Hverfaráðaferð - kosið í Svíþjóð - orkuveitufréttir
Að fara inn á nýjan starfsvettvang kallar á nýja þekkingu og þessa viku hef ég verið að afla mér hennar á ferðalagi stjórnkerfisnefndar Reykjavíkurborgar til Ósló, Bergen, Kaupmannahafnar og Stokkhólms til að kynnast því, hvernig staðið hefur verið að því að hverfavæða þessar borgir.
Á síðasta kjörtimabili var ákveðið í borgarstjórn Reykjavíkur að stofna hverfaráð og skipta borginni í átta hverfi. Var kosið í þessi ráð á borgarstjórnarfundi 20. júní, þrír borgarfulltrúar í hvert ráð, tveir frá R-listanum og einn frá okkur sjálfstæðismönnum. Í borgunum fjórum, sem við heimsóttum á ferð okkar, er misjafnlega að þessu staðið.
Í einni borganna, Kaupmannahöfn, var eftir nokkurra ára tilraun í fjórum hverfum, samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu með meira en 60% atkvæða að hætta við hverfavæðinguna. Ástæðurnar fyrir því, að borgir hafa farið út á þessa braut eru misjafnar.
Í Ósló var það gert vegna þess að fjáramálastjórn borgarinnar var veikburða og fjárhagurinn eftir því. Í Bergen hafði í 12 ár safnast mikil óánægja meðal þeirra, sem sátu í valdalausum hverfaráðum og í stað þess að leggja þau niður var ákveðið að færa þeim völd og fjármuni, en nú glímir Bergen við mikinn fjárhagsvanda og óvissa ríkir um framtíð hverfaráðanna.
Í Kaupmannahöfn vildu menn efla lýðræði með hverfaráðum en síðan var það fellt í almennri kosningu að hafa slík ráð. Í Svíþjóð var sveitarfélögum fækkað mikið fyrir nokkrum áratugum og síðan myndaðist óánægja yfir því, að þau væru of stór og var þá ákveðið að skipta þeim stærstu upp í hverfi með ráðum, sem hafa lítil völd og eru umdeild meðal stjórnmálaflokkanna.
Þegar fjallað er um sveitarstjórnir er nauðsynlegt að hafa í huga, að þær hafa misjafnlega mikil verkefni á sínum herðum. Við allan samanburð verður að líta til þessa, til dæmis þegar rætt er um fjármálaleg umsvif. Sýnist mér sveitarstjórnir í þessum borgum allar hafa fleiri verkefni á sinni könnu en Reykjavíkurborg og þar með einnig meiri fjármuni.
Ljóst er, að breytingar af því tagi, að fela hverfaráðum einhver raunveruleg verkefni og völd verða að byggjast á lagaákvæðum. Hverfaskipting í Reykjavík er ekki á þeim grunni. Hins vegar er í grunnskólalögum heimilað að skipta Reykjavík í skólahverfi og höfum við sjálfstæðismenn lagt til að þau ákvæði verði nýtt til að færa vald út til hverfa og þar með borgaranna.
Stjórnkerfi Reykjavíkur byggist á nefndum, sem fjalla um einstök málefnasvið, fagnefndum, borgarráði og síðan borgarstjórn. Hverfaráðakerfið byggist á því að ráðunum eru falin þverfagleg verkefni og fjármunir til að sinna þeim. Að búa við þessi kerfi bæði samtímis er erfitt, svo að ekki sé meira sagt, ef ekki óviðráðanlegt.
Í umræðum er nauðsynlegt að draga skil á milli þess að færa þjónustu nær borgarbúum, eins og hefur til dæmis verið gert í Miðgarði í Grafarvogi, og þess að skipta pólitískri stjórn borgar í hverfaráð. Þá er einnig nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að hvergi er skynsamlega staðið að breytingum á stjórnskipulagi borga, nema unnt sé að gera það í sæmilegri pólitískri sátt. Eftir þessa fróðlegu kynnisferð stjórnkerfisnefndarinnar býr hún að haldgóðum upplýsingum um þessi mál, sem eiga eftir að nýtast í framhldsumræðum um þau.
Kosið í Svíþjóð
Ég sit í Stokkhólmi á laugardagskvöldi, þegar ég skrifa þennan pistil og verið er að sýna Djöflaeyjuna á rás 2 sænska sjónvarpsins.
Hér fara fram kosningar til þings, léna og sveitarstjórna 15. september. Sjást þess nokkur merki á götum borgarinnar, að flokkarnir og frambjóðendur þeirra eru að kynna sig. Á Sergels-torginu í hjarta borgarinnar hefur verið komið fyrir litlum timburhúsum, þar sem fulltrúar flokkanna eru og síðan efna þeir þar einnig til funda.
