24.8.2002

Sumarfréttir um Þingvelli

Á sumrin fjalla fjölmiðlamenn eðlilega gjarnan um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þessu hef ég kynnst oftar en einu sinni þau tíu ár, sem ég hef gegnt formennsku í Þingvallanefnd. Alltaf má þar finna eitthvert fréttaefni eða bara rifja upp mál, sem áður hafa verið á döfinni og snerta málefni þjóðgarðsins, helgistaðar allra Íslendinga. Auðvelt er að snerta tilfinningar Íslendinga með því að ræða um málefni Þingvalla, því að þau eru okkur öllum kær. Öll finnum við til samkenndar og þjóðernistilfinningar, þegar minnst er á Þingvelli og allt frá því að ákveðið var með lögum, að staðurinn yrði þjóðgarður í tilefni af alþingishátíðinni 1930 hefur verið ritað og rætt um einstakar framkvæmdir þar eða ákvarðanir Þingvallanefndar.

Í ræðu, sem ég flutti á Þingvöllum 26. júlí síðastliðinn fór ég yfir þau verkefni, sem hafa sett mestan svip sinn á störf Þingvallanefndar undanfarið, en þennan dag rættist langþráður draumur um fræðslumiðstöð og aðstöðu til að taka á móti gestum á Hakinu við Almannagjá.

Síðastliðið vor náðist annað langþráð markmið, þegar ríkið eignaðist landið og húsakostinn á Valhallarlóðinni, sem fram til þess tíma hafði verið í einkaeign innan þjóðgarðsins. Hefur forsætisráðuneytið forystu um ákvarðanir varðandi nýtinu húsakostsins í samráði og samvinnu við Þingvallanefnd.

Þá hefur aðstaða fyrir starfsmenn þjóðgarðsins verið bætt með nýju starfsmannahúsi við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum, en áður voru starfsmennirnir í sumardvöl að Gjábakka, en bæjarhúsið þar brann á liðnum vetri.

Loks hófust í sumar fyrstu vísindalegu fornleifarannsóknirnar á Þingvöllum undir forystu Fornleifastofnunar Íslands og benda niðurstöður þeirra til þess, að ástæða sé til að ráðast í frekari uppgröft á svæðinu, einkum í Biskupshólum vestan við Þingvallakirkju.

Allt er þetta til þess fallið að styrkja fræðslu- og rannsóknastarfsemi frekar í sessi á Þingvöllum og auka þar með enn gildi staðarins fyrir íslensku þjóðina og gesti hennar.

Síðustu daga og vikur hafa fréttir þó ekki verið um þetta heldur hitt, hvar prestur eigi að hafa aðsetur á Þingvöllum, eftir að ríkisstjórnin ákvað að nýta sjálf að verulegum hluta húseign sína, Þingvallabæinn. Við þá ráðstöfun var presti sköpuð aðstaða í nyrstu álmu Þingvallabæjar í sambýli við þjóðgarðsvörð, sem er starfsmaður Þingvallanefndar.

Þingvallanefnd hefur ekki lengur neitt um ráðningu prests á Þingvöllum að segja eins og ákveðið var í góðri sátt allra aðila með lagabreytingu. Hins vegar er staðið undir öllum kostnaði við viðhald og umhirðu kirkjunnar af fjármunum Þingvallanefndar og undir umsjá þjóðgarðsvarðar. Kirkjan hefur ekki ráðið neinn prest að Þingvöllum, en sr. Ingólfur Guðmundsson hefur verið prestur þar í sumar.

Farið var fram á það á sínum tíma, að kirkjan fengi að reisa hús í þinghelginni í túni Þingvallabæjar, en Þingvallanefnd hafnaði þeirri ósk. Telur nefndin, að reisa eigi prestsbústað utan þjóðgarðsins, sé þörf á honum. Í sumar var nefndinni kynnt ósk um að Þingvallaprestur fengi að tjalda í túni Þingvallabæjar en með vísan til reglna um tjaldstæði var þeim tilmælum hafnað en á hinn bóginn bauðst Þingvallanefnd til að auðvelda presti að gista í hótel Valhöll. Náðist samkomulag um það.

Mér er ekki ljóst, hvort vilji kirkjulegra yfirvalda stendur til þess að hafa sérstakan prest fyrir hinn fámenna söfnuð, sem er í Þingvallasókn.

Þingvallanefnd er að sjálfsögðu kappsmál, að eiga gott samstarf við stjórn kirkjunnar og þá presta, sem starfa á Þingvöllum. Sú skipan, sem nú er á stjórn þjóðgarðsins, hefur gefið góða raun og ekki ástæða til að stíga nein skref til baka í því efni.

