstjóri verður ekki í göngunni að þessu sinni og hefur það ekki gerst í manna minnum. Rifjað er upp, að Fiorello H. La Guardia borgarstjóri hafi hótað því árið 1935 að koma ekki til göngunnar, ef fasistar yrðu þar í fararbroddi.

Aðdragandi þess að Bloomberg fellur frá þátttöku sinni í göngunni er sá, að sagt var frá því í slúðurdálki blaðsins Daily News, að borgarstjórinn ætlaði að bjóða Dominic Chianese, sem leikur Junior frænda í Sopranos, og Lorraine Bracco, sem leikur dr. Jennifer Melfi í sama sjónvarpsþætti, að ganga með sér upp 5. breiðgötu.

Þessi frétt féll ekki í kramið hjá þeim, sem standa fyrir göngunni, af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hafði borgarstjórinn ekki nefnt þessa gesti sína við þá. Í öðru lagi finnst þeim ekkert til Sopranos koma, þar sem lítið sé gert úr Ítölum í þáttunum.

Formaður undirbúningsnefndarinnar gerði sér lítið fyrir og óskaði eftir því við dómara, að borgarstjóranum yrði gert að koma til göngunnar en án gesta sinna. Borgarstjórinn sagðist hafa boðið leikurunum vegna þess að þeir skiptu máli fyrir New York og væru vinir sínir, en ekki vegna leiksins í Sopranos, þætti, sem hann fylgdist ekki með.

Dómarinn sagðist ekki mundu skipa Bloomberg borgarstjóra að ganga en hann yrði að ákveða, hvort hann kæmi án leikaranna úr Sopranos eða léti alls ekki sjá sig.

Edward Skyler blaðafulltrúi borgarstjórans sagði: „Þetta dómsmál var tímasóun fyrir borgina. Aðstandendur göngunnar ættu að skammast sín fyrir að stofna til þess. Borgarstjórinn gengur ekki.”

Í stað þess að vera á 5. breiðgötu 14. október ákvað borgarstjórinn að fagna Kólumbusardegi með vinum sínum í Bronx og ganga þar. Þeir ætluðu einnig að fá sér að borða á ítölskum stað, enda væri ekki vitað, að hann bannaði leikurum úr Sopranos aðgang.

Fyrir okkur Íslendinga kemur ekki á óvart, að Sopranos veki heitar tilfinningar, því að ekki er langt um liðið síðan Flugleiðir mótmæltu, að í fyrsta þætti nú á haustvertíð sjónvarpstöðvanna, var sýnd mafíugleði með flugfreyjum, sem sagðar voru frá Íslandi. Allt frá því að fyrsti þátturinn af Sopranos var frumsýndur fyrir þremur árum, hefur hann vakið litla gleði meðal Ítala í Bandaríkjunum, telja þeir hann niðurlægjandi fyrir sig.

Í tilefni af þessari þrautagöngu eftirmanns síns sagði Rudolph W. Giuliani í The New York Times : „ Ég er mikill aðdáandi Sopranos. Þættirnir eru frábærir, og ég hvet ítalska-ameríkana til að vera ekki svona hörundsárir. Maður getur eytt öllu lífi sínu í að móðgast. Hvers vegna? Hvers vegna vilja menn endilega móðgast?”

Myndir af Giuliani eru nú í öllum bókabúðum í New York vegna þess að hann var að senda frá sér bók um leiðtogann og hvað menn þurfa að hafa til brunns að bera til að verða leiðtogar. Þar svarar hann líklega þessum spurningum. Hann telur móðgunargirni greinilega ekki til þess, sem prýðir leiðtoga.

Bloomberg borgarstjóri er ekki aðeins einarður vegna Kólumbusargöngunnar. Hann hefur sagt reykingum í New York stríð á hendur og jafnframt götuhávaða, bílflauti og tónlist úr bifreiðum eða frá veitingastöðum.

Tillögur borgarstjórans um reykingabann gera New York meðal þeirra staða á hnettinum, þar sem mest er þjarmað að reykingamönnum. Verð á sígarettum var nýlega hækkað í 8 dollara pakkinn í New York. Reykingamenn velta fyrir sér að fara fyrir Hudson-ána til New Jersey til að kaupa sér sígarettur. Veitingamenn óttast að reykingabannið dragi úr viðskiptum og í borgarstjórninni var hart deilt um, hvort menn mundu drekka meira við að mega ekki reykja. Borgarstjórinn heldur því fram, að með minnkandi reykingum muni fólk kaupa meira á börum borgarinnar en andstæðingar hans segja þetta tóma vitleysu, það sé einmitt til að geta reykt meira, sem menn sitji lengi yfir glasi á börunum.

