Herskip frá Kóla - löggæsla og menningarnóttin - Norðlingaalda.
Fróðlegt er að sjá viðbrögðin, þegar Sp á vefsíðunni murinn.is tekur upp þráðinn með sama hætti og var fyrir 15 til 20 árum, eftir að ég minntist á flota Rússa á Kólaskaga í vettvangsgrein í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag. Þar kveður við sama tón nú og gerði hjá málsvörum Sovétmanna á sínum tíma, að þeir, sem fjalla um vígbúnaðinn á höfunum umhverfis Ísland eru taldir verri menn fyrir bragðið og orð þeirra höfð í flimtingum.
Þessi barnalegu viðhorf til öryggis- og varnarmála eru einstök fyrir íslenska vinstrimenn og gamla kommúnista og stuðla að því, að umræður um öryggi og varnir Íslands snúast um aukaatriði eða byggjast á útúrsnúningum. Ef ekki má lýsa þeirri breytingu, sem orðið hefur á Kólaskaganum síðastliðin ár í tilefni af því, að hingað kemur rússneskt herskip í þriðja sinn í sögunni, án þess að gamlir herstöðvaandstæðingar taki gamla sovéska kippinn, sýnir það aðeins, að minni breyting hefur orðið á hugrenningum þessara ágætu manna á þeim rúma áratug, sem liðinn er frá hruni Sovétríkjanna, en mig grunaði.
Löggæsla og menningarnóttin
Meira fjölmenni sótti menningarnótt í Reykjavík að kvöldi 17. ágúst en nokkru sinni fyrr. Eftir að listviðburðum og flugeldasýningu lauk, var margmenni áfram í miðborginni og kom til meiri óláta en lögregla hefur kynnst og hreinsunarmenn sögðust ekki hafa séð annan eins óþrifnað á götum borgarinnar.
Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 18. ágúst var rætt um málið við Árna Þór Sigurðsson, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur. Af orðum hans mátti ráða, að skortur á lögregluþjónum hefði valdið því, að upp úr sauð um nóttina með drykkjuskap og ofbeldisverkum. Hann bætti því við, að löggæslan væri á forræði ríkisins og óskað hefði verið eftir að staðbundin löggæsla, eins og það var orðað í fréttinni, yrði færð til borgarinnar, en undirtektir hefðu ekki verið nógu góðar, síðan sagði forseti borgarstjórnar orðrétt:
„Ég held að það sé alveg ljóst og það sér hver maður held ég að löggæslan þarf auðvitað að vera öflugri þegar að svona viðburðir eiga sér stað.“
Fyrir tveimur árum varð mikið umferðaröngþveiti, þegar dagskrá menningarnætur lauk, síðan hefur lögreglu tekist að greiða úr þeim vanda, án þess að spilla hátíðinni. Ólæti og ofbeldi eru allt annars eðlis og staðreynd er, að við venjulegar aðstæður hefur kerfi lögreglunnar, ekki síst eftirlitsmyndavélar, spornað gegn ofbeldisverkum í miðborginni.
Þegar stofnað er til menningarhátíðar og fjölmenni myndast vegna hennar, tekur lögreglan á málum í samræmi við það og gerði það á menningarnótt. Er nær að beina athygli að upphafsmönnum óláta og ofbeldisverka í skjóli slíkrar hátíðar en gagnrýna lögregluna, Ef sjónarmið hennar um nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir ólæti og ofbeldi ættu að ráða skipulagi menningarnætur, væri vafalaust nauðsynlegt að endurskoða skipulagið frá grunni.
Fráleitt er að láta að því liggja, að annar bragur hefði verið á þeim, sem settu blett á menningarnóttina, ef borgin færi með stjórn lögreglumála. Hvers vegna var ruslið í borginni meira en nokkru sinni? Er ekki hreinsun þess á verksviði borgaryfirvalda?
Eins og borgin hefur sett sér ákveðin markmið varðandi þrif að lokinni menningarnótt á hún í samvinnu við lögreglu að setja ákveðin markmið varðandi löggæslu á menningarnótt og endranær. Þessi markmið á að skilgreina í þjónustusamningi milli yfirvalda borgar og lögreglu og kynna þau almenningi. Það er ekki stórmannlegt, þegar forseti borgarstjórnar varpar að hátíð lokinni ábyrgðinni á því, sem miður fór, á herðar lögreglunni. Ábyrðgin er að sjálfsögðu hjá þeim, sem spilltu gleði annarra og ímynd þessa góða og vinsæla framtaks.
Norðlingaalda
Í Morgunblaðinu 18. ágúst er fróðlegt yfirlit yfir deilurnar vegna Þjórsárvera og sáttargjörðina frá 3. desember 1981, þar sem segir, að Náttúruverndarráð muni fyrir sitt leyti veita Landsvirkjun undanþágu frá friðlýsingu Þjórsárvera til að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 metra yfir sjávarmáli.
Er þetta rifjað upp í blaðinu vegna þess að Skipulagsstofnun hefur úrskurðað, að vatnshæð lóns við Norðlingaöldu megi verða allt að 578 metra yfir sjávarmáli, sem er þremur metrum meira en Landsvirkjun taldi duga sér, Þrátt fyrir það segja þeir, sem telja sig talsmenn Þjórsárvera, að of langt sé gengið í úrskurði Skipulagsstofnunar og í þeim hópi er Náttúruvernd ríkisins, arftaki Náttúruverndarráðs.
Liður í sáttargjörðinni var, að Náttúruverndarráð féll frá andstöðu við virkjun á Eyjabakkasvæðinu og taldi sig tryggja Þjórsárver með því að lón við Norðlingaöldu færi ekki 581 metra yfir sjávarmál. Nú hefur verið ákveðið að virkja ekki á Eyjabakkasvæðinu.
Í aðdraganda ákvarðana um Norðlingaöldustíflu kom í ljós, að mörkin við 581 metra voru talin of hættuleg fyrir Þjórsárver. Gísli Már Gíslason, formaður Þjórsárvernanefndar, gerði tillögu um 575 metra, þegar Landsvirkjun féllst á hana, féll Gísli Már frá tillögu sinni. Fyrir þá, sem utan standa, er erfitt að átta sig á því, hvers vegna ákvarðanir á sviði náttúrverndar þurfa að verða jafnmikið hitamál og raun ber vitni, ekki síst þegar svæði hafa verið rannsökuð eins vel og Þjórsárver og aðeins nokkrir metrar skilja á milli manna, sem þó hafa tvisvar sinnum náð samkomulagi um tölur, fyrst 581 metra yfir sjávarmáli og síðan 575. Þá kemur hlutlaus aðili, Skipulagsstofnun með þriðju töluna 578 - eins konar Salomónsdóm.