Ámælisverðir stjórnarhættir - rangfærsla um Evrópumál - tvískinnungur F-listans.
Ég sit í Flugleiðavél föstudaginn 4. október á leið frá Keflavík til New York þegar ég skrifa þennan pistil. Í New York verð ég í tvær vikur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en í áratugi hafa alþingismenn sótt allsherjarþingið. Fræg var þingmannaferðin fyrir 30 árum, þegar alþingismenn hittu norska stjórnarerindrekann Arne Treholt, sem síðar var dæmdur njósnari KGB, og hann lagði á ráðin um það með þingmönnum þáverandi vinstri stjórnar, hvernig rjúfa ætti varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Slíkt heyrir nú sögunni til og í stað deilna austurs og vesturs í kalda stríðinu er nú rætt, hvað eigi að gera við Saddam Hussein. Verður spennandi að kynnast því.
Í háloftunum verður mér hugsað til fundar í borgarstjórn Reykjavíkur í gær, þar sem rætt var um mál, sem snerta stjórnarhætti borgaryfirvalda, trúverðugleika stjórnmálamanna, sem leiddi huga minn að Evrópumálum, og tvískinnung F-listans.
Ámælisverðir stjórnarhættir.
Við sjálfstæðismenn gagnrýndum stjórnarhætti R-listans í þremur málum:
Í fyrsta lagi er ljóst, að hálfu borgaryfirvalda hefur ekki verið staðið við fyrirheit gefin tónlistarskólakennurum skömmu fyrir kosningar í vor. Yfirvöld fræðslumála í borginni hafa skotið sér undan að framkvæma samþykkt borgarráðs frá 28. maí, sem byggðist á minnisblaði, sem var samið og kynnt rétt fyrir kosningarnar, 25. maí.
Í öðru lagi hefur verið staðið þannig að málum, sem falla undir leikskólaráð, að spurning er, hver er tilgangur með starfsemi ráðsins. Borgarstjóri sagðist í krafti stöðuumboðs hafa falið embættismönnum að huga að gjaldskrár- og styrkjamálum vegna leikskólastarfsemi. Virtist borgarstjóri ekki vita, að sambærilegt starf væri unnið á vettvangi leiksólaráðs. Samkvæmt samþykktum sínum ber ráðinu að sinna þessu verkefni.
Í þriðja lagi var gagnrýnt, að fé skyldi veitt úr bílastæðasjóði til Þróunarfélags Reykjavíkur til að efla miðborgarstarfsemi. Nær væri að lækka stöðumælagjöld og sektir en standa í slíkum millifærslum.
Þessi þrjú mál eru til marks um óskynsamlega stjórn að mínu mati. Fráleitt er að standa ekki við gerða samninga og fyrirheit borgarráðs um framkvæmd á þeim. Að borgarstjóri sniðgangi leikskólaráð í máli, sem heyrir beint undir það samkvæmt samþykktum, er ekki aðeins virðingarleysi heldur grefur undan tiltrú til réttra stjórnvalda. Að halda uppi háum stöðumælagjöldum á þeirri forsendu, að verið sé að afla fjár fyrir kynningarstarf í þágu miðborgarinnar, er stefna, sem byggist á því, að borgararnir skuli víst kyssa vöndinn.
Málefni þessi eru skýr og einföld. Borgarstjóri talaði hins vegar út og suður í umræðum um þau. Hún leitaðist við að drepa umræðum um málefni tónlistarkennara á dreif með því að segja mig fara með rangt mál, þar sem samþykkt, sem þeir vitna til, hefði verið gerð í borgarráði 28. maí, þremur dögum eftir kosningar. Ég nefndi hins vegar það, sem allir kunnugir vita, að af hálfu borgaryfirvalda var því flaggað fyrir kosningar, sem tónlistakennarar segja nú óefnt. Í umræðum um hina óeðlilegu fjárveitingu úr bílastæðasjóði, kaus borgarstjóri að snúa út úr orðum mínum um bílastæðakjallara í lóðunum við Laugaveg, sem hún keypti af Jóni Ólafssyni í Skífunni fyrir 140 milljónir króna.
