7.9.2002

Er hún eða fer - ótti við ábyrgð - yfirlæti.

Stjórnmálastarf þingkosningavetrar er að hefjast og víða gætir spennu, ekki síst innan Samfylkingarinnar, þar sem leitað er allra leiða til að styrkja stöðu flokksins, þrátt fyrir formann hans. Felst í því einstakt vantraust á formann stjórnmálaflokks, hvernig rætt er um nauðsyn þess, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé kölluð úr borgarstjóraembættinu til þátttöku í landsmálum, svo að unnt sé að auka fylgi fylkingarinnar um allt að 8%, ef tekið er mið af skoðanakönnun á vegum vefsíðunnar Kreml.is.

Í öðru orðinu hæla talsmenn Ingibjargar Sólrúnar því, hvernig Össur Skarphéðinsson hefur staðið að formennsku Samfylkingarinnar, en í hinu er sagt, að flokkurinn afli sér ekki trausts kjósenda, nema hann fái nýtt andlit. Til að bjarga andlitinu boðar Össur hins vegar, að Ingibjörg Sólrún geti orðið forsætisráðherra, þótt ekki sé hún flokksformaður.

Hann hefur varla sleppt því orði, þegar Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, gengur fram á völlinn og segir það helsta takmark framsóknarmanna í komandi kosningum, að hann sjálfur, Halldór, verði forsætisráðherra. Það hljóti að verða sett á oddinn umfram annað af hálfu flokks síns.

Á sama tíma og Alfreð Þorsteinsson, hinn málefnalegi forystumaður framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur, segir engu skipta fyrir R-listann, hvort Ingibjörg Sólrún fari eða veri, segir Halldór, flokksformaður framsóknar, að auðvitað breyti það R-listasamstarfinu, hvort hún verði eða fari. Hann hafi gengið að því sem vísu eins og kjósendur í Reykjavík vor, að hún yrði borgarstjóri næstu fjögur ár og það stangist á við þingmennsku hennar.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, er sama sinnis og Halldór Ásgrímsson, hann hefur talið Ingibjörgu Sólrúnu ætla að vera en ekki fara.

Hinn ópólitíski stjórnmálamaður Dagur B. Eggertsson, borgarflulltrúi R-listans, er sömu skoðunar og þeir Halldór og Steingrímur J., að Ingibjörg Sólrún hafi lofað að vera.

Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umræður. Oftar en einu sinni tók ég þátt kosningumræðum með Ingibjörgu Sólrúnu á liðnu vori, þar sem hún virtist líta á það sem móðgun, ef látið var að því liggja, að hún væri að tjalda til einnar nætur í borgarstjórn að kosningum loknum, fyrir henni vekti í raun að fara á þing. Hún tók því jafnvel illa, ef hún var kennd við Samfylkinguna, enda er hún utan við kvótaskiptingu flokkanna þriggja, sem standa að kosningabandalagi R-listans.

Barnalegt er að láta eins og það hafi ekki áhrif á R-listasamstarfið, að Ingibjörg Sólrún hættir að vera þar í forystu og megnar að bægja sundurlyndisfjandanum frá því. Fráleitt er að ætla, að Alfreð Þorsteinsson verði þar eitthvert sameiningartákn, enginn er líklega fjær því.

Ótti við ábyrgð

Á nýjum pólitískum vettvangi hefur komið mér meira á óvart en ég ætlaði, hve hugsjónalaust R-listasamstarfið er. Ég hef oft skrifað um það hér á síðunni, að R-listinn sé valdabandalag kringum Ingibjörgu Sólrúnu, stofnað á þeim neikvæðu forsendum að vera á móti Sjálfstæðisflokknum.

Ég hélt hins vegar, að í umræðum í borgarstjórn vottaði fyrir sameiginlegri pólitískri stefnumótun í ræðum R-listamanna. Því fer hins vegar víðs fjarri eins og sannaðist síðast fimmtudaginn var, þegar borgarstjórn kom saman að loknu sumarleyfi.

Við sjálfstæðismenn fluttum tillögu um stórlækkun eða niðurfellingu fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja. R-listinn felldi tillöguna, af því að hún fæli í sér mismunun í þágu eldri borgara og öryrkja. [Verður fróðlegt að sjá, hvernig talsmenn þessara hópa bregðast við þessari niðurstöðu.]

Hvert var helsta áhersluatriði Ingibjargar Sólrúnar í umræðunum? Hvort ég hefði lagt til við lækkun eignarskatta á Alþingi, að lækkunin miðaðist við eldri borgara! Að tillögu ríkisstjórnarinnar hefur eignarskatturinn verið lækkaður um helming miðað við eign í árslok 2002. Þetta er róttæk breyting, sem stefnir að því að fella skattinn niður. Ingibjörg Sólrún vildi ekki ræða það heldur hitt, hvort ég hefði flutt tillögu um að lækka eignarskattinn á eldri borgara - þar mátti eða átti að mismuna í þágu eldri borgara - en borgarstjóri vill ekki lækka fasteignaskatta í þágu eldri borgara í Reykjavík.

