Öflugur Heimdallur - sendiherrastörf.
Rúmlega 700 manns sóttu fjölmennasta aðalafund Heimdallar í 75 ára sögu félagsins, sem haldinn var föstudaginn 9. ágúst, en þar sigraði Magnús Þór Gylfason örugglega í formannskjöri gegn Þórlindi Kjartanssyni, fékk Magnús Þór meira en 100 atkvæði yfir Þórlind. Eftir að úrslit lágu fyrir, drógu frambjóðendur Þórlinds til stjórnar sig í hlé og var hún sjálfkjörin.
Kosningabaráttan var stutt en höfðaði greinilega til margra og enn sannaðist, að ekkert stjórnmálafélag ungs fólks er öflugra í landinu en Heimdallur og félagið gengur hvað eftir annað í endurnýjun lífdaga sinna með nýrri forystu og markvissum stefnumálum.
Magnús Þór er nýráðinn starfsmaður okkar, sem myndum borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna, og á það eftir að styrkja allan borgarstjórnarflokkinn í starfi, að Magnús Þór hefur fengið svo skýrt umboð til að leiða Heimdall. Hin mikla þátttaka í kosningunum í Heimdalli minnir enn á muninn, sem er á milli Sjálfstæðisflokksins annars vegar og R-listans hins vegar, það er að sjálfstæðismenn geta sótt í skipulagt bakland umbjóðenda sinna, leitað hugmynda þeirra og átt við þá samstarf, en að R-listanum standa ólíkar pólitískar fylkingar, sem sameinast um það eitt að halda völdum, hvað sem öllu pólitísku baklandi eða tengslum við umbjóðendur líður.
Nú má sjá vaxandi kröfur um það meðal samfylkingarfólks í Reykjavík, að það sættir sig illa við forystuleysið í höfuðborginni, þegar litið er til alþingiskosninga næsta vor. Menn sjá sem er, að Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir eða Bryndís Hlöðversdóttir vega ekki í þungt í komandi átökum.
Margrét S. Björnsdóttir, áhrifamaður í Samfylkingunni, ritaði grein í Morgunblaðið 20. júlí síðastliðinn þar sem segir meðal annars:
„Formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur fyrir löngu lýst þeirri skoðun opinberlega að hún [Ingibjörg Sólrún Gísladóttir] eigi að leiða lista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Margir, þar á meðal höfundur þessarar greinar, eru honum sammála og binda miklar vonir við hlut Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í landsmálum. Öflugir og trúverðugir leiðtogar eru ekki á hverju strái....“
Það er síður en svo óþekkt, að borgarfulltrúar séu alþingismenn eða öfugt. Ég sit til dæmis áfram sem alþingismaður, þótt ég hafi verið kjörinn í borgarstjórn, og ætla að bjóða mig fram til þings næsta vor fyrir Sjálfstæðisflokkinn, verði ég valinn á lista flokksins.
Sendiherrastörf.
Furðulegt hefur verið að fylgjast með öllu talinu um það undanfarnar vikur og mánuði, að ákvörðun mín um að hverfa úr embætti menntamálaráðherra væri liður í einhverri leikfléttu, sem miðaði að því, að ég tæki við embætti sendiherra. Slíkt hefur aldrei verið orðað við mig og ég hef ekki heldur minnst á þann kost við nokkurn mann, enda ekki verið í mínum huga.
Nú þegar fréttir berast um, hvernig skipa eigi embættum sendiherra og flytja þá á milli staða, ættu þeir, sem hafa verið að velta mínu nafni fyrir sér í þessu samhengi að geta snúið sér að einhverju öðru.
Sendiherrastarfið er vafalaust áhugavert og er fróðlegt að fylgjast með því, hve mjög árangur í því byggist á þeim, sem starfinu sinnir, þrátt fyrir að hver og einn starfi í samræmi við sömu alþjóðareglur og hafi sömu grunnskyldum að gegna. Það er því greinilega einkum undir framtaki og áhuga viðkomandi sendiherra komið, hve mikil og almenn tengsl hann hefur innan þess lands, sem hann starfar, og hvernig hann kemur ár sinni fyrir borð gagnvart stjórnvöldum viðkomandi lands eða stjórnendum og samstarfsmönnum innan alþjóðastofnana, þar sem hann gætir hagsmuna fyrir Íslands hönd.
Sem blaðamaður og stjórnmálamaður hef ég haft tækifæri til að kynnast störfum sendiherra erlendra ríkja hér á landi og Íslands erlendis og oft velt því fyrir mér, hve mikill munur er á framtakssemi einstaklinga í starfinu. Oft hefur mér þótt einkennilegt, að við töku ákvarðana um dvalarstað sendiherra, virðast oft önnur lögmál gilda en þau, sem leikmanni sýnast sjálfsögð.