Stjórnarhættir vegna Línu. nets

Ég var fjarri, þegar rætt var um málefni Línu.nets í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Raunar voru mál lögð fyrir stjórnina með þeim hætti, að greinilega var ætlunin að keyra málið í gegn, án þess að gefa færi á miklum umræðum.

Morgunblaðið lýsti því ítarlega í leiðara, hve illa hefði verið staðið að ráðstöfun opinberra fjármuna með því að stofna til Línu.nets og standa að rekstri fyrirtækisins með þeim hætti, sem raun sýnir. Frá upphafi hafa stjórnendur fyrirtækisins látið eins og þar sé allt í himna lagi. Þannig hefur verið talað allt frá því að ævintýrið hófst undir þeim formerkjum, að á Íslandi skyldi staðið að því með betri hætti en annars staðar að nýta rafmagnslínur til tölvusamskipta á Netinu.

Við sjálfstæðismenn boðuðum í baráttunni vegna borgarstjórnarkosninganna í vor, að við mundum selja Línu. net. Þá var gjarnan spurt, hvernig okkur dytti í hug, að nokkur mundi vilja kaupa fyrirtækið miðað við lýsingu okkar á stöðu þess. Sumir spurðu á þennan veg, þar sem þeir voru sammála okkur um, að fyrirtækið væri í raun á barmi gjaldþrots, aðrir vegna þess að þeir trúðu okkur ekki, töldu, að við værum að draga upp alltof dökka mynd af stöðu Línu.nets.

Nú hafa stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur og Línu.nets staðfest allt, sem við sögðum í kosningabaráttunni. Lína.net var á barmi gjaldþrots, til að gera fyrirtækið söluhæft reyndist nauðsynlegt, að Orkuveita Reykjavíkur keypti af því eignir, ljósleiðara í götum Reykjavíkur, sem hún hafði í raun staðið fyrir að fjármagna.

Sérstakt athugunarefni er, hvernig staðið er að ákvörðunum um ráðstöfun á þessum eignum og fjármunum borgarbúa. Á sama stjórnarfundi og þetta mál var til umræðu, var fjallað um málefni tengt hlutafélaginu Jarðborunum og þá vék forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur af fundi við afgreiðslu málsins vegna setu sinnar í stjórn Jarðborana. Tengsl forstjórans við Línu.net eru miklu meirir en við Jarðboranir, svo að ekki sé rætt um Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, sem er að semja við sjálfan sig beggja vegna borðs, þegar hann stendur í þessum sviptingum með fé borgarbúa.

Halldór Blöndal, forseti alþingis, hefur beint athygli að starfsháttum samkeppnisstofnunar undanfarið og velt fyrir sér, hver sé frumkvæðis- og upplýsingaskylda hennar og samræmi milli orða og athafna. Samskonar spurningar vakna um skyldur þeirra yfirvalda, sem eiga að fylgjast með fjármálaumsýslu fyrirtækja á vegum sveitarfélaga, þegar litið er til viðskipta Orkuveitu Reykjavíkur og Línu.nets.

Þegar spurningar vöknuðu vegna úrsagnar Steingríms Ara Arasonar úr einkavæðingarnefnd vegna sölu ríkisbankanna, vísaði ríkisstjórnin málinu til ríkisendurskoðunar til að fá mat hlutlauss aðila. Ég hef ekki orðið var við, að R-listinn í Reykjavík sýni nokkra tilburði til þess, að hlutlaus aðili verði fenginn til að fara yfir fjárfestingar og ráðstafanir í nafni Orkuveitu Reykjavíkur vegna Línu. nets til að fá hlutlægt mat á fjárfestingunum og töku ákvarðana um þær.

Væri Línu.net braskið að gerast hér í New York, er ekki minnsti vafi á því, að það væri meira undir smásjá fjölmiðla en sést til dæmis hjá ljósvakamiðlunum íslensku. Þá yrði þess krafist af borgarstjóranum, að hann stæði fyrir máli sínu gagnvart borgarbúum um brask með fjármuni þeirra.