Stjórnmálamaður, sem talar á sama veg og borgarstjóri gerði þarna, nálgast ekki viðfangsefnið á grundvelli hugsjónar heldur til þess að gera andstæðing tortryggilegan með gegnsæjum mælskubrögðum, eins og í ræðukeppni.

Ég vakti máls á því í umræðum um annað mál, að í borgarstjórn Reykjavíkur ættu menn að huga að atvinnuástandi í borginni og þeirri staðreynd, að í Reykjavík hefðu fasteignaskattar á fyrirtæki hækkað um rúm 14% milli ára. Þetta væri í andstöðu við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, að lækka skatta á fyrirtæki til að styrkja atvinnufyrirtæki í sessi. Þá sagði Ingibjörg Sólrún, að þetta væri ekki við hæfi, því að það ætti á líta á höfuðborgarsvæðið í heild - hún vildi mynda grátt svæði, þar sem ekki væri unnt að kalla hana til ábyrgðar.

Fyrir kosningar ritaði Ingibjörg Sólrún undir viljayfirlýsingu með Jóni Kristjánssyni, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, um að fyrir áramót yrði boðið út nýtt hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Sogamýri, sem reist yrði 70% á kostnað rikisins og 30% á kostnað Reykjavíkurborgar.

Í umræðum í borgarstjórn sl. fimmtudag vakti ég athygli á því, að nú hefði aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra sagt, að ríkið ætti lögum samkvæmt að greiða 85% við stofnkostnað slíkra heimila. Spurði ég, hvort Ingibjörg Sólrún hefði ekki kynnt sér lögin, áður en hún samdi um 70% - einnig vildi ég vita, hvernig undirbúningi að útboðinu fyrir áramót miðaði. Svarið var á þann veg, að þetta byggðist á ríkinu - var engu líkara en Ingibjörg Sólrún hefði ekki ritað undir viljayfirlýsinguna, sem skuldbindur hana ekki síður en ráðherrann.

Yfirlæti.

Eftir ólætin á menningarnótt bókuðum við sjálfstæðismenn í borgarráði, að þau hefðu verið dapurleg og það hefði átt að standa betur að skipulagi fyrirfram með samningi við lögregluna. Við þessa bókun okkar varð mikið uppnám í liði R-listans í borgarráði og fulltrúar hans bókuðu „að í heild hafi menningarnótt í Reykjavík tekist afskaplega vel og verið skipuleggjendum, borgarbúum og gestum til mikils sóma.“

Eysteinn Björnsson fjallar um þessa bókun R-listans í Rabbi í Lesbók Morgunblaðsins í dag 7. september. Telur hann R-listann vera í „bullandi afneitun á það sem miður fer í stjórnsýslunni og breiða yfir mistök.“ Hann segir, að borgarstjórn hefði „átt að vera búinn að taka á þessum ósóma [ölæði, misþyrmingum á fólki í stórum stíl, skemmdarverkum og sóðaskap] fyrir löngu í staðinn fyrir að standa í sandkassaleik við ríkisvaldið um hver er ábyrgur, hver eigi að standa straum af kostnaði við löggæslu og svo framvegis.“

Eysteinn lýkur Rabbinu á þessum orðum: „Já, því miður er það komið á daginn að blessað R-listafólkið, svo gott sem það er [ætla má, að Eysteinn styðji R-listann, hann nefnir hvergi í Rabbinu gagnrýni okkar sjálfstæðismanna vegna óláta á menningarnótt heldur talar um „yfirlýsingu borgarstjónar“ eins og við hefðum staðið að henni], er farið að fitla við sterkasta fíkniefnið á markaðnum, valdhrokann. Ég ætla bara að vona að það geri eitthvað í sínum málum áður en það er orðið um seinan.“

Yfirlæti R-listans er víða til sýnis. Fyrirsögn í Morgunblaðinu 5. september var á þennan veg: Ráðamenn þjóðarinnar skortir skilning á gildi borgarinnar (!) ? Hver skyldi hafa sagt þetta? Sjálfur borgarstjórinn, þegar hún „opnaði“ fyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins og Borgarfræðaseturs um efnið: Hvað er borg?

Af frásögn blaðsins má ráða, að ekki aðeins ráðmenn þjóðarinnar (líklega Davíð Oddsson, sem var borgarstjóri frá 1982 til 1991) heldur borgarbúar almennt skilji ekki Reykjavík - hvers vegna? „Fáir Reykvíkingar, sem hefðu alist upp í borginni virtust hafa rótgróna átthagatilfinningu á sama hátt og landsbyggðarfólk hefði gagnvart sínum heimahögum, né fyndu þeir til stolts yfir borginni sinni líkt og íbúar gamalla stórborga erlendis hefðu gjarnan.“ Á hverju er þetta byggt? Búa sagnfræðilegar eða borgarfræðilegar rannsóknir að baki þessum dómi Ingibjargar Sólrúnar um afstöðu Reykvíkinga til heimahaga sinna?