28.9.2002

Kastljós - Hamlet - virkara lýðræði?

(Athugasemd vegna póstlista. Það hafa svo margir skráð sig á póstlistann minn, að forritið hefur ekki haft burði til að senda öllum pistlana. Nú vona ég, að tæknimönnum hafi tekist að leysa þennan vanda. Þeir, sem hafa ekki áhuga á að vera á listanum, geta afskráð sig á vefsíðunni. Ég bið þá afsökunar, sem hafa ekki notið þeirrar þjónustu, sem lofað er á vefsíðunni. Bj. Bj.)

Kastljósið

Það er sérkennilegt fyrir stjórnmálamann og þátttakanda í hinni daglegu umræðu um stjórnmál að hafa misst af Kastljósinu sl. fimmtudag, þegar forystumenn stjórnmálaflokkanna hittust til viðræðna ? í fyrsta sinn í mörg ár - og skiptust á skoðunum við upphaf kosningaþings. Ég var staddur á Akureyri og tók þar þátt í 17. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á sama tíma og Kastljósið var sýnt bauð Páll Pétursson félagsmálaráðherra okkur fordrykk og síðan var hátíðarkvöldverður.

Ég bjóst við því, að í Morgunblaðinu daginn eftir yrði lesendum þess sagt frá því, sem hæst bar í þessum umræðum. Önnur blöð hef ég ekki séð, síðan þátturinn var. Ef til vill hefur verið fjallað um hann í fréttum útvarps og sjónvarps en það hefur einnig farið fram hjá mér.

Ég fræddist um þáttinn í fjölmiðlum af spjalli í dægumálaútvarpinu á rás 2, síðdegis föstudaginn 27. september. Þar ræddu tvær vinstri konur, Dagný Jónsdóttir, formaður Sambands ungra framsóknarmanna, og Drífa Snædal, forystumaður hjá vinstri/grænum, um þáttinn. Voru þær sammála um, að Össur Skarphéðinsson hefði staðið sig illa í þættinum. Þá heyrði ég Guðmund Steingrímsson ræða um þáttinn í pistli í Víðsjá. Mér skilst, að Guðmundur sé í þessum þætti til að vera fyndinn, að minnsta kosti gerði hann tilraun til þess að á kostnað stjórnmálamannanna, sem voru í Kastljósinu ? að vísu setti hann Margréti Sverrisdóttur innan sviga, en hún kom í þáttinn fyrir hönd föður síns. Sjónarhorn Guðmundar er frá vinstri, svo að opinberlega hef ég aðeins hlustað á vinstrisinna tala um þennan þátt. Miðað við tóninn í þessu fólki dreg ég þá ályktun að Davíð Oddsson hafi staðið sig vel í umræðunum.


Ég ætla að spara mér frerkari fullyrðingar um, hvaða skil fjölmiðlar hafa gefið þessum umræðum, enda ekki haft nein tök á að kynna mér það til hlítar.

Eitt veit ég af löngum kynnum af fjölmiðlum víða um heim, að þeir hefðu nýtt sér slíkan þátt til frétta og útlegginga. Sumstaðar hefðu blöð birt hann í heild, til dæmis Le Monde í Frakklandi, til að lesendur gætu brotið orð stjónrmálamannanna til mergjar. Oft skiptir efnislega meiru að lesa það, sem sagt er í slíkum þáttum, en hlusta og horfa, því að athyglin beinist að útliti, framsögn og framgöngu frekar en efni, þegar horft er á þættina í sjónvarpi. Fleyg urðu orð Edmunds Stoibers, kanslaraefnis kristilegra í Þýskalandi, á dögunum, þegar hann sagði konu hafa hringt í sig eftir sjónvarpseinvígi við Gerhard Schröder og haft það eitt til málanna, að leggja að Stoiber hefði verið með ljótt hálsbindi!

Hamlet

Ég ætla sem sé ekki að fara fleiri orðum um það, sem ég ekki sá í sjónvarpinu á fimmtudagskvöld. Hins vegar ætla ég að segja frá því, sem ég sá hjá Leikfélagi Akureyrar á föstudagskvöld, þegar þar var frumsýndur Hamlet eftir William Shakespeare í leikstjórn Sveins Einarssonar.