Síðastliðinn þriðjudag fékk ég þennan tölvupóst frá blaðamanni á Fréttablaðinu:

„Vinsamlegast hafðu samband við mig varðandi Þingvallanefnd og húsnæðismál Þingvallaprests. Við erum t.d. að velta fyrir okkur hvort Þingvallanefnd telur hugsanlegt að fallast á nýbyggingu á staðnum fyrir prestinn, þe. prestsbústað. Meðfram þessu væri fróðlegt að heyra um þær hugmyndir sem kunna að vera uppi innan nefndarinnar varðandi nýtingu Hótel Valhallar.

Kveðja
Garðar Örn Úlfarsson“

Ég hafði samband við blaðamanninn en þegar hann daginn eftir las það, sem hann hafði eftir mér og ég skynjaði í hvaða samhengi hann var að setja þetta mál, sagði ég við hann, að ég vildi ekki láta hann hafa neitt eftir mér. Hefur Garðar Örn síðan sagt þrisvar í Fréttablaðinu, að ég neiti að tala um húsbyggingar í þjóðgarðinum við blaðið, en hann hefur ritað um þetta mál í blað sitt fréttir fimmtudag og föstudag og nú síðast svonefnda fréttaskýringu í blaðið í dag, þar sem er að finna tengingar og ályktanir, án þess að tilgreindar séu heimildir, eins og til dæmis fyrir því, að forsætisráðherra hafi fengið lánaðan sumarbústað tengdaföður míns vegna þess að Þingvallabær hafi verið í viðgerð. Þetta er frétt fyrir mig og hefði ég gjarnan viljað sjá hana staðfesta af heimildarmanni.

Garðar Örn er með hugann við þrjár ákvarðanir Þingvallanefndar. Í fyrsta lagi að hafna lóð undir prestsbústað í þinghelginni. Í öðru lagi að kaupa sumarbústað við Vallhallarstíg nyrðri og selja hann burt úr þjóðgarðinum. Í þriðja lagi að heimila endurgerð bústaðar við Valhallarstíg nyrðri. Ég sagði við blaðamanninn og birtist það í blaði hans, að þessar ákvarðanir ætti ekki að skoða í samhengi. Hver um sig er byggð á sjálfstæðum rökum.

Vissulega er álitamál, hvort heimila eigi endurgerð eða smíði nýrra bústaða á rústum gamalla í þjóðgarðinum. Hitt er síðan einnig spurning, hvort réttlætanlegt sé að verja fé skattgreiðenda til að kaupa bústaði innan þjóðgarðsins. Þingvallanefnd metur þetta hverju sinni, en víst er, að verð á bústöðum þarna hækkar ár frá ári.

Þingvallanefnd hefur verið kappsmál, að ný lög verði sett um þjóðgarðinn, því að margt hefur breyst frá því að núgildandi lög voru sett 1928. Við meðferð þess frumvarps kynni alþingi að vilja móta stefnu varðandi stöðu þeirra bústaða, sem nú eru í þjóðgarðinum, til dæmis í ljósi nýrra sjónarmiða um nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar.

Bústaðir innan þjóðgarðsins eru með ýmsu sniði. Það er ekki markmið í sjálfu sér, að þeir séu allir í gömlum stíl, heldur hlýtur að mega leyfa nútímalegum arkitektúr að njóta sín í þjóðgarðinum, enda sé farið að reglum.

Þá rifjar Garðar Örn upp forsíðufrétt Fréttablaðsins frá því á síðasta ári, ef ég man rétt, um að Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sé að reisa sumarhús á lóð í Kárastaðanesi, utan þjóðgarðsins en á svonefndu áhrifasvæði hans. Endurtekur hann rangar fullyrðingar um, að hreppsnefnd Þingvallahrepps hafi verið beitt þrýstingi af Þingvallanefnd vegna þess máls.

Nauðsynlegt er að ræða fyrir opnum tjöldum allt, sem ákveðið er að gera í þjóðgarðinum á Þingvöllum og sem betur fer er áhugi fjölmiðlamanna á því. Á hinn bóginn tek ég ekki þátt í því, hvort sem rætt er um málefni prests á Þingvöllum, endurgerð gamalla húsa eða Valhöll, að fjalla um mál á þeim forsendum að gera hlut okkar Þingvallanefndarmanna eða því síður þeirra, sem mér eru tengdir, á einhvern hátt ómálefnalegan eða grunsamlegan.