Líklegt er talið, að Göran Persson haldi í forsætisráðherrastólinn og Svíar gangi þannig gegn þróuninni innan Evrópusambandsins, þar sem sósíalistar hafa verið að tapa kosningum. Einnig er talið sennilegt, að borgaraflokkarnir haldi meirihluta sínum í borgarstjórn Stokkhólms. Í báðum tilvikum er hins vegar svo mjótt á munum, að ekki er unnt að slá neinu föstu um úrlistin með vísan til skoðanakannana.
Við spurðum að því, hvað helst skildi á milli flokka í kosningunum og virðast það ekki vera mjög skarpar línur, sem eru dregnar, fyrir utan þau almennu sjónarmið, að sósíal-demókratar vilja halda í skatta og helst hækka þá, en borgaraflokkarnir vilja draga úr skattheimtunni og skapa einkaaðilum meira svigrúm. Í Stokkhólmi greinir flokkana einkum á um úrræði í húsnæðismálum en mikill skortur er þar á húsnæði.
Merkilegt er að kynnast því, hve mikill einkarekstur er innan sænska leikskóla- og grunnskólakerfisins og hve mikil áhersla hefur verið lögð á val foreldra, sem geta valið börnum sínum skóla og fjármunir fylgja síðan sjálfkrafa. Þá er ekki gerður munur á einkaskólum og borgarreknum skólum við ráðstöfun á opinberu fé.
Orkuveitufréttir
Það þótti fréttnæmt eftir síðasta stjórnarfund í Orkuveitu Reykjavíkur (OR), að þar var lögð fram skýrsla, sem sýndi, að ekki er hagkvæmt eins og málum er háttað huga að járnbrautalest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Kom þessi niðurstaða ekki á óvart, en skýrslan nýtist fyrir þá, sem huga að samgöngumálum, þegar fram líða stundir, því að það þarf að minnsta kosti ekki að rannsaka málið frekar á næstunni.
Á stjórnarfundinum var einnig greint frá kostnaði við nýjar höfuðstöðvar OR, sem fer fram úr áætlun, eru ekki öll kurl enn komin til grafar í því máli. Þegar ég kynnist starfi OR, vekur fleira spurningar vegna nýju höfuðstöðvanna en kostnaðurinn við þær, því að unnið er markvisst að því að kostnaðargreina alla þætti í starfi fyrirtækisins og gefa stjórnendum færi á að eiga viðskipti við aðila utan þess, ef það er talið hagkvæmara. Leiðir það væntanlega til minni þarfar fyrir höfuðstöðvar.
Ég hef áður vakið athygli á því, hve sérkennilegt er að eiga opinber orðaskipti við Alfreð Þorsteinsson, formann stjórnar OR. Hann forðast alltaf að ræða það, sem um er spurt og leitast við að skjóta sér undan því með því að fara tala um eitthvert allt annað.
Stöð 2 ræddi við Alfreð í bítið mánudaginn 26. ágúst og spurði hann meðal annars um líkamsræktarstöðina í nýju höfuðstöðvum OR. Þá svaraði hann meðal annars á þennan hátt:
„Þið nefnið lika, það er svolítið gaman að því, þið eruð að nefna þessa likamsrækt. Ég man ekki til þess að hvorugt ykkar hafi nokkurn tíma spurt t.d. Björn Bjarnason að hinni ríkisreknu líkamsrækt sem er í kjallara menntamálaráðuneytisins og hefur verið rekið þar í mörg ár.“
Jóhanna: „En þú ætlar að fara að hans fordæmi og vera með þessa líkamsrækt þarna í húsi Orkuveitunnar?“
Alfreð Þorsteinsson: „Ekki að fordæmi Björns, veitufyrirtækin í Reykjavík hafa verið með líkamsrækt á sínum vegum í áratugi.“
Þessi orðaskipti eru með ólíkindum, þegar litið er á þau herbergi í kjallara Sölvhólsgötunnar, þar sem menntamálaráðuneytið er til húsa, þar sem unnt er að fara í gufubað, sturtu og skipta um föt, eftir því sem ég veit best. Er aðstaðan einkum notuð af starfsfólki ráðuneyta, sem skokkar í hádeginu.
Skilst mér, að síðan hafi Stöð 2 farið á vettvang og skoðað aðstöðuna við Sölvhólsgötuna og væntaleg séð, að mikill munur er á þessum herbergjum og 500 fermetra aðstöðu í nýja OR-húsinu.
Sama dag og þetta viðtal var við Alfreð var á Stöð 2, var verið að reyna að ná í mig frá rás 2 til að fara í samtalsþátt með Alfreði, en síðan féll það um sjálft sig, af því að hann neitaði að koma í þáttinn, ef einhver fulltrúi sjálfstæðismanna yrði þar til að lýsa sjónarmiðum sínum.