Sýningin er einstaklega góð í einfaldleika sínum og tilgerðarleysi, þar sem hinn frábæri texti í þýðingu Helga Hálfdánarsonar hittir áhorfandann með áhrifamiklum hætti. Sveinn leggur áherslu á orðin: ?Úr liði er öldin? og viðbrögð ungs fólks, þegar ábyrgðin færist á herðar þess.

Hópur ungra leikara tekst á við þetta stórvirki leikbókmenntanna af glæsileika og nefni ég þar sérstaklega Ívar Örn Sverrisson í hlutverki Hamlets. Hann lauk leikaranámi Listaháskóla Íslands í vor og ræðst því ekki á garðinn, þar sem hann er lægstur í frumraun sinni. Hlaut hann verðskuldað lof áhorfenda á frumsýningunni eins og aðrir, sem að verkinu koma.

Ég er ekki nægilega kunnugur verki Shakespeares til að átta mig á því, hvernig Sveinn hefur meitlað verkið í leikstjórn sinni. Eitt er víst, að boðskapurinn kemst listilega vel til skila. Að mínu mati er sýningin einkar vel til þess fallinn að vekja áhuga ungs fólks á þessu meistaraverki og auðvelda skilning á því. Vonandi fara sem flestir í skólabænum Akureyri á sýninguna auk þeirra, sem sækja hana lengra að.

Virkara lýðræði?

Ég fór norður á Akureyri miðvikudaginn 25. september en 17. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hófst upp úr hádegi þann dag og lauk síðdegis föstudaginn 27. september.

Meðal ræðumanna á fyrsta þingdegi var Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem áréttaði þá stefnu blaðsins í nokkur ár, það er síðan það birti í heild blaðauka úr vikuritinu The Economist, um að auka beri þátttöku almennings í töku ákvarðana um eigin málefni með atkvæðagreiðslum um einstök mál, þetta verði auðveldara eftir því sem rafræn tækni aukist og fleiri hafi aðgang að henni.

Hvort þessi sýn um framtíðina rætist, veit enginn. Í Sviss, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru algengastar, er þátttaka í þeim almennt ekki mikil. Víða glíma stjórnmálamenn við vaxandi áhugaleysi almennings á störfum þeirra, sem endurspeglast til dæmis í dræmri kjörsókn. Ef til vill fjallar enginn fjölmiðill um Kastljósþáttinn sl. fimmtudag, af því að umræðurnar þykja ekki fréttnæmar, þótt fjallað sé um brýn málefni.

Ég efast um, að unnt sé að virkja almenning til virkrar þátttöku í ákvörðun um einstök mál með skipulegum hætti, þótt það sé auðveldara en áður með tölvunni. Ég sagði við Styrmi að loknu erindi hans, að hann sæi greinilega fyrir sér, að sveitarstjórnarmenn hyrfu úr sögunni. Fólk þyrfti ekki annað en kynna sér skoðun Morgunblaðsins og síðan setjast við tölvuna og taka ákvörðun. Miðla henni til embættismanna sveitarfélagsins, sem önnuðust framkvæmdina. Hvert er hlutverk kjörinna fulltrúa, ef svigrúm þeirra til að taka ákvarðanir í krafti þess umboðs, sem þeir fá í kosningum, er horfið?

Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga leitast menn við að halda hópnum einsleitum, að allir glími við sömu verkefni án tillits til stærðar eða landafræði. Sveitarfélögum hefur fækkað en spurningunni um það, hvað þau mega vera lítil, þarf að svara með hliðsjón af nýjum kröfum. Þegar rætt var um flutning nýrra verkefna frá ríki til sveitarfélaga, var fallið frá því á í ályktun landsþingsins að tíunda einstök verkefni, eftir að ég mótmælti því að notað yrði orðlaga, sem mátti skilja á þann veg, að flytja ætti löggæslu frá ríkinu. Í stað þess að skilgreina nánar um hvað textinn snerist, var upptalning á einstökum verkefnum einfaldlega afmáð, Sumir töldu þetta sýna veikleikann í hugmyndinni um, að öll sveitarfélög geti sinnt sömu verkefnum. Það sé einfaldlega draumsýn.