Af reynslu í stjórnmáladeilum og umræðum dreg ég þá ályktun, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé enn á „slapstick-stiginu”, þegar hún lendir í vandræðum. Hún leitast við að finna eitthvert eitt atriði, sem hún telur veikt í málflutningi andstæðings síns, atriði eða villu, sem skiptir engu máli, þegar á umræðuefnið er litið, en kann að setja andstæðinginn út af laginu. Þegar við ræddum um tillögu okkar sjálfstæðismanna um lækkun fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja, sem R-listinn felldi með hjásetu F-listans, festist Ingibjörg Sólrún í umræðum um það, hvort ég hefði á alþingi rætt sérstaklega um lækkun eignarskatta á eldri borgara, þegar ég stóð að því að samþykkja almenna lækkun þeirra skatta úr 1,2% í 0,6%. Atriði, sem skipti engu öðru máli í þessum umræðum en drepa þeim á dreif. Við lækkun eignaskatta af hálfu sjálfstæðismanna er stefnt að afnema þá á alla, jafnt unga sem aldna – vinstisinna skortir hins vegar hugsjónir og áræði til að feta þá braut.
Hið sama gerðist á fimmtudaginn. Auðvitað skiptir það ekki máli, hvort borgarráðsfundur er haldinn þremur dögum eftir kosningar til að staðfesta mál, sem var kynnt með ákveðnum loforðahætti fyrir kosningar en svikið að þeim loknum. Svikin eru hin sömu.
Í umræðum um styrkinn til Þórunarfélagsins benti ég á blaðagrein eftir Einar Örn Stefánsson, framkvæmdastjóra þess og fyrsta kosningastjóra R-listans, ef ég man rétt, þar sem hann sagði, að bílastæðahús ætti að rísa á lóðinni, sem borgin keypti af Jóni Ólafssyni í Skífunni fyrir 140 milljónir króna. Í borgarráði var hugmyndin um lóðakaupin hins vegar kynnt á þeirri forsendu, að þarna ætti að rísa verslunar- og skrifstofuhús með bílastæðakjallara. Spurði ég, hvers vegna ætti að veita fé til félags um þróun miðborgarinnar, þar sem framkvæmdastjórinn væri jafnilla að sér um til hvers stórútgjöld úr borgarsjóði vegna miðborgarinnar rynnu. Borgarstjóri fór þá að rökstyðja, að verslunar- eða skrifstofuhús með ákveðnum fjölda bílastæða í kjallaranum gæti fallið undir hugtakið bílastæðahús, ef ég skildi hana rétt. Ég sagði, að þetta gæti ekki gengið, slík skilgreining réðist ekki af því, hvort bílastæðin væri eða 10 eða 12 fleiri. Þá stóð hún upp og sagði það lýsa fáfræði minni, að halda að það yrðu ekki fleiri en 10 til 12 bílastæði í þessum kjallara!!
Rökræður af þessu tagi skila auðvitað ekki öðru en vitneskju um lélegan málstað hjá þeim, sem grípur til útúrsnúningsins. Eða að segja, þegar við sjálfstæðismenn bendum á, að brotthvarf McDonalds úr Austurstræti sé alvarleg einkunn fyrir miðbæinn, því að hvergi standi miðborg undir nafni í heiminum án McDonalds, að vegna fjölda annarra veitingastaða í miðbænum sé þetta ekki áhyggjuefni. Gerðist það í London, New York eða Moskvu, að McDonalds flytti úr því, sem menn teldu miðborg þessara borga, yrði það heimsfrétt, þótt margir aðrir veitingastaðir væru þar. Mcdonalds er nefnilega, þar sem fólk er. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, benti einnig réttilega á, að þessi fullyrðing borgarstjóra um fjölgun veitingastaða stæðist ekki, þegar til þess væri litið, að McDonalds væri vinsæll staður fyrir foreldra með ung börn. Með brotthvarfi hans yrði enginn slíkur staður eftir í miðborginni.
Rangfærsla um Evrópumál
Sjálfsagt er að taka hattinn ofan fyrir því, að Ingibjörgu Sigrúnu Gísladóttur hefur tekist að sameina vinstrisinna í andstöðu við sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur og orðið sigursæl á þeirri braut. Hitt stendur eftir, að undir forystu R-listans er enginn forystukraftur í málefnum Reykjavíkurborgar. Í borgarstjórn er ekki tekist á um nein mál á grundvelli stjórnmálahugsjóna vegna þess að R-listinn hefur ekki sameiginlegar hugsjónir.
Viðtal birtist við Ingibjörgu Sólrúnu í Stúdentablaði, sem fylgdi Morgunblaðinu á dögunum. Þar sagði hún meðal annars, að við hefðum verið samstiga í Evrópumálum, þegar Ísland gekk í evrópska efnahagssvæðið (EES) en síðan hefði ég orðið hægfara.
Erfitt er að átta sig á því á hvaða forsendum þessi fullyrðing byggist. Við vorum alls ekki samstiga í Evrópumálum, þegar hún var í utanríkismálanefnd alþingis undir formennsku minni og Ísland gerðist aðili að EES.
Fyrst er þess að geta, að Ingibjörg Sólrún var stofnfélagi í samtökum gegn evrópska efnahagssvæðinu, sem voru stofnuð 3. júlí 1991. Þessi samtök máttu sín aldrei mikils. Hún var kjörin á þing vorið 1991 fyrir Kvennalistann á þessum andstöðuforsendum. Á þingi snerist hún hins vegar gegn samherjum sínum, þegar rætt var um EES, þær voru á móti en hún endaði með að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um EES-samninginn. Ég var hins vegar eindreginn málsvari hans og greiddi atkvæði með honum. Þegar samtökin gegn evrópska efnahagssvæðinu voru stofnuð skrifaði ég Morgunblaðsgrein gegn þeim, sem lesa má í bók minni Í hita kalda stríðsins, en þar er einmitt vitnað í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á stofnfundinum.
Lesandi Stúdentablaðsins man örugglega ekki eftir því, hvernig Ingibjörg Sólrún greiddi atkvæði um EES-samninginn. Ég leiddi ekki hugann að þessari furðulegu rangfærslu, fyrr en mér var á bent á hana. Spurning er, hvort Ingibjörg Sólrún haldi, að hún hafi greitt atkvæði með EES-samningnum eða sé að koma því inn hjá lesendum blaðsins, að ég hafi ekki stutt hann.
Vilji Ingibjörg Sólrún slá sér upp í Evrópumálum á minn kostnað, er ekkert við því að gera. Hún þarf þó að fara rétt með staðreyndir. Líklega er hún að gefa til kynna með orðum sínum í Stúdentablaðinu, að hún sé hlynnt aðild að Evrópusambandinu. Hvernig væri, að hún tæki af skarið með skýrari hætti? Raunar skiptir afstaða hennar til Evrópumála í sjálfu sér engu núna, því að hún hefur ákveðið að halda sér frá þeim stjórnmálavettvangi, þar sem um þau er tekist.
Tvískinnungur
Ég get ekki skilið við síðasta borgarstjórnarfund, án þess að minnast á tillögu Ólafs F. Magnússonar um hækkun skattleysismarka til að létta sköttum af eldri borgurum.
Borgarstjórn tekur ekki ákvörðun um hækkun skattleysismarka heldur alþingi. R-listinn og F-listinn studdu ekki tillögu okkar sjálfstæðismanna um stórlækkun fasteignaskatta á aldraða og öryrkja í borgarstjórn 5. september.
Ótrúlegur tvískinnungur felst því að styðja ekki skattalækkun á eigin vettvangi en gera kröfur um hana til annarra stjórnvalda. Á þetta bentum við sjálfsæðismenn og lýstum sérstakri undrun á hjásetu fulltrúa F-listans 5. september, en þá sat Gísli Helgason varaborgarfulltrúi borgarstjórnarfund.
Ólafur F. brást furðulega við gagnrýni okkar. Hann gaf til kynna, að Gísla Helgasyni hefðu hreinlega fallist hendur, af þvi að hann hefði verið svo undrandi á því, að þessi tillaga kæmi frá sjálfstæðismönnum! Sérstaklega vegna þess að ég hefði átt setu í ríkisstjórn!!
Síðan ég sagði af mér ráðherraembætti til að fara inn á völl borgarstjórnar, hafa andstæðingar mínir hvað eftir annað talið sig geta slegið pólitískar keilur með því að minna á ríkisstjórnarsetu mína eins og ég hefði borið ábyrgð á verkum allra, sem þar sitja. Lengst þykir mér þó F-listinn í borgarstjórn hafa seilst til að skjóta sér á bakvið þetta með því að krefjast þess, að aðrir lækki skatta á eldri borgara og öryrkja, en vilja ekki greiða atkvæði með því í borgarstjórn vegna þess að tillagan er flutt af sjálfstæðismönnum undir minni forystu.
Með kveðju